Rafbílar, skógrækt, kýr sem borða þara, færri álver og fleiri vegan
Í skýrslu Íslands til COP26 eru dregnar upp fimm mismunandi sviðsmyndir um leið Íslands til kolefnishlutleysis árið 2040, sem byggja á samráði við almenning. Þar kennir ýmissa grasa. Í einni sviðsmynd er grænn iðnaður af ýmsu tagi búinn að leysa álverin af hólmi og kjötneysla hefur dregist verulega saman hjá landsmönnum.
Íslensk stjórnvöld skiluðu í gær skýrslu sinni um langtímaáætlun í loftlagsmálum til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) í aðdraganda COP26, loftslagsfundar Sameinuðu þjóðanna, sem hefst í Glasgow í Skotlandi á næstu dögum.
Eins og ef til vill viðbúið var eru engin stórtíðindi í þessari skýrslu, heldur geymir skýrslan samantekt um þegar yfirlýst markmið Íslands í loftslagsmálum og þá hluti sem stjórnvöld hafa verið að vinna að undanfarin ár.
Það sem helst vekur athygli er að í skýrslunni eru kynntar niðurstöður greiningarverkefnis rannsóknarhóps vísindamanna við HÍ og HR, sem byggði á samráðsrannsókn Félagsvísindastofnunar HÍ við almenning um leiðir í átt að kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040.
Gerð er grein fyrir fimm mismunandi sviðsmyndum um þróun samfélagsins og rýnt í áhrif þeirra á losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis fram til ársins 2040.
Tekið er skýrt fram í skýrslunni að ekki sé búið að afmarka neina af þessum leiðum af hálfu stjórnvalda, heldur er sviðsmyndunum ætlað að „nýtast við áframhaldandi stefnumótun á málefnasviðinu þar sem þær sýna að Ísland getur náð kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040,“ svo vitnað sé í fréttatilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Sviðsmyndirnar fimm
Í kjölfar samráðs Félagsvísindastofnunar við almenning um leiðir fram á við í loftslagsmálum var því sem þar kom fram varpað upp í tvo ása, annar ásinn spannar sviðið frá litlum kerfisbreytingum til mikilla og hinn ásinn fer frá tæknilausnum til náttúrulausna.
- Sviðsmynd A byggir á tæknilausnum og engum kerfisbreytingum.
- Sviðsmynd B byggir á náttúrulausnum og engum kerfisbreytingum.
- Sviðsmynd C byggir á tæknilausnum og miklum kerfisbreytingum.
- Sviðsmynd D byggir á náttúrulausnum og miklum kerfisbreytingum.
Þessar sviðsmyndir „byggja á ýktu safni forsenda þar sem lögð er ofuráhersla á tilteknar áherslur til að draga fram með skýrum hætti virkni mismunandi nálgana“ í átt að kolefnishlutleysi. Þeim til viðbótar er svo kynnt fimmta sviðsmyndin (E), sem endurspeglar blandaða leið tæknilausna, náttúrulausna og kerfisbreytinga.
Sem áður segir skila allar þessar fimm sviðsmyndir því að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040, samkvæmt því sem í skýrslunni segir, þó tekið sé fram að óvissuþættir varðandi losun vegna lands og landnýtingar séu ýmsir. En hvað felst í þessum sviðsmyndum og hverskonar samfélag hefur teiknast upp á Íslandi árið 2040 samkvæmt þeim?
A – Stóriðjustoðin sterk og neyslan breytist ekkert – en orkuskipti
Í sviðsmynd A, sem byggir á tæknilausnum án kerfisbreytinga, er þeirri mynd varpað upp að helstu stoðir hagkerfisins séu stóriðja, sjávarútvegur á stórum skala og túrismi. Sjálfbær nyt endurnýjanlegra orkugjafa er grunnurinn að því að áfram verði hægt að byggja á stóriðju og rafvæða samgöngur.
Gengið er út frá því í þessari sviðsmynd að hagvöxtur verði mikill og fólksfjölgun sömuleiðis. Neysla verður einnig mikil, sem leiðir til þess að úrgangur verður mikill. Ferðaþörf er mikil og fólk vill helst ferðast á sínu einkafarartæki. Landbúnaður er um allt land, en meðalstærð búa hefur aukist. Áfram vilja flestir borða dýraafurðir.
Í þessari sviðsmynd eru það tæknilausnirnar sem hafa stuðlað að því að kolefnishlutleysi næst árið 2040. Samgöngur á landi reiða sig alfarið á rafmagn, vetni eða annað lífeldsneyti, á meðan að fluggeirinn og samgöngur á sjó reiða sig enn að mestu á jarðefnaeldsneyti.
Íslenski fiskveiðiflotinn er í þessari sviðsmynd hins vegar búinn að skipta yfir í vistvænt eldsneyti. Útblástur frá stóriðju er að fullu gleyptur til baka úr andrúmsloftinu og lífrænn úrgangur er allur moltaður eða breytt í gas. Mykja úr landbúnaði er nýtt til að framleiða metan. Lítil áhersla hefur verið lögð á bindingu koltvíoxíðs í þessari sviðsmynd.
B – Græðum upp Ísland með stóriðjuna í gangi
Þessi sviðsmynd byggir á náttúrulausnum án kerfisbreytinga. Íslenska hagkerfið byggir helst á stoðum stóriðju, sjávarútvegs og túrisma. Rétt eins og í sviðsmynd A er gert ráð fyrir að nýting orkuauðlinda sé grunnurinn að áframhaldandi stóriðju og rafvæðingu léttra samgangna og sömuleiðis er gengið út frá því að neysla verði mikil, úrgangur sömuleiðis og hagvöxtur og fólkfjölgun einnig.
Hér eru það hins vegar svokallaðar náttúrulausnir sem hafa tryggt kolefnishlutlaust Ísland. Þarna erum við að tala um umfangsmikla kolefnisbindingu með skógrækt og uppgræðslu lands, auk þess sem búið er að moka ofan í gríðarmarga skurði og endurheimta votlendi. Allur lífrænn úrgangur er moltaður eða breytt í gas.
Samgöngur á landi reiða sig á rafmagn eða lífeldsneyti, en einungis lítill hluti flug- og sjósamgangna hefur skipt yfir í lágkolefnislausnir. Sjávarútvegurinn hinsvegar reiðir sig á rafmagn og lífeldsneyti og landbúnaðurinn notar áburð á hagkvæmari hátt. Auk þess hefur samsetning skepnufóðurs breyst, sjávarþang er nú á boðstólum í fjósum landsins, sem skilar sér í minni metan-útblæstri nautgripa.
C – Hringrásarsamfélag og grænn iðnaður í stað helmings álvera
Íslenska samfélagið sem dregið er fram í sviðsmynd C hefur náð kolefnishlutleysi með samspili tæknilausna og kerfisbreytinga. Þetta er sjálfbært hátæknisamfélag og fjölbreytt hringrásarsamfélag sem er meðvitað um loftslagsmál.
Sjálfbær nýting endurnýjanlegra orkugjafa styður við grænan iðnað og rafvæddar samgöngur. Hagkerfið reiðir sig á fjölbreyttan grænan iðnað sem er kominn í staðinn fyrir helminginn af álverunum sem starfa í dag. Þetta eru auk annars gagnaver og hátæknigarðyrkja. Sjávarútvegur og túrismi eru enn mikilvægar stoðir undir efnahag landsins.
Bæði fólksfjölgun og hagvöxtur eru í þessari sviðsmynd í meðallagi há. Neysla hefur orðið hófsamari, fólk leggur meira upp úr endingartíma hluta og grænum lausnum. Úrgangur er minni en í sviðsmyndum A og B og ferðaþörf sömuleiðis, auk þess sem áhersla á almenningssamgöngur og virka ferðamáta hefur aukist.
Matarvenjur hafa breyst og eftirspurn eftir grænmetisfæði aukist. Landbúnaður með skepnur á sér stað um allt land, en eftirspurn eftir lamba- og nautakjöti hefur dregist saman og framleiðslan því hófleg. Færri kindur og nautgripir eru í landinu en í dag.
Þarna spila tæknilausnir saman við kerfisbreytingar eins og breyttar neysluvenjur til þess að ná kolefnishlutleysi fyrir 2040. Rétt eins og í sviðsmyndum A og B reiða samgöngur á landi sig á rafmagn eða lífeldsneyti, en einungis lítill hluti flug- og sjósamgangna hefur skipt yfir í lágkolefnislausnir. Sjávarútvegurinn reiðir sig á rafmagn og lífeldsneyti og notar einnig léttari veiðarfæri, sem sparar orku.
Útblástur frá þeirri stóriðju sem er eftir í landinu er gleyptur og ýmist dælt niður í berg eða notaður til framleiðslu lífeldsneytis. Færri skepnur er í landbúnaði og mykjan er betur nýtt. Allur lífrænn úrgangur er ýmist moltaður eða breytt í gas. Minni áhersla er á kolefnabindingu og er það bara gert til hliðar, til þess að klára vegferðina að kolefnishlutleysi.
D - Ekki eitt einasta álver á Íslandi – en mjög margir grænkerar
Í sviðsmynd D hefur áhersla verið lögð á bæði náttúrulausnir og kerfisbreytingar. Hér er íslenskt samfélag sem er fjölbreytt hringrásarsamfélag, meðvitað um loftslagið og tekur höndum saman um lausnir í nærumhverfinu. Sjálfbær nýting orkuauðlinda styður við rafvæddar samgöngur og grænan iðnað, sem kemur að fullu í stað álvera í þessari sviðsmynd.
Efnahagur Íslands reiðir sig á fjölbreyttan grænan iðnað, sjávarútveg á minni skala en í dag, minni bóndabæi um landið og túrisma. Hér er tiltölulega lítill hagvöxtur og fólksfjölgun í samanburði við aðrar sviðsmyndir.
Einkaneysla er minni, aukin áhersla er á endingartíma þeirra hluta sem eru keyptir og grænar lausnir, helst úr héraði. Úrgangur hefur dregist mikið saman, þar á meðal matarsóun. Ferðaþörf hefur minnkað, með stórauknum áherslum á almenningssamgöngur og virka ferðamáta.
Matarvenjur Íslendinga eru gjörbreyttar og eftirspurn eftir plöntufæði sem helst er framleitt á Íslandi hefur aukist. Landbúnaði hefur verið umbreytt, með smærri bóndabýlum um landið og minnkandi áherslu á skepnuræktun vegna breytinga á fæðuvali landans. Það eru því mun færri kýr og nautgripir í landinu.
Náttúrulausnir og kerfisbreytingar af því tagi sem hér er lýst hafa tryggt kolefnishlutleysi, þar á meðal mikil áhersla á kolefnisbindingu í gegnum uppgræðslu og skógrækt, auk endurheimtar votlendis. Allur lífrænn úrgangur er moltaður eða breytt í gas.
Breyttar ferðavenjur, með auknum almenningssamgöngum, minnka heildar ferðaþörfina. Samgöngur á landi reiða sig á rafmagn eða lífeldsneyti, en flugbransinn og flutningar á sjó eru einungis að hluta komin í vistvænar lausnir. Sjávarútvegurinn er eins og í öðrum lausnum byrjaður að keyra á vistvænu eldsneyti og rafmagni, auk þess sem léttari veiðarfæri sem nota minni orku eru notuð. Áburður er notaður með hagkvæmari hætti og sjávarþangið í fjósunum tryggir minni metanútblástur vegna iðragerjunar – auk þess sem skepnurnar eru færri.
E – Hófsöm blanda af öllu að ofan
Í síðustu sviðsmyndinni sem teiknuð eru upp í skýrslunni, sviðsmynd E, er tækni- og náttúrulausnum blandað saman við kerfisbreytingar. Hér er reynt að feta einhvern milliveg á milli þeirra ýktu þátta sem settir eru fram í hverri af hinum sviðsmyndunum.
Í þessari sviðsmynd er Ísland opið iðnaðar- og hátæknisamfélag sem styðst við stóriðju, sjávarútveg á stórum skala og túrisma. Kolefnishlutleysi hefur verið náð með blöndu af tækni- og náttúrulausnum, auk nokkurra kerfisbreytinga. Hagvöxtur er í meðallagi hár og fólksfjölgun í meðallagi kröftug.
Ferðaþörf hefur aukist, en almenningssamgöngur og virkir ferðamáta hafa aukið vægi. Í matarvali hafa Íslendingar færst í áttina að plöntumiðaðra fæði, en ekki með jafn afgerandi hætti og í sviðsmyndum C og D.
Samgöngur eru keyrðar áfram með svipuðum hætti og í hinum sviðsmyndunum. Kolefnisbinding og endurheimt votlendis vega inn til hliðar við tæknilausnir, svo Ísland verði kolefnishlutlaust fyrir 2040.