Skaði á bringubeinum varphæna „býsna algengur“ á Íslandi
Ganga má út frá því að 85 prósent varphæna hér á landi séu með sprungið eða brotið bringubein rétt eins og frænkur þeirra á dönskum eggjabúum. Alvarleiki meiðslanna er misjafn en ef brotin eru ný og mikil „þá er þetta sárt,“ segir sérgreinadýralæknir hjá MAST. Stærð eggja, „brotlending“ á innréttingum í eldishúsunum og hratt vaxtarskeið getur allt átt sinn þátt í áverkunum sem þekktir hafa verið lengi.
Engar rannsóknir hafa verið gerðar á bringubeinsskaða hjá varphænum hér á landi „en við vitum að þetta er til staðar hér og er býsna algengt líkt og annars staðar,“ segir Brigitte Brugger, sérgreinadýralæknir í heilbrigði og velferð alifugla hjá Matvælastofnun (MAST). Ný dönsk rannsókn um bringubeinsskaða varphæna hefur vakið mikla athygli en samkvæmt niðurstöðum hennar reyndust 85 prósent hænanna með sprungið eða brotið bringubein. Rannsóknin beindist að velferð varphæna, einkum hvaða áhrif það hefði á líkamlegt ástand þeirra að verpa árlega jafn mörgum eggjum og raun ber vitni. Ennfremur hvaða máli stærð eggjanna skipti í þessu sambandi.
Um 200 þúsund varphænur
Á Íslandi eru rekin 10-11 varphænubú og í landinu eru líklega um eða yfir 200 þúsund varphænur. „Það má búast við því að bringubeinsskaði sé svipað vandamál hér og í Danmörku og í raun alls staðar annars staðar í Evrópu og væntanlega í heiminum,“ segir Brigitte. Hér á landi séu aðstæður á eggjabúum mjög svipaðar og í Danmörku. Sami fuglastofn er notaður, farið er eftir sömu ráðleggingum við eldið, svipað fóður gefið og aðstæður á búunum almennt, s.s. innréttingar í húsum, sambærilegar. Það helsta sem skilur að er að á Íslandi eru sjúkdómar í alifuglum mun fátíðari en annars staðar. Nánast engar bólusetningar eru gefnar hér og mun minni lyfjagjöf. „Það er held ég eini stóri munurinn,“ segir Brigitte.
Þótt danska rannsóknin hafi vakið mikla athygli, bæði í Danmörku og hér á landi eftir að fjallað var um hana í Kjarnanum síðustu helgi, var bringubeinsskaði ekki óþekkt vandamál. Hann var miklu heldur vel þekktur og hefur verið rannsakaður töluvert síðustu ár.
„Há tíðni og alvarleiki bringubeinsskaða er eitt stærsta velferðarvandamál sem eggjaframleiðendur standa frammi fyrir,“ segir í inngangi samantektar um evrópska samstarfsverkefnið COST Action – KeelBoneDamage (KBD), sem unnið var að á árunum 2016-2020 og Ísland tók þátt í. Þar kom fram að 30-90 prósent af hverjum varphænuhópi væri með skaða á einhverju stigi á bringubeini við um tíu mánaða aldur. „Við trúum því að brot, sérstaklega þegar þau eru ný og á því stigi að beinbrotin eru enn laus, valdi fuglunum sársauka, stytti líftíma þeirra og minnki framleiðslu.“
Í fræðslumyndbandi ætluðu bændum sem gefið var út í tengslum við verkefnið segir að þótt „fuglar með og án brota geti litið eins út og hagað sér eins þá er skaðinn þarna og líklegur til að minnka framleiðslu og velferð“.
Niðurstöður dönsku rannsóknarinnar, sem unnin var af vísindamönnum Háskólans í Kaupmannahöfn, benda til þess að sprungin eða brotin bringubein séu vegna þess að eggin sem hænurnar verpa eru orðin hlutfallslega of stór. Með öðrum orðum: Litlar hænur eru farnar að verpa of stórum eggjum.
Talið er að ástæðurnar fyrir bringubeinsskaða séu fleiri og eldri rannsóknir hafa frekar bent til áverka að utanverðu. Hænur eru ekki góðir flugfuglar en þær flögra þó um, sérstaklega ef þær fyllast ofsahræðslu. Þá geta þær lent á innréttingum í eldishúsunum og slasast. „Þær bara brotlenda,“ segir Brigitte.
Aðrir áhættuþættir geta svo falist í ræktuninni sjálfri.
Æviskeið varphænu er stutt. Er ungarnir koma úr eggi er eins og gefur að skilja um helmingurinn hanar. Ungarnir eru kyngreindir við útungun og hanarnir aflífaðir. Nota má tvenns konar aðferðir við það hér á landi; gösun með koldíoxíði og mölun (e. shredding). Bann við síðarnefndu aðferðinni, mölun, var nýverið lögfest í Þýskalandi. Í stað þess að mala hanaungana lifandi skal frá og með næstu áramótum kyngreina meðan þeir eru enn í eggi. Lengra á að ganga árið 2024 er aðeins verður heimilt að farga ungum fóstrum.
Hænurnar eyða hins vegar um það bil fyrstu fjórum mánuðum lífs síns í svokölluðum uppeldishúsum en um það leyti sem þær verða kynþroska og byrja að verpa eru þær fluttar í varphús. Er þær ná um 16-18 mánaða aldri eru þær drepnar með gösun, hræjunum fargað og nýr varphænuhópur fluttur inn í húsin.
Hver hæna verpir því aðeins í um eitt ár og á þeim tíma jafnvel um 300 eggjum. Líkt og í Danmörku er lýsing notuð til að stýra kynþroska unghæna. Í reglugerð er kveðið á um að tryggja beri fullorðnum varphænum órofna myrkvun þriðjung sólarhringsins.
„Varphænur eru aldar upp til að verpa,“ segir Brigitte. Það sé vissulega hagur bóndans að fá sem flest egg en það sé líka hans hagur að hænan sé sterkbyggð. „En þetta er gífurlegt álag á hænuna,“ segir hún. Þessi mikla framleiðsla og hraði uppvöxtur reyni mikið á efnaskipti þeirra og beinstyrk því mikið af kalki fari í eggjaskurnina.
Um aðbúnað alifugla og þar með varphæna gildir reglugerð um velferð alifugla. Í henni kemur fram hversu þéttleikinn í eldishúsunum má vera mikill, hvernig verja skuli dýrin fyrir sýkingum, hvernig innréttingar skulu vera, fóðrun og svo framvegis. Brigitte segir reglurnar mjög sambærilegar og finna má víðast annars staðar í Evrópu.
Spurð hvort dýralæknar skoði varphænur með tilliti til þess hvort að þær kunni að vera með sprungið eða brotið bringubein segir hún svo nákvæma læknisskoðun ekki fara fram. Eftirlit Matvælastofnunar felist í því að taka út húsin og fuglahópinn í heild og ganga úr skugga um að öll ákvæði reglugerðarinnar séu uppfyllt.
Hæna með bringubeinsskaða ber það ekki endilega utan á sér. Hún getur jafnvel haldið áfram að verpa. „Það hafa verið gerðar rannsóknir á því hvort að þær fari að verpa minna,“ segir Brigitte. „Það eru ekki skýrar vísbendingar um það en þó talið að þetta hafi áhrif.“
En er ekki augljóst að dýri með brotið bein því líður ekki vel?
„Nei, það er rétt,“ svarar hún. „Ef það er beinbrot og ekki gróið. Sum brot eru gróin. Sumar breytingar eru ekki brot heldur aflögun og það er ekki talið valda sársauka þó að það sé ekki alveg ljóst í rannsóknum. En ef þetta eru ný og mikil brot þá er þetta sárt.“
Þessi danska rannsókn hefur vakið mikla athygli í Danmörku og einnig hér á landi. Þetta er eins og með margt í matvælaframleiðslunni, svolítið falið. Skoðar Matvælastofnun svona rannsóknir og íhugar breytingu á sínum reglum eða hvetur til þess?
„Já, við fylgjumst með rannsóknum erlendis og hvað kemur úr þeim og hvaða leiðir finnast til að fyrirbyggja álagið á dýrin. Bæta þeirra velferð. Við erum vakandi yfir þessu og stígum í takt við það sem þeir sjá og finna erlendis. Velferð dýra er í algjöru fyrirrúmi hjá okkur og stór þáttur í okkar eftirliti er að fylgjast með henni. En innan þess ramma sem lögin setja.“
Hún bendir á að ávallt sé reynt að gefa út leiðbeiningar til bænda í ljósi nýjustu þekkingar og jafnframt metið hvort breyta þurfi reglugerðum.
Um áramót tekur hér á landi gildi ný reglugerð sem bannar varphænuhald í búrum en sambærilegt bann tók gildi í öðrum Evrópulöndum árið 2012. Á mörgum íslensku búanna hefur verið eða verður tekinn í notkun pallaskiptur varpbúnaður sem eykur aðgengilegt gólfrými miðað við grunnflöt húsanna sjálfra. Þannig er lofthæð húsanna nýtt til að koma fyrir miklum fjölda hæna.
Með því að hætta með búrin geta hænurnar „meira sýnt sitt eðlilega atferli,“ segir Brigitte um ávinninginn af reglugerðarbreytingunni. „Í búrunum geta þær lítið annað gert en að drekka og éta. Þær geta ekki sandbaðað sig. Þær geta ekki hvílst á prikum eins og þeim er eðlilegt. Þær geta ekki dregið sig í hlé til að verpa í hreiðri. Þannig að með því að taka búrin þá fá þær að minnsta kosti þennan aðbúnað, geta hreyft sig miklu meira og það styrkir líka beinin.“
Það er þó ekki þannig að þessi breytti aðbúnaður muni útrýma bringubeinsskaða. Síður en svo. „Bringubeinsskaði er vandamál hjá hænum í búrum en hann er ekkert minna vandamál hjá lausagöngu hænum af því að þá eru meiri líkur á árekstrum.“
Orsök árekstranna getur verið, að því er kemur fram í samantekt KBD-verkefnisins, ofsahræðsluuppþot eða öngþveiti, svo sem í ljósaskiptum þegar fuglarnir flytja sig upp á prik fyrir hvíld. Í reglugerðum er kveðið á um hæg ljósaskipti til að lágmarka þessa hættu. Hraður vængjasláttur við ofsahræðslu eða þegar fuglar eru að reyna að komast aftur upp eftir fall eru einnig taldar mögulegar orsakir. „Því ættu framleiðendur að reyna að hafa greiðan aðgang upp á innréttingar og reyna að forðast ofsahræðslu,“ segir m.a. í leiðbeiningum til eggjaframleiðanda sem gefnar voru út í tengslum við KBD-verkefnið.
„Það er ekki til ein góð lausn,“ segir Brigitte. „En það er alltaf verið að reyna að finna leiðir til að gera betur.“