„Ónýta blokkin“ í Þorlákshöfn
Íbúar og húsfélag í fjölbýlishúsi í Þorlákshöfn undirbúa málsókn vegna margs konar galla og skemmda í íbúðum og sameign. Íbúi í húsinu segir húsið þekkt sem „ónýtu blokkina í Þorlákshöfn“ og skammast sín fyrir að búa þar. Eigandi Pró hús ehf., sem stóð að byggingu blokkarinnar fyrir rúmum tveimur árum, segir málið hafa reynst erfitt. Hann sakar byggingarfulltrúa í Ölfusi um valdníðslu og einelti en lofar lagfæringum með vorinu.
Vatnsleki. Sprungur í veggjum. Sprungur í lofti. Brot í parketi. Brotnar flísar. Ónýt klæðning.
Þetta er aðeins brot af þeim skemmdum og göllum sem íbúar í Sambyggð 14 í Þorlákshöfn hafa tekið eftir í íbúðum sínum frá því að þau fluttu inn á vormánuðum 2020. Húsfélagið og nokkrir íbúar Sambyggðar undirbúa nú málsókn vegna skemmdanna.
Byggingaraðili hússins hefur lofað bót og betrun en sakar byggingarfulltrúa í Ölfusi um valdníðslu og einelti fyrir að tefja úttekt á öðru fjölbýlishúsi, Sambyggð 18, sem fyrirtækið lét byggja. Fyrirtækið sé í fjárhagsvandræðum vegna þess og hefur því ekki getað lagfært skemmdir í Sambyggð 14.
Fjölbýlishúsið við Sambyggð 14 er með fyrstu húsunum sem blasa við þegar ekið er inn í Þorlákshöfn. Húsið var reist sumarið 2019 og er fyrsta fjölbýlishúsið sem byggt er í Þorlákshöfn í tuttugu ár.
Pró hús ehf. standa að byggingu hússins, sem er forunnið í Rúmeníu. Um nýja nálgun var að ræða hér á landi, burðarvirki hússins er úr stálprófíl og við komuna til landsins þurfti einungis að skrúfa það saman. Uppsetning hússins var í höndum starfsmanna verksmiðjunnar í Rúmeníu en eftirlit í höndum íslenskra fagaðila. Byggingarkostnaður var því minni en áður þekktist og voru íbúðir hússins, sem allar eru tveggja herbergja og afhentar með öllum innréttingum og tækjum, auglýstar til sölu á 14,6- 14,9 milljónir króna.
Bæjarstjórinn sannfærður um að blokkin myndi slá í gegn
Í fréttatilkynningu sem Pró hús sendi frá sér þegar byggingarleyfi lá fyrir kom fram að eigendur Pró húsa, þar á meðal Jón Valur Smárason, hefðu í nokkur ár leitað leiða til að bjóða upp á góðan raunhæfan valkost fyrir íslenskan fasteignamarkað „þar sem gott verð og gæði fara saman“.
Bygging hússins var kynnt í janúar 2019. Rætt var við Elliða Vignisson, bæjarstjóra í Ölfusi, og Jón Val, eiganda Pró húsa, í kvöldfréttum Stöðvar 2. Elliði sagðist „alveg viss um að nýja blokkin myndi slá í gegn í Þorlákshöfn“. Það reyndist rétt, að minnsta kosti til að byrja með, og greindu Hafnarfréttir frá miklum áhuga á íbúðunum í lok janúar, svo miklum að biðlistar höfðu myndast hjá Fasteignasölu Suðurlands sem sá um söluna. Í maí voru allar fimmtán íbúðirnar seldar og til stóð að afhenda þær um haustið.
Sá tækifæri í að fjárfesta í ódýrri íbúð í Þorlákshöfn
Ástrós Helga Hilmarsdóttir er ein þeirra sem festi kaup á íbúð í Sambyggð 14. Hún var áður búsett í Gautaborg í Svíþjóð og sá ákveðið tækifæri í því að fjárfesta í ódýrri íbúð í Þorlákshöfn. Hún hafði heyrt af íbúðunum í fjölmiðlum og minnist þess þegar bæjarstjórinn dásamaði byggingu blokkarinnar.
Ástrós gekk frá kaupsamningi sumarið 2019 og stefnt var á afhendingu í september. Hún sá því fyrir sér að búa hjá föður sínum í stuttan tíma. Þegar leið á haustið var afhendingu íbúðarinnar ítrekað frestað, um tvær vikur í senn. Vikurnar liðu og beið Ástrós fram í mars 2020 þar til hún fékk íbúðina loks afhenda. Þá var húsið síður en svo tilbúið að utan en Ástrós ákvað að láta það ekki hafa áhrif, biðin eftir að flytja inn var nú þegar orðin það löng.
Ástrós hafði einungis búið í íbúðinni í nokkra daga þegar „fyrsta fúskið“ kom í ljós. „Ég var að skúra og rakst í lista í eldhúsinu sem hafði verið tyllt við innréttinguna. Þá kemur í ljós að það vantar parket á hluta eldhússins,“ segir hún í samtali við Kjarnann. Þegar Ástrós var ólétt af dóttur sinni varð hún svo fyrir því að skera sig á parketinu, sem brotnað hafði upp úr. „Þá hugsaði ég að ég gæti ekki boðið ófæddri dóttur minni upp á þetta.“ Ástrós skipti út öllu parketinu í íbúðinni og hafa aðrir íbúar einnig gripið til þess ráðs þar sem brotnað hefur upp úr parketinu.
Aðrar skemmdir sem Ástrós hefur orðið vör við í íbúðinni eru fúgur í flísum sem hafa losnað, sprungur í veggjum og leki, sem sést til að mynda á vatnspollum í lofti.
Til að byrja með hafði Ástrós samskipti við Pró hús ef upp komu skemmdir og var viðmótið ávallt gott. „En ég áttaði mig fljótt á því að það var ekkert að fara að gerast,“ segir Ástrós. Hún, ásamt gjaldkera húsfélagsins, hvöttu íbúa til að fá lögfræðing í málið sem fyrst en ekki varð samstaða meðal íbúa að fara þá leið, að minnsta kosti ekki strax. Þess í stað voru gerðir samningar við Pró hús sem sneru að endurbótum á ýmsum atriðum sem og frágangi á húsinu að utan sem enn var ólokið. Þeir samningar stóðust hins vegar aldrei. „Húsið var aldrei klárað og hann er enn að lofa,“ segir Ástrós og á við Jón Val, eiganda Pró húsa.
„Ó, býrðu í ónýtu blokkinni?“
Ástrós segist löngu búin að missa trú á því að tjónið verði bætt eða að hún losni einhvern tímann út úr þeirri stöðu sem hún er. „Ég er föst í pínkulítilli íbúð með fjölskyldunni. Mér líður eins og mér sé haldið í gíslingu,“ segir Ástrós, sem telur stöðuna vonlausa.
Hún segir engan tilbúinn að bera ábyrgð og allir vísi hver á annan, hvort sem um er að ræða Pró hús eða bæjaryfirvöld. Tæp þrjú ár eru frá því að Ástrós gekk frá kaupum á íbúðinni síðan þá hefur hún verið reið, pirruð, vonsvikin og leið. Kaup sem áttu að vera sniðug reyndust síður en svo vera það. Þá segir Ástrós að það komi fyrir að hún hálf skammist sín fyrir að búa þarna. Hún vill helst ekki fá heimsóknir nema frá sínum allra nánustu. „Og ef ég fer í ræktina og er að spjalla við fólk úr bænum og segi þeim hvar ég bý fæ ég að heyra: „Ó, býrðu í ónýtu blokkinni?““
Ástrós er komin með eigin lögmann ásamt því að taka þátt í undirbúningi málsóknar húsfélagsins en hún er hæfilega bjartsýn á framhaldið. „Það er enginn sem vill snerta þetta mál,“ segir hún og bætir við: „Það væri í raun betra að rífa húsið en reyna að laga það.“
Kjarninn hafði samband við lögmann húsfélagsins sem staðfesti að undirbúningur að málsókn er hafinn hjá húsfélaginu. Sem stendur er unnið að ástandsskoðun ásamt sérfróðum aðila. Næsta skref verður að fá dómskvatt mat á húsinu. Meðal skemmda sem upp hafa komið og teknar voru til greina við ástandsskoðunina er leki og sprungur í loftum, brot í parketi, leki á baðherbergjum og brot í flísum. Ýmsar skemmdir hafa einnig komið upp í sameign hússins, klæðning á lofti á svölum hefur til að mynda molnað niður, svalahandrið ryðgað og bráðabirgðahandrið sem sett voru í staðinn hafa nokkur fokið í óveðri í vetur.
Sakar byggingarfulltrúa um valdníðslu og einelti
Jón Valur Smárason, eigandi Pró húsa, fullyrðir í samtali við Kjarnann að flestir íbúar í Sambyggð 14 séu sáttir, viti stöðu mála og séu rólegir.
„Það er verið að vinna í því að leysa þetta og ég á von að það verði klárað með vorinu. Þá verður farið í að lagfæra það sem þarf að lagfæra í Sambyggðinni. Við ætlum að taka fulla ábyrgð á húsinu, það hefur aldrei komið neitt annað til,“ segir hann.
Hann viðurkennir að eftir byggingu hússins hafi ýmislegt komið í ljós sem betur hefði mátt fara. Helsta ástæða þess að ekki hafi verið farið í lagfæringar á blokkinni er fjárskortur fyrirtækisins og segir Jón Valur að hann stafi fyrst og fremst af því að byggingarfulltrúi sveitarfélagsins neiti að framkvæma öryggisúttekt á Sambyggð 18, öðru fjölbýlishúsi sem Pró hús eru með í byggingu.
„Þessir erfiðleikar gera okkur fjárþurfi. Við erum búnir að afhenda 14 íbúðir en byggingarfulltrúi heldur húsinu skráðu fokheltu og frystir þar af leiðandi greiðslur sem við áttum von á að fá síðasta sumar,“ segir Jón Valur.
Sambyggð 18 er skráð á byggingarstig 4 og telst því fokhelt. Íbúðir voru afhentar síðasta sumar en byggingarfulltrúi Ölfuss gerði athugasemd síðasta haust um að stálvirki fjölbýlishússins uppfylli ekki skilyrði samkvæmt tæringarflokki í gildandi byggingarreglugerð. Byggir hann ákvörðun sín meðal annars á 12 athugasemdum sem verkfræðistofa gerði við öryggisúttekt.
Jón Valur kærði ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í september í fyrra. Í kærunni sakar Jón Valur byggingarfulltrúann um valdníðslu, einelti og brot á reglugerðum, sem og brot á meðalhófsreglu.
Kærunni var vísað frá þar sem úrskurðarnefndin mat sem svo að ekki væri um stjórnvaldsákvörðun að ræða og er Sambyggð 18 enn á byggingarstigi 4. „Það er engan veginn ásættanlegt að byggingarfulltrúi skuli stoppa lokaúttekt á húsi og segja að hann treysti ekki burðarvirki í húsi sem hann er sjálfur búinn að horfa á út um gluggann byggjast upp, byggða eftir samþykktum teikningum og teikningum sem hann hefur sjálfur stimplað. Að mínu viti virðist þetta vera hugarburður byggingarfulltrúa,“ segir Jón Valur, sem segist þó allur að vilja gerður til að leysa málin með eðlilegum hætti.
„Það er stefnt að því og ég reikna með að það verði með vorinu, í góðri sátt og samvinnu við byggingarfulltrúa Þorlákshafnar og þá sem þar ráða. En ef byggingarfulltrúi „blokkerar“ hvert verkefni á fætur öðru, stoppar greiðslur, og gerir allt eins erfitt og hægt er, þá geta komið upp vandamál,“ segir Jón Valur.
Bærinn ekki aðili að deilum milli kaupenda og seljanda
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem upp koma deilumál vegna íbúðabygginga í Þorlákshöfn. Líkt og Kjarninn greindi frá í febrúar hefur innviðaráðuneytinu borist kæra vegna gjaldtöku sveitarfélagsins á umsóknum um byggingalóðir. Úthlutunarferlið sjálft var einnig gagnrýnt fyrir pólitísk hagsmunatengsl og er ráðuneytið hvatt til að taka ferlið til rannsóknar.
Varðandi fjölbýlishúsin tvö í Sambyggð segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, málin alfarið á borði byggingarfulltrúa, sem sé sjálfstætt stjórnvald og heyri því ekki faglega undir bæjarstjórn.
„Við erum ekki aðilar að samskiptum milli framkvæmdaaðila og kaupenda, enda komum hvergi þar nærri. Okkar hlutverk í þessu er úthlutun lóða og byggingareftirlit eins og í öðrum framkvæmdum. Það er svo sem mjög leitt ef einhverjar deilur eru á milli seljanda og kaupenda en að öðru leyti eru þetta bara þessar hefðbundnu framkvæmdir í sveitarfélaginu,“ segir Elliði í samtali við Kjarnann.
Aðspurður hvernig bæjaryfirvöld geti þá brugðist við í málum sem þessum, þar sem íbúar eru augljóslega mjög ósáttir við ástand íbúða sinna, segir Elliði að stöðugt sé verið að reyna að bæta þjónustu við íbúa. „Velferð bæjarbúa er það sem við störfum við, en við erum ekki aðilar að deilum milli kaupenda og seljanda.“