Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn Bjarni Benediktsson mynd: Sjálfstæðisflokkurinn
Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn

Lýðræðisveislan var ekki ókeypis

Kostnaður frambjóðenda sem tóku þátt í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins fyrr á árinu var á sjöunda tug milljóna. Mestu fé var varið í prófkjörin á höfuðborgarsvæðinu, en yfir 20 þúsund manns tóku þátt í því að stilla upp D-listum á landsvísu.

Sam­an­lagður kostn­aður þeirra fram­bjóð­enda sem spreyttu sig í próf­kjörum Sjálf­stæð­is­flokks­ins um landið allt fyrir alþing­is­kosn­ing­arnar nam alls að minnsta kosti 58 millj­ónum króna, sam­kvæmt því sem lesa má út úr upp­gjörum fram­bjóð­enda á vef Rík­is­end­ur­skoð­unar og svörum fram­bjóð­enda til Kjarn­ans.

Þá er ein­ungis horft til þeirra fram­bjóð­enda sem vörðu yfir 500 þús­und krónum í sína fram­boðs­bar­áttu, en gera má ráð fyrir að þeir fram­bjóð­endur sem skil­uðu inn yfir­lýs­ingu um að þeir hafi varið minna en 500 þús­und krónum til fram­boðs­ins hafi varið ein­hverjum tugum eða hund­ruðum þús­unda í að koma sér á fram­færi.

Lík­lega var því heild­ar­kostn­aður fram­bjóð­enda vegna próf­kjörs­bar­áttu flokks­ins á lands­vísu eitt­hvað inn á sjö­unda tug millj­óna – en nær allt féð sem fram­bjóð­endur höfðu úr að moða fékkst með fram­lögum ein­stak­linga og fyr­ir­tækja sem standa fram­bjóð­end­unum nærri.

Sjálfstæðisflokkurinn kallaði prófkjör sín fyrr á árinu lýðræðisveislu. Yfir 20 þúsund manns tóku þátt. Mynd: SJálfstæðisflokkurinn.

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hélt próf­kjör í öllum kjör­dæmum og alls tóku 20.771 kjós­endur þátt í að velja fólkið sem síðan skip­aði listana sem boðnir voru fram 25. sept­em­ber.

Það má því nærri láta að fyrir hvert ein­asta atkvæði sem greitt var í próf­kjörum flokks­ins hafi fram­bjóð­endur kostað til um 3.000 krón­um, ef útgjöld fram­bjóð­enda til bar­átt­unnar eru talin sam­an.

Guð­laugur Þór og Áslaug Arna í sér­flokki

Próf­kjör flokks­ins í Reykja­vík­ur­kjör­dæm­unum var að venju helsti vett­vangur bar­átt­unnar og sá þar sem fram­bjóð­endur vörðu mestu til. Þar voru þátt­tak­endur í próf­kjör­inu flestir og bar­átta á milli ólíkra arma innan flokks­ins hvergi sýni­legri. Í ár greiddu 7.493 manns atkvæði í próf­kjör­inu í Reykja­vík, en þátt­tak­endur voru ein­ungis 3.430 tals­ins árið 2016, er síð­ast var haldið próf­kjör í borg­inni.

Áber­andi bar­átta Áslaugar Örnu Sig­ur­björns­dóttur og Guð­laugs Þórs Þórð­ar­sonar er senni­lega á meðal ástæðna fyrir stór­auk­inni þátt­töku frá síð­asta próf­kjöri. Þau ætl­uðu sér bæði fyrsta sætið í próf­kjör­inu og þegar atkvæði höfðu verið talin hafði Guð­laugur Þór unnið góðan sig­ur.

Þeir sem studdu Áslaugu Örnu og reyndu að koma í veg fyrir sigur Guð­laugs hins veg­ar, „þeir töp­uð­u“, eins og utan­rík­is­ráð­herr­ann sagði sjálfur eft­ir­minni­lega, hálf radd­laus, er hann fagn­aði sigri í próf­kjör­inu með stuðn­ings­mönnum sín­um.

Mest púður fór í próf­kjörs­bar­áttu þeirra tveggja, en Guð­laugur Þór setti 11,1 milljón í slag­inn (þar af yfir 4 millj­ónir úr eigin vasa) og Áslaug Arna 8,7 millj­ón­ir. Aðrir fram­bjóð­endur í Reykja­vík­ur­próf­kjör­inu stóðu þeim all­nokkuð að baki.

Áslaug Arna og Guðlaugur Þór leiddu sitt hvorn lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Samsett

Diljá Mist Ein­ars­dóttir og Hildur Sverr­is­dótt­ir, sem höfn­uðu í þriðja og fjórða sæti í próf­kjöri flokks­ins og voru kjörnar örugg­lega inn á þing í kosn­ing­unum þann 25. sept­em­ber, vörðu 4,5 og 3,3 millj­ónum króna í sína slagi.

Fleiri sótt­ust eftir sæt­unum sem þær stöllur hrepptu og vörðu til þess all­nokkru fé, án þess að upp­skera eins og stefnt var að.

Frið­jón R. Frið­jóns­son, sem hafn­aði í 8. sæti í próf­kjör­inu, varði um 4,2 millj­ónum króna í sína bar­áttu og Kjartan Magn­ús­son, sem hafn­aði í sjö­unda sæti í setti 2,3 millj­ónir í slag­inn. Í fimmta og sjötta sæti í próf­kjör­inu höfn­uðu svo þeir Brynjar Níels­son og Birgir Ármanns­son, en hvor­ugur þeirra varði yfir 500 þús­und krónum í próf­kjörs­bar­átt­una. Það gerði Sig­ríður Á. And­er­sen fyrr­ver­andi dóms­mála­ráð­herra heldur ekki, en hún hlaut ekki braut­ar­gengi í próf­kjör­inu – náði ekki inn

Brynjar Níelsson, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Jón Gunnarsson og Sigríður Á. Andersen á fundi í Valhöll fyrir nokkrum árum.

Brynjar, sem upp­haf­lega lýsti því yfir að hann ætl­aði ekki að taka sæti á lista sökum nið­ur­stöðu sinnar í próf­kjör­inu, gerði það þó á endum en féll út af þingi á meðan að Birgir Ármanns­son hélst inni, sem þriðji þing­maður flokks­ins í Reykja­vík suð­ur.

Vil­hjálmur seg­ist hafa varið um fimm millj­ónum í slag við Guð­rúnu

Annar áber­andi kosn­inga­slagur var í próf­kjör­inu í Suð­ur­kjör­dæmi, en þar kom inn nýlið­inn Guð­rún Haf­steins­dóttir og sótt­ist eftir fyrsta sæt­inu á lista, sem Páll Magn­ús­son skip­aði í kosn­ing­unum 2017. Það gerði Vil­hjálmur Árna­son þing­maður einnig.

Vil­hjálmur hefur ekki enn skilað inn yfir­liti til Rík­is­end­ur­skoð­unar um upp­gjör próf­kjörs síns, en hann segir Kjarn­anum að hann telji sig hafa varið um 5 millj­ónum króna í próf­kjör­ið. Guð­rún sjálf setti rúmar 2 millj­ónir króna í próf­kjörs­bar­átt­una og hafði betur á end­anum á meðan Vil­hjálmur var að gera sér annað sætið að góðu.

Haraldur Benediktsson og Vilhjálmur Árnason.
Bára Huld Beck

Sá sem hafn­aði í þriðja sæti í próf­kjör­inu í Suð­ur­kjör­dæmi, Ásmundur Frið­riks­son, varði 3,2 millj­ónum í bar­áttu sinni, en aðrir fram­bjóð­endur í kjör­dæm­inu vörðu ýmist minna eða hafa ekki skilað inn upp­gjöri til Rík­is­end­ur­skoð­un­ar.

Vert er að taka fram að fjórði og nýjasti þing­maður flokks­ins í Suð­ur­kjör­dæmi, Birgir Þór­ar­ins­son­ar, tók ekki þátt í neinu próf­kjöri, enda var honum stillt upp í efsta sæti á lista Mið­flokks­ins í kjör­dæm­inu. Svo færði hann sig yfir í annað þing­flokks­her­bergi ein­ungis tveimur vikum eftir kosn­ing­ar.

Arnar Þór og Jón Gunn­ars­son kost­uðu mestu til í Krag­anum

Í Suð­vest­ur­kjör­dæmi, kjör­dæmi for­manns­ins Bjarna Bene­dikts­son­ar, var bar­átta um 2.-4. sætið á lista flokks­ins, sem mátti gefa sér að yrðu svo gott sem örugg þing­sæti. Arnar Þór Jóns­son hér­aðs­dóm­ari varði mestu til í þess­ari bar­áttu, eða 4,7 millj­ónum króna. Hann náði ekki þeim árangri sem hann ætl­aði sér í próf­kjör­inu og varð að láta sér fimmta sætið á list­anum lynda, sem síðan fleytti honum ekki inn á þing.

Jón Gunn­ars­son varði næst­mestu í sína bar­áttu, 4,5 millj­ónum króna og náði öðru sæti í próf­kjör­inu eins og hann stefndi að. Bryn­dís Har­alds­dóttir hafn­aði í þriðja sæti, en hún varði 1,9 millj­ónum króna í sína bar­áttu – eða nokkru meira en Óli Björn Kára­son sem setti rúmar 1,3 millj­ónir króna í slag­inn.

For­mað­ur­inn Bjarni og aðrir fram­bjóð­endur í kjör­dæm­inu hafa skilað inn yfir­lýs­ingum til Rík­is­end­ur­skoð­unar um að bar­átta þeirra hafi kostað minna en 500 þús­und krón­ur.

Minnstur til­kostn­aður í Norð­vestur og Norð­austur

Þrátt fyrir að bit­ist hafi verið um odd­vita­sætin í bæði Norð­vest­ur- og Norð­aust­ur­kjör­dæmum í próf­kjör­unum sem þar fóru fram snemma í sumar voru fjár­út­lát fram­bjóð­anda þar mun tölu­vert minni en í kjör­dæm­unum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og í Suð­ur­kjör­dæmi.

Teitur Björn Einarsson náði ekki inn á þing. En reyndar er ekki loku fyrir það skotið að kosið verði á ný í Norðvesturkjördæmi.

Teitur Björn Ein­ars­son, sem hafn­aði í þriðja sæti í próf­kjör­inu í NV-­kjör­dæmi varði mestu til, eða rúm­lega 1,7 millj­ónum króna á meðan að Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir, sem hreppti odd­vita­sæt­ið, þrátt fyrir að Har­aldur Bene­dikts­son hafi ekki ætlað sér að láta það af hendi, varði rúmum 1,4 millj­ónum króna í sína bar­áttu. Sjálfur kost­aði Har­aldur til 670 þús­und krón­um, í sinni próf­kjörs­bar­áttu.

Í Norð­aust­ur­kjör­dæmi varði eng­inn fram­bjóð­andi yfir 500 þús­und krónum í sína bar­áttu, sam­kvæmt því sem fram kemur á vef Rík­is­send­ur­skoð­unar en reyndar hefur ekk­ert yfir­lit borist þangað frá Berg­lindi Ósk Guð­munds­dótt­ur, sem hafn­aði í öðru sæti í próf­kjör­inu.

Þeir Njáll Trausti Frið­berts­son og Gauti Jóhann­es­son sem sótt­ust eftir odd­vita­sæt­inu hafa báðir skilað inn yfir­lýs­ingum um að kostn­aður vegna fram­boða þeirra hafi verið undir hálfri millj­ón.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar