Mun einvígi delta og ómíkron skera úr um framtíðina?
„Ef satt reynist að ómíkron valdi mildari einkennum, þá væri líklega heppilegast að sú gerð útrýmdi öllum hinum,“ segir Arnar Pálsson erfðafræðingur. Verði það afbrigði allsráðandi yrði það „veiru-Eva“ fyrir allar aðrar SARS-CoV-2 kórónuveirur sem á eftir koma.
Þegar kórónuveirusýni sem tekin voru úr fjórum erlendum ferðamönnum skömmu eftir komuna til Botsvana voru raðgreind var vísindamönnum á Botsvana-Harvard AIDS-stofnuninni brugðið. Við blasti eitthvað sem þeir höfðu aldrei séð áður í faraldrinum. „Fjöldi stökkbreytinga var hreint ótrúlegur,“ segir Sikhulile Moyo, yfirmaður stofnunarinnar. Ferðamennirnir höfðu greinst með veiruna 11. nóvember, fjórum sólarhringum eftir að þeir komu til Botsvana. Sýnin voru hins vegar ekki raðgreind strax. En um leið og það var gert, þann 22. nóvember, var heilbrigðisyfirvöldum tilkynnt um uppgötvunina.
Nær samtímis hafði sama mynd birst kollegum við raðgreiningar í nágrannaríkinu Suður-Afríku. Afbrigði SARS-CoV-2 kórónuveirunnar sem hafði ekki áður sést og kveikti því viðvörunarbjöllur. Það voru suðurafrísku vísindamennirnir sem gerðu Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni viðvart. Tveimur dögum síðar eða þann 26. nóvember lá frumrýni WHO fyrir. Nýja afbrigðið var sett á lista yfir þau sem valda sérstökum áhyggjum og fylgst er grannt með. Það fékk líka samstundis nafn: Ómíkron.
Enn einn stafurinn í gríska stafrófinu var því á allra vörum enda bárust fréttir af uppgötvun afbrigðisins eins og eldur í sinu um heimsbyggðina.
Það gerði ómíkrón líka. Barst á ljóshraða að því er virðist frá einu landi til annars. Það hefur nú greinst í tugum landa og er þegar, þrátt fyrir að innan við mánuður sé frá því að það greindist fyrst, að ná yfirburðastöðu gagnvart fyrri afbrigðum veirunnar í sumum löndum. Og vísindamenn telja óværuna ómíkron, sem enginn veit enn með vissu hvaðan kom í upphafi, vera rétt að byrja.
Í þessu kristallast meðal annars munurinn á ómíkron og delta, afbrigðinu sem uppgötvaðist fyrst á Indlandi fyrir rúmu ári. Delta fékk ekki nafn sitt hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni fyrr en maí síðastliðnum er það var sett á hættulistann þar sem fyrir voru alfa, beta og gamma. Delta er skætt afbrigði, smitast auðveldar en þau sem á undan því komu, smitar börn í ríkara mæli og veldur alvarlegri sýkingum. En það tók það margar vikur og mánuði að ná víðtækri útbreiðslu um jarðarkringluna. Þegar það hafði hins vegar náð yfirhöndinni virtust önnur afbrigði ekki hafa roð í það.
Þar til ómíkron kom fram á sjónarsviðið.
Ó, ómíkron, hví dregurðu mig inn í þessa skelfilegu bylgju faraldursins?
Þannig líður eflaust mörgum. Að við séum enn og aftur komin á bólakaf. Viðbrögð stjórnvalda í mörgum löndum heims bera þess ákveðið vitni. Útgöngubann. Samkomutakmarkanir. Grímuskylda. Nálægðarmörk.
En það er enn gríðarlega margt á huldu varðandi eiginleika þessa nýja afbrigðis. Hvort að bylgjan verður skelfileg samanborið við þær sem við höfum hingað til kynnst á enn eftir að koma fyllilega í ljós. Í raun vitum við ef til vill minna en meira í augnablikinu um hvernig það mun haga sér. Hvaða áhrif það hefur á mannslíkamann, ónæmiskerfi okkar.
Vísbendingar eru um að það valdi mildari sjúkdómseinkennum en delta. Þær eru hins vegar fyrst og fremst frá Suður-Afríku sem er ung þjóð og fyrri afbrigði líklega sýkt fleiri en gögn sýna. Þannig gæti stærri hluti Suður-Afríkumanna þegar hafa myndað mótefni og þar með ekki veikst alvarlega við endursýkingu af ómíkron. Því það sýna gögnin nokkuð glögglega: Ómíkron lætur sig það litlu varða hvort frændgarðurinn, hvort sem hann er kenndur við alfa, beta eða delta, hefur áður gert sig heimakominn í musteri sála okkar.
Og einmitt meðal annars af því að ómíkron hefur dreifst á leifturhraða um veröld víða, um nokkuð takmarkalaus samfélög manna ólíkt því sem gerðist í delta-bylgjunni, höfum við ekki enn fengið staðfestingu á því hversu skaðlegt það er. Það sem vísindamenn hafa þó sagt er að jafnvel þótt ómíkron valdi almennt mildari sjúkdómseinkennum en delta gæti sú bylgja sem nú rís sligað heilbrigðiskerfi af þeirri einföldu ástæðu að þegar gríðarlega margir smitast samtímis mun fjölga í hópi þeirra sem þurfa sjúkrahúsinnlögn – hvort sem veiran kallast ómíkron eða delta.
„Sannleikurinn er vandfundinn í veröld óvissunnar,“ segir Arnar Pálsson erfðafræðingur. Blaðamaður Kjarnans leitaði til hans, í nokkru uppnámi sannast sagna, eftir að hafa lesið sér til klukkustundum saman um ómíkron en ekki séð skóginn fyrir trjánum. „Ómíkron var bæði ófyrirséð og fyrirsjáanlegt,“ heldur Arnar áfram. Hversu mikið veiran breyttist kom á óvart. Hún hefur fimmtíu stökkbreytingar, margar áður óséðar. „En að nýtt afbrigði yrði til í Afríku, Suður-Ameríku eða Asíu kom ekki á óvart.“ Þar eru bólusetningar víða skammt á veg komnar. Örvunarskammtar, sem taldir eru gefa ágæta vörn gegn alvarlegum veikindum af völdum ómíkron, álíka sjaldséðir og dýr í útrýmingarhættu. Í þessum heimshluta er minna skimað fyrir veirunni en á Vesturlöndum og smitrakning sumstaðar nær óþekkt fyrirbæri. Sem sagt: Kjörlendi fyrir veiru sem nýtir líkama okkar til að þrífast og dafna.
Til að grisja upplýsinga(óreiðu)skóginn ákvað Kjarninn að leggja tvær spurningar fyrir erfðafræðinginn Arnar.
Sú fyrri er: Þegar talað er um að ómíkron muni taka yfir faraldurinn, þýðir það að delta hverfur?
Fjölgunargeta ómíkron er meiri en delta, annarra afbrigða og upprunalegu gerðar veirunnar, byrjar Arnar á að útskýra. „Það þýðir að með tíð og tíma verður ómíkron allsráðandi í öllum stofnum, það er að segja á öllum svæðum þar sem veiran geisar.“
Það sem flækir hins vegar myndina eru munur á milli framvindu faraldurs og samsetningar veiruafbrigða milli svæða og yfir tímabil. Einnig skiptir máli hversu vel veirurnar dreifast milli landsvæða. Því minni flutningur, því uppskiptari verður faraldurinn.
„Því var spáð að delta yrði allsráðandi í öllum stofnum vegna þess að það varð ríkjandi afbrigði á Vesturlöndum,“ segir Arnar. Þar sem ferðalög eru tiltölulega tíð milli Vesturlanda hafi veiran alltaf breiðst hratt og jafnt yfir Evrópu og Bandaríkin. Þetta sást með upprunalegu gerðina, beta-afbrigðið og delta. Við gerum okkur grein fyrir framvindunni vegna þess að skimanir og raðgreiningar eru víðtækari og markvissari í þessum löndum.
Delta var orðið algengasta afbrigðið í flestum löndum þar sem skimanir eru markvissar, en það hafði þó ekki orðið allsráðandi alls staðar. „Einhvers staðar mölluðu eldri gerðir veirunnar og stökkbreyttust í það sem WHO skilgreindi í nóvember sem ómíkron,“ segir Arnar.
Það afbrigði er sérstakt, segir hann, því það er með mjög margar stökkbreytingar í geninu fyrir bindiprótínið (sem segir til um hversu auðveldlega veiran binst frumum) en ekki síður vegna þess að það spratt af djúpri grein á þróunartré veirunnar. Sem aftur þýðir að það greindist snemma í faraldrinum frá þróunargreinunum sem gátu af sér alfa, beta, delta og mu (og öll hin afbrigðin). Það er líklegast að ómíkron hafi orðið til þar sem lítið er um skimanir og aðeins fá sýni eru raðgreind. Uppskipting fólks, t.d. eftir löndum, svæðum, þjóðfélagshópum og fleiru, býr til afmarkanir sem sumir telji að fóstri breytileika innan veirunnar og tilurð nýrra afbrigða, sérstaklega ef fáir eru bólusettir og samkomutakmarkanir litlar. „Miðað við muninn á smithæfni er nú líklegast að ómíkron verði allsráðandi,“ segir Arnar. „Þá myndu hin afbrigðin deyja út, þar á meðal alfa og delta.“
En er eitthvað hægt að spá fyrir um hvað gerist næst - á eftir ómíkron? Eru ekki nákvæmlega sömu aðstæður uppi sem sköpuðu það afbrigði?
„Það fer eftir því hvort ómíkron útrýmir öðrum gerðum eða ekki hvernig framvindan verður,“ svarar Arnar. „Ef ómíkron verður allsráðandi í öllum stofnum þá mun það verða „veiru-Eva“ fyrir allar aðrar SARS-CoV-2 sem á eftir koma.“ Það er af því að veiran fjölgar sér kynlaust og allar eiga þær sama forföður/móður, bætir hann við til frekari útskýringar. Ómíkron mun stökkbreytast en óvissan felst í því hvort að það verði illvígara á þeirri þróunarbraut.
„Á hin bóginn, ef ómíkron verður ríkjandi en ekki allsráðandi, þá verður alltaf mögulegt að hin afbrigðin geti af sér afkomendur með aukna smithæfni eða ámóta,“ segir Arnar. Þannig yrði ef til vill til nýtt afbrigði af delta (t.d. delta-plús) sem væri með aukna smithæfni eða aðra eiginleika sem gera það frábrugðið forföður sínum.
„Ef satt reynist að ómíkron valdi mildari einkennum, þá væri líklega heppilegast að sú gerð útrýmdi öllum hinum. Þá yrði ef til vill ólíklegra að það stökkbreyttist og þróaðist í afbrigði sem ylli alvarlegri einkennum.“
Arnar bendir að lokum á að mögulega sé ómíkron í raun jafn skaðlegt og delta, en virðist mildari af því það veldur ekki alvarlegum einkennum í þeim sem eru bólusettir eða endursmitast. „Fyrirsjáanlegt er að veiran mun halda áfram að þróast, sama hvort ómíkron verði ríkjandi eða allsráðandi. Af þessu leiðir, eins og ljóst hefur verið frá upphafi, að það er mikilvægt að halda tilfellum í skefjum. Hvert einasta smit er nýtt tækifæri fyrir veiruna. Bólusetningar, smitvarnir og samkomutakmarkanir ættu ennþá að vera nýtt til að tempra faraldurinn, því heppilegast væri ef sem flest afbrigði veirunnar myndu deyja út, til að takmarka möguleika hennar til að stökkbreytast í eitthvað verra eða svæsnara i framtíðinni.“