Skot hvalveiðimanna geigaði og dýrið dó ekki strax
Við veiðar á langreyði hér við land í síðustu viku geigaði skot er sprengiskutull sem á að aflífa dýrið samstundis hæfði bein og sprakk því ekki. Þetta lengdi dauðastríð dýrsins.
Þann 4. júlí kom Hvalur 9, skip Hvals hf., að landi í hvalstöðinni í Hvalfirði. Við skipskrokkinn héngu tveir dauðir hvalir, langreyðar, sem veiddar höfðu verið fyrr um daginn. Við vitum ekki nákvæmlega hvar, því Hvalur hf. nýtir sér undanþágu í lögum til að loka fyrir opinbera staðsetningu á skipum sínum.
Á planinu við Hvalstöðina er allt til reiðu. Hræin eru dregin á land og hafist handa við að verka þau. Munda flensihnífina. Skera. Brytja þau niður.
En það eru fleiri en starfsmenn Hvals hf. sem fylgjast með því sem fyrir augu ber. Það gera líka fulltrúar dýraverndunarsamtaka, bæði af sjó og landi. Og það sem þeir sjá þennan dag er enn eitt dæmið um það sem þeir hafa oftsinnis bent á: Að velferð dýranna, sem á að hafa í fyrirrúmi samkvæmt lögum, er ítrekað stefnt í voða með veiðunum. Að þau þjáist.
Tilgangur veiðanna er jú að drepa, veiða sem mikil og vaxandi andstaða er við, en lög og reglum samkvæmt skiptir máli hvernig það er gert. Og þann 4. júlí var hræ langreyðar dregið á land með skutulinn enn í síðunni. Skömmu síðar sást starfsmaður Hvals hf. fjarlægja sprengjuna úr honum. Sprengjuna sem átti að aflífa dýrið strax. En hún hafði ekki sprungið.
Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir staðfestir við Kjarnann að málið sé vaxið líkt og dýraverndunarsamtökin Hard to Port lýsa. „Samkvæmt upplýsingum sem aflað var hjá eftirlitsdýralækni á vegum Matvælastofnunar, sem skoðar sérhvern hval sem dreginn er á land, þá geigaði skot við veiðar á umræddum hval,“ segir hún. „Sprengiskutullinn hitti á bein, höfuðkúpu eins og sést á myndinni, og þess vegna springur hann ekki. Sprengiskutull þarf að komast inn í hold til þess að hann springi.“
Myndin sem hún vísar til var tekin af Hard to Port og send fjölmiðlum. Kjarninn áframsendi hana á Matvælastofnun og Fiskistofu, stofnanir sem fara báðar með ákveðið eftirlit með veiðunum, og bað um viðbrögð.
Langreyðurin var aðeins særð í þessu fyrsta skoti en ekki drepin. Sigurborg segir að dauðatími dýrsins lengist sem nemur þeim tíma sem tekur að skjóta öðrum skutli í það.
Það tekur að meðaltali átta mínútur. Hlaða þarf byssuna, miða og hleypa af.
Hversu lengi þessi umrædda langreyður lifði eftir að hafa verið skotin einu sinni hefur Kjarninn ekki upplýsingar um. En miðað við fyrstu og einu rannsóknina sem gerð hefur verið á svokölluðum dauðatíma hvala sem veiddir eru við Ísland hefur dauðastríðið hennar staðið í allt að fimmtán mínútur. Það er jafn lengi og það tekur að aka frá Litlu kaffistofunni, yfir Hellisheiðina, og til Hveragerðis. Á löglegum hraða.
Rannsóknina lét Fiskistofa norskan dýralækni framkvæma sumarið 2014. Yfirvöld vildu lengi vel ekki birta niðurstöður hennar en hana er nú að finna á vef Fiskistofu. Að því komst Kjarninn er hann spurðist fyrir um örlög hennar, átta árum eftir að hún var framkvæmd.
Dýralæknirinn, Egil Ole Øen, hefur rannsakað hvalveiðar í Noregi um langt skeið. Sumarið 2014 fór hann út á haf með íslensku hvalveiðiskipunum og fylgdist með veiðum á 50 langreyðum. Voru þær skotnar af 15-60 metra færi. Skýrslu sinni skilaði hann í byrjun árs 2015.
Samkvæmt niðurstöðum hans dóu 42 (84 prósent) af dýrunum samstundis við skotið. En átta gerðu það ekki. Þau voru því skotin aftur. Sá sem lengst tórði lifði í fimmtán mínútur.
Er hvalveiðar í atvinnuskyni hófust á Íslandi árið 2009 eftir að langt hlé að mestu, var notað við þær nýr frumgerðsprengiskutuls, Whale Grenade–99, sem hafði verið þróaður og prófaður við hrefnuveiðar í Noregi. Skutullinn var úr áli og sprengiefnið í honum var penþrít. Árið eftir var hann áfram notaður í örlítið breyttri mynd. En Øen segir í skýrslu sinni að álið hafi ekki reynst vel. Þegar skutullinn hæfði bein í dýrunum hafi skotið misheppnast. Álið var of mjúkt og línan úr byssu í skutulinn ekki nægilega sterk.
Engar hvalveiðar voru stundaðar við Ísland árin 2011 og 2012 og áður en þær hófust aftur sumarið 2013 hafði sprengiskutullinn verið endurhannaður. Í stað álsins var komið ryðfrítt stál.
Miðið á miðtaugakerfið
Fyrir vertíðina árið eftir fóru allar hvalaskyttur Hvals hf. og áhafnir hvalveiðiskipanna á námskeið þar sem þær voru m.a. fræddar um líkamsbyggingu hvala. Hvar lífsnauðsynleg líffæri væru í þeim. Heilinn. Mænan. Hjartað og lungun. Var þeim uppálagt að miða skotum sínum í kviðarhol dýranna, helst rétt aftan við annað hvort bægslið.
Ástæður þess að hvalirnir átta sem norski dýralæknirinn fylgdist með veiðum á dóu ekki strax voru oftast þær að skytturnar á hvalveiðibátunum hæfðu ekki í hin lífsnauðsynlegu líffæri. Það þurfti því að hlaða byssuna á ný og skjóta aftur.
Á Íslandi gilda sérstök lög um hvalveiðar. Í grunninn eru þau frá árinu 1949. Þeim var síðast breytt árið 2012. Samkvæmt þeim mega þeir einir stunda slíkar veiðar sem til þess hafa leyfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Núverandi veiðiheimildir sem fyrirtækið Hvalur hf. eitt nýtir, gilda út árið 2023. „Að óbreyttu er fátt sem rökstyður það að heimila hvalveiðar eftir árið 2024,“ skrifaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í aðsendri grein í Morgunblaðinu í vetur. Sýna þyrfti fram á að það væri efnahagslega réttlætanlegt að endurnýja veiðiheimildirnar.
Í byrjun júlí lagði ráðuneyti hennar til breytingu á reglugerð um hvalveiðar sem fela m.a. í sér að skipstjórum hvalveiðiskipa verði gert að tilnefna dýravelferðarfulltrúa sem beri ábyrgð á því að rétt verði staðið að velferð hvala við veiðar.
Í núgildandi reglugerð kemur fram að einungis skuli nota skutulsprengjur af gerðinni hvalgranat-99 og skal dýr aflífað „eins fljótt og kostur er“.
Komi frávik í ljós
Sævar Guðmundsson, deildarstjóri landeftirlits hjá Fiskistofu, segir við Kjarnann að skyttur sem annist veiðar og aflífun dýra eigi að sækja viðurkennt námskeið í meðferð skutulbyssa og sprengiskutla og í aflífunaraðferðum við hvalveiðar.
Spurður hvort að Fiskistofa muni rannsaka veiðarnar 4. júlí sérstaklega í ljósi ábendinga Hard to Port segir hann að stofnunin fari yfir allar tilkynningar um veidda hvali og „komi frávik í ljós“ sé óskað eftir nánari upplýsingum frá skipstjórum og útgerð. Hins vegar sé umrætt atvik ekki tilkynningaskylt til Fiskistofu. Eftirlit með dýravelferð sé í höndum Matvælastofnunar.
Því það eru fleiri lög sem gilda um hvalveiðar en sérlögin fyrrnefndu.
Sigurborg yfirdýralæknir bendir í því sambandi á að í lögum um velferð dýra er sérstakt ákvæði um veiðar í 27. gr. en þar segir:
„Ávallt skal staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma. Skylt er veiðimönnum að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa þau dýr sem þeir hafa valdið áverkum.
Við veiðar er óheimilt að beita aðferðum sem valda dýri óþarfa limlestingum eða kvölum. Við veiðar á villtum dýrum skal að auki fara að fyrirmælum gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.“
Hvalir eru sannarlega villt spendýr. Og þau langstærstu sem fyrirfinnast á plánetunni Jörð. Langreyður, sem Hvalur hf. veiðir nú af miklum móð, er næststærsta spendýr jarðar. Einungis frænka hennar, steypireyðurin, er stærri. Þær eru fullvaxnar 24-26 metrar að lengd og vega þá 60-75 tonn. Þetta eru langlífar skepnur, geta orðið 80-90 ára. Svipað gamlar og mannskepnan.
Skrokkur langreyðar er langur og fremur grannur, dökkur á baki og hvítur á kvið. Hver langreyður hefur sitt einkennandi litamunstur í gráum og brúnum tónum ofan og aftan við augun. Hár blásturinn líkist keilu á hvolfi.
Gengur með kálfinn í eitt ár
Langreyðar eru oftast einar eða í litlum hópum, stundum slást þær í för með steypireyðum og fyrir kemur að þessar tegundir æxlist saman. Langreyðurin makar sig í nóvember til janúar, meðgöngutíminn er eitt ár og hún ber annað hvert ár. Kálfurinn er á spena í rúmlega 10 mánuði. Venjulega fæðist hann 6-6½ m langur og tvöfaldar lengd sína áður en hann fer af spena.
Langreyðar eru ekki fjörugar við yfirborði og er mjög sjaldgæft að þær lyfti sporði og enn sjaldnar stökkva þær. Langreyðar eru hraðsyndar og geta náð yfir 30 kílómetra hraða á klukkustund. Eins og steypireyður gefa þær frá sér hátt baul á mjög lágu tíðnisviði. Baul þeirra er talið meðal kraftmestu hljóða í náttúrunni og berst hundruð eða þúsundir kílómetra í sjónum.
Langreyðar voru mest veiddar allra hvalategunda á 20. öld en hafa verið verndaðar á heimsvísu síðan 1966. Stofnstærð á heimsvísu er áætluð um 120.000 til 150.000 dýr og að Austur-Grænlands- og Íslandsstofninn sé 8-10.000 dýr. Þær er að finna í öllum helstu hafsvæðum en eru einkum á tempruðum svæðum og nærri pólunum.
Stofninn er í viðkvæmri stöðu, er ógnað samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum.
Frá því fyrsta hvalveiðiskip Hvals hf. lagði úr höfn þann 22. júní hafa fulltrúar dýraverndunarsamtakanna Hard to Port orðið vitni að og safnað gögnum um fleira misjafnt en sprengiskutla sem ekki springa. „Hversu margir hvalir þurfa að þjást þar til ríkisstjórn Íslands skoðar þessi augljósi brot á dýravelferð nánar?“ spyr Arne Feuerhahn, framkvæmdastjóri Hard to Port. „Það er eins og hvalveiðifyrirtæki fái að komast upp með allt.“