Mynd: Birgir Þór Harðarson

Rafbílar, skógrækt, kýr sem borða þara, færri álver og fleiri vegan

Í skýrslu Íslands til COP26 eru dregnar upp fimm mismunandi sviðsmyndir um leið Íslands til kolefnishlutleysis árið 2040, sem byggja á samráði við almenning. Þar kennir ýmissa grasa. Í einni sviðsmynd er grænn iðnaður af ýmsu tagi búinn að leysa álverin af hólmi og kjötneysla hefur dregist verulega saman hjá landsmönnum.

Íslensk stjórn­völd skil­uðu í gær skýrslu sinni um lang­tíma­á­ætlun í loft­lags­málum til Lofts­lags­samn­ings Sam­ein­uðu þjóð­anna (UN­FCCC) í aðdrag­anda COP26, lofts­lags­fundar Sam­ein­uðu þjóð­anna, sem hefst í Glas­gow í Skotlandi á næstu dög­um.

Eins og ef til vill við­búið var eru engin stór­tíð­indi í þess­ari skýrslu, heldur geymir skýrslan sam­an­tekt um þegar yfir­lýst mark­mið Íslands í lofts­lags­málum og þá hluti sem stjórn­völd hafa verið að vinna að und­an­farin ár.

Það sem helst vekur athygli er að í skýrsl­unni eru kynntar nið­ur­stöður grein­ing­ar­verk­efnis rann­sókn­ar­hóps vís­inda­manna við HÍ og HR, sem byggði á sam­ráðs­rann­sókn Félags­vís­inda­stofn­unar HÍ við almenn­ing um leiðir í átt að kolefn­is­hlut­leysi eigi síðar en 2040.

Gerð er grein fyrir fimm mis­mun­andi sviðs­myndum um þróun sam­fé­lags­ins og rýnt í áhrif þeirra á losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda og bind­ingu kolefnis fram til árs­ins 2040.

Tekið er skýrt fram í skýrsl­unni að ekki sé búið að afmarka neina af þessum leiðum af hálfu stjórn­valda, heldur er sviðs­mynd­unum ætlað að „nýt­ast við áfram­hald­andi stefnu­mótun á mál­efna­svið­inu þar sem þær sýna að Ísland getur náð kolefn­is­hlut­leysi eigi síðar en 2040,“ svo vitnað sé í frétta­til­kynn­ingu frá umhverf­is- og auð­linda­ráðu­neyt­inu.

Sviðs­mynd­irnar fimm

Í kjöl­far sam­ráðs Félags­vís­inda­stofn­unar við almenn­ing um leiðir fram á við í lofts­lags­málum var því sem þar kom fram varpað upp í tvo ása, annar ásinn spannar sviðið frá litlum kerf­is­breyt­ingum til mik­illa og hinn ásinn fer frá tækni­lausnum til nátt­úru­lausna.

  • Sviðs­mynd A byggir á tækni­lausnum og engum kerf­is­breyt­ing­um.
  • Sviðs­mynd B byggir á nátt­úru­lausnum og engum kerf­is­breyt­ing­um.
  • Sviðs­mynd C byggir á tækni­lausnum og miklum kerf­is­breyt­ing­um.
  • Sviðs­mynd D byggir á nátt­úru­lausnum og miklum kerf­is­breyt­ing­um.

Þessar sviðs­myndir „byggja á ýktu safni for­senda þar sem lögð er ofurá­hersla á til­teknar áherslur til að draga fram með skýrum hætti virkni mis­mun­andi nálgana“ í átt að kolefn­is­hlut­leysi. Þeim til við­bótar er svo kynnt fimmta sviðs­myndin (E), sem end­ur­speglar bland­aða leið tækni­lausna, nátt­úru­lausna og kerf­is­breyt­inga.

Í skýrslunni eru dregnar upp nokkrar mismunandi myndir af því hvaða áhrif sviðsmyndirnar hafa á losun Íslands. Hér, að meðtalinni losun vegna lands og landnýtingar.
Úr skýrslu stjórnvalda

Sem áður segir skila allar þessar fimm sviðs­myndir því að Ísland verði kolefn­is­hlut­laust árið 2040, sam­kvæmt því sem í skýrsl­unni seg­ir, þó tekið sé fram að óvissu­þættir varð­andi losun vegna lands og land­nýt­ingar séu ýms­ir. En hvað felst í þessum sviðs­myndum og hvers­konar sam­fé­lag hefur teikn­ast upp á Íslandi árið 2040 sam­kvæmt þeim?

A – Stór­iðju­stoðin sterk og neyslan breyt­ist ekk­ert – en orku­skipti

Í sviðs­mynd A, sem byggir á tækni­lausnum án kerf­is­breyt­inga, er þeirri mynd varpað upp að helstu stoðir hag­kerf­is­ins séu stór­iðja, sjáv­ar­út­vegur á stórum skala og túrismi. Sjálf­bær nyt end­ur­nýj­an­legra orku­gjafa er grunn­ur­inn að því að áfram verði hægt að byggja á stór­iðju og raf­væða sam­göng­ur.

Gengið er út frá því í þess­ari sviðs­mynd að hag­vöxtur verði mik­ill og fólks­fjölgun sömu­leið­is. Neysla verður einnig mik­il, sem leiðir til þess að úrgangur verður mik­ill. Ferða­þörf er mikil og fólk vill helst ferð­ast á sínu einkafar­ar­tæki. Land­bún­aður er um allt land, en með­al­stærð búa hefur auk­ist. Áfram vilja flestir borða dýra­af­urð­ir.

Álverið í Straumsvík.
Rio Tinto

Í þess­ari sviðs­mynd eru það tækni­lausn­irnar sem hafa stuðlað að því að kolefn­is­hlut­leysi næst árið 2040. Sam­göngur á landi reiða sig alfarið á raf­magn, vetni eða annað líf­elds­neyti, á meðan að flug­geir­inn og sam­göngur á sjó reiða sig enn að mestu á jarð­efna­elds­neyti.

Íslenski fisk­veiði­flot­inn er í þess­ari sviðs­mynd hins vegar búinn að skipta yfir í vist­vænt elds­neyti. Útblástur frá stór­iðju er að fullu gleyptur til baka úr and­rúms­loft­inu og líf­rænn úrgangur er allur moltaður eða breytt í gas. Mykja úr land­bún­aði er nýtt til að fram­leiða met­an. Lítil áhersla hefur verið lögð á bind­ingu koltví­oxíðs í þess­ari sviðs­mynd.

B – Græðum upp Ísland með stór­iðj­una í gangi

Þessi sviðs­mynd byggir á nátt­úru­lausnum án kerf­is­breyt­inga. Íslenska hag­kerfið byggir helst á stoðum stór­iðju, sjáv­ar­út­vegs og túrisma. Rétt eins og í sviðs­mynd A er gert ráð fyrir að nýt­ing orku­auð­linda sé grunn­ur­inn að áfram­hald­andi stór­iðju og raf­væð­ingu léttra sam­gangna og sömu­leiðis er gengið út frá því að neysla verði mik­il, úrgangur sömu­leiðis og hag­vöxtur og fólk­fjölgun einnig.

Hér eru það hins vegar svo­kall­aðar nátt­úru­lausnir sem hafa tryggt kolefn­is­hlut­laust Ísland. Þarna erum við að tala um umfangs­mikla kolefn­is­bind­ingu með skóg­rækt og upp­græðslu lands, auk þess sem búið er að moka ofan í gríð­ar­marga skurði og end­ur­heimta vot­lendi. Allur líf­rænn úrgangur er moltaður eða breytt í gas.

Sam­göngur á landi reiða sig á raf­magn eða líf­elds­neyti, en ein­ungis lít­ill hluti flug- og sjó­sam­gangna hefur skipt yfir í lág­kolefn­is­lausn­ir. Sjáv­ar­út­veg­ur­inn hins­vegar reiðir sig á raf­magn og líf­elds­neyti og land­bún­að­ur­inn notar áburð á hag­kvæm­ari hátt. Auk þess hefur sam­setn­ing skepnu­fóð­urs breyst, sjáv­ar­þang er nú á boðstólum í fjósum lands­ins, sem skilar sér í minni met­an-út­blæstri naut­gripa.

C – Hringrás­ar­sam­fé­lag og grænn iðn­aður í stað helm­ings álvera

Íslenska sam­fé­lagið sem dregið er fram í sviðs­mynd C hefur náð kolefn­is­hlut­leysi með sam­spili tækni­lausna og kerf­is­breyt­inga. Þetta er sjálf­bært hátækni­sam­fé­lag og fjöl­breytt hringrás­ar­sam­fé­lag sem er með­vitað um lofts­lags­mál.

Sjálf­bær nýt­ing end­ur­nýj­an­legra orku­gjafa styður við grænan iðnað og raf­væddar sam­göng­ur. Hag­kerfið reiðir sig á fjöl­breyttan grænan iðnað sem er kom­inn í stað­inn fyrir helm­ing­inn af álver­unum sem starfa í dag. Þetta eru auk ann­ars gagna­ver og hátækni­garð­yrkja. Sjáv­ar­út­vegur og túrismi eru enn mik­il­vægar stoðir undir efna­hag lands­ins.

Gagnaver og annar grænn iðnaður leysir helming stóriðju af hólmi í sviðsmynd C.
Etix

Bæði fólks­fjölgun og hag­vöxtur eru í þess­ari sviðs­mynd í með­al­lagi há. Neysla hefur orðið hóf­sam­ari, fólk leggur meira upp úr end­ing­ar­tíma hluta og grænum lausn­um. Úrgangur er minni en í sviðs­myndum A og B og ferða­þörf sömu­leið­is, auk þess sem áhersla á almenn­ings­sam­göngur og virka ferða­máta hefur auk­ist.

Mat­ar­venjur hafa breyst og eft­ir­spurn eftir græn­met­is­fæði auk­ist. Land­bún­aður með skepnur á sér stað um allt land, en eft­ir­spurn eftir lamba- og nauta­kjöti hefur dreg­ist saman og fram­leiðslan því hóf­leg. Færri kindur og naut­gripir eru í land­inu en í dag.

Þarna spila tækni­lausnir saman við kerf­is­breyt­ingar eins og breyttar neyslu­venjur til þess að ná kolefn­is­hlut­leysi fyrir 2040. Rétt eins og í sviðs­myndum A og B reiða sam­göngur á landi sig á raf­magn eða líf­elds­neyti, en ein­ungis lít­ill hluti flug- og sjó­sam­gangna hefur skipt yfir í lág­kolefn­is­lausn­ir. Sjáv­ar­út­veg­ur­inn reiðir sig á raf­magn og líf­elds­neyti og notar einnig létt­ari veið­ar­færi, sem sparar orku.

Útblástur frá þeirri stór­iðju sem er eftir í land­inu er gleyptur og ýmist dælt niður í berg eða not­aður til fram­leiðslu líf­elds­neyt­is. Færri skepnur er í land­bún­aði og mykjan er betur nýtt. Allur líf­rænn úrgangur er ýmist moltaður eða breytt í gas. Minni áhersla er á kolefna­bind­ingu og er það bara gert til hlið­ar, til þess að klára veg­ferð­ina að kolefn­is­hlut­leysi.

D - Ekki eitt ein­asta álver á Íslandi – en mjög margir græn­kerar

Í sviðs­mynd D hefur áhersla verið lögð á bæði nátt­úru­lausnir og kerf­is­breyt­ing­ar. Hér er íslenskt sam­fé­lag sem er fjöl­breytt hringrás­ar­sam­fé­lag, með­vitað um lofts­lagið og tekur höndum saman um lausnir í nærum­hverf­inu. Sjálf­bær nýt­ing orku­auð­linda styður við raf­væddar sam­göngur og grænan iðn­að, sem kemur að fullu í stað álvera í þess­ari sviðs­mynd.

Skógrækt og uppgræðsla er ríkur þáttur í leið Íslands að kolefnishlutleysi í sviðsmyndum B og D.
Náttúrufræðistofnun

Efna­hagur Íslands reiðir sig á fjöl­breyttan grænan iðn­að, sjáv­ar­út­veg á minni skala en í dag, minni bónda­bæi um landið og túrisma. Hér er til­tölu­lega lít­ill hag­vöxtur og fólks­fjölgun í sam­an­burði við aðrar sviðs­mynd­ir.

Einka­neysla er minni, aukin áhersla er á end­ing­ar­tíma þeirra hluta sem eru keyptir og grænar lausnir, helst úr hér­aði. Úrgangur hefur dreg­ist mikið sam­an, þar á meðal mat­ar­só­un. Ferða­þörf hefur minnk­að, með stór­auknum áherslum á almenn­ings­sam­göngur og virka ferða­máta.

Mat­ar­venjur Íslend­inga eru gjör­breyttar og eft­ir­spurn eftir plöntu­fæði sem helst er fram­leitt á Íslandi hefur auk­ist. Land­bún­aði hefur verið umbreytt, með smærri bónda­býlum um landið og minnk­andi áherslu á skepnu­ræktun vegna breyt­inga á fæðu­vali land­ans. Það eru því mun færri kýr og naut­gripir í land­inu.

Nátt­úru­lausnir og kerf­is­breyt­ingar af því tagi sem hér er lýst hafa tryggt kolefn­is­hlut­leysi, þar á meðal mikil áhersla á kolefn­is­bind­ingu í gegnum upp­græðslu og skóg­rækt, auk end­ur­heimtar vot­lend­is. Allur líf­rænn úrgangur er moltaður eða breytt í gas.

Breyttar ferða­venj­ur, með auknum almenn­ings­sam­göng­um, minnka heildar ferða­þörf­ina. Sam­göngur á landi reiða sig á raf­magn eða líf­elds­neyti, en flug­brans­inn og flutn­ingar á sjó eru ein­ungis að hluta komin í vist­vænar lausn­ir. Sjáv­ar­út­veg­ur­inn er eins og í öðrum lausnum byrj­aður að keyra á vist­vænu elds­neyti og raf­magni, auk þess sem létt­ari veið­ar­færi sem nota minni orku eru not­uð. Áburður er not­aður með hag­kvæm­ari hætti og sjáv­ar­þangið í fjós­unum tryggir minni metanút­blástur vegna iðra­gerj­unar – auk þess sem skepn­urnar eru færri.

E – Hóf­söm blanda af öllu að ofan

Í síð­ustu sviðs­mynd­inni sem teiknuð eru upp í skýrsl­unni, sviðs­mynd E, er tækni- og nátt­úru­lausnum blandað saman við kerf­is­breyt­ing­ar. Hér er reynt að feta ein­hvern milli­veg á milli þeirra ýktu þátta sem settir eru fram í hverri af hinum sviðs­mynd­un­um.

Í þess­ari sviðs­mynd er Ísland opið iðn­að­ar- og hátækni­sam­fé­lag sem styðst við stór­iðju, sjáv­ar­út­veg á stórum skala og túrisma. Kolefn­is­hlut­leysi hefur verið náð með blöndu af tækni- og nátt­úru­lausnum, auk nokk­urra kerf­is­breyt­inga. Hag­vöxtur er í með­al­lagi hár og fólks­fjölgun í með­al­lagi kröft­ug.

Ferða­þörf hefur aukist, en almenn­ings­sam­göngur og virkir ferða­máta hafa aukið vægi. Í mat­ar­vali hafa Íslend­ingar færst í átt­ina að plöntu­mið­aðra fæði, en ekki með jafn afger­andi hætti og í sviðs­myndum C og D.

Sam­göngur eru keyrðar áfram með svip­uðum hætti og í hinum sviðs­mynd­un­um. Kolefn­is­bind­ing og end­ur­heimt vot­lendis vega inn til hliðar við tækni­lausnir, svo Ísland verði kolefn­is­hlut­laust fyrir 2040.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar