Mynd: Birgir Þór Harðarson

PwC greiddi samanlagt vel á annan milljarð króna til að sleppa undan málsókn vegna hrunsins

Í nýlegum dómi Landsréttar kemur fram að endurskoðendur Landsbanka Íslands fyrir hrun borguðu yfir milljarð króna til að sleppa við málsókn fyrir að hafa skrifað upp á rangan ársreikning. Sama fyrirtæki samdi líka við þrotabú Glitni um svipuð málalok og greiddi fyrir nokkur hundruð milljónir króna. Í staðinn þurfti fyrirtækið, PwC, ekki að viðurkenna sök.

Í nið­ur­stöðu­hluta rann­sókn­ar­nefndar Alþingis í skýrslu henn­ar, sem kom út í apríl 2010, var fjallað um þátt end­ur­skoð­enda í banka­hrun­inu. Þar sagði að skort hefði á að end­ur­skoð­endur stóru íslensku bank­anna sinntu nægi­lega skyldum sínum við end­ur­skoðun reikn­ings­skila þeirra, sér­stak­lega þegar kom að rann­sókn þeirra og mati á virði útlána til stærstu við­skipta­vina þeirra, með­ferð á hluta­bréfa­eign starfs­manna og fyr­ir­greiðslu banka til ýmissa til að kaupa hluta­bréf í sjálfum sér. Nefndin fór fram á að end­ur­skoð­endur bank­anna yrðu rann­sak­aðir sér­stak­lega. 

Það var gert en ákveðið var að höfða ekki saka­mál á grunni þeirra rann­sókna. Ólafur Þór Hauks­son, hér­aðs­sak­sókn­ari og áður sér­stakur sak­sókn­ari, sagði í við­tali í októ­ber 2018 við sjón­varps­þátt Kjarn­ans á Hring­braut að ástæðan væri sú að erfitt væri að koma þessum málum fyrir dóm. „Það helg­að­ist af mjög mörgum atrið­um. Það voru fyrst og fremst alþjóð­legir reikn­ings­skil­málar sem vöfð­ust fyrir okkur og inn­leið­ing þeirra, vegna þess að sumir þeirra eru ekki inn­leiddir í íslenskan rétt fyrr en eftir hrunið í raun og veru. Þannig að menn mátu það sem svo að við myndum lenda í vand­ræðum með að fá sak­fell­ingu í þannig mál­u­m.“

Borg­aði vel að end­ur­skoða

Það voru gjöful við­skipti að sinna end­ur­skoðun fyrir íslensku bank­ana fyrir banka­hrun. Pricewa­ter­hou­seCoopers (PwC), sem end­ur­skoð­aði bæði Glitni og Lands­bank­ann, fékk alls greitt 1.435 millj­ónir króna fyrir þá vinnu á árunum 2007 og 2008. KPMG, sem end­ur­skoð­aði Kaup­þing, fékk 933 millj­ónir króna greitt fyrir á árunum 2007 og 2008.

Auglýsing

Eftir hrunið ákváðu tvö af þremur þrota­búum stóru bank­anna sem féllu í októ­ber 2008 að stefna end­ur­skoð­un­ar­fyr­ir­tæk­inu PwC á Íslandi og í Bret­landi fyrir það að hafa skrifað upp á ranga árs­reikn­inga fyrir bank­ana tvo. 

Málið sem Glitnir höfð­aði gegn PwC var ekk­ert smá­mál. Í stefnu þess, sem birt var í mars 2012 voru sér­stak­lega til­greind fimm atriði þar sem PwC átti að hafa brotið gegn lög- og samn­ings­bundnum skyldum sín­um. Í fyrsta lagi hefði PwC ekki upp­lýst um að stjórn­endur Glitnis hefðu veitt útlán til inn­byrðis tengdra aðila langt umfram leyfi­leg hámörk, í öðru lagi leynt útlána­á­hættu bank­ans til aðila sem töld­ust tengd­ir, í þriðja lagi veitt stór­felld útlán til fjár­vána eign­ar­halds­fé­laga, í fjórða lagi van­rækt afskrift­ar­skyldu sína og í fimmta lagi van­rækt að upp­lýsa um þá gríð­ar­lega miklu fjár­hags­legu hags­muni sem bank­inn var með í eigin bréfum með þeim afleið­ingum að eigið fé hans var veru­lega of hátt skráð. 

Landsbankinn var endurreistur á rústum Landsbanka Íslands eftir bankahrunið.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Lög­maður Glitnis í mál­inu vitn­aði mikið til þess í stefn­unni að Fjár­mála­eft­ir­litið hefði gert athuga­semdir við PwC á árunum 2007 og 2008 vegna þess að ekki hafi verið gerð „full­nægj­andi grein fyrir við­skiptum vensl­aðra aðila við bank­ann. Til þess flokks féllu „fé­lög sem Jón Ásgeir Jóhann­es­son stjórn­að­i“, en hann var einn stærsti eig­andi bank­ans fyrir hrun. Var þar vísað til Baugs, FL Group og aðila sem tengd­ust þeim sam­steyp­um. 

Samið um að borga en við­ur­kenna ekk­ert

Sáttir náð­ust milli Glitnis og PwC í nóv­em­ber 2013. Trún­aður ríkti um upp­hæð­ina sem PwC greiddi en í umfjöllun Kjarn­ans um hana frá þessum tíma kom fram að PwC hefði greitt hund­ruð millj­óna króna til að kom­ast hjá máls­höfðun sem hinn fallni banki hafði höfðað á hendur PwC á Íslandi og í Bret­landi. Sam­komu­lagið var gert „án við­ur­kenn­ingar sak­ar“. Það sner­ist því um að end­ur­skoð­un­ar­fyr­ir­tækið greiddi bætur án þess að hafa við­ur­kennt að hafa gert nokkuð rang­t. 

Í mars 2017 var greint frá sam­komu­lagi sem náðst hafði milli þrota­bús Lands­banka Íslands og PwC. Málið tengd­ist störfum PwC fyrir Lands­­bank­ann fyrir hrun­ið. Dóms­­mál var höfðað í árs­­lok 2012 og var farið fram á 100 millj­­arða króna skaða­bætur vegna meints tjóns sem fyr­ir­tækið átti að hafa valdið með rangri ráð­­gjöf og óvand­aðri vinnu, sem bitn­aði á fyr­ir­tæk­inu og kröf­u­höfum þess. Þá hafi PwC ekki getið sér­stak­lega um háar lán­veit­ingar Lands­bank­ans til helstu eig­enda hans og félaga í þeirra eigu, þ.e. feðganna Björg­ólfs Thors Björg­ólfs­­son­ar og Björg­ólfs Guð­munds­­son­­ar. 

Í til­­kynn­ingu frá þrota­búi Lands­­bank­ans vegna þessa sagði að það sé væri mat þrota­bús­ins og PwC að sáttin væri ásætt­an­­leg fyrir báða aðila. 

Auglýsing

Engin upp­hæð var nefnd í til­kynn­ing­unni en í kynn­ingu sem haldin var fyrir kröfu­hafa bank­ans síðar var greint frá því að um væri að ræða „ótil­greinda upp­hæð“ sem PwC hafði greitt.

Sú upp­hæð var hins vegar opin­beruð í dómi sem féll nýverið í Lands­rétti.

Upp­hæðin loks opin­beruð

Í máli þrota­bús Lands­banka Íslands gegn Sig­ur­jóni Þ. Árna­syni, fyrr­ver­andi banka­stjóra hans, og fleirum er greint frá inni­haldi sam­komu­lags­ins sem skrifað var undir 22. febr­úar 2017. Þar kom fram að PwC hefði greitt yfir 1,1 millj­arð króna á núvirði til að fallið yrði frá máls­höfð­un­inni.

Í dómnum segir að í sam­komu­lag­inu milli PwC á Íslandi og í Bret­landi ann­ars vegar og þrota­bús Lands­bank­ans hins vegar hafi PwC „fall­ist á lyktir þess gegn til­tek­inni ein­greiðslu án þess að end­ur­skoð­un­ar­fyr­ir­tækin við­ur­kenndu nokkra ábyrgð og án þess að aðal­á­frýj­andi [þrotabú Lands­banka Íslands] við­ur­kenndi að höfðun máls­ins hefði verið til­hæfu­laus. Nam greiðslan níu og hálfri milljón banda­ríkja­doll­ara.“

Vignir Rafn Gísla­son, stjórn­ar­for­maður PwC og einn eig­enda fyr­ir­tæk­is­ins hér­lend­is, gaf skýrslu í mál­inu fyrir Lands­rétti, en hann var end­ur­skoð­andi Lands­banka Íslands fyrir hrun. Í þeirri skýrslu stað­festi hann lyktir máls­ins.

Auglýsing

Því liggur fyrir að PwC borg­aði vel á annan millj­arð króna til að losna undan mál­sóknum sem fólu í sér ásak­anir um að reikn­ingar Glitnis og Lands­banka Íslands hefðu verið rangt fram settir fyrir hrun. 

Kaup­þing ekki sótt bætur

Nán­ast ekk­ert hafði heyrst af því hvort að Kaup­þing hafi farið í aðgerðir gegn KPMG, sem end­ur­skoð­aði reikn­inga þess fallna banka, þangað til að Kjarn­inn spurð­ist fyrir um það síðla árs 2019. Sam­kvæmt svari Kaup­þings ehf., félags utan um eft­ir­stand­andi eignir bank­ans, við fyr­ir­spurn Kjarn­ans þá hefur ekk­ert sam­komu­lag verið gert.

Í bók­inni Kaupt­hink­ing – Bank­inn sem átti sig sjálf­ur, sem kom út haustið 2018, var haft eftir Sæmundi Valdi­mars­syni, ann­ars þeirra end­ur­skoð­enda sem skrif­aði undir árs­reikn­ing Kaup­þings 2007 og meið­eig­anda hjá KPMG, að frá því að Kaup­þing féll hefði árs­reikn­ingur hans verið rann­sak­aður af ýmsum aðil­um. Þar á meðal væri slita­stjórn og skila­nefnd bank­ans, Fjár­mála­eft­ir­litið og sér­stakur sak­sókn­ari með aðstoð sér­fræð­inga. „Nú 10 árum síð­ar, eftir allar þær skoð­anir sem reikn­ing­ur­inn hefur feng­ið, hefur ekki verið sótt að okkur vegna hans. Að okkar mati segir það tals­verða sögu og vart er hægt að fá betri stað­fest­ingu á því að árs­reikn­ing­ur­inn gefi glögga mynd og sé án veru­legra ann­marka, eins og fram kemur í áritun okkar á árs­reikn­ing­inn.“

Því virð­ist sem að Kaup­þing hafi ekki sótt bætur vegna end­ur­skoð­unar KPMG á reikn­ingi bank­ans. Bætur sem hin þrotabú föllnu stóru íslensku bank­anna sóttu á sína end­ur­skoð­end­ur, og feng­u. 

Bank­inn var gjald­þrota löngu áður en hann fór í þrot

Það vekur athygli þar sem rann­sóknir á end­ur­skoðun Kaup­þings, sem fram­kvæmd var fyrir emb­ætti sér­staks sak­sókn­ara og unnin af sér­fræð­ingum á sviði reikn­ings­skila, sýndu þá nið­ur­stöðu að bank­inn hafi verið gjald­þrota í lok árs 2007 hið síð­asta. 

Nið­ur­staða sér­fræð­ing­anna sem fram­kvæmdu rann­sókn­ina var sú að hvorki stjórn, fram­kvæmda­stjórn né end­ur­skoð­endur Kaup­þings gátu staðið við yfir­lýs­ingar sem fram­settar voru í árs­reikn­ingi fyrir árið 2007 þess efnis að hann gæfi glögga mynd af rekstri og efna­hag bank­ans né að hann væri sam­inn í sam­ræmi við lög og staðla um gerð reikn­ings­skila fyrir fyr­ir­tæki sem skráð væri á mark­að. 

Þvert á móti komust þeir að þeirri nið­ur­stöðu að árs­reikn­ing­ur­inn væri bein­línis rang­færður að veru­legum hluta. Það þýddi að þeir sem lásu árs­reikn­ing­inn fengu ekki upp­lýs­ingar um rekstur og efna­hag Kaup­þings sem gátu talist áreið­an­leg­ar. Því lægi fyrir að þeir sem báru ábyrgð á árs­reikn­ingnum hefðu sam­eig­in­lega villt um fyrir hlut­höfum og kröfu­höfum Kaup­þings og sam­fé­lag­inu öllu. 

Í þeim sagði að alvar­legir ágallar hafi verið voru á reikn­ings­skilum bank­ans fyrir það ár. Svo alvar­legir að í stað þess að eigið fé bank­ans væri jákvætt um mörg hund­ruð millj­arða króna átti það að vera nei­kvætt. Og upp­fyllti þar af leið­andi ekki sett skil­yrði fyrir því að starfa. Kaup­þing hefði átt að skila inn starfs­leyfi sínu sam­kvæmt gögn­un­um. 

Það gerði bank­inn ekki heldur hélt áfram að starfa fram í októ­ber 2008, og ýkti um leið gríð­ar­lega það tjón sem starf­semi bank­ans olli á end­anum hlut­höfum og kröfu­höf­um. Á þessum mán­uðum sem bank­inn starf­aði ólög­lega voru líka framin fjöl­mörg og alvar­leg efna­hags­brot sem búið er að dæma helstu stjórn­endur Kaup­þings til fang­els­is­vistar fyr­ir.

Þessi frétta­skýr­ing byggir að stóru leyti á frétta­skýr­ingu sem birt­ist í Kjarn­anum í nóv­em­ber 2019.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar