Hörð átök hafa undanfarið geisað innan danska Venstre flokksins. Eitt dönsku blaðanna sagði nýverið að forystumenn flokksins gangi með rýtinginn í erminni, tilbúnir að stinga hver annan þegar tækifæri gefst. Allt er þó slétt og fellt á yfirborðinu.
Venstre (sem þrátt fyrir nafnið er hægri miðjuflokkur) er stærsti flokkurinn á danska þinginu, Folketinget, með 47 þingmenn. Í kosningunum 15. september 2011 bætti flokkurinn við sig einum þingmanni en vegna slakrar útkomu samstarfsflokkanna tveggja missti stjórnin þingmeirihlutann og við tók ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt. Lars Lökke Rasmussen formaður Venstre var, þrátt fyrir að vera nú kominn í stjórnarandstöðu, lang vinsælasti stjórnmálamaður Danmerkur. Lykke Lökke kölluðu sumir fjölmiðlar hann. Hann var þó lítt áberandi í stjórnmálaumræðunni og tók lítinn þátt í störfum þingsins, steig til dæmis ekki í pontu í þingsalnum í 692 daga samfellt.
„Allt tekur enda um síðir“ segir máltækið og það á sannarlega við um hveitibrauðsdaga Lökkes í stjórnarandstöðunni og „hver hefur sinn djöful að draga“ passar kannski ekki síður.
Í fyrrahaust, tveimur árum eftir kosningar var Lars Lökke dögum saman helsta umfjöllunarefni danskra fjölmiðla. Ástæðan var formennska hans í samtökum sem styðja við efnahagsuppbyggingu í fátækari löndum heims. Upp komst að samtökin, sem eru meðal annars fjármögnuð af danska ríkinu, höfðu borgað flugmiða og hótelgistingu fyrir dóttur Lars Lökke. Fjölmiðlar rifjuðu upp eldri mál sem tengdust leigubílareikningum, gistingu mat og víni, nefndar voru upphæðir sem jafngilda tæpum 20 milljónum íslenskra króna. Lars Lökke hélt lengsta fréttamannafund í sögu Danmerkur (stóð í þrjár og hálfa klukkustund og sendur út í beinni sjónvarpsútsendingu) til að útskýra málið en fréttamenn og sjónvarpsáhorfendur voru litlu nær.
Lars Lökke Rasmussen á fundi með blaða- og fréttamönnum.
Flokkurinn borgaði föt og bíl
Vart var öldurnar farið að lægja vegna þessarar umræðu þegar upp komst að Venstre flokkurinn hafði borgað jakkaföt, skyrtur, skó og jafnvel nærföt fyrir flokksformanninn. Allt keypt í einni dýrustu verslun landsins og upphæðirnar ( jafngildi rúmlega þriggja milljóna íslenskra króna) slíkar að mörgum blöskraði. Ýmsir framámenn í flokknum báru blak af Lars Lökke og sögðu mikilvægt að formaðurinn kæmi vel fyrir, bæði á myndum og eins þegar hann væri út á meðal fólks. Sum dagblaðanna gerðu grín að þessu fatamáli og sögðu að þrátt fyrir fatareikningana liti Lars Lökke alltaf út eins og hann hefði fengið lánuð eldgömul jakkaföt af afa sínum. Ekki skánaði það þegar upp komst að flokkurinn stóð straum af kostnaði bíls og bílstjóra fyrir formanninn og loks kom svo í ljós að hann bjó í lánsíbúð í miðborg Kaupmannahafnar sem óljóst var hver bæri kostnaðinn af.
Flokksmönnum leist ekki á blikuna
Lengi vel huggaði forysta Venstre sig við skoðanakannanirnar sem sýndu stöðugt fylgi flokksins og formannsins. En þar varð skyndilega breyting á síðastliðið vor. Flokkurinn hélt sínu fylgi en vinsældir formannsins hrundu og nánast eins og hendi væri veifað var Lars Lökke orðinn óvinsælasti stjórnmálamaður landsins. Flokksforystan klóraði sér í kollinum, aðeins rúmlega ár til kosninga. Fram til þessa hafði enginn látið sér til hugar koma að hrófla við formanninum en nú fóru ýmsir að hugsa sitt. Þar á meðal varaformaður flokksins, Kristian Jensen.
Örlagadagurinn 3. júní 2014
Flokksforystu Venstre var ljóst, þegar þarna var komið við sögu að ekki væri víst að Lars Lökke nyti stuðnings innan miðstjórnar flokksins til áframhaldandi formennsku. Ýmsir áhrifamenn í flokknum höfðu lýst því yfir að formaðurinn nyti ekki lengur stuðnings þeirra og ekki var heldur hægt að líta framhjá könnunum sem sýndu takmarkaðar vinsældir formannsins. Þann 3. júní var boðað til miðstjórnarfundar í Ráðstefnuhöllinni í Óðinsvéum. Þar hugðust andstæðingar Lars Lökke velta honum úr sessi og gera Kristian Jensen að formanni. Í nýútkominni bók um Lars Lökke, sem heitir einfaldlega LLR, segir flokksformaðurinn að þegar hann lagði af stað til Óðinsvéa hafi hann verið handviss um að formannstíð sinni lyki á þessum fundi. Hann ætlaði hins vegar að reyna að sjá til þess að Kristian Jensen settist ekki í formannsstólinn. Til að taka við formennskunni í flokknum ætlaði Lars Lökke að tefla fram Sören Gade, gömlum flokkshesti og fyrrverandi varnarmálaráðherra en hann hætti á þingi 2010.
Kristian Jensen, varaformaður Venstre, fer með gamanmál við vörð drottningar.
Óvæntur stuðningur á bílastæði breytti öllu
Á leiðinni til Óðinsvéa stoppaði Lars Lökke (segir frá þessu í LLR) á bílastæði við Ringsted vestan við Köge. Þarna á bílastæðinu viku sér að honum fjórir Danir. Þeir sögðu Lars Lökke að illa væri komið fram við hann og hann ætti stuðning þeirra. „Þessi traustsyfirlýsing og 100 prósent stuðningur fjórmenninganna á bílastæðinu varð til þess,“ segir Lars Lökke orðrétt í bókinni, „að ég hugsaði; ég skulda þessu fólki það að berjast áfram.“ Frásögnin af þessum stutta fundi á bílastæðinu vakti mikla athygli og fjölmiðlarnir hér eru ekki sérlega trúaðir á sannleiksgildi hennar. Í vinsælum umræðuþætti í danska sjónvarpinu, DR, lýsti þáttastjórnandinn eftir fjórmenningunum og það hafa tvö dagblöð einnig gert. Fólkið hefur ekki gefið sig fram.
Þriggja manna fundur í kjallaranum
Fundinn í Óðinsvéum sátu 128 manns, allir sem rétt höfðu til fundarsetu. Mjög tvísýnt var talið að Lars Lökke ætti stuðning meirihluta fundamanna vísan. Áður en kosningu kom var gert hlé og skotið á þriggja manna fundi í kjallaraherbergi í ráðstefnuhöllinni. Auk Lars Lökke og Kristians Jensen var þar Lars Krarup, áhrifamaður í flokknum og borgarstjóri í Herning. Enginn, utan þremenninganna, veit með vissu hvað þar fór fram en þegar þeir komu upp úr kjallaranum lýsti Kristian Jensen yfir stuðningi við Lars Lökke Rasmussen til áframhaldandi formennsku í flokknum. Ekstra Blaðið sagði að Kristian Jensen hefði örugglega verið með lygamerki á puttunum þegar hann lýsti yfir stuðningnum.
Fara ekki saman á barinn
Þingkosningar fara fram hér í Danmörku á næsta ári, í síðasta lagi í september. Skoðanakannanir benda til stjórnarskipta og gangi það eftir verður formaður Venstre að öllum líkindum forsætisráðherra. Þrátt fyrir að friður hafi verið saminn, á yfirborðinu, er mikil ólga innan forystusveitar Venstre. Haft hefur verið eftir varaformanninum Kristian Jensen, ekki þó opinberlega, að hann geti ekki hugsað sér að starfa með Lars Lökke eftir næstu kosningar. Hann hefur líka sagt að hann ætli sér að vera áfram í stjórnmálum og nýtur enn mikils trausts í flokknum. Stjórnmálaskýrendur hér telja að Lars Lökke muni gera allt sem hann geti til þess að „tengja framhjá“ Kristian Jensen og fylgismönnum hans ef Venstre kemst í stjórn að loknum kosningum.
Andrúmsloftið innan forystusveitar flokksins er þannig lævi blandið og allt getur gerst. „Þeir ganga allir um með rýtinginn falinn í erminni,“ sagði einn stjórnmálaskýrandi í blaðagrein fyrir skömmu. Orð sem Kristian Jensen lét nýlega falla í viðtali lýsa kannski best sambandi formanns og varaformanns „ef ég ætlaði að bregða mér á barinn myndi ég ekki hnippa í Lars Lökke og bjóða honum með. Hann myndi ekki heldur bjóða mér með.“ Þetta segir allt um ástandið í flokksforystunni.