Stefna íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum gengur alls ekki nógu langt og Ísland er eftirbátur annarra Norðurlanda í þessum efnum. Stjórnvöld segja markmiðin metnaðarfull en þau eru það ekki í raun. Hið umtalaða kolefnishlutleysi landsins árið 2040 er illa skilgreint og leiðin að því í besta falli óskýr.
Þetta segir Finnur Ricart sem verður fulltrúi ungmenna í íslensku sendinefndinni á loftslagsráðstefnunni COP26 í Glasgow. Til hennar fer hann með rútu og lest. Ferðalagið hefst í Utrecht í Hollandi þar sem Finnur stundar nám í hnattrænum sjálfbærnivísindum.
Umhverfismál hafa brunnið lengi á Finni. Hann byrjaði að láta til sín taka í málaflokknum er hann var í menntaskóla í Genf í Sviss árið 2018. Þar stofnaði hann umhverfisráð þar sem áhersla var m.a. lögð á flokkun sorps, bíllausan lífsstíl og fleira af því tagi.
Spurður hvað hafi kveikt áhuga hans á loftslagsmálum segist hann oft hafa velt því fyrir sér og komist að þeirri niðurstöðu að það tengist áhuga hans á vísindum frá unga aldri. „Ég hef alltaf sökkt mér í vísindatímarit og einnig almennar fréttir og það fór að renna upp fyrir mér að umhverfismálin væru eitthvað sem þyrfti að taka alvarlega og að ég vildi leggja mitt lóð á þær vogarskálar.“
Finnst þér nógu langt gengið í stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum?
„Nei, alls ekki,“ segir Finnur með áherslu. „Það vantar talsvert upp á hana. Stjórnvöld segja markmiðin vera metnaðarfull en þannig er það ekki í raun. Fastsett markmið Íslands er kolefnishlutleysi árið 2040 en það á ennþá eftir að skilgreina hvað kolefnishlutleysi þýðir í lögunum og það er ekki búið að setja fram vegferðina sem á að leggja upp í til að ná þessu markmiði. Það er ekki búið að uppfæra aðgerðaáætlun í samræmi við þetta markmið. Það er ekki búið að skilgreina nákvæma prósentutölu í landsframlagi Íslands í samvinnu við Evrópusambandið. Þannig að í raun er mjög lítið hægt að segja um hvað íslensk stjórnvöld ætla að gera í loftslagsmálum eins og er.“
Þannig að markmiðið hefur verið sett fram en ekki hvernig við ætlum að ná því?
„Já. Það er mikið talað en lítið gert.“
Af hverju heldurðu að það sé?
„Það er spurningin sem við erum öll að spyrja okkur. Ég held að ein skýringin sé ágreiningur milli þeirra flokka sem eru í ríkisstjórn. Ef flokkarnir væru meira sammála um hvað þarf að gera þá yrðu markmiðin örugglega metnaðarfyllri og aðgerðirnar miklu meira áberandi og í takti við þau markmið sem búið er að setja.
En kannski felst skýringin líka í þrýstingi að utan, frá fyrirtækjum eða öðrum aðilum.
Það er mjög erfitt að segja nákvæmlega hvað skýrir þetta metnaðarleysi og okkur, sem höfum verið að kalla eftir þessu lengi, finnst þetta skrítin staða.“
En hvað ættu stjórnvöld að gera að þínu mati?
„Ísland er rík þjóð miðað við flestar aðrar í heiminum. Við erum heppin, ef þannig má að orði komast, að vera á stað á jörðinni þar sem loftslagsbreytingar bitna minna á fólki en annars staðar eins og komið er. Þær eru þó að koma í ljós hér, sjórinn er að súrna sem mun hafa áhrif á fiskistofna og úrkomuákefð er að aukast með tilheyrandi skriðuföllum.
Það sem íslensk stjórnvöld þurfa að átta sig á er að við erum í forréttindastöðu. Og það þýðir að við erum í bestu mögulegu stöðu til að grípa til róttækra aðgerða. Við getum lagt meira af mörkum til að leysa þennan hnattræna vanda.
Losun gróðurhúsalofttegunda á hvern einstakling hér á landi er ein sú mesta í Evrópu og þar af leiðandi í heiminum öllum. Þess vegna erum við hlutfallslega að hafa mikil áhrif til hamfarahlýnunar. Það mun bitna á mörgum á vondan hátt. Siðferðislega ætti Ísland því að vera að gera miklu, miklu meira.“
Við ættum sem sagt ekki að ganga jafnlangt og aðrar þjóðir heldur lengra að þínu mati?
„Já, af því að við höfum getu til þess. Í svona sameiginlegu neyðarástandi þurfum við öll að átta okkur á hvaða ábyrgð við á Íslandi berum. Og Ísland ber meiri siðferðislega ábyrgð en efnaminni lönd.“
Eftir því hefur verið kallað að íslensk stjórnvöld lýsi yfir neyðarástandi vegna hamfarahlýnunar. Tekur þú undir það ákall eða breytir það engu ef áætlanir til að bregðast við eru ekki til staðar?
„Þegar við höfum þrýst á stjórnvöld að lýsa yfir neyðarástandi hefur það einmitt verið sagt að það breyti engu vegna þess að aðgerðaáætlanir vanti hvort eð er. En það skiptir mjög miku máli að svona yfirlýsing komi, að stjórnvöld lýsi formlega yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Því það mun svo lita aðgerðirnar og öll viðbrögð.
Þegar neyðarástandi er lýst yfir þurfa allar ákvarðanir stjórnvalda að miða að því að losa okkur undan því. Það þarf að útfæra í hverju neyðarástandið fellst og hvernig eigi að bregðast við. Þetta þekkjum við vel úr faraldrinum. Það hefði ekki verið lýst yfir neyðarástandi ef engar aðgerðir hefðu fylgt til að leysa vandann sem skapaðist.
Að lýsa yfir neyðarástandi er fyrsta skrefið í að upplýsa almenning um alvarlega stöðu sem upp er komin sem allir þurfa í sameiningu að fást við. En af því að það er ekki gert þá eru enn margir sem átta sig ekki á því hversu alvarlegt ástandið í raun og veru er og hvaða áhrif það hefur haft og mun hafa.
Fólk er ef til vill hrætt við að viðurkenna að ástandið sé þegar orðið frekar slæmt og þar af leiðandi hrætt við það sem þarf að gera. Það gæti þurft að ráðast í aðgerðir sem sumum gæti þótt erfitt að kyngja en þær verða alltaf stærri og dýrari eftir því sem við bíðum lengur með þær.“
Rökin á móti róttækum aðgerðum eru oft einmitt þau að hér þurfi að halda uppi hagvexti og almennri velsæld. Óttast þú ekki að kreppa muni hljótast af því að taka þessi mál fastari tökum?
„Nei, alls ekki. Sú kreppa kemur þegar áhrif loftslagsbreytinga verða orðin alvarlegri. Þá fyrst förum við að sjá hamfarir sem munu valda fjárhagslegu tapi. Það að ráðast í loftslagsaðgerðir núna er miklu, miklu ódýrara og mun borga sig margfalt miðað við aðgerðaleysi. Og svo er spurning hvort peningar eigi að ráða för þegar mannslíf eru í hættu.
Síðan hafa loftslagsaðgerðir líka margvísleg jákvæð margfeldisáhrif, til dæmis á heilsu fólks.“
Í loftslagsumræðunni á Íslandi er orkuskiptum haldið hátt á lofti en að þá þurfi að virkja meira. Hvað segir þú um það?
„Orkuskiptin eru mikilvæg en þau munu ein og sér ekki minnka losun Íslands nægilega mikið. Það er alls ekki rétt að það þurfi að virkja meira til orkuskiptanna. Það er til feyki nóg af rafmagni á Íslandi. Um 80 prósent af því rafmagni sem er framleitt fer til stóriðju. Orkutap verður einnig í flutningi raforkunnar sem mæti bæta. Til að rafvæða allan bílaflotann á Íslandi þyrfti 8 prósent af því rafmagni sem framleitt er í dag. Við þurfum að huga betur að því í hvað raforkan fer og hvernig henni er dreift.
Loftslag er bara ein breyta í heilbrigði lífríkisins á jörðinni. Önnur stór breyta er líffræðilegur fjölbreytileiki. Hann er jafnmikilvægur og heilbrigt loftslag. Þannig að ef við fórnum líffræðilegum fjölbreytileika til að bjarga loftslaginu þá erum við bara að færa vandann til. Að virkja meira og eyðileggja vistkerfi til að bjarga loftslaginu gengur ekki upp.
Það er mjög skiljanlegt að loftslagið hafi fengið mikla athygli í umhverfismálunum. En það má ekki líta á loftslagsmál sem eitthvað einangrað fyrirbæri. Þetta snýst allt um náttúruna. Loftslagsbreytingar verða vegna þess að við höfum raskað ákveðnum hringrásum og jafnvægi í líffræðilegum og náttúrulegum ferlum jarðarinnar.“
Ertu bjartsýnn á að íslensk stjórnvöld taki á þessum málum eins og til þarf og þá með þessa þætti um lífríkið sem þú nefndir í huga?
„Að takast á við vandann er vel mögulegt. Nýjasta skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sýnir fram á það. Glugginn er ennþá opinn til að fara í þær aðgerðir sem við þurfum til að halda okkur innan við markmið Parísarsáttmálans sem er að halda hlýnun innan við 1,5 gráðu.
En er ég bjartsýnn á að það verði gert? Svar mitt við því er að eina sem ég á eftir er vonin. Svo er það spurning hvort að þessi von eigi við rök að styðjast eða hvort að hugarfar mitt sé of bjartsýnt. En ég ætla að leyfa mér að halda í vonina. Ef ég hef hana ekki þá er ekkert eftir.“
En skiptir framlag Íslands raunverulega máli í stóru myndinni fyrir alla jörðina?
„Já, það skiptir gríðarlega miklu máli. Hver komma, hver 0,01 gráða skiptir máli þegar kemur að hlýnun. Losun Íslands er ef til vill lítil miðað við losun alls heimsins en það er einmitt það sem við ættum að nýta okkur. Við ættum að leyfa okkur að setja metnaðarfyllri markmið en önnur lönd og sýna fordæmi. Við ættum að sýna að við viljum vera fremst, í fararbroddi í loftslagsaðgerðum á heimsvísu.
Þótt þetta sé eflaust vilji margra stjórnmálamanna þá hefur ekkert verið gert til að stuðla að því að við séum þessi fyrirmynd. Öll hin Norðurlöndin hafa sett sér metnaðarfyllri markmið en Ísland og eru með skýrari sýn á það hvernig þau ætli að ná þeim. Ísland er því eftirbátur þeirra í þessum efnum.“
Hvaða aðgerðir ættum við að fara strax í að þínu mati? Getur þú nefnt til dæmis þrjár?
„Endurheimt votlendis það er það mesta og að sama skapi það auðveldasta sem við getum gert til að draga úr losun. Þar sem þetta er gríðarstór losunarþáttur á Íslandi ætti áherslan á þetta atriði að liggja í augum uppi.
Endurheimt
Endurheimtin er hafin en hún gengur hægt, líklega vegna þess að mikið af framræstu votlendi er í einkaeigu. Það vantar vilja hjá landeigendum til að starfa með Votlendissjóði og Landgræðslunni til að endurheimta. Fjármunirnir eru til staðar en það vantar betra fyrirkomulag til að fá fleiri landeigendur að borðinu. Það þarf viðhorfsbreytingu og hún verður ekki nema að fólk fái réttar upplýsingar og geri sér grein fyrir stöðunni og ávinningnum. Þetta eigum við ekki aðeins að gera fyrir loftslagið heldur líka til að endurheimta og viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika. Votlendi eru mikilvæg vistkerfi sem hefur verið raskað.
Skipulag
Í öðru lagi langar mig að nefna skipulagsmál. Hvernig borgin okkar og bæir eru hannaðir. Núna er Reykjavíkurborg að miklu leyti hönnuð fyrir bíla. Það er sá raunveruleiki sem við erum föst í núna. En við þurfum að skapa okkur framsækna sýn á það hvernig við viljum sjá borgina okkar og samfélagið þróast til framtíðar. Við gætum komist að því að við viljum fleiri göngugötur, miklu betri almenningssamgöngur og færri bíla. Að þjónusta færist nær íbúum, komi aftur inn í hverfin. Með þessu væri hægt að draga úr losun frá samgöngum og á sama tíma efla heilsu fólks og almenn lífsgæði.
Neysla
Og í þriðja lagi ætla ég að nefna það sem ég hef mikinn áhuga á og það er neysla. Í mínum huga á loftslagsvandinn að miklu leyti rætur í gildum vestræns samfélags. Þá er ég ekki endilega bara að tala um kapítalisma heldur þá mælikvarða sem við setjum á það að vera manneskjur. Í því sambandi finnst mér mikilvægt að allri ábyrgðinni sé ekki varpað á neytendur.
Það þurfa að verða breytingar á gildum og neysluháttum í íslensku samfélagi. Að við hverfum frá því að finnast hamingjan felast í því að kaupa nýja hluti sem svo enda í ruslinu. Það þarf ekki að gefa eitthvað dót í jólagjöf. Það er hægt að gefa upplifun, fara saman í leikhús eða á tónleika svo dæmi sé tekið. Svona upplifanir skapa yfirleitt mun meiri og dýpri hamingju en það að eignast nýjan hlut.
Það má endurskoða gildi sín. Að velta fyrir sér hvað manni finnst virkilega mikilvægt í lífinu. Faraldurinn var mörgum mjög erfiður en á sama tíma fengum við mörg tækifæri til að staldra við og hugsa og átta okkur á hvað okkur finnst virkilega gefandi og skemmtilegt í lífinu. Þar sem samfélagið breyttist og er í mótun eftir faraldurinn er það móttækilegra fyrir frekari breytingum. Fólk er móttækilegra núna fyrir aðgerðum sem ráðast þarf í vegna loftslagsbreytinga en fyrir faraldurinn. En þetta tækifæri er alls ekki verið að grípa nógu vel.“
Hvers væntir þú að loftslagsráðstefnan í Glasgow skili?
„Ég er enn að velta því fyrir mér hversu svartsýnn eða bjartsýnn ég eigi á að vera. Ég er til dæmis nokkuð bjartsýnn á að ákveðið verði að setja meiri metnað í fjárveitingar efnameiri ríkja til þeirra efnaminni líkt og rætt hefur verið um á tveimur síðustu COP-ráðstefnum en hefur ekki verið efnt.
Hvað varðar almenn markmið um samdrátt í losun ríkja þá er ég með mismiklar væntingar eftir ríkjum. Í heild þá ætla ég að leyfa mér að vera mátulega bjartsýnn í bili þótt ég vilji auðvitað sjá sem besta útkomu.“
Halldór Þorgeirsson formaður Loftslagsráðs sagði í viðtali nýverið að Ísland myndi skila auðu á ráðstefnunni þegar kæmi að okkar framtíðarsýn. Ertu sammála því?
„Já, því að íslensk stjórnvöld hafa lítið skilgreint hvað þau ætli að gera til að ná markmiðum. Þau stefna á kolefnishlutleysi 2040 sem enginn veit hvað þýðir og hvernig eigi að ná því. Hvað varðar uppfært landsframlag Íslands til loftslagssamningsins í samfloti með Evrópusambandinu þá eru þau markmið langt frá því að vera nægilega metnaðarfull. Við erum efnað ríki í forréttindastöðu og við eigum að gera miklu meira. Það er því mikið til í því sem Halldór sagði.
Ég sé ekki fyrir mér hvað Ísland ætlar að koma með nýtt að borðinu. Við ættum að segja að nú munum við taka þessu alvarlega og gera eins og hin Norðurlöndin hafa gert og setja okkur sjálfstætt markmið. En ég sé því miður ekki fyrir mér að það verði gert.
Ef Ísland getur verið fyrirmynd í jafnréttismálum getur það vel orðið fyrirmyndarland þegar kemur að samdrætti í losun og loftslagsaðgerðum, sem er í raun líka mikið jafnréttismál.“