Þingmenn fulltrúadeildarþings Bandaríkjaþings vörðu tíma sínum í vikunni í eitt verkefni: Að kjósa þingforseta. Það tók fjóra daga og fimmtán atkvæðagreiðslur.
Pattstaða, óreiða og pólitískt kaos af bestu gerð. Eða hvað?
Kevin McCarthy, þingmaður Repúblikanaflokksins frá Kaliforníu, er nýr þingforseti fulltrúardeildarinnar. Hann hefur setið á þingi frá 2006 og hefur leitt minnihluta repúblikana í fulltrúadeildinni síðustu fjögur ár.
„Þetta var auðvelt, ha?“ sagði brosmildur McCarthy í fyrstu ræðu sinni sem þingforseti og augljóst að þungu fargi var af honum létt.
Repúblikanar tryggðu sér nauman meirihluta í fulltrúadeildinni í kosningunum í nóvember en þingið fór hægt af stað í upphafi árs þar sem innanflokkserjur og átök innan þingflokks repúblikana tókst ekki að sammælast um þingforseta.
164 ár síðan svipuð staða var uppi
Það tókst loks á föstudagskvöld. Þetta er í fimmtánda sinn í Í 234 ára sögu fulltrúadeildarinnar sem fleiri en eina umferð þarf til að kjósa þingforseta og aðeins í sjö þeirra þurfti fleiri en tíu umferðir, líkt og nú.
Fara þarf 164 ár aftur í tímann, til ársins 1859, fyrir bandaríska borgarastríðið, til að finna sambærilega stöðu, þegar 44 umferðir þurfti til að kjósa þingforseta.
Metið er hins vegar frá 1855, í upphafi 34. þings fulltrúardeildarinnar, þegar 133 atkvæðagreiðslur um þingforseta þurfti til og stóðu yfir í tvo mánuði. 1855 og 1859 myndaðist pattstaða vegna deilna um þrælahald í Bandaríkjunum, sem leiddi til borgarastríðsins. Staðan er aðeins önnur nú.
Repúblikanar skipa 222 af 435 þingsætum og í fyrstu 11 atkvæðagreiðslunum tókst McCarthy mest að tryggja sér 203 atkvæði, í fyrstu tveimur umferðunum, en meirihluta greiddra atkvæða þarf til að ná kjöri þingforseta. Ef allir þingmenn greiða atkvæða þarf því 218 atkvæði, annars nægir að fá einfaldan meirihluta.
Demókratar héldu tryggð við sinn leiðtoga, Hakeem Jeffries, þingmann Demókrataflokksins fyrir New York-ríki. Þetta er í fyrsta sinn sem svartur maður leiðir demókrata í fulltrúadeildinni. Jeffries fékk 212 atkvæði í öllum atkvæðagreiðslunum fimmtán.
Stuðningsmenn Trump sem vilja leiðrétta „sögulegt óréttlæti“
Í fyrstu ellefu atkvæðagreiðslunum voru 20 þingmenn Repúblikanaflokksins sem vildu ekki greiða McCarthy atkvæði sitt. Um er að ræða fámennan hóp yst til hægri í flokknum, stuðningsmenn Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Trump fékk meira að segja greitt atkvæði, aðeins eitt þó, í einni atkvæðagreiðslunni, frá Matt Gaetz, þingmanni repúblikana fyrir Flórída. Sjálfur hvatti Trump þingmenn til að styðja McCarthy.
Andstæðingar McCarthy innan flokksins segjast vilja leiðrétta „sögulegt óréttlæti“ og vilja þeir veita almennum þingmönnum aukið vald yfir þróun lagasetningar. Meðal breytinga sem þeir krefjast er að almennir þingmenn geti lagt fram breytingar á lagafrumvörpum sem lögð eru fyrir þingmenn. Auk þess vilja þeir að nægjanlegt sé að einn þingmaður lýsi yfir vantrausti á þingforseta svo hægt sé að greiða atkvæði um hvort víkja eigi honum úr embætti.
Með sjálfstraustið í botni
Eftir elleftu atkvæðagreiðsluna á fimmtudagskvöld var þingfundi slitið. McCarthy mætti svo með sjálfstraustið í botni á föstudag þegar þingfundi var fram haldið með tólftu atkvæðagreiðslunni. McCarthy ræddi við andstæðinga sína milli þingfunda og tjáði blaðamönnum að samræðurnar hefði borið árangur.
McCarthy jók stuðning sinn í tólftu atkvæðagreiðslunni þegar hann fékk 213 atkvæði en Jeffries 211. Aðrir fengu sjö atkvæði. Í fyrsta sinn tókst McCarthy að fá fleiri atkvæði en Jeffries en það dugði ekki til.
Þá var komið að þrettándu umferðinni. Þar bætti McCarthy við sig einu atkvæði en það gerði Jeffries einnig. 214 gegn 212. Jim Jordan, þingmaður Repúblikanaflokksins, fékk sex atkvæði.
Þingmaðurinn sem vildi Trump sem þingforseta olli usla
Í fjórtándu umferðinni fékk McCarthy 216 atkvæði, akkúrat helming af þeim 432 sem greidd voru. Hann vantaði því eitt atkvæði. Einnig hefði dugað ef einn þingmaður til viðbótar hefði skráð sig fjarverandi. McCarthy hafði samið við Getz, þingmanninn frá Flórída sem kaus Trump í einni umferðinni, að skrá sig fjarverandi en á síðustu stundu meldaði hann sig viðstaddann en greiddi ekki atkvæði. Það varð til þess að McCarthy tóks ekki að tryggja sér sigurinn.
Mikil ókyrrð myndaðist í þingsalnum eftir fjórtándu umferðina og munaði litlu að til slagsmála kæmi milli Getz og Mike Rogers, þingmanns frá Alabama og stuðningsmanns McCarthy, sem var ekki hrifinn af uppátæki Getz.
McCarthy var hins vegar ekki af baki dottinn og fór sigurviss inn í fimmtándu umferðina. Þar fékk hann 216 atkvæði sem dugaði þar sem 428 greiddu atkvæði. Sigurinn var loks í höfn.
I hope one thing is clear after this week: I will never give up. And I will never give up for you, the American people. https://t.co/uLqPKa1maZ
— Kevin McCarthy (@SpeakerMcCarthy) January 7, 2023
Stjórnmálaskýrendur eru sammála um að sigurinn hafi þó verið dýrkeyptur. Með því að tryggja sér sæti þingforseta þurfi hann að færa litlum en róttækum og jafnvel öfgafullum hópi í flokknum ákveðin völd, svo sem sæti í mikilvægum þingnefndum, meðal annars allsherjarnefndinni sem hefur sterkt dagskrárvald og er áhrifamikil þegar kemur að fjárlagagerð. Þá gekk sú breyting í gegn að nú mun einn þingmaður geta lagt fram vantrauststillögu á þingforseta svo hægt sé að greiða atkvæði um hvort víkja eigi honum úr embætti.
En hvað með Santos?
Í gegnum allt ferlið gat McCarthy treyst á stuðning einn þingmanns en ekki er víst að McCarthy kæri sig um stuðninginn. En hann skipti máli. Þingmaðurinn nýkjörni, George Santos, var kjörinn á þing fyrir New York en blaðamenn New York Times afhjúpuðu Santos rétt fyrir jól. Hvorki menntun hans né starfsreynsla sem hann tiltekur á ferilskrá sinni er sönn.
Santos hefur viðurkennt að hafa hvorki unnið fyrir fjárfestingabankann Goldman Sachs né Citigroup. Þá viðurkenndi hann einnig að hafa ekki lokið háskólaprófi þó það komi fram á ferilskrá hans. Í kosningabaráttunni sagðist Santos vera gyðingur en hið rétta er að hann er kaþólikki. Santos útskýrði mál sitt með því að segjast vera „gyðinglegur“ þar sem slíkan bakgrunn væri að finna í móðurfjölskyldu hans.
Lygar Santos eru nú rannsakaðar sem glæpsamlegt athæfi af héraðssaksóknara í Nassau-sýslu í New York ríki. Santos viðurkennir að hafa fegrað feril sinn og gert mistök en hann ætlar ekki að segja af sér þingmennsku. „Ég er ekki glæpamaður.“
Santos veitti Fox News viðtal nýverið þar sem hann ræddi við Tulsi Gabbard, fyrrverandi þingmann Demókrataflokksins. Gabbard spurði Santos meðal annars hvort hann skammaðist sín ekki? Santos svaraði ekki en sagðist „geta sagt það sama um Demókrataflokkinn og Joe Biden Bandaríkjaforseta sem hefur verið að ljúga að bandarísku þjóðinni í 40 ár“.
Þó nokkrir þingmenn Demókrataflokksins hafa krafist að þingforseti efni til atkvæðagreiðslu um brottrekstur Santos, sjái hann ekki að sér og segi sjálfviljugur af sér.
Nú þegar þingforseti hefur loks verið kjörinn mun koma í ljós hvort meðal fyrstu verka fulltrúadeildarinnar verður að taka ákvörðun um pólitíska framtíð Santos.