KBD-verkefnið Varphænur
KBD-verkefnið

Skaði á bringubeinum varphæna „býsna algengur“ á Íslandi

Ganga má út frá því að 85 prósent varphæna hér á landi séu með sprungið eða brotið bringubein rétt eins og frænkur þeirra á dönskum eggjabúum. Alvarleiki meiðslanna er misjafn en ef brotin eru ný og mikil „þá er þetta sárt,“ segir sérgreinadýralæknir hjá MAST. Stærð eggja, „brotlending“ á innréttingum í eldishúsunum og hratt vaxtarskeið getur allt átt sinn þátt í áverkunum sem þekktir hafa verið lengi.

Engar rann­sóknir hafa verið gerðar á bringu­beins­skaða hjá varp­hænum hér á landi „en við vitum að þetta er til staðar hér og er býsna algengt líkt og ann­ars stað­ar,“ segir Brigitte Brug­ger, sér­greina­dýra­læknir í heil­brigði og vel­ferð ali­fugla hjá Mat­væla­stofnun (MAST). Ný dönsk rann­sókn um bringu­beins­skaða varp­hæna hefur vakið mikla athygli en sam­kvæmt nið­ur­stöðum hennar reynd­ust 85 pró­sent hæn­anna með sprungið eða brotið bringu­bein. Rann­sóknin beind­ist að vel­ferð varp­hæna, einkum hvaða áhrif það hefði á lík­am­legt ástand þeirra að verpa árlega jafn mörgum eggjum og raun ber vitni. Enn­fremur hvaða máli stærð eggj­anna skipti í þessu sam­bandi.

Um 200 þús­und varp­hænur

Á Íslandi eru rekin 10-11 varp­hænubú og í land­inu eru lík­lega um eða yfir 200 þús­und varp­hæn­ur. „Það má búast við því að bringu­beins­skaði sé svipað vanda­mál hér og í Dan­mörku og í raun alls staðar ann­ars staðar í Evr­ópu og vænt­an­lega í heim­in­um,“ segir Brigitte. Hér á landi séu aðstæður á eggja­búum mjög svip­aðar og í Dan­mörku. Sami fugla­stofn er not­að­ur, farið er eftir sömu ráð­legg­ingum við eld­ið, svipað fóður gefið og aðstæður á búunum almennt, s.s. inn­rétt­ingar í hús­um, sam­bæri­leg­ar. Það helsta sem skilur að er að á Íslandi eru sjúk­dómar í ali­fuglum mun fátíð­ari en ann­ars stað­ar. Nán­ast engar bólu­setn­ingar eru gefnar hér og mun minni lyfja­gjöf. „Það er held ég eini stóri mun­ur­inn,“ segir Brigitte.

Auglýsing

Þótt danska rann­sóknin hafi vakið mikla athygli, bæði í Dan­mörku og hér á landi eftir að fjallað var um hana í Kjarn­anum síð­ustu helgi, var bringu­beins­skaði ekki óþekkt vanda­mál. Hann var miklu heldur vel þekktur og hefur verið rann­sak­aður tölu­vert síð­ustu ár.

„Há tíðni og alvar­leiki bringu­beins­skaða er eitt stærsta vel­ferð­ar­vanda­mál sem eggja­fram­leið­endur standa frammi fyr­ir,“ segir í inn­gangi sam­an­tektar um evr­ópska sam­starfs­verk­efnið COST Act­ion – Keel­Bo­neDa­mage (KBD), sem unnið var að á árunum 2016-2020 og Ísland tók þátt í. Þar kom fram að 30-90 pró­sent af hverjum varp­hænu­hópi væri með skaða á ein­hverju stigi á bringu­beini við um tíu mán­aða ald­ur. „Við trúum því að brot, sér­stak­lega þegar þau eru ný og á því stigi að bein­brotin eru enn laus, valdi fugl­unum sárs­auka, stytti líf­tíma þeirra og minnki fram­leiðslu.“

Í fræðslu­mynd­bandi ætl­uðu bændum sem gefið var út í tengslum við verk­efnið segir að þótt „fuglar með og án brota geti litið eins út og hagað sér eins þá er skað­inn þarna og lík­legur til að minnka fram­leiðslu og vel­ferð“.

Bringubeinsskaði hjá varphænum hefur verið þekktur lengi. Skýringarmyndin sýnir hvar bringubeinið er í hænunni.
KBD-verkefnið

Nið­ur­stöður dönsku rann­sókn­ar­inn­ar, sem unnin var af vís­inda­mönnum Háskól­ans í Kaup­manna­höfn, benda til þess að sprungin eða brotin bringu­bein séu vegna þess að eggin sem hæn­urnar verpa eru orðin hlut­falls­lega of stór. Með öðrum orð­um: Litlar hænur eru farnar að verpa of stórum eggj­um.

Talið er að ástæð­urnar fyrir bringu­beins­skaða séu fleiri og eldri rann­sóknir hafa frekar bent til áverka að utan­verðu. Hænur eru ekki góðir flug­fuglar en þær flögra þó um, sér­stak­lega ef þær fyll­ast ofsa­hræðslu. Þá geta þær lent á inn­rétt­ingum í eld­is­hús­unum og slasast. „Þær bara brot­lenda,“ segir Brigitte.

Aðrir áhættu­þættir geta svo falist í rækt­un­inni sjálfri.

Ævi­skeið varp­hænu er stutt. Er ung­arnir koma úr eggi er eins og gefur að skilja um helm­ing­ur­inn han­ar. Ung­arnir eru kyn­greindir við útungun og han­arnir aflífað­ir. Nota má tvenns konar aðferðir við það hér á landi; gösun með koldí­oxíði og mölun (e. shredd­ing). Bann við síð­ar­nefndu aðferð­inni, möl­un, var nýverið lög­fest í Þýska­landi. Í stað þess að mala hanaung­ana lif­andi skal frá og með næstu ára­mótum kyn­greina meðan þeir eru enn í eggi. Lengra á að ganga árið 2024 er aðeins verður heim­ilt að farga ungum fóstr­um.

Hæn­urnar eyða hins vegar um það bil fyrstu fjórum mán­uðum lífs síns í svoköll­uðum upp­eld­is­húsum en um það leyti sem þær verða kyn­þroska og byrja að verpa eru þær fluttar í varp­hús. Er þær ná um 16-18 mán­aða aldri eru þær drepnar með gös­un, hræj­unum fargað og nýr varp­hænu­hópur fluttur inn í hús­in.

Á eggjabúum er hver hæna látin verpa í um eitt ár og á þeim tíma jafnvel um 300 eggjum.
EPA

Hver hæna verpir því aðeins í um eitt ár og á þeim tíma jafn­vel um 300 eggj­um. Líkt og í Dan­mörku er lýs­ing notuð til að stýra kyn­þroska ung­hæna. Í reglu­gerð er kveðið á um að tryggja beri full­orðnum varp­hænum órofna myrkvun þriðj­ung sól­ar­hrings­ins.

„Varp­hænur eru aldar upp til að verpa,“ segir Brigitte. Það sé vissu­lega hagur bónd­ans að fá sem flest egg en það sé líka hans hagur að hænan sé sterk­byggð. „En þetta er gíf­ur­legt álag á hæn­una,“ segir hún. Þessi mikla fram­leiðsla og hraði upp­vöxtur reyni mikið á efna­skipti þeirra og bein­styrk því mikið af kalki fari í eggja­skurn­ina.

Um aðbúnað ali­fugla og þar með varp­hæna gildir reglu­gerð um vel­ferð ali­fugla. Í henni kemur fram hversu þétt­leik­inn í eld­is­hús­unum má vera mik­ill, hvernig verja skuli dýrin fyrir sýk­ing­um, hvernig inn­rétt­ingar skulu vera, fóðrun og svo fram­veg­is. Brigitte segir regl­urnar mjög sam­bæri­legar og finna má víð­ast ann­ars staðar í Evr­ópu.

Spurð hvort dýra­læknar skoði varp­hænur með til­liti til þess hvort að þær kunni að vera með sprungið eða brotið bringu­bein segir hún svo nákvæma lækn­is­skoðun ekki fara fram. Eft­ir­lit Mat­væla­stofn­unar felist í því að taka út húsin og fugla­hóp­inn í heild og ganga úr skugga um að öll ákvæði reglu­gerð­ar­innar séu upp­fyllt.

Auglýsing

Hæna með bringu­beins­skaða ber það ekki endi­lega utan á sér. Hún getur jafn­vel haldið áfram að verpa. „Það hafa verið gerðar rann­sóknir á því hvort að þær fari að verpa minna,“ segir Brigitte. „Það eru ekki skýrar vís­bend­ingar um það en þó talið að þetta hafi áhrif.“

En er ekki aug­ljóst að dýri með brotið bein því líður ekki vel?

„Nei, það er rétt,“ svarar hún. „Ef það er bein­brot og ekki gró­ið. Sum brot eru gró­in. Sumar breyt­ingar eru ekki brot heldur aflögun og það er ekki talið valda sárs­auka þó að það sé ekki alveg ljóst í rann­sókn­um. En ef þetta eru ný og mikil brot þá er þetta sár­t.“

Þessi danska rann­sókn hefur vakið mikla athygli í Dan­mörku og einnig hér á landi. Þetta er eins og með margt í mat­væla­fram­leiðsl­unni, svo­lítið falið. Skoðar Mat­væla­stofnun svona rann­sóknir og íhugar breyt­ingu á sínum reglum eða hvetur til þess?

„Já, við fylgj­umst með rann­sóknum erlendis og hvað kemur úr þeim og hvaða leiðir finn­ast til að fyr­ir­byggja álagið á dýr­in. Bæta þeirra vel­ferð. Við erum vak­andi yfir þessu og stígum í takt við það sem þeir sjá og finna erlend­is. Vel­ferð dýra er í algjöru fyr­ir­rúmi hjá okkur og stór þáttur í okkar eft­ir­liti er að fylgj­ast með henni. En innan þess ramma sem lögin setj­a.“

Hún bendir á að ávallt sé reynt að gefa út leið­bein­ingar til bænda í ljósi nýj­ustu þekk­ingar og jafn­framt metið hvort breyta þurfi reglu­gerð­um.

Varphænur á pallaskiptum varpbúnaði á búi í Hollandi. Búr verða bönnuð á eggjabúum hér á landi frá áramótum en slíkt hið sama var gert í Evrópu fyrir tæpum áratug.
EPA

Um ára­mót tekur hér á landi gildi ný reglu­gerð sem bannar varp­hænu­hald í búrum en sam­bæri­legt bann tók gildi í öðrum Evr­ópu­löndum árið 2012. Á mörgum íslensku búanna hefur verið eða verður tek­inn í notkun palla­skiptur varp­bún­aður sem eykur aðgengi­legt gólf­rými miðað við grunn­flöt hús­anna sjálfra. Þannig er loft­hæð hús­anna nýtt til að koma fyrir miklum fjölda hæna.

Með því að hætta með búrin geta hæn­urnar „meira sýnt sitt eðli­lega atferli,“ segir Brigitte um ávinn­ing­inn af reglu­gerð­ar­breyt­ing­unni. „Í búr­unum geta þær lítið annað gert en að drekka og éta. Þær geta ekki sand­baðað sig. Þær geta ekki hvílst á prikum eins og þeim er eðli­legt. Þær geta ekki dregið sig í hlé til að verpa í hreiðri. Þannig að með því að taka búrin þá fá þær að minnsta kosti þennan aðbún­að, geta hreyft sig miklu meira og það styrkir líka bein­in.“

Það er þó ekki þannig að þessi breytti aðbún­aður muni útrýma bringu­beins­skaða. Síður en svo. „Bringu­beins­skaði er vanda­mál hjá hænum í búrum en hann er ekk­ert minna vanda­mál hjá lausa­göngu hænum af því að þá eru meiri líkur á árekstr­um.“

Hænur flögra um og geta slasast ef þær lenda á innréttingum í eldishúsunum.
KBD-verkefnið

Orsök árekstr­anna getur ver­ið, að því er kemur fram í sam­an­tekt KBD-verk­efn­is­ins, ofsa­hræðslu­upp­þot eða öng­þveiti, svo sem í ljósa­skiptum þegar fugl­arnir flytja sig upp á prik fyrir hvíld. Í reglu­gerðum er kveðið á um hæg ljósa­skipti til að lág­marka þessa hættu. Hraður vængja­sláttur við ofsa­hræðslu eða þegar fuglar eru að reyna að kom­ast aftur upp eftir fall eru einnig taldar mögu­legar orsak­ir. „Því ættu fram­leið­endur að reyna að hafa greiðan aðgang upp á inn­rétt­ingar og reyna að forð­ast ofsa­hræðslu,“ segir m.a. í leið­bein­ingum til eggja­fram­leið­anda sem gefnar voru út í tengslum við KBD-verk­efn­ið.

„Það er ekki til ein góð lausn,“ segir Brigitte. „En það er alltaf verið að reyna að finna leiðir til að gera bet­ur.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar