Mynd: Bára Huld Beck

Sjálfstæðisflokkur stefnir í sína verstu útkomu en Framsókn í sína bestu frá 2013

Ríkisstjórnin er nær örugglega fallin, miðað við nýjustu kosningaspá Kjarnans. Nokkrar sterkar fjögurra til fimm flokka stjórnir eru í kortunum. Þær geta verið blanda af flokkum sem hafa verulega ólíkar áherslur í sínum stefnuskrám eða hugmyndafræðilega hreinni. Allt stefnir í að Miðflokkurinn muni berjast fyrir lífi sínu og að Flokkur fólksins nái að minnsta kosti einum manni inn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki mælst með minna fylgi í kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar en hann gerir nú, eða 23,3 prósent. Hann er samt sem áður langstærsti flokkur landsins og næstum ellefu prósentustigum stærri en sá sem á eftir kemur, sem eru Framsóknarflokkurinn með 12,4 prósent fylgi. Ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi fá það fylgi sem hann mælist með nú í kosningunum eftir tólf daga þá yrði um að ræða verstu niðurstöðu hans í sögu flokksins. 

Frá því í vor hefur Sjálfstæðisflokkurinn tapað 2,5 prósentustigum af fylgi sínu, en það mældist 25,8 prósent í lok apríl. Þar af hefur eitt prósentustig farið af fylgi flokksins frá því í byrjun septembermánaðar.

Fleiri virðast telja best að kjósa bara Framsókn

Framsóknarflokkurinn mælist nú, líkt og áður sagði, næst stærsti flokkur landsins með 12,4 prósent fylgi. Hann hefur ekki mælst með meira fylgi í kosningaspánni frá því að hún var keyrð í fyrsta sinn í aðdraganda komandi kosninga í apríl síðastliðnum. Fylgi flokksins hefur verið nokkuð stöðugt á því tímabili en risið nokkuð á síðustu vikum. Verði þetta niðurstaða kosninga mun Framsóknarflokkurinn fá sína bestu niðurstöðu síðan í kosningunum 2013, þegar hann vann stórsigur og fékk 24,4 prósent atkvæða.

Niðurstöður kosningaspárinnar 13. september 2021

Vinstri græn, þriðji stjórnarflokkurinn, er nú þriðji stærsti flokkur landsins með 12,3 prósent fylgi. Flokkur forsætisráðherrans hefur dalað nokkuð frá því að hann náði að mælast með 14,3 prósent stuðning í byrjun júlí, eða um tvö prósentustig. 

Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja er því nú 48 prósent, en þeir fengu 52,9 prósent fyrir fjórum árum. Framsóknarflokkurinn hefur bætt við sig 1,7 prósentustigum á kjörtímabilinu á meðan að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað tveimur prósentustigum og Vinstri græn 4,6 prósentustigum. 

Nær engar líkur eru á því að það dugi til áframhaldandi meirihluta á þingi miðað við stöðuna nú, þar sem Flokkur fólksins ætti alltaf að ná inn að minnsta kosti einum manni. Gerist það þá missir Sjálfstæðisflokkurinn einn þingmann og samanlagður þingmannafjöldi stjórnarflokkanna fer í 31, eða einum undir meirihlutamarkinu.

Viðreisn bætir við sig en Samfylkingin föst

Af stjórnarandstöðuflokkunum þá hressist Viðreisn mest, og bætir við sig 0,5 prósentustigi. Það dugar til að fara upp fyrir tíu prósent markið í fyrsta sinn í september og skilar Viðreisn 10,3 prósent fylgi. 

Auglýsing

Samfylkingin virðist pikkföst í sínum tólf prósentum, eða sama fylgi og flokkurinn fékk í kosningunum fyrir fjórum árum. Fyrir flokk sem lítur á sig sem réttborið hryggjarstykki í mögulegri félagshyggjustjórn, og mældist um tíma með 19 prósent fylgi fyrr á kjörtímabilinu, þá hlýtur sú staða innan við tveimur vikum fyrir kosningar að vera mikil vonbrigði. 

Píratar mældust mest með 12,8 prósent fylgi í lok júlí en hafa síðan sigið niður í 11,1 prósent. Það er þó meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum, þegar 9,2 prósent landsmanna settu x við P.

Samanlagt fylgi þessara þriggja flokka var 28 prósentustig í kosningunum í október 2017 en er nú 33,3 prósent. 

Miðflokkurinn berst fyrir lífi sínu

Sósíalistaflokkurinn dalar lítillega á milli spáa og mælist nú með 7,7 prósent fylgi eftir að hafa verið yfir átta prósentum í þremur spám í röð. Nokkur þéttleiki virðist vera í fylgi flokksins og því virðist nær öruggt að hann nái inn á þing eftir kosningarnar 25. september næstkomandi. 

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda kosninga til Alþingis 2021.
B C D F M P S V Aðrir

Þeir tveir flokkar sem mest óvissa er um hvort nái inn eru nú þeir sem komu nýir inn á þing 2017, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins.

Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar virðist ekki ná neinu flugi og hefur fallið jafnt og þétt í kosningaspánni frá byrjun apríl mánaðar, þegar fylgi hans mældist 7,3 prósent. Það mælist nú 5,8 prósent og verði það niðurstaða kosninga er sennilegast að flokkurinn nái inn þremur til fjórum mönnum en rúmlega helmingi fylgi sitt frá því síðast, þegar hann fékk 10,9 prósent atkvæða. 

Flokkur fólksins hefur ekki mælst yfir fimm prósent markinu sem þarf til að fá úthlutað jöfnunarmönnum frá því að gerð kosningaspáa hófst í aðdraganda komandi kosninga í apríl síðastliðnum. Að sama skapi hefur fylgi flokksins heldur ekki farið undir fjögur prósent og er nú eins nálægt fimm prósentunum og hægt er að komast, en fylgið mælist 4,9 prósent. Nær útilokað er að það myndi ekki skila að minnsta kosti einum kjördæmakjörnum þingmanni sem myndi þá fara frá Sjálfstæðisflokki og fella ríkisstjórnina fyrir vikið.

Nokkrir stjórnarmyndunarmöguleikar í stöðunni

Mögulegar ríkisstjórnir eru enn nokkrar þótt sitjandi stjórn haldi ekki velli. Hún gæti til að mynda bætt Viðreisn við og þá væri komin fjögurra flokka stjórn með 37-38 þingmenn. Hægri stjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Viðreisnar og Miðflokks myndi líkast til einungis hafa eins manns meirihluta og er því ósennilegur valkostur.

Katrín Jakobsdóttir á möguleika á því að mynda ríkisstjórnin í allar áttir. En það er líka kominn upp sá möguleiki að skilja Vinstri græn eftir utan stjórnarsamstarfs.
Mynd:Steinþór Rafn Matthíasson.

Sömuleiðis væri hægt að mynda fimm flokka félagshyggjustjórn frá miðju til vinstri með aðkomu Framsóknarflokks, Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar sem hefði sama meirihluta. Eða stjórn með meiri vinstrislagsíðu þar sem Sósíalistaflokkurinn kæmi í stað Viðreisnar sem hefði líkast til 36 þingmenn á bakvið sig. 

Miðjuflokkarnir fjórir: Framsóknarflokkur, Samfylking, Píratar og Viðreisn vantar ekki mikið upp á til að ná meirihluta, og gætu bætt t.d. Flokki fólksins við til að ná því, ef sá flokkur skríður yfir fimm prósenta markið.

Þá er heldur ekki útilokað að á það verði látið reyna að mynda minnihlutastjórn þar sem tveir eða þrír flokkar myndu sækja stuðning í tvo eða þrjá flokka utan stjórnar, gegn samkomulagi um framgang ákveðinna málefna sem þeir standa fyrir.

Auglýsing

Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni eru eftirfarandi:

  • Þjóðarpúls Gallup 16. ágúst-29. ágúst (vægi 12,1 prósent)
  • Skoðanakönnun MMR í samstarfi við Morgunblaðið 24 – 3. september (vægi 14,6 prósent)
  • Skoðanakönnun Maskínu í samstarfi við Fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis 31. ágúst – 6. september (24,2 prósent)
  • Skoðanakönnun Prósent í samstarfi við Fréttablaðið 2 – 7. september (24,7 prósent)
  • Skoðanakönnun MMR í samstarfi við Morgunblaðið 8 – 10. september (vægi 24,4 prósent)

Hvað er kosn­inga­spá­in?

Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.

Auglýsing

Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.

Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.

Kosn­­inga­­spálíkan Bald­­urs Héð­ins­­sonar miðar að því að setja upp­­lýs­ing­­arnar sem skoð­ana­kann­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­inga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar