Stöðugleikaframlögin fóru ekki öll í embættismenn og alþingismenn

Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Guðmundar Franklín Jónssonar um að stöðugleikaframlögin hafi öll farið í hækkun á kostnaði við rekstur embættis- og þingmanna.

Guðmundur Franklín Jónsson formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Guðmundur Franklín Jónsson formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Auglýsing

Niðurstaða: Fleipur

Frjáls­lyndi lýð­ræð­is­flokk­ur­inn hefur hið gamla slag­orð „báknið burt“ á stefnu­skrá sinni. Í því felst meðal ann­ars sam­kvæmt útskýr­ingu flokks­ins, að öllum rík­is­stofn­unum verði gert að skila inn sparn­að­ar­til­lögum fyrir næstu ára­mót. Þá vill flokk­ur­inn leggja af styrki til stjórn­mála­flokka sem hann kallar spill­ingu af hæstu gráðu, sjálftöku og búi til rík­is­rekið stjórn­mála­bákn. 

Guð­mundur Frank­lín Jóns­son, for­maður flokks­ins, ræddi þessi mál í þætt­inum For­ystu­sætið á RÚV í gær­kvöldi.

Auglýsing

Þar sagði hann meðal ann­ars að rík­is­út­gjöld hefðu hækkað um 25 pró­sent á verð­lagi árs­ins 2016. Síðan sagði Guð­mundur Frank­lín: „Stöð­ug­leika­sátt­mál­inn sem var gerður við erlendu bank­anna. hann er horf­inn. Þetta fór allt í hækkun emb­ætt­is­manna og alþing­is­manna.“ Í kjöl­farið sagði hann: „Stjórn­mála­menn. Millj­arðar á ári. Allir komnir með aðstoð­ar­menn.“

Stöð­ug­leika­fram­lögin skil­uðu að minnsta kosti 460 millj­örðum

Í skýrslu sem Rík­is­end­ur­skoðun gerði um félagið Lind­ar­hvol, sem sá um umsýslu, fulln­ustu og sölu á eignum sem rík­is­sjóður fékk afhent vegna stöð­ug­leika­samn­ing­anna við slitabú föllnu bank­anna, og var birt í fyrra kom fram að stöð­ug­leika­fram­lagið hefði skilað 460 millj­örðum króna í rík­is­sjóð, eða 76 millj­örðum króna meira en upp­haf­legar áætl­anir gerðu ráð fyr­ir. Gera má ráð fyrir að þessi tala hafi hækkað eitt­hvað síðan þá, í ljósi þess að ein eign­anna sem ríkið fékk við gerð stöð­ug­leika­samn­ing­anna var Íslands­banki, sem var skráður á markað fyrr á þessu ári og hefur hækkað mikið í virð­i. 

Þorri þeirra fjár­muna sem komu inn vegna sölu stöð­ug­leika­eigna var nýttur í að greiða niður skuldir rík­is­sjóðs og lækka með því vaxta­kostnað hans. Skuldir rík­is­sjóðs voru 65 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu árið 2009 en fóru undir 30 pró­sent árið 2019 og áætl­anir gera ráð fyrir að þær verði um 60 pró­sent árið 2025. 

Kostn­aður hefur hækk­að, en ekki um 460 millj­arða

Rík­is­út­gjöld hafa hækkað um 21 pró­sent á verð­lagi árs­ins 2016, frá árinu 2016. Sú full­yrð­ing Guð­mundar Frank­líns er því á réttri leið, þótt hún sé ekki rétt. Á því tíma­bili hækk­uðu rík­is­út­gjöldin úr 840 millj­örðum króna í 1.013 millj­arða króna á verð­lagi áður­nefnds árs. Upp­safn­aður við­bót­ar­kostn­aður í krónum talið er um 174 millj­arðar króna, eða um 38 pró­sent af þeim fjár­munum sem stöð­ug­leika­samn­ing­arnir skil­uðu sam­kvæmt því sem fram kom í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar í fyrra, og er hóf­leg.

Launa­kostn­aður rík­is­sjóðs hefur auk­ist um 67 millj­arða króna frá árinu 2016, eða um 44 millj­arða króna á verð­lagi þess árs. 

Kjarn­inn greindi frá því í síð­asta mán­uði að í byrjun sum­ars 2016 hafi grunn­laun þing­manna á Íslandi verið 712.030 krónur á mán­uði. Nú, fimm árum síð­ar, eru þau 1.285.411 krónur á mán­uði. Þau hafa því hækkað um 573.381 krónur á tíma­bil­inu, eða um rúm­lega 80 pró­sent.  Grunn­laun ráð­herra hækk­uðu enn meira í krónum talið. Þeir voru með 1.257.425 krónur í laun snemm­sum­ars 2016 en fá nú 2.131.788 krónur á mán­uði. Laun þeirra hafa því hækkað um 874.363 krónur á tíma­bil­inu, eða um 70 pró­sent. 

Rekstur rík­is­stjórnar Íslands, sem í fel­ast launa­greiðslur ráð­herra og allra aðstoð­ar­manna þeirra, er áætl­aður 681,3 millj­ónir króna á þessu ári, sam­kvæmt fjár­lögum fyrir árið 2021 sem sam­þykkt voru í fyrra. Það er 48 pró­sent aukn­ing frá áætl­uðum kostn­aði á árinu 2018, sem var fyrsta heila ár rík­is­stjórn­ar­innar Katrínar Jak­obs­dóttur við völd, en kostn­aður vegna launa ráð­herra og aðstoð­ar­manna þeirra átti þá að vera 461 millj­ónir króna sam­kvæmt sam­þykktum fjár­lög­um. 

Hann reynd­ist hins vegar verða 597 millj­ónir króna á árinu 2018. Árið 2019 var hann svo undir áætlun en hækk­aði samt milli ára í 605 millj­ónir króna. 

Í fyrra var hann áætl­aður 660 millj­ónir króna á fjár­lögum og í ár er hann, líkt og áður sagði, áætl­aður 681,3 millj­ónir króna. 

Stjórn­mála­flokk­arnir átta sem eiga full­trúa á Alþingi munu fá sam­tals rúm­lega 2,8 millj­arða króna úr rík­is­sjóði á yfir­stand­andi kjör­tíma­bili fyrir að vera til. Það er 127 pró­sent hærri upp­hæð en þeir hefðu fengið ef til­­laga sex flokka sem sæti eiga á Alþingi um að hækka fram­lag rík­­­­­is­ins til stjórn­­­­­­­­­mála­­­­­flokka á árinu 2018 hefði ekki verið sam­þykkt í árs­lok 2017.

Nið­ur­staða Stað­reynd­ar­vakt­ar­innar

Það er nið­ur­staða Stað­reynda­vaktar Kjarn­ans að Guð­mundur Frank­lín Jóns­son hafi farið með fleipur í For­ystu­sæt­inu á RÚV þegar hann sagði: „Stöð­ug­leika­sátt­mál­inn sem var gerður við erlendu bank­anna. hann er horf­inn. Þetta fór allt í hækkun emb­ætt­is­manna og alþing­is­manna.“ 

Þótt laun emb­ætt­is­manna og alþing­is­manna, og ýmis annar kostn­aður í kringum rekstur rík­is­sjóðs, hafi auk­ist umtals­vert þá liggur fyrir að sá kostn­aður er ekki nálægt þeim 460 millj­örðum króna sem stöð­ug­leika­fram­lögin skil­uðu í rík­is­sjóð, hvernig sem á það er lit­ið. Það er hins vegar rétt hjá Guð­mundi að allir þessir kostn­að­ar­liðir hafa hækkað umtals­vert á því tíma­bili sem hann nefndi í við­tal­inu og því er full­yrð­ingin ekki hauga­lyg­i.  

Á skalanum haugalygi til dagsatt fór Guðmundur Franklín með fleipur.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiStaðreyndavaktin