Mynd: Birgir Þór Harðarson

PwC greiddi samanlagt vel á annan milljarð króna til að sleppa undan málsókn vegna hrunsins

Í nýlegum dómi Landsréttar kemur fram að endurskoðendur Landsbanka Íslands fyrir hrun borguðu yfir milljarð króna til að sleppa við málsókn fyrir að hafa skrifað upp á rangan ársreikning. Sama fyrirtæki samdi líka við þrotabú Glitni um svipuð málalok og greiddi fyrir nokkur hundruð milljónir króna. Í staðinn þurfti fyrirtækið, PwC, ekki að viðurkenna sök.

Í niðurstöðuhluta rannsóknarnefndar Alþingis í skýrslu hennar, sem kom út í apríl 2010, var fjallað um þátt endurskoðenda í bankahruninu. Þar sagði að skort hefði á að endurskoðendur stóru íslensku bankanna sinntu nægilega skyldum sínum við endurskoðun reikningsskila þeirra, sérstaklega þegar kom að rannsókn þeirra og mati á virði útlána til stærstu viðskiptavina þeirra, meðferð á hlutabréfaeign starfsmanna og fyrirgreiðslu banka til ýmissa til að kaupa hlutabréf í sjálfum sér. Nefndin fór fram á að endurskoðendur bankanna yrðu rannsakaðir sérstaklega. 

Það var gert en ákveðið var að höfða ekki sakamál á grunni þeirra rannsókna. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari og áður sérstakur saksóknari, sagði í viðtali í október 2018 við sjónvarpsþátt Kjarnans á Hringbraut að ástæðan væri sú að erfitt væri að koma þessum málum fyrir dóm. „Það helgaðist af mjög mörgum atriðum. Það voru fyrst og fremst alþjóðlegir reikningsskilmálar sem vöfðust fyrir okkur og innleiðing þeirra, vegna þess að sumir þeirra eru ekki innleiddir í íslenskan rétt fyrr en eftir hrunið í raun og veru. Þannig að menn mátu það sem svo að við myndum lenda í vandræðum með að fá sakfellingu í þannig málum.“

Borgaði vel að endurskoða

Það voru gjöful viðskipti að sinna endurskoðun fyrir íslensku bankana fyrir bankahrun. PricewaterhouseCoopers (PwC), sem endurskoðaði bæði Glitni og Landsbankann, fékk alls greitt 1.435 milljónir króna fyrir þá vinnu á árunum 2007 og 2008. KPMG, sem endurskoðaði Kaupþing, fékk 933 milljónir króna greitt fyrir á árunum 2007 og 2008.

Auglýsing

Eftir hrunið ákváðu tvö af þremur þrotabúum stóru bankanna sem féllu í október 2008 að stefna endurskoðunarfyrirtækinu PwC á Íslandi og í Bretlandi fyrir það að hafa skrifað upp á ranga ársreikninga fyrir bankana tvo. 

Málið sem Glitnir höfðaði gegn PwC var ekkert smámál. Í stefnu þess, sem birt var í mars 2012 voru sérstaklega tilgreind fimm atriði þar sem PwC átti að hafa brotið gegn lög- og samningsbundnum skyldum sínum. Í fyrsta lagi hefði PwC ekki upplýst um að stjórnendur Glitnis hefðu veitt útlán til innbyrðis tengdra aðila langt umfram leyfileg hámörk, í öðru lagi leynt útlánaáhættu bankans til aðila sem töldust tengdir, í þriðja lagi veitt stórfelld útlán til fjárvána eignarhaldsfélaga, í fjórða lagi vanrækt afskriftarskyldu sína og í fimmta lagi vanrækt að upplýsa um þá gríðarlega miklu fjárhagslegu hagsmuni sem bankinn var með í eigin bréfum með þeim afleiðingum að eigið fé hans var verulega of hátt skráð. 

Landsbankinn var endurreistur á rústum Landsbanka Íslands eftir bankahrunið.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Lögmaður Glitnis í málinu vitnaði mikið til þess í stefnunni að Fjármálaeftirlitið hefði gert athugasemdir við PwC á árunum 2007 og 2008 vegna þess að ekki hafi verið gerð „fullnægjandi grein fyrir viðskiptum venslaðra aðila við bankann. Til þess flokks féllu „félög sem Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnaði“, en hann var einn stærsti eigandi bankans fyrir hrun. Var þar vísað til Baugs, FL Group og aðila sem tengdust þeim samsteypum. 

Samið um að borga en viðurkenna ekkert

Sáttir náðust milli Glitnis og PwC í nóvember 2013. Trúnaður ríkti um upphæðina sem PwC greiddi en í umfjöllun Kjarnans um hana frá þessum tíma kom fram að PwC hefði greitt hundruð milljóna króna til að komast hjá málshöfðun sem hinn fallni banki hafði höfðað á hendur PwC á Íslandi og í Bretlandi. Samkomulagið var gert „án viðurkenningar sakar“. Það snerist því um að endurskoðunarfyrirtækið greiddi bætur án þess að hafa viðurkennt að hafa gert nokkuð rangt. 

Í mars 2017 var greint frá samkomulagi sem náðst hafði milli þrotabús Landsbanka Íslands og PwC. Málið tengd­ist störfum PwC fyrir Lands­bank­ann fyrir hrun­ið. Dóms­mál var höfðað í árs­lok 2012 og var farið fram á 100 millj­arða króna skaða­bætur vegna meints tjóns sem fyr­ir­tækið átti að hafa valdið með rangri ráð­gjöf og óvand­aðri vinnu, sem bitn­aði á fyr­ir­tæk­inu og kröfu­höfum þess. Þá hafi PwC ekki getið sérstaklega um háar lánveitingar Landsbankans til helstu eigenda hans og félaga í þeirra eigu, þ.e. feðganna Björgólfs Thors Björgólfs­son­ar og Björgólfs Guðmunds­son­ar. 

Í til­kynn­ingu frá þrotabúi Lands­bank­ans vegna þessa sagði að það sé væri mat þrotabúsins og PwC að sáttin væri ásætt­an­leg fyrir báða aðila. 

Auglýsing

Engin upphæð var nefnd í tilkynningunni en í kynningu sem haldin var fyrir kröfuhafa bankans síðar var greint frá því að um væri að ræða „ótilgreinda upphæð“ sem PwC hafði greitt.

Sú upphæð var hins vegar opinberuð í dómi sem féll nýverið í Landsrétti.

Upphæðin loks opinberuð

Í máli þrotabús Landsbanka Íslands gegn Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra hans, og fleirum er greint frá innihaldi samkomulagsins sem skrifað var undir 22. febrúar 2017. Þar kom fram að PwC hefði greitt yfir 1,1 milljarð króna á núvirði til að fallið yrði frá málshöfðuninni.

Í dómnum segir að í samkomulaginu milli PwC á Íslandi og í Bretlandi annars vegar og þrotabús Landsbankans hins vegar hafi PwC „fallist á lyktir þess gegn tiltekinni eingreiðslu án þess að endurskoðunarfyrirtækin viðurkenndu nokkra ábyrgð og án þess að aðaláfrýjandi [þrotabú Landsbanka Íslands] viðurkenndi að höfðun málsins hefði verið tilhæfulaus. Nam greiðslan níu og hálfri milljón bandaríkjadollara.“

Vignir Rafn Gíslason, stjórnarformaður PwC og einn eigenda fyrirtækisins hérlendis, gaf skýrslu í málinu fyrir Landsrétti, en hann var endurskoðandi Landsbanka Íslands fyrir hrun. Í þeirri skýrslu staðfesti hann lyktir málsins.

Auglýsing

Því liggur fyrir að PwC borgaði vel á annan milljarð króna til að losna undan málsóknum sem fólu í sér ásakanir um að reikningar Glitnis og Landsbanka Íslands hefðu verið rangt fram settir fyrir hrun. 

Kaupþing ekki sótt bætur

Nánast ekkert hafði heyrst af því hvort að Kaupþing hafi farið í aðgerðir gegn KPMG, sem endurskoðaði reikninga þess fallna banka, þangað til að Kjarninn spurðist fyrir um það síðla árs 2019. Samkvæmt svari Kaupþings ehf., félags utan um eftirstandandi eignir bankans, við fyrirspurn Kjarnans þá hefur ekkert samkomulag verið gert.

Í bókinni Kaupthinking – Bankinn sem átti sig sjálfur, sem kom út haustið 2018, var haft eftir Sæmundi Valdimarssyni, annars þeirra endurskoðenda sem skrifaði undir ársreikning Kaupþings 2007 og meiðeiganda hjá KPMG, að frá því að Kaupþing féll hefði ársreikningur hans verið rannsakaður af ýmsum aðilum. Þar á meðal væri slitastjórn og skilanefnd bankans, Fjármálaeftirlitið og sérstakur saksóknari með aðstoð sérfræðinga. „Nú 10 árum síðar, eftir allar þær skoðanir sem reikningurinn hefur fengið, hefur ekki verið sótt að okkur vegna hans. Að okkar mati segir það talsverða sögu og vart er hægt að fá betri staðfestingu á því að ársreikningurinn gefi glögga mynd og sé án verulegra annmarka, eins og fram kemur í áritun okkar á ársreikninginn.“

Því virðist sem að Kaupþing hafi ekki sótt bætur vegna endurskoðunar KPMG á reikningi bankans. Bætur sem hin þrotabú föllnu stóru íslensku bankanna sóttu á sína endurskoðendur, og fengu. 

Bankinn var gjaldþrota löngu áður en hann fór í þrot

Það vekur athygli þar sem rannsóknir á endurskoðun Kaupþings, sem framkvæmd var fyrir embætti sérstaks saksóknara og unnin af sérfræðingum á sviði reikningsskila, sýndu þá niðurstöðu að bankinn hafi verið gjaldþrota í lok árs 2007 hið síðasta. 

Niðurstaða sérfræðinganna sem framkvæmdu rannsóknina var sú að hvorki stjórn, framkvæmdastjórn né endurskoðendur Kaupþings gátu staðið við yfirlýsingar sem framsettar voru í ársreikningi fyrir árið 2007 þess efnis að hann gæfi glögga mynd af rekstri og efnahag bankans né að hann væri saminn í samræmi við lög og staðla um gerð reikningsskila fyrir fyrirtæki sem skráð væri á markað. 

Þvert á móti komust þeir að þeirri niðurstöðu að ársreikningurinn væri beinlínis rangfærður að verulegum hluta. Það þýddi að þeir sem lásu ársreikninginn fengu ekki upplýsingar um rekstur og efnahag Kaupþings sem gátu talist áreiðanlegar. Því lægi fyrir að þeir sem báru ábyrgð á ársreikningnum hefðu sameiginlega villt um fyrir hluthöfum og kröfuhöfum Kaupþings og samfélaginu öllu. 

Í þeim sagði að alvarlegir ágallar hafi verið voru á reikningsskilum bankans fyrir það ár. Svo alvarlegir að í stað þess að eigið fé bankans væri jákvætt um mörg hundruð milljarða króna átti það að vera neikvætt. Og uppfyllti þar af leiðandi ekki sett skilyrði fyrir því að starfa. Kaupþing hefði átt að skila inn starfsleyfi sínu samkvæmt gögnunum. 

Það gerði bankinn ekki heldur hélt áfram að starfa fram í október 2008, og ýkti um leið gríðarlega það tjón sem starfsemi bankans olli á endanum hluthöfum og kröfuhöfum. Á þessum mánuðum sem bankinn starfaði ólöglega voru líka framin fjölmörg og alvarleg efnahagsbrot sem búið er að dæma helstu stjórnendur Kaupþings til fangelsisvistar fyrir.

Þessi fréttaskýring byggir að stóru leyti á fréttaskýringu sem birtist í Kjarnanum í nóvember 2019.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar