Barack Obama Bandaríkjaforseti vill herða regluverk utan um netþjónustufyrirtæki í því skyni að koma í veg fyrir að þau mismuni eða skerði þjónustu til notenda. Í stuttu myndbandi sem birt var á vefsíðu Hvíta hússins á mánudag sl. talaði Obama fyrir aukinni neytendavernd á netinu og sagði að koma þyrfti í veg fyrir að fyrirtækin bæti eigin hag með því að skerða þjónustu til notenda.
Hugmyndafræðin sem Obama talar fyrir kallast „nethlutleysi“ eða „net neutrality“. Hún er ekki ný af nálinni og hefur verið miðja hagsmunabaráttu netþjónustufélaga og internet-aktívista í rúman áratug. Stuðningsmenn nethlutleysis, forsetinn þar á meðal, telja internetið svo mikilvægan hluta daglegs lífs fólks að ekki megi skerða rétt þeirra til að vafra frjálst um netið án afskipta þeirra fyrirtækja sem veita aðganginn. Regluverkið verði að taka mið af þessu og tryggja jafnt aðgengi.
https://www.youtube.com/watch?v=uKcjQPVwfDk
„Frá upphafi internetsins hefur það grundvallast um einfaldar meginreglur um að vera opið, sanngjarnt og frjálst,“ sagði Obama í upphafi ávarpsins. „Engir verðir ákveða hver hlýtur aðgang. Það eru engin tollhlið á upplýsinga-hraðbrautinni. Þessar meginreglur, það eru hugmyndir um nethlutleysi, hafa læst úr læðingi þá orku sem einkennir internetið og veitt frumkvöðlum tækifæri til þess að blómstra. Frávik frá þessum meginreglum myndi þýða endalok internetsins eins og við þekkjum það.“
Í ræðunni beinir Obama orðum sínum til Fjarskiptastofnunar Bandaríkjanna, FCC, og biður hana um að vernda nethlutleysi. Stofnunin er sjálfstæð, og skýrir það m.a. hvers vegna Obama beitir sér með þessum hætti. „FCC ætti að gera það ótvírætt að hvort sem þú notir tölvu, síma eða spjaldtölvu, þá beri fyrirtækjunum lagaleg skylda til þess að hvorki banna né skerða aðgang að heimasíðu,“ sagði forsetinn. Hann vill að öll fyrirtæki sem veita aðgang að netinu séu skilgreind sem fjarskiptafyrirtæki, en þannig er það ekki í dag sem gerir lagaumhverfið grárra en ella.
Hvatar til mismununar
Sem betur fer eru fá dæmi um að fyrirtækin hafi dregið úr þjónustu notenda í eigin þágu. Hvatar til slíks þykja engu að síður augljósir, og eru helsta ástæða fyrir því að Obama setur málið með svo afgerandi hætti á oddinn.
Sem dæmi um hagsmunaárekstra annars vegar fyrirtækis sem lagði, á og rekur netstrengi í jörðu (t.d. Comcast, stærsta fjarskiptafyrirtækis Bandaríkjanna) og hins vegar kaupanda að þjónustunni, þá getur það verið Comcast í hag að loka alfarið eða hægja á streymi til efnisveita eins og Netflix og Hulu. Notandinn er þá líklegri til þess að kaupa aðgang að efnisveitu Comcast. Eins gæti Comcast krafist þess að Netflix borgi sérstakt gjald til þess að notendur gætu sótt efnið frá þeim hraðar. Sú er raunin í dag, og hefur Netflix reitt fram háar fjárhæðir til þess að tryggja að notendur netþjónustufélaganna geti notað vefsíðuna.
Dýfa á mörkuðum
Hlutabréfaverð allra helstu netveita Bandaríkjanna lækkaði snarpt í kjölfar birtingar ávarpsins. Meðfylgjandi mynd, fengin af markaðsvef Google, sýnir hvernig fyrirtækin Time Warner Cable, Comcast, Verizon, Charter og Cablevision tóku dýfu á mánudag.
Áhyggjur fjárfesta eru ekki úr lausu lofti gripnar. Óvissan sem ríkir um hvernig regluverkið muni líta út hefur áhrif á áætlanir fjarskiptafyrirtækjanna. Sem dæmi um það tilkynnti AT&T að fjárfestingar í háhraðanetköplum yrðu settar á ís í hundrað bandarískum borgum þar til reglur yrðu skýrðar.
Misheppnuð reglubreyting
Reglum FCC um netþjónustufyrirtækin var síðast breytt árið 2010. Þá var netveitunum gert óheimilt að útiloka notendur frá einstökum vefsíðum eða efnisveitum, öll „ósanngjörn mismunum“ (unreasonable discrimination) var bönnuð og reglum var breytt í því skyni að auka gegnsæi á markaðinum. Þetta sætti síma- og netþjónustufyrirtækið Verizon sig ekki við, taldi FCC fara út fyrir valdsvið sitt án samþykkis frá löggjafarþinginu, kærði ákvörðun FCC og vann málið í byrjun þessa árs.
Í dag er innleiðing nethlutleysis í bandarískt fjarskiptaregluverk því aftur komið á byrjunarreit. Drög hafa verið birt að nýjum reglum Fjarskiptastofnunarinnar og hefur hún óskað álits á þeim. Meðal breytinga er að í stað þess að banna „ósanngjarna mismunun“ er fyrirtækjunum heimilt að veita hraðari aðgang að netefni ef það þykir „sanngjarnt“ (commercially reasonable). Talsmenn nethlutleysis telja orðalagið opna stóra smugu fyrir hverskyns mismunun. Gera má ráð fyrir að útspil Bandaríkjaforseta í vikunni sé til að leggja sitt á vogarskálarnir í baráttunni fyrir nethlutleysi.
Internetaðgangur sem mannréttindi
Í anda hugmyndafræðinnar um nethlutleysi hafa þingmenn Pírata lagt fram þingsályktunartillögu um jafnt aðgengi að internetinu. „Aðgangur almennings að internetinu mun án efa teljast til mikilvægustu mannréttinda framtíðarinnar. Internetinu hefur verið lýst sem einu áhrifamesta verkfæri 21. aldar til að auka gagnsæi, tryggja aðgang að upplýsingum og efla virka þátttöku almennings í lýðræðislegu samfélagi. Því standa rík rök til þess að tryggja öllum landsmönnum öruggan aðgang að internetinu.“ segir í upphafi greinargerðar tillögunnar.