Úr einkasafni

„Sé ekki hvað Ísland ætlar að koma með nýtt að borðinu“

Íslensk stjórnvöld ættu að tilkynna á loftslagsráðstefnunni í Glasgow að nú yrði ógnin tekin alvarlega og að sjálfstæð og metnaðarfull markmið yrðu sett, „en ég sé því miður ekki fyrir mér að það verði gert,“ segir Finnur Ricart sem verður fulltrúi ungmenna í íslensku sendinefndinni. „Ef Ísland getur verið fyrirmynd í jafnréttismálum getur það vel orðið fyrirmyndarland þegar kemur að samdrætti í losun og loftslagsaðgerðum.“ Þannig sé það ekki í dag.

Stefna íslenskra stjórn­valda í lofts­lags­málum gengur alls ekki nógu langt og Ísland er eft­ir­bátur ann­arra Norð­ur­landa í þessum efn­um. Stjórn­völd segja mark­miðin metn­að­ar­full en þau eru það ekki í raun. Hið umtal­aða kolefn­is­hlut­leysi lands­ins árið 2040 er illa skil­greint og leiðin að því í besta falli óskýr.

Þetta segir Finnur Ricart sem verður full­trúi ung­menna í íslensku sendi­nefnd­inni á lofts­lags­ráð­stefn­unni COP26 í Glas­gow. Til hennar fer hann með rútu og lest. Ferða­lagið hefst í Utrecht í Hollandi þar sem Finnur stundar nám í hnatt­rænum sjálf­bærni­vís­ind­um.

Umhverf­is­mál hafa brunnið lengi á Finni. Hann byrj­aði að láta til sín taka í mála­flokknum er hann var í mennta­skóla í Genf í Sviss árið 2018. Þar stofn­aði hann umhverf­is­ráð þar sem áhersla var m.a. lögð á flokkun sorps, bíl­lausan lífs­stíl og fleira af því tagi.

Spurður hvað hafi kveikt áhuga hans á lofts­lags­málum seg­ist hann oft hafa velt því fyrir sér og kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að það teng­ist áhuga hans á vís­indum frá unga aldri. „Ég hef alltaf sökkt mér í vís­inda­tíma­rit og einnig almennar fréttir og það fór að renna upp fyrir mér að umhverf­is­málin væru eitt­hvað sem þyrfti að taka alvar­lega og að ég vildi leggja mitt lóð á þær vog­ar­skál­ar.“

Finnst þér nógu langt gengið í stefnu íslenskra stjórn­valda í lofts­lags­mál­um?

„Nei, alls ekki,“ segir Finnur með áherslu. „Það vantar tals­vert upp á hana. Stjórn­völd segja mark­miðin vera metn­að­ar­full en þannig er það ekki í raun. Fast­sett mark­mið Íslands er kolefn­is­hlut­leysi árið 2040 en það á ennþá eftir að skil­greina hvað kolefn­is­hlut­leysi þýðir í lög­unum og það er ekki búið að setja fram veg­ferð­ina sem á að leggja upp í til að ná þessu mark­miði. Það er ekki búið að upp­færa aðgerða­á­ætlun í sam­ræmi við þetta mark­mið. Það er ekki búið að skil­greina nákvæma pró­sentu­tölu í lands­fram­lagi Íslands í sam­vinnu við Evr­ópu­sam­band­ið. Þannig að í raun er mjög lítið hægt að segja um hvað íslensk stjórn­völd ætla að gera í lofts­lags­málum eins og er.“

Þannig að mark­miðið hefur verið sett fram en ekki hvernig við ætlum að ná því?

„Já. Það er mikið talað en lítið gert.“

Af hverju held­urðu að það sé?

„Það er spurn­ingin sem við erum öll að spyrja okk­ur. Ég held að ein skýr­ingin sé ágrein­ingur milli þeirra flokka sem eru í rík­is­stjórn. Ef flokk­arnir væru meira sam­mála um hvað þarf að gera þá yrðu mark­miðin örugg­lega metn­að­ar­fyllri og aðgerð­irnar miklu meira áber­andi og í takti við þau mark­mið sem búið er að setja.

En kannski felst skýr­ingin líka í þrýst­ingi að utan, frá fyr­ir­tækjum eða öðrum aðil­um.

Það er mjög erfitt að segja nákvæm­lega hvað skýrir þetta metn­að­ar­leysi og okk­ur, sem höfum verið að kalla eftir þessu lengi, finnst þetta skrítin staða.“

Finnur Ricart.

En hvað ættu stjórn­völd að gera að þínu mati?

„Ís­land er rík þjóð miðað við flestar aðrar í heim­in­um. Við erum hepp­in, ef þannig má að orði kom­ast, að vera á stað á jörð­inni þar sem lofts­lags­breyt­ingar bitna minna á fólki en ann­ars staðar eins og komið er. Þær eru þó að koma í ljós hér, sjór­inn er að súrna sem mun hafa áhrif á fiski­stofna og úrkomu­á­kefð er að aukast með til­heyr­andi skriðu­föll­um.

Það sem íslensk stjórn­völd þurfa að átta sig á er að við erum í for­rétt­inda­stöðu. Og það þýðir að við erum í bestu mögu­legu stöðu til að grípa til rót­tækra aðgerða. Við getum lagt meira af mörkum til að leysa þennan hnatt­ræna vanda.

Losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda á hvern ein­stak­ling hér á landi er ein sú mesta í Evr­ópu og þar af leið­andi í heim­inum öll­um. Þess vegna erum við hlut­falls­lega að hafa mikil áhrif til ham­fara­hlýn­un­ar. Það mun bitna á mörgum á vondan hátt. Sið­ferð­is­lega ætti Ísland því að vera að gera miklu, miklu meira.“

Við ættum sem sagt ekki að ganga jafn­langt og aðrar þjóðir heldur lengra að þínu mati?

„Já, af því að við höfum getu til þess. Í svona sam­eig­in­legu neyð­ar­á­standi þurfum við öll að átta okkur á hvaða ábyrgð við á Íslandi ber­um. Og Ísland ber meiri sið­ferð­is­lega ábyrgð en efna­minni lönd.“

Eftir því hefur verið kallað að íslensk stjórn­völd lýsi yfir neyð­ar­á­standi vegna ham­fara­hlýn­un­ar. Tekur þú undir það ákall eða breytir það engu ef áætl­anir til að bregð­ast við eru ekki til stað­ar?

„Þegar við höfum þrýst á stjórn­völd að lýsa yfir neyð­ar­á­standi hefur það einmitt verið sagt að það breyti engu vegna þess að aðgerða­á­ætl­anir vanti hvort eð er. En það skiptir mjög miku máli að svona yfir­lýs­ing komi, að stjórn­völd lýsi form­lega yfir neyð­ar­á­standi í lofts­lags­mál­um. Því það mun svo lita aðgerð­irnar og öll við­brögð.

Þegar neyð­ar­á­standi er lýst yfir þurfa allar ákvarð­anir stjórn­valda að miða að því að losa okkur undan því. Það þarf að útfæra í hverju neyð­ar­á­standið fellst og hvernig eigi að bregð­ast við. Þetta þekkjum við vel úr far­aldr­in­um. Það hefði ekki verið lýst yfir neyð­ar­á­standi ef engar aðgerðir hefðu fylgt til að leysa vand­ann sem skap­að­ist.

Að lýsa yfir neyð­ar­á­standi er fyrsta skrefið í að upp­lýsa almenn­ing um alvar­lega stöðu sem upp er komin sem allir þurfa í sam­ein­ingu að fást við. En af því að það er ekki gert þá eru enn margir sem átta sig ekki á því hversu alvar­legt ástandið í raun og veru er og hvaða áhrif það hefur haft og mun hafa.

Fólk er ef til vill hrætt við að við­ur­kenna að ástandið sé þegar orðið frekar slæmt og þar af leið­andi hrætt við það sem þarf að gera. Það gæti þurft að ráð­ast í aðgerðir sem sumum gæti þótt erfitt að kyngja en þær verða alltaf stærri og dýr­ari eftir því sem við bíðum lengur með þær.“

Landrof vegna hækkandi sjávarborðs ógnar mörgum samfélögum í Líberíu. Fátæktarhverfin í höfuðborginni Monróvíu eru á þeim slóðum þar sem landrofið, sem rakið er til loftslagsbreytinga, er hvað mest.
EPA

Rökin á móti rót­tækum aðgerðum eru oft einmitt þau að hér þurfi að halda uppi hag­vexti og almennri vel­sæld. Ótt­ast þú ekki að kreppa muni hljót­ast af því að taka þessi mál fast­ari tök­um?

„Nei, alls ekki. Sú kreppa kemur þegar áhrif lofts­lags­breyt­inga verða orðin alvar­legri. Þá fyrst förum við að sjá ham­farir sem munu valda fjár­hags­legu tapi. Það að ráð­ast í lofts­lags­að­gerðir núna er miklu, miklu ódýr­ara og mun borga sig marg­falt miðað við aðgerða­leysi. Og svo er spurn­ing hvort pen­ingar eigi að ráða för þegar manns­líf eru í hættu.

Síðan hafa lofts­lags­að­gerðir líka marg­vís­leg jákvæð marg­feld­is­á­hrif, til dæmis á heilsu fólks.“

Finnur Ricart: Það er mjög skiljanlegt að loftslagið hafi fengið mikla athygli í umhverfismálunum. En það má ekki líta á loftslagsmál sem eitthvað einangrað fyrirbæri. Þetta snýst allt um náttúruna.

Í lofts­lags­um­ræð­unni á Íslandi er orku­skiptum haldið hátt á lofti en að þá þurfi að virkja meira. Hvað segir þú um það?

„Orku­skiptin eru mik­il­væg en þau munu ein og sér ekki minnka losun Íslands nægi­lega mik­ið. Það er alls ekki rétt að það þurfi að virkja meira til orku­skipt­anna. Það er til feyki nóg af raf­magni á Íslandi. Um 80 pró­sent af því raf­magni sem er fram­leitt fer til stór­iðju. Orku­tap verður einnig í flutn­ingi raf­orkunnar sem mæti bæta. Til að raf­væða allan bíla­flot­ann á Íslandi þyrfti 8 pró­sent af því raf­magni sem fram­leitt er í dag. Við þurfum að huga betur að því í hvað raf­orkan fer og hvernig henni er dreift.

Lofts­lag er bara ein breyta í heil­brigði líf­rík­is­ins á jörð­inni. Önnur stór breyta er líf­fræði­legur fjöl­breyti­leiki. Hann er jafn­mik­il­vægur og heil­brigt lofts­lag. Þannig að ef við fórnum líf­fræði­legum fjöl­breyti­leika til að bjarga lofts­lag­inu þá erum við bara að færa vand­ann til. Að virkja meira og eyði­leggja vist­kerfi til að bjarga lofts­lag­inu gengur ekki upp.

Það er mjög skilj­an­legt að lofts­lagið hafi fengið mikla athygli í umhverf­is­mál­un­um. En það má ekki líta á lofts­lags­mál sem eitt­hvað ein­angrað fyr­ir­bæri. Þetta snýst allt um nátt­úr­una. Lofts­lags­breyt­ingar verða vegna þess að við höfum raskað ákveðnum hringrásum og jafn­vægi í líf­fræði­legum og nátt­úru­legum ferlum jarð­ar­inn­ar.“

Ertu bjart­sýnn á að íslensk stjórn­völd taki á þessum málum eins og til þarf og þá með þessa þætti um líf­ríkið sem þú nefndir í huga?

„Að takast á við vand­ann er vel mögu­legt. Nýjasta skýrsla milli­ríkja­nefndar Sam­ein­uðu þjóð­anna um lofts­lags­breyt­ingar sýnir fram á það. Glugg­inn er ennþá opinn til að fara í þær aðgerðir sem við þurfum til að halda okkur innan við mark­mið Par­ís­ar­sátt­mál­ans sem er að halda hlýnun innan við 1,5 gráðu.

En er ég bjart­sýnn á að það verði gert? Svar mitt við því er að eina sem ég á eftir er von­in. Svo er það spurn­ing hvort að þessi von eigi við rök að styðj­ast eða hvort að hug­ar­far mitt sé of bjart­sýnt. En ég ætla að leyfa mér að halda í von­ina. Ef ég hef hana ekki þá er ekk­ert eft­ir.“

En skiptir fram­lag Íslands raun­veru­lega máli í stóru mynd­inni fyrir alla jörð­ina?

„Já, það skiptir gríð­ar­lega miklu máli. Hver komma, hver 0,01 gráða skiptir máli þegar kemur að hlýn­un. Losun Íslands er ef til vill lítil miðað við losun alls heims­ins en það er einmitt það sem við ættum að nýta okk­ur. Við ættum að leyfa okkur að setja metn­að­ar­fyllri mark­mið en önnur lönd og sýna for­dæmi. Við ættum að sýna að við viljum vera fremst, í far­ar­broddi í lofts­lags­að­gerðum á heims­vísu.

Þótt þetta sé eflaust vilji margra stjórn­mála­manna þá hefur ekk­ert verið gert til að stuðla að því að við séum þessi fyr­ir­mynd. Öll hin Norð­ur­löndin hafa sett sér metn­að­ar­fyllri mark­mið en Ísland og eru með skýr­ari sýn á það hvernig þau ætli að ná þeim. Ísland er því eft­ir­bátur þeirra í þessum efn­um.“

Við þurfum að velta fyrir okkur gildum okkar, segir Finnur. Hamingjan verður ekki keypt. Ekki einu sinni á útsölu.
EPA

Hvaða aðgerðir ættum við að fara strax í að þínu mati? Getur þú nefnt til dæmis þrjár?

„End­ur­heimt vot­lendis það er það mesta og að sama skapi það auð­veldasta sem við getum gert til að draga úr los­un. Þar sem þetta er gríð­ar­stór los­un­ar­þáttur á Íslandi ætti áherslan á þetta atriði að liggja í augum uppi.

End­ur­heimt

End­ur­heimtin er hafin en hún gengur hægt, lík­lega vegna þess að mikið af fram­ræstu vot­lendi er í einka­eigu. Það vantar vilja hjá land­eig­endum til að starfa með Vot­lend­is­sjóði og Land­græðsl­unni til að end­ur­heimta. Fjár­mun­irnir eru til staðar en það vantar betra fyr­ir­komu­lag til að fá fleiri land­eig­endur að borð­inu. Það þarf við­horfs­breyt­ingu og hún verður ekki nema að fólk fái réttar upp­lýs­ingar og geri sér grein fyrir stöð­unni og ávinn­ingn­um. Þetta eigum við ekki aðeins að gera fyrir lofts­lagið heldur líka til að end­ur­heimta og við­halda líf­fræði­legum fjöl­breyti­leika. Vot­lendi eru mik­il­væg vist­kerfi sem hefur verið rask­að.

Skipu­lag

Í öðru lagi langar mig að nefna skipu­lags­mál. Hvernig borgin okkar og bæir eru hann­að­ir. Núna er Reykja­vík­ur­borg að miklu leyti hönnuð fyrir bíla. Það er sá raun­veru­leiki sem við erum föst í núna. En við þurfum að skapa okkur fram­sækna sýn á það hvernig við viljum sjá borg­ina okkar og sam­fé­lagið þró­ast til fram­tíð­ar. Við gætum kom­ist að því að við viljum fleiri göngu­göt­ur, miklu betri almenn­ings­sam­göngur og færri bíla. Að þjón­usta fær­ist nær íbú­um, komi aftur inn í hverf­in. Með þessu væri hægt að draga úr losun frá sam­göngum og á sama tíma efla heilsu fólks og almenn lífs­gæði.

Neysla

Og í þriðja lagi ætla ég að nefna það sem ég hef mik­inn áhuga á og það er neysla. Í mínum huga á lofts­lags­vand­inn að miklu leyti rætur í gildum vest­ræns sam­fé­lags. Þá er ég ekki endi­lega bara að tala um kap­ít­al­isma heldur þá mæli­kvarða sem við setjum á það að vera mann­eskj­ur. Í því sam­bandi finnst mér mik­il­vægt að allri ábyrgð­inni sé ekki varpað á neyt­end­ur.

Það þurfa að verða breyt­ingar á gildum og neyslu­háttum í íslensku sam­fé­lagi. Að við hverfum frá því að finn­ast ham­ingjan fel­ast í því að kaupa nýja hluti sem svo enda í rusl­inu. Það þarf ekki að gefa eitt­hvað dót í jóla­gjöf. Það er hægt að gefa upp­lifun, fara saman í leik­hús eða á tón­leika svo dæmi sé tek­ið. Svona upp­lif­anir skapa yfir­leitt mun meiri og dýpri ham­ingju en það að eign­ast nýjan hlut.

Það má end­ur­skoða gildi sín. Að velta fyrir sér hvað manni finnst virki­lega mik­il­vægt í líf­inu. Far­ald­ur­inn var mörgum mjög erf­iður en á sama tíma fengum við mörg tæki­færi til að staldra við og hugsa og átta okkur á hvað okkur finnst virki­lega gef­andi og skemmti­legt í líf­inu. Þar sem sam­fé­lagið breytt­ist og er í mótun eftir far­ald­ur­inn er það mót­tæki­legra fyrir frek­ari breyt­ing­um. Fólk er mót­tæki­legra núna fyrir aðgerðum sem ráð­ast þarf í vegna lofts­lags­breyt­inga en fyrir far­ald­ur­inn. En þetta tæki­færi er alls ekki verið að grípa nógu vel.“

EPA

Hvers væntir þú að lofts­lags­ráð­stefnan í Glas­gow skili?

„Ég er enn að velta því fyrir mér hversu svart­sýnn eða bjart­sýnn ég eigi á að vera. Ég er til dæmis nokkuð bjart­sýnn á að ákveðið verði að setja meiri metnað í fjár­veit­ingar efna­meiri ríkja til þeirra efna­minni líkt og rætt hefur verið um á tveimur síð­ustu COP-ráð­stefnum en hefur ekki verið efnt.

Hvað varðar almenn mark­mið um sam­drátt í losun ríkja þá er ég með mis­miklar vænt­ingar eftir ríkj­um. Í heild þá ætla ég að leyfa mér að vera mátu­lega bjart­sýnn í bili þótt ég vilji auð­vitað sjá sem besta útkomu.“

Finnur Ricart: Það má endurskoða gildi sín. Að velta fyrir sér hvað manni finnst virkilega mikilvægt í lífinu. Faraldurinn var mörgum mjög erfiður en á sama tíma fengum við mörg tækifæri til að staldra við og hugsa og átta okkur á hvað okkur finnst virkilega gefandi og skemmtilegt í lífinu. Mynd: Aidan Meekin

Hall­dór Þor­geirs­son for­maður Lofts­lags­ráðs sagði í við­tali nýverið að Ísland myndi skila auðu á ráð­stefn­unni þegar kæmi að okkar fram­tíð­ar­sýn. Ertu sam­mála því?

„Já, því að íslensk stjórn­völd hafa lítið skil­greint hvað þau ætli að gera til að ná mark­mið­um. Þau stefna á kolefn­is­hlut­leysi 2040 sem eng­inn veit hvað þýðir og hvernig eigi að ná því. Hvað varðar upp­fært lands­fram­lag Íslands til lofts­lags­samn­ings­ins í sam­floti með Evr­ópu­sam­band­inu þá eru þau mark­mið langt frá því að vera nægi­lega metn­að­ar­full. Við erum efnað ríki í for­rétt­inda­stöðu og við eigum að gera miklu meira. Það er því mikið til í því sem Hall­dór sagði.

Ég sé ekki fyrir mér hvað Ísland ætlar að koma með nýtt að borð­inu. Við ættum að segja að nú munum við taka þessu alvar­lega og gera eins og hin Norð­ur­löndin hafa gert og setja okkur sjálf­stætt mark­mið. En ég sé því miður ekki fyrir mér að það verði gert.

Ef Ísland getur verið fyr­ir­mynd í jafn­rétt­is­málum getur það vel orðið fyr­ir­mynd­ar­land þegar kemur að sam­drætti í losun og lofts­lags­að­gerð­um, sem er í raun líka mikið jafn­rétt­is­mál.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal