EPA

Lítil, meðal, stór, mjög stór

Einu sinni voru hænuegg bara hænuegg. Svolítið mismunandi að stærð, hvít eða brún. Í dag er öldin önnur: hvít egg, hamingjuegg, lífræn egg, brún egg o.s.frv. Stærðarflokkanir að minnsta kosti fjórir. Varphænur lifa ekki sældarlífi.

Hænsn hafa fylgt mann­kyn­inu í mörg þús­und ár. Talið er að hænsn hafi fyrst borist til Evr­ópu frá Afr­íku, um 700 árum fyrir Krist. Róm­verjar höfðu mikið dálæti á hænsnum, töldu þau spá­sagn­ar­dýr. Þeir höfðu hænsn með­ferðis í land­vinn­inga­ferðum sínum og eiga þannig að lík­indum mik­inn þátt í útbreiðslu þeirra í Evr­ópu.

Stærsti fugla­stofn í heimi

Ekki er nokkur leið að vita með vissu hve mörg hænsn eru til í ver­öld­inni. Sér­fræð­ingar hafa reynt að giska á fjöld­ann, sumir þeirra hafa miðað við þrjú hænsn á hvern íbúa jarð­ar­inn­ar, það væru þá um það bil 23 millj­arð­ar, aðrir telja töl­una frekar vera 50 millj­arða. Hver sem fjöld­inn er má lík­lega slá því föstu að hænsn eru stærsti fugla­stofn í heimi.

Auglýsing

Fjöldi varp­hæna áætl­aður fimm millj­arðar

Talið er að sam­tals séu í ver­öld­inni fimm millj­arðar varp­hæna. Til­tölu­lega flestar í Kína, lík­lega um einn millj­arð­ur. Næst­flestar í Banda­ríkj­un­um, á að giska 300 millj­ónir og litlu færri sam­tals í löndum Evr­ópu­sam­bands­ins. Sér­fræð­ingar telja að sam­tals verpi hænur heims­ins 1,1 trilljón eggja (trilljón 1 000000000000) á ári.

Ekki þarf að fjöl­yrða um að egg eru mik­il­væg fæða fólks um allan heim. Íbúar Mexíkó eiga „heims­met­ið“, þar nemur neyslan meira en 320 eggjum á mann á ári hverju. Algengur líf­tími hænsna er fimm til tíu ár. Hænur hafa iðu­lega orðið fjöskyldu­vinir og mörg dæmi eru um hænur sem hafa verið hættar að verpa en eig­end­urnir ekki viljað losa sig við þær og leyft þeim að lifa þangað til þær gáfu upp önd­ina af nátt­úru­legum orsök­um.

Varphænur lifa ekki sældarlífi.
EPA

Miklar breyt­ingar

Land­bún­að­ur, ekki síst á Vest­ur­lönd­um, hefur breyst mikið á und­an­förnum ára­tug­um.

Það á ekki síður við um hænsna­bú­skap en aðrar grein­ar.

Margir eiga góðar minn­ingar um hæn­urn­ar. Krakkar sem ólust upp í sveit voru gjarna látnir gefa hæn­unum og oft var það með fyrstu verk­efnum barna í þétt­býl­inu sem voru í sveit á sumrin að gefa púd­d­unum og fylgj­ast með þeim kepp­ast við að gleypa í sig mat­ar­af­ganga og maís­korn. Og tína egg­in.

Íslenskir krakkar hafa í ára­tugi kom­ist í kynni við bók­ina um litlu gulu hæn­una og þá ein­földu, en nota­drjúgu, heim­speki sem þar er að finna.

Margir bændur eru með nokkrar varp­hænur til heim­il­is­nota en að almenn­ingur í borgum og bæjum sé með fastan eggja­samn­ing við til­tek­inn bónda, eins og algengt var, heyrir nán­ast sög­unni til.

Í dag verður langstærstur hluti eggja til á stórum búum, eggja­fram­leiðsla er orð­inn iðn­að­ur. Og líkt og ger­ist í öðrum greinum vill eggja­bónd­inn gjarna geta fram­leitt sem mest. Að hver hæna skili sem mestum afköstum ef svo mætti að orði kom­ast. Og þar hafa orðið miklar breyt­ing­ar. Ekki allar til góðs, fyrir hæn­urn­ar.

EPA

20 egg, 200 egg, 300 egg

Hænur sem ganga alveg frjálsar og hafa engan sér­stakan varp­stað verpa að jafn­aði aðeins 20 eggjum á ári. Á þeim er engin pressa um afköst í varp­inu. Öðru máli gegnir um hænur sem aldar eru til varps.

Flestir fuglar bregð­ast við eggja­þjófn­aði úr hreiðrum með því að verpa nýju eggi í stað þess horfna. Hænur eru eins að þessu leyti og það hefur mað­ur­inn nýtt sér. Ef egg er alltaf tekið frá hæn­unni kepp­ist hún við að koma með nýtt egg í stað­inn. Með þessu móti geta hænur á hænsna­búum orpið meira en 200 eggjum á ári. Eðli hænsn­fugla er að verpa mest á vor­in, með lýs­ingu er hægt að líkja eftir vor­inu og fá þannig fleiri egg. Dæmi eru um búr­hænur sem verpa árlega meira en 300 eggj­um.

Eggjaneysla er gríðarleg. Mexíkóar eru taldir eiga heimsmetið: Um 320 egg á mann á ári.
EPA

Mis­mun­andi stærðir og aðstæður

En egg eru ekki bara egg, hvít eða brún. Þótt þau séu í grunn­inn eins, skurn, himna, hvíta og rauða eru þau ekki öll svipuð að stærð. Í versl­unum er hægt að velja lít­il, með­al­stór, stór og jafn­vel sér­stak­lega stór.

Enn­fremur er iðu­lega hægt að velja á milli eggja frá hænum sem eru hafðar í búrum, hænum sem ganga „frjáls­ar“ inn­an­dyra og frá hænum sem hafa aðgang að úti­svæði. Frá­vikin í eggja­stærð­inni eru til­komin með „kyn­bót­u­m“.

Danska rann­sóknin

Vís­inda­menn við Hafn­ar­há­skóla í Dan­mörku birtu fyrir skömmu nið­ur­stöður rann­sóknar sem þeir höfðu unnið að um nokk­urt skeið. Óhætt er að segja að nið­ur­stöð­urnar hafi vakið mikla athygli. Einn dönsku fjöl­miðl­anna sagði að lík­lega hefði mörgum Dönum svelgst á morg­un­kaff­inu, með egg­inu og ristaða brauð­inu, þegar þeir renndu yfir blað dags­ins.

Skýrsla vís­inda­mann­anna var birt í vís­inda­tíma­rit­inu PLOS One. Rann­sóknin beind­ist að vel­ferð varp­hæna, einkum hvaða áhrif það hefði á lík­am­legt ástand þeirra að verpa árlega jafn mörgum eggjum og raun ber vitni. Enn­fremur hvaða máli stærð eggj­anna skipti í þessu sam­bandi.

Danska rannsóknin beindist að velferð varphæna. Reyndust 85 prósent þeirra vera með sprungið eða brotið bringubein.
EPA

Slá­andi nið­ur­stöður

Vís­inda­menn­irnir rann­sök­uðu tæp­lega 5 þús­und hænur á 40 hænsna­búum víða í Dan­mörku, en sam­tals eru varp­hænur í Dan­mörku um það bil þrjár og hálf millj­ón.

Nið­ur­stöð­urnar eru slá­andi. Af þeim varp­hænum sem skoð­aðar voru reynd­ust 85 pró­sent vera með sprungið eða brotið bringu­bein. Ástæð­urnar eru tvær: Í fyrsta lagi er vöxtur hæn­anna stöðv­aður áður en þær hafa náð fullri stærð og í öðru lagi er það stærð eggj­anna. Lík­am­inn ræður ein­fald­lega ekki við stór egg og bringu­beinið spring­ur, eða hrein­lega brotn­ar. Þetta veldur miklum kvölum og vegna þess að hæn­urnar taka ekki „varp­hlé“ grær brotið aldrei. „Því yngri sem hæn­urnar eru þegar þær fara að verpa því stærra verður vanda­mál­ið,“ sagði Ida Thøfner sér­fræð­ingur hjá Rann­sókn­ar­stofnun land­bún­að­ar­ins (stofnun innan Hafn­ar­há­skóla). „Við vissum af þessu vanda­máli en grun­aði ekki að það væri jafn útbreitt og nú hefur komið í ljós.“ Og bætti við að þetta vanda­mál væri ekki sér­danskt.

Hægt að koma í veg fyrir bein­brotin

Í skýrsl­unni kemur fram að ef beðið væri með að láta hæn­urnar byrja að verpa, þangað til þær væru full­vaxn­ar, og beinin náð meiri styrk, væri hægt að koma í veg fyrir bein­brot­in. Vís­inda­menn­irnir segja að þetta myndi ekki þýða tekju­tap því full­vaxnar hæn­ur, sem væru ekki með brotin bein, lifðu lengur og skil­uðu þess vegna jafn­mörg­um, eða fleiri eggjum yfir ævina. „Ein­falt ráð sem öllum kæmi til góða, einkum hæn­un­um,“ sagði pró­fessor Jens Peter Christ­i­an­sen, einn þeirra sem vann að rann­sókn­inni.

Lengi hefur verið vitað að margar danskar varp­hænur væru með skaðað bringu­bein. Ástæðan hefur hingað til verið talin að hæn­urnar yllu skað­anum sjálf­ar, rækju sig til dæmis í fóð­ur­tæk­in. Nýja rann­sóknin sýnir að ástæð­urnar eru aðrar og brotin mun algeng­ari en áður var álit­ið.

Auglýsing

Getur almenn­ingur eitt­hvað gert?

Þessi spurn­ing var lögð fyrir vís­inda­menn­ina þegar þeir kynntu skýrsl­una. Svar þeirra var ein­falt: Kaupa minni egg. Ef sala minni eggja ykist til muna á kostnað þeirra stærri myndu eggja­bændur verða fljótir að laga sig að þeirri breyt­ingu.

Til gam­ans í lokin

Framar í þessum pistli var minnst á bók­ina um litlu gulu hæn­una. Hún kom fyrst út árið 1943, var íslensk aðlögun að banda­rískri bók (þar var hænan rauð) sem kom út árið 1940. Stein­grímur Ara­son kenn­ari er höf­undur íslensku útgáf­unn­ar, sem börn og full­orðnir hafa lesið sér til gagns og gam­ans.

Flosi Ólafs­son leik­ari var einn þeirra sem ekki efað­ist um upp­eld­is­gildi þeirra litlu gulu eins og fram kemur í eft­ir­far­andi stöku sem hann setti sam­an:

Las ég mér til mennt­unar

margan doðr­ant vænan

en lær­dóms­rík­ust lesn­ing var

Litla gula hæn­an.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar