Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif á tjónnæmið.
Þann 31. ágúst 2014 var gosið í Holuhrauni á allra vörum eftir að 600 metra löng gossprunga hafði opnast í kjölfarið á æsilegri atburðarás dagana á undan. Færri veittu athygli á frétt sem sagði frá skýfalli í Kaupmannahöfn og Malmö.
„Bílar á kaf og vegir lokuðust“ sagði í fyrirsögn í Morgunblaðinu daginn eftir. Ræsin höfðu ekki undan og í Kaupmannahöfn vakti það athygli mína að hús Veðurstofunnar dönsku í Lyngby var umflotið og vatn komst að stóru spátölvu DMI. Hún var reyndar nokkru síðar flutt alla leiðina til Íslands og endurnýjuð í leiðinni en það allt er önnur saga.
Kannski ekki til frásagnar nema að sama dag gerði í Reykjavík umtalsvert úrhelli. Svo mikið að niðurföllin í hluta borgarinnar réðu ekki við vatnsflauminn. Flæddi m.a. um alla ganga Breiðagerðisskóla eins og sagt er frá í úrklippunni úr sama blaði frá því daginn eftir (1. september). Á tveimur klukkustundum um morguninn, frá kl. 5 til 7, mældust á Veðurstofunni 25 mm í þessari dembu. Það er með því allra mesta sem gerist á ekki lengri tíma og nánast einsdæmi í Reykjavík.
Þetta er rifjað upp hér eftir mannskætt steypiregn síðustu daga. Annars vegar í Rínarhéruðum Þýskalands sem og austast í Belgíu og Hollandi. Sú mikla úrkoma sem féll staðbundið í tvo til þrjá daga kom íbúum greinilega í opna skjöldu og ljóst að hættan af aftaka úrkomu var yfirvöldum framandi og þá ekki síður almenningi. Eðlilega er mikil umræða um það í þessum ríkjum hvernig það gat gerst að yfir 200 manns skyldu bíða bana þegar vissulega hefði verið hægt að forða fólki frá þessum aðstæðum í tæka tíð. Mannskæðustu náttúruhamfarir í Þýskalandi í áratugi og Þjóðverjar segja sjálfir: Flóð verða í fátækari ríkjunum – ekki hjá okkur!
Nokkrum dögum seinna fóru að berast fréttir frá Henan-héraði í Kína af öðrum mannskæðum flóðum. Þar rigndi látlaust í 3 til 4 daga og svo ákaft var steypiregnið að á einni mælistöðinni kom þriðjungur ársúrkomunnar á aðeins einni klukkustund. Flóð af völdum regns eru ekki óalgeng í hinu fjölmenna Henan-héraði en nú var rigning bæði meiri og ákafari en áður hefur sést.
Líkja má við svamp
Við erum ekki að tala um flóð af völdum monsúnrigninga, heldur ekki sem hitabeltislægðir bera með sér og getur valdið ógn og skelfingu. Til aðgreiningar frá ofsafengnum og staðbundnum skúrum sem standa í skamma stund getum við kallað það steypiregn þegar himnarnir hvolfa úr sér frá örfáum klukkustundum upp í 3 til 5 daga samfellt. Flóð af völdum rigningartíðar eða leysinga í nokkra daga eða vikur eru líka annars eðlis. Aðdragandinn er þá lengri og umflotin svæði þekkt frá fyrri atburðum. Og þótt eignatjón geti orðið mikið í slíkum vatnagangi er oftast hægt að forða manntjóni, jafnvel á þéttbýlum svæðum. Menn hafa einfaldlega lært með tímanum að lifa með hættunni.
Steypiregnið er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Talað er um auknar öfgar í veðri sem eina birtingarmynd loftslagsbreytinganna. Í þeim skilningi að stærra útslag verði á sveiflum, t.d. frá hitum og þurrkum yfir í snjó og kulda. En í tilviki flóðanna hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla einnig áhrif á tjónnæmið. Um það deilir enginn.
Steypiregnið er samt öfgakennt veður þar sem úrkomuákefðin er meiri. Hana er auðvelt að mæla. Tiltölulega einföld eðlisfræði skýrir síðan ágætlega hvers vegna ákefðin vex.
Það er vel þekkt að með hlýnun eykst geta loftsins til að taka til sín meiri raka. Fyrir 1°C um 7%. Eins stigs hlýnun er um það bil sú sem mælst hefur til jafnaðar nærri yfirborði jarðar á síðustu 100 árum. Með hærri sjávarhita verður uppgufunin einnig meiri. Rakinn getur safnast upp í lægri lögum í daga og vikur án þess að úrkoma falli að nokkru ráði. Lofthjúpurinn er eins og svampur sem smám saman hefur aukið getu sína til að safna í sig vatni. Gjarnan er talað um að loft uppi í 1.000 til 1.500 metra hæð sé rakt þegar í því eru 10-14 grömm af vatni í hverjum rúmmetra. Í þeirri hæð fellur rakinn treglega úr lofti, einna helst með fíngerðum sudda.
En eigi úrkoma að falla þarf að þvinga rakt loftið upp á við í þær hæðir þar sem er talsvert frost. Þar skapast á endanum skilyrði til að framkalla úrkomu í rakamettuðu loftinu. Oftast er uppstreymið hægfara nokkrir sm/sek t.d. í lægðum og úrkoman sem fellur fyrirséð og „venjuleg“ í flestum skilningi. En við viss straumamót eða -hvörf í vindum í 3 – 9 kílómetra hæð getur orðið mjög öflugt uppstreymi, 2-5 m/s. Sé loftið að neðan þrungið raka verður þá sem svampurinn sé kreistur í einum vettvangi. Stundum hjálpar upphitun sólar á landi til, en svona ferli geta líka hæglega byrjað að næturlagi eða yfir hafi. Veðurlíkönin ná oftast að spá nokkuð nákvæmu úrkomumagni við hægfara uppstreymi. Þá er talað um línuleg ferli sem auðvelt er að herma.
Hreyfingar í kröftugu uppstreymi eru frekar sagðar ólínulegar og mun erfiðari viðfangs. Má líkja við goshver eins og Strokk þar sem gos eru ólínuleg og illa fyrirséð samanborið við Geysi sem í dag er lygn hver með jöfnu rennsli út fyrir skálarbarmana. En rétt er samt að geta þess að spálíkön náðu ágætlega umfangi og staðsetningu mestu úrkomunnar í Þýskalandi. Þar var það frekar viðbragð og viðbúnaðurinn sem brást þó svo að flóðaviðvaranir hefðu verið gefnar út.
Færiband raka og Seyðisfjörður
En hvað með met rigningarnar á Seyðisfirði í desember? Var það steypiregn samkvæmt skilgreiningunni? Já og nei. Rigndi yfir 570 mm í 5 daga og nánast samfellt allan þann tíma. Sambærilegt við hæstu tölur sem frést hefur af í Hunan í Kína. Rakt loft barst langt sunnan úr höfum og rakasta loftið var eins og á (e. atmospheric river) sem lá eins og mjór ormur í sveig hingað norður eftir. Kjarni hans kom á land út á norðanverðum Austfjörðum. Þvingun loftsins yfir fjöllin í A-áttinni olli staðbundu uppstreymi sem jók verulega á úrkomuákefðina.
Á meðan rakafæribandið lá yfir Seyðisfirði og nágrannasvæðum hélt áfram að rigna og til fjalla snjóaði gríðarlega þessa daga. Veðurstaða með færiband raka yfir há fjöllin eystra er vel kunn, en sýna má fram á með einföldum samanburði þá og nú að loftið úr suðri hafi verið hlýrra en við viðlíka aðstæður og þar með vatnsþrugnara. Þess vegna rigndi meira en annars hefði gert. Aftur einföld eðlisfræði. En vissulega var það tilviljun að rigningarormurinn ógurlegi hafi staðnæmst svo að segja í nokkra daga stað þess að halda för sinni áfram til norðurs eða austurs eins og oftast er raunin.
Í annarri grein ætla ég að huga nánar að tengingu slíkra atburða við hlýnun loftslags og hversu staðbundið steypiregnið getur orðið og vandasamt í spám í miklu þéttbýli. Í borgum er steypiregn vaxandi vandamál og veldur því að endurhugsa og -hanna þarf frárennsliskerfi svo veita megi vatni burtu. Skoðum líka Reykjavíkursvæðið sérstaklega og veltum upp mesta hugsanlega steypiregni og horfunum næstu 100 árin eða svo.