Mynd: Úr safni

Eru stjórnmálaflokkar eitthvað að pæla í fjölmiðlum?

Rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur hríðversnað á síðustu árum, starfsfólki í geiranum hefur fækkað um næstum helming á tveimur árum og fjölmiðlafrelsi á Íslandi fyrir vikið hríðfallið. Kjarninn kannaði hvort, og þá hvað, stjórnmálaflokkar vilja gera vegna þessa ástands.

Blaða­manna­fé­lag Íslands (BÍ) sendi í síð­ustu viku frá sér áskorun til stjórn­mála­flokk­ana um að gera það að stefnu­máli sínu að tryggja að á Íslandi fái þrif­ist frjáls­ir, sjálf­stæðir og óháðir fjöl­miðl­ar. 

Auk þess skor­aði Blaða­manna­fé­lagið á stjórn­mála­flokka að hafa í huga sam­fé­lags­lega ábyrgð sína og mik­il­vægi fjöl­miðla fyrir lýð­ræð­is­lega umræðu í sam­fé­lag­inu þegar ákvörðun er tekin um birt­ingu aug­lýs­inga.

BÍ hvatti stjórn­mála­flokka til að setja sér stefnu, sem birt yrði opin­ber­lega, um hlut­fall aug­lýs­inga­fjár­magns sem veitt er til erlendra miðla, og jafn­framt að birta að kosn­ingum loknum sund­ur­liðun á því hve miklu fjár­magni var varið til erlendra miðla ann­ars vegar og íslenskra hins veg­ar.

BÍ lagði fram alls átta til­lögur til efl­ingar rekstr­ar­um­hverfis íslenskra fjöl­miðla sem finna má hér.

Auglýsing

En hvað er að finna um fjöl­miðla í stefnum þeirra tíu flokka sem bjóða fram til Alþingis í öllum kjör­dæmum í kom­andi kosn­ing­um?

Hnign­andi rekstr­ar­um­hverfi

Rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla hefur verið mikið í umræð­unni árum sam­an, enda hefur það orðið erf­ið­ara með hverju árinu. Í júní var greint frá því að frá árinu 2013 og fram til síð­ustu ára­mót hafi þeim sem starfa á fjöl­miðlum fækkað um úr 2.238 í 731. Frá árinu 2018 hefur þeim fækkað um 45 pró­sent og því er ljóst að þessi þróun hefur ágerst á þessum kjör­tíma­bili.

Eina aðgerðin sem gripið hefur verið til vegna þessa er inn­leið­ing styrkja til einka­rek­inna fjöl­miðla, fyrst sem hluta af kór­ónu­veiru­far­ald­urs­að­gerðum stjórn­valda í fyrra, og svo með sam­þykkt laga sem greiða fyrir því að tæp­lega 400 millj­ónum króna verði skipt á milli allra einka­rek­inna fjöl­miðla árlega. Um er að ræða end­ur­greiðslu á hluta af rit­stjórn­ar­kostn­aði og fer þorri upp­hæð­ar­inn­ar, næstum tvær af hverjum þremur krón­ur, til þriggja stærstu fjöl­miðla­fyr­ir­tækja lands­ins.

Mikið var tek­ist á um þessa styrki á kjör­tíma­bil­inu og ekki tókst að lög­festa þá fyrr en á síð­ustu metrum þess, eftir að upp­haf­legu frum­varpi hafði verið breytt veru­lega. 

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Mynd: Aðsend

Á meðan að tek­ist var á um þessa styrki var ekk­ert annað gert til að styrkja rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla. Fyrir vikið hefur Ísland hríð­fallið í vísi­tölu Blaða­manna án landamæra, sem mæla fjöl­miðla­frelsi í heim­in­um. Ísland situr nú í 16. sæti á þeim lista en hin Norð­ur­lönd­in, þar sem umtals­vert er stutt við fjöl­miðla, raða sér í fjögur efstu sæt­in. 

Þeir sem vilja ekki opin­bera styrki til fjöl­miðla

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn vill ekki rík­is­styrki til fjöl­miðla. Í stjórn­mála­á­lyktun flokks­ráðs­fundar flokks­ins frá því í síð­asta mán­uði kom fram að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn vilji frekar breyta skattaum­hverfi þeirra og tak­marka veru­lega umfang RÚV á mark­aði. „Um­fang RÚV á aug­lýs­inga­mark­aði og sam­keppni við stór erlend tækni­fyr­ir­tæki, sem búa við mun hag­stæð­ara skattaum­hverfi, hafa haft veru­lega nei­kvæð áhrif á rekstr­ar­um­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla. Rekstur rík­is­ins á fjöl­miðlum má ekki hamla frjálsri sam­keppni og raska rekstr­ar­grund­velli ann­arra fjöl­miðla. Tak­marka á veru­lega umfang RÚV og bæta skattaum­hverfi fjöl­miðla.“

Auglýsing

Frjáls­lyndi lýð­ræð­is­flokk­ur­inn vill að almenn­ingi verði gef­inn kostur á að styðja við alla fjöl­miðla á skatta­skýrslu sinni, sem þýðir að almenn­ingur geti látið fé renna til eins eða fleiri fjöl­miðla að eigin ósk. Flokk­ur­inn vill að sama skapi leggja niður það styrkja­kerfi við einka­rekna fjöl­miðla sem hefur verið lög­fest. Frjáls­lyndi lýð­ræð­is­flokk­ur­inn er líka með nokkrar aðrar hug­myndir sem eru nokkuð ein­stak­ar. Hann vill til að mynda að frí­blöð verði látin borga end­ur­vinnslu­gjald á hvert prentað ein­tak og að fjöl­miðlar í eigu hags­muna­tengdra fyr­ir­tækja verði gert að aug­lýsa tengsl sín sér­stak­lega við hags­muna­tengdar fréttir í sama miðli. „Mis­notkun stór­fyr­ir­tækja, auð­manna og leppa þeirra í íslenskri fjöl­miðlaflóru verður að upp­ræta. Tak­mörkun á tján­ing­ar­frelsi má  aldrei líðast,“ segir í stefnu flokks­ins. 

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn mælist með 22,5 pró­sent fylgi í nýj­ustu kosn­inga­spá Kjarn­ans en Frjáls­lyndi lýð­ræð­is­flokk­ur­inn mælist ekki með mark­tækt fylgi.

Þeir sem vilja að hið opin­bera styrki einka­rekna fjöl­miðla

Ekk­ert er fjallað um fjöl­miðla í kosn­inga­stefnu­skrá Vinstri grænna en í stefnu flokks­ins, sem sam­þykkt var á lands­fundi í maí, segir að frjálsir fjöl­miðlar séu lýð­ræð­inu nauð­syn­leg­ir, þeir veiti aðhald með fag­legri og upp­lýsandi umfjöllun og frétta­flutn­ingi og því beri stjórn­völdum að verja sjálf­stæði þeirra og rit­stjórn­ar­legt frelsi. „Fjöl­miðlar verða að hafa fjár­hags­lega burði til að sinna lýð­ræð­is­hlut­verki sínu. Æski­legt er að hið opin­bera styðji við starf­semi þeirra án þess að vega að sjálf­stæði þeirra með tak­mörk­unum á fjár­veit­ing­um, hót­unum eða annarri vald­beit­ing­u.“

Vinstri græn vill sam­hliða tryggja stöðu RÚV sem öfl­ugs fjöl­mið­ils í almanna­þágu sem reka eigi fyrir almanna­fé. 

Lilja D. Alfreðsdóttir lagði fram frumvarp um styrki til einkarekinna fjölmiðla á liðnu kjörtímabili, sem varð að lögum undir lok þess.
Mynd: Bára Huld Beck

Sam­fylk­ingin fjallar sömu­leiðis ekk­ert um fjöl­miðla í kosn­inga­stefnu sinni en í stefnu flokks­ins, sem var sam­þykkt á flokks­stjórn­ar­fundi í mars, segir að frjálsir fjöl­miðla gegni lyk­il­hlut­verki í lýð­ræð­is­þjóð­fé­lagi og séu nauð­syn­leg und­ir­staða upp­lýstrar þjóð­fé­lags­um­ræðu. „Sam­fylk­ingin vill tryggja rekstr­ar­grund­völl einka­rek­inna miðla með rík­is­fram­lög­um, gera þeim kleift að starfa óháðir fjár­mála­valdi og stuðla þannig að heil­brigð­ara fjöl­miðlaum­hverfi á Ísland­i.“

Flokk­ur­inn vill auk þess standa vörð um sjálf­stæði RÚV og „tryggja stofn­un­inni bol­magn til að upp­lýsa og veita aðhald án óeðli­legra afskipta vald­hafa.“

Við­reisn er á svip­uðum slóð­um. Flokk­ur­inn fjallar ekk­ert um fjöl­miðla í sinni kosn­inga­stefnu­skrá. Í lands­þings­á­lyktun flokks­ins frá 28. ágúst er hins vegar sagt:

„Al­manna­út­varp hefur bæði menn­ing­ar­legu og lýð­ræð­is­legu hlut­verki að gegna. Rétt er að huga að sam­keppn­is­stöðu einka­rek­inna fjöl­miðla og stuðn­ingi hins opin­bera, sér­stak­lega við inn­lenda dag­skrár­gerð. Veru RÚV á aug­lýs­inga­mark­aði þarf að end­ur­skoða með til­liti til stöðu einka­rek­inna fjöl­miðla. Við­reisn telur að erlendir miðlar sem aug­lýsa á Íslandi, svo sem Face­book og Goog­le, skuli greiða skatta til íslenska rík­is­ins, til jafns við aðra aug­lýs­inga­miðla.“

Þessir þrír flokkar mæl­ast sam­tals með 36,6 pró­sent fylgi í nýj­ustu kosn­inga­spá Kjarn­ans.

Þeir sem boða ekki styrki en aðrar skýrar aðgerðir

Píratar fjalla nokkuð ítar­lega fjöl­miðla í kosn­inga­stefnu­skrá sinni. Þar segir meðal ann­ars að ætli að fram­kvæma heild­ar­stefnu­mótun til að styrkja fjöl­miðla á Íslandi og auð­velda þeim aðhalds- og eft­ir­lits­hlut­verk sitt með stjórn­völd­um. „Gerð heild­stæðrar stefnu er for­senda breyt­inga í mála­flokkn­um, því búta­saums­lausnir síð­ustu ára hafa hyglað stærri fjöl­miðl­um. Stefnan mun taka til­lit til allra þátta í laga­legu og fjár­hags­legu umhverfi fjöl­miðla af öllum stærð­u­m.“

Þá vilja Píratar taka RÚV af aug­lýs­inga­mark­aði til að styrkja tekju­öfl­un­ar­mögu­leika ann­arra miðla en tryggja rík­is­miðl­inum þess í stað næg fram­lög til að standa straum af inn­lendri dag­skrár­gerð, örygg­is­hlut­verki, menn­ing­ar- og mennta­hlut­verki og rekstri frétta­stofu. „Af­nemum nef­skatt­inn sem leggst hlut­falls­lega þyngst á þau sem minnst hafa og fjár­mögnum RÚV þess í stað með hefð­bundnum skött­u­m.“

Auglýsing

Píratar benda á að stærstu iðn­ríki heims hafi náð sam­komu­lagi um að skatt­leggja netrisa, sem taki til sín sífellt meira aug­lýs­ingafé á ári hverju. „Ís­land á að feta í sömu fót­spor og fjár­magna þannig stuðn­ing til íslenskra fjöl­miðla.“

Sós­í­alista­flokk­ur­inn hefur þá stefnu að vilja styrkja skoð­ana- og tján­ing­ar­frelsi. Í því felst að styðja frjálsa fjöl­miðla með því að styrkja blaða­menn beint í stað þess að styrkja „rit­stjórnir fjöl­miðla í eigu auð­fólks“.

Flokk­ur­inn vill auka sjálf­stæði RÚV og gera fyr­ir­tækið aftur að stofn­un. Í því felst að auka völd auka völd starfs­fólks og breikka stjórn þess svo full­trúar almanna­sam­taka eigi þar sæti. „Breyta Rík­is­út­varp­inu í þjóð­ar­út­varp, kljúfa það frá flokks­ræði elítu­stjórn­mál­anna.“

Sam­an­lagt fylgi þess­ara tveggja flokka er 19 pró­sent í nýj­ustu kosn­inga­spá Kjarn­ans.

Þeir sem eru ekki skýrir um hvað þeir vilja

Fjöl­miðla­mál heyra undir mennta- og menn­ing­ar­mála­ráðu­neyt­ið, þar sem Lilja D. Alfreðs­dótt­ir, vara­for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins, hefur ráðið ríkjum á kjör­tíma­bil­inu.

Flokk­ur­inn fjallar ekk­ert um fjöl­miðla í sinni kosn­inga­stefnu­skrá en í almennri stefnu­skrá flokks­ins segir hins vegar að fjöl­miðlar séu mik­il­væg upp­lýs­inga­veita almenn­ings í lýð­ræð­is­legu sam­fé­lagi. „Auka þarf gagn­sæi um útbreidda fjöl­miðla þannig að eign­ar­hald sé skýrt sem og til að koma í veg fyrir sam­þjöpp­un. Rík­is­út­varpið á að gegna mik­il­vægu hlut­verki í íslensku sam­fé­lagi með hlut­lægri umfjöllun og standa vörð um ísl. tungu. Á RÚV hvílir rík, lýð­ræð­is- og sam­fé­lags­leg skylda og því ber að þjóna öllu land­inu. Útvarps­gjaldið verður því að renna óskipt til RÚV.“

Auglýsing

Fram­sókn mælist með 12,7 pró­sent fylgi í nýj­ustu kosn­inga­spá Kjarn­ans.

Þeir sem fjalla ekk­ert um fjöl­miðla í stefnum sínum

Ekk­ert um fjöl­miðla er að finna í stefnu­skrá Flokks fólks­ins. Sömu sögu er að segja um þau stefnu­plögg sem Mið­flokk­ur­inn hefur birt. Ekk­ert var fjallað um stöðu fjöl­miðla í stjórn­mála­á­lyktun lands­þings hans sem sam­þykkt var um miðjan ágúst og það er heldur ekk­ert um fjöl­miðla í grunn­stefnu Mið­flokks­ins. 

Flokk­ur­inn sendi þó frá sér til­kynn­ingu í des­em­ber 2019 þar sem hann lagði meðal ann­ars til það sem hann kall­aði „nýja og betri aðferð til að styðja við einka­rekna miðla“ með það að mark­miði að draga hægt og rólega úr yfir­burða­stöðu RÚV á fjöl­miðla­mark­aði. „Til­lög­urnar eru tví­þætt­ar. Ann­ars vegar ganga þær út á að almenn­ingur fái að velja með hvaða hætti stuðn­ingur skilar sér til einka­rek­inna fjöl­miðla. Hins vegar er horft til þess að styrkja inn­lenda dag­skrár­gerð í gegnum sam­keppn­is­sjóð sem verður fjár­magn­aður með aug­lýs­inga­sölu hjá Rík­is­út­varp­in­u.“

Sam­an­lagt fylgi þess­ara tveggja flokka mælist ell­efu pró­sent í nýj­ustu kosn­inga­spá Kjarn­ans.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar