Velkomin í fjórðu bylgjuna: Skafl rís úr undirdjúpunum

Hópsýkingar hafa að undanförnu blossað upp á þeim svæðum í Bandaríkjunum þar sem bólusetningarhlutfallið er lágt. Vanmat á því sem er að gerast hér og hvar í landinu gæti endað með enn einni bylgju faraldursins.

Mun fjórða bylgjan springa út í Bandaríkjunum?
Mun fjórða bylgjan springa út í Bandaríkjunum?
Auglýsing

Við höfum notað ýmsar vísanir í náttúruhamfarir til að lýsa heimsfaraldrinum. Hann hefur farið um eins og eldur í sinu. Líkastur fellibyl. Stormsveip. Skollið á með flóðum. Í öldum og bylgjum.

Í nýrri fréttaskýringu Time er enn eitt orðið til að lýsa stöðu faraldursins fengið að láni úr hamfaraorðabókinni: Útsog. Straumstrengur undir yfirborði sjávar sem virðist hættulaus, lætur ekki mikið yfir sér, en getur reynst banvænn. Fólk áttar sig ekki á hættunni fyrr en um seinan. Við Íslendingar þekkjum þetta fyrirbæri til dæmis úr náttúruperlunni Reynisfjöru.

Það má fara dýpra í myndlíkinguna. Tala um að skjálftar eða skriður hafi átt sér stað í mikilli fjarlægð. Eldgos jafnvel. Myndast hafi bylgjur á haffletinum sem enginn varð var við í fyrstu. En þegar þær koma að landi – okkar landi eða öðrum – rísa þær upp í gríðarstóra skafla.

Hættan verður mest í slíkum aðstæðum þegar búið er að taka mælana úr sambandi. Mælana sem áttu að vara okkur við. Við sofnum á verðinum. Og einnig ef enginn hlustar á flóðbylgjuviðvörunina þegar aldan er við það að skella á land. Þegar bent er á að kúturinn og korkurinn sem okkur voru fengnir halda ekki jafn vel vatni og vonast var til.

Hröð fjölgun smita af kórónuveirunni hér á landi hefur komið mörgum í opna skjöldu. Við töldum okkur orðin nokkuð örugg í öldurótinu með bóluefni að vopni. Annað virðist vera að koma á daginn þótt enn eigi eftir að koma í ljós hversu stór og hversu alvarleg bylgjan verður. Óvissa er enn og aftur framundan.

Auglýsing

En við erum ekki ein. Skaflinn sem er að hellast yfir okkur úr djúpinu er tekinn að rísa víðar á jörðinni. Og þótt margir segi komið gott af hömlum á daglegt líf fólks eru aðrir, m.a. vísindamenn, á því afléttingar allra takmarkana séu enn ótímabærar. Geti reynst hættulegar.

Kjarninn ætlar næstu daga að birta fréttaskýringar um stöðu faraldurs kórónuveirunnar innan hverrar heimsálfu fyrir sig. Í þeirri fyrstu verður sjónum beint að Norður-Ameríku.

Útsogið

Útsogið, sem notað er í skýru Time um faraldurinn í Bandaríkjunum, lýsir sér þannig að smáar hópsýkingar hófu að skjóta upp kollinum í ríkjum þar sem bólusetning er hvað styst á veg komin. Þær blossuðu upp hver af annarri í sýslu eftir sýslu. Ríki eftir ríki. Byrjuðu í sunnanverðum miðríkjunum en hafa svo liðið áfram, hægt og hljótt en örugglega, allt suður að Mexíkó-flóa. Ein og ein virtust þær nokkuð sakleysislegar. Viðbúnar. Fyrirsjáanlegar eftir tilslakanir aðgerða síðustu mánuði. En þegar horft er á þær allar í einu blasir heldur dökk mynd við.

Hópsýkingar í Bandaríkjunum á tveggja vikna tímabili í júlí, framsettar í hlutfalli við íbúafjölda. Mynd: Time/John Hopkins

Talið er að þær séu flestar af völdum hins bráðsmitandi delta-afbrigðis og í ljósi þess og hversu útbreiddar sýkingarnar eru þegar orðnar eru mörg teikn komin á loft. Smit gætu farið um eins og logi yfir akur. Eins og bál sem upp koma skyndilega á mörgum stöðum í einu og verða svo að umfangsmiklu eldhafi. Og óbólusettir yrðu ekki þeir einu sem myndu sýkjast. Fjórða bylgja COVID-19 er í uppsiglingu í Bandaríkjunum og hún mun koma mörgum að óvörum.

Víða í Bandaríkjunum hefur verulega verið dregið úr skimun vegna kórónuveirunnar. Áherslan hefur verið lögð á bólusetningar. Þetta hefur gert það að verkum að þróunin er ekki jafn augljós og áður og heildarmyndin því heldur óskýr. Ónákvæm.

Jennifer Nuzzo, einn helsti faraldsfræðingur Johns Hopkins-háskóla, segir að þótt vel sé haldið utan um fjölda alvarlegra tifella í Bandaríkjunum séu það „allir hinir“ sem hún hafi áhyggjur af. „Við verðum að snúa sjónaukanum að öðrum hlutum himinsins.“

Veitir vörn en minni en vonast var til

Enn telja vísindamenn að bóluefnin veiti vörn gegn veirunni, þrátt fyrir að öllum sé orðið ljóst að bólusettir geti sýkst og smitað svo aðra. Það sem þeir eiga við er að bóluefnin veiti góða vörn gegn alvarlegum veikindum og þar af leiðandi dauða. Engu að síður telja þeir sem rætt er við í fréttaskýringu Time margir hverjir fulla þörf á því að grípa einnig til annarra vopna – nú þegar fjórða bylgjan er farin að sýna kryppuna.

Í Los Angeles-sýslu í Kaliforníu hefur t.d. verið sett á grímuskylda að nýju innandyra. Allir þurfa að bera grímu, ekki aðeins hinir óbólusettu. Þetta er öfugt við tilmæli Smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna (CDC). En í sýslunni vilja menn hafa allan varann á. Fleiri eru líklegar til að fylgja í kjölfarið.

Börn fagna á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna 4. júlí. Mynd: EPA

Fólk gerir það ekki síst til að hlífa óbólusettum börnum sínum. Því líkt og á Íslandi eru langflest börn í Bandaríkjunum ekki enn bólusett. Og þrátt fyrir að þau veikist almennt minna af veirunni en þeir sem eldri eru myndi faraldur á meðal þeirra alltaf hafa hættu í för með sér. Og skólastarf haustsins verða í uppnámi.

Gjá á milli ríkja

Tæplega 400 milljónum skammta af bóluefni hefur verið dreift um Bandaríkin. Mikill meirihluti þeirra hefur þegar verið gefinn fólki. Rétt tæpur helmingur íbúanna er fullbólusettur eða yfir 160 milljónir einstaklinga. Það er hins vegar töluverður munur á hlutfallstölunum milli ríkja. Þannig eru rétt um 20 prósent íbúa í ákveðnum sýslum í t.d. Louisiana og Mississippi þegar bólusett. Í heild eru um 40 prósent íbúa þess fyrrnefnda bólusettir og aðeins 38 prósent þess síðarnefnda. Norðar, t.d. í Vermont og Maine, er staðan allt önnur. 75 prósent íbúa Vermont eru bólusettir og 68 prósent íbúa Maine.

Um 35 milljón tilfelli af kórónuveirunni hafa verið greind í Bandaríkjunum frá upphafi faraldursins. Yfir 250 þúsund ný tilfelli hafa greinst þar á einni viku. Fyrir viku voru þar að greinast um 10-12 þúsund tilfelli á dag. Í gær voru þau um 56 þúsund. Þá var tilkynnt um 416 dauðsföll sem rakin eru til COVID-19. Að minnsta kosti 605 þúsund manns hafa látist vegna sjúkdómsins í Bandaríkjunum.

Auglýsing

Í nágrannaríkinu í norðri, Kanada, er staðan allt önnur og hefur verið að mestu frá upphafi faraldursins. Þar náðist sá árangur nýverið að hlutfallslega fleiri Kanadamenn en Bandaríkjamenn voru bólusettir. Bæði eru löndin komin fast að 50 prósent bólusetningu en þegar kemur til samkeppninnar og samanburðarins sem oft getur verið harður á Kanada vinninginn í augnablikinu.

Bólusetningarherferð Kanadamanna átti brösótta byrjun. Þeir settu mörg egg í körfuna, pöntuðu bóluefni frá fjölda fyrirtækja. Mánuðum saman voru svo tafir í framleiðslu margra lyfjafyrirtækja að hafa áhrif sem og tafir í afhendingu á sendingum. Á sama tíma tóku Bandaríkjamenn, sem framleiða sjálfir mikið magn bóluefnis, fram úr.

Um 1,4 milljón tilfelli hafa verið staðfest í Kanada í faraldrinum. Rúmlega 26 þúsund manns hafa látist. Þar hafa líkt og víða þrjár bylgjur gengið yfir, sú síðasta í apríl og maí. Tilfellum hefur ekki verið að fjölga milli vikna að undanförnu líkt og reyndin er hjá nágrönnunum í Bandaríkjunum. Um 50 prósent íbúanna eru fullbólusettir og ríflega 70 hafa fengið að minnsta kosti annan skammtinn. Líkt og í Bandaríkjunum er þó töluverður munur milli svæða innan hins víðfeðma lands. Í norðurhluta Yukon og á Norðvestur-svæðunum er hlutfallið hæst eða um 60 prósent. Við Atlantshafið er það nokkuð lægra og á Nýfundnalandi er það til að mynda rétt yfir 30 prósent.

Hópsýkingar hafa m.a. skotið upp kollinum í olíuríkinu Texas. Mynd: EPA

En það er ekki nóg að byrja bratt þegar kemur að bólusetningum. Þótt sú hafi verið raunin í Bandaríkjunum hefur nú verulega hægt á þeim þar og háleit markmið Joes Bidens forseta um að 60-70 prósent íbúanna yrðu bólusett snemmsumars er löngu fokið út um gluggann. Bólusetningatregða er raunverulegt vandamál sem allt strandar nú á. Biden hefur brugðist við með því að hvetja til þess að sett verði upp aðstaða til bólusetninga á vinnustöðum og að starfsmönnum verði boðinn frídagur gegn því að fara í bólusetningu.

Þetta er ekki góð staða í ljósi þess að hið bráðsmitandi delta-afbrigði veirunnar er nú komið á mikið flug vestanhafs eins og svo sem á flestum stöðum í heiminum. Afbrigðið sem „tekur yfir“ hvar sem það nær landfestu. Það er talin ástæða þess að daglegur fjöldi smita hefur þrefaldast á rúmlega tveimur vikum og hópsýkingar orðið í Texas, Arkansas og Missouri.

Ekki víst að landamærin verði opnuð

Stjórnvöld í bæði Bandaríkjunum og Kanada hafa farið varlega í það að opna landamæri sín. Þannig eru ónauðsynleg ferðalög bönnuð þangað þótt Bandaríkjamenn sjálfir geti ferðast um víða, séu þeir bólusettir og fari í PCR-próf ýmist rétt fyrir heimkomu eða strax og komið er heim. Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur boðað opnun landamæra fyrir bólusetta milli Kanada og Bandaríkjanna um miðjan ágúst. Hann hefur líka sagst ætla að opna landamærin fyrir ferðamönnum frá öllum löndum með sömu skilyrðum í september. Þær fyrirætlanir kunna að breytast enda setti hann þann fyrirvara að staðan yrði að vera orðin góð.

Bólusetningarhlutfall er hátt á milli svæða innan Bandaríkjanna. Í New York ríki er það um 60 prósent. Mynd: Pexels

Allt virðist stefna í eina átt í Bandaríkjunum. Að fjórða bylgjan sé við það að bresta á, verði ekkert að gert. Reyndar er erfitt að tala um Bandaríkin í heild í þessu sambandi – ekki frekar en í fyrri bylgjum. Djúp gjá hefur myndast í bólusetningum milli ríkja – og milli sýsla innan þeirra. Smitum hefur fjölgað á svæðum þar sem hlutfallið er lágt. Líkt og víðast annars staðar hefur takmörkunum á samkomum og ferðalögum fólks verið aflétt undanfarnar vikur og mánuði. Það var gert vegna bólusetninganna. Þær voru björgunarhringurinn.

„Að bera saman ríkin er ekki góður mælikvarði, við þurfum fínni greiðu til að sjá hvað er að gerast,“ segir faraldsfræðingurinn Jennifer Nuzzo við Time. Hún segir hópsýkingarnar sem blossað hafa upp undanfarnar vikur margar vera að eiga sér stað á dreifbýlli svæðum en áður. Horfa verði á smittölur og sjúkrahúsinnlagnir staðbundið – ekki á landsvísu. Aðeins þannig sé hægt að öðlast yfirsýn yfir stöðuna. Lykilatriðið sé svo að horfa á smittölur í takti við fjölda sýna sem tekin eru. Þeir sem eru nú að greinast er aðallega fólk sem hefur sýnt einhver einkenni sjúkdómsins. Það eru þeir sem mæta í sýnatöku.

Auglýsing

Landslagið er því allt annað nú en í fyrstu bylgjunum. Margir eru áhyggjulausir að njóta frelsisins sem fékkst með afnámi takmarkana í kjölfar útbreiddra bólusetninga. „Við erum að haga okkur nákvæmlega eins og við gerðum fyrir ári síðan,“ segir Murray Cote, prófessor við háskóla í Texas. Þar vísar hann í síðasta sumar þegar tilfellum af kórónuveirunni fór fækkandi. Fólk pakkaði grímunni niður og gleymdi sér í gleðinni. Svo kom önnur bylgjan.

Núna er bóluefni komið til sögunnar. Það hefur róað marga. En getur verið að um svikalogn hafi verið að ræða?

Bóluefni veita ekki fullkomna vörn. Og þau veita minni vörn gegn delta-afbrigðinu en þeim fyrri sem við höfum fengist við. Kannski er vörnin því um 60 prósent, hafa vísindamenn jafnvel áætlað, þótt enginn viti það enn með vissu. Það þýðir að fjórir af hverjum tíu gætu sýkst og mögulega veikst. Ef fjórða bylgjan skellur á þá mun það þýða fleiri sjúkrahúsinnlagnir og fleiri dauðsföll en orðið hafa á síðustu vikum. Og ekki má svo gleyma því að í Bandaríkjunum er aðeins um helmingur íbúanna bólusettur.

Bólusetningar Í Norður-Ameríku og Evrópu eru engu að síður margfalt fleiri – samkvæmt öllum mælikvörðum – en t.d. í Afríku og Suður-Ameríku. Aðeins um eitt prósent íbúa fátækustu landa heims hafa fengið að minnsta kosti annan skammt bóluefnis. Þessi gjá bíður ekki aðeins hættunni heim á þessum svæðum. Hrikalegu mannfalli þar sem góð heilbrigðisþjónusta er á fæstra færi. Hún ógnar allri heimsbyggðinni.

Delta-afbrigðið varð til á Indlandi þar sem fáir voru bólusettir og gríðarlegur fjöldi smitaður.

Nákvæmlega sömu aðstæður eru enn uppi víða um heim.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands tók við af Matt Hancock fyrr í sumar.
Biðst afsökunar á að hafa sagt fólki að hætta að „hnipra sig saman“ andspænis veirunni
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands segist hafa notað óheppilegt orðfæri til að lýsa því hvernig landar hans þyrftu að fara að lifa með veirunni, í ljósi útbreiddra bólusetninga.
Kjarninn 25. júlí 2021
DÓTTIR er stuttmynd um ást, þráhyggju og brotna sjálfsmynd.
Stuttmyndin DÓTTIR er „ástarbréf til Íslands“
Sofia Novakova, leik- og kvikmyndagerðarkona frá Slóvakíu, er þessa dagana að taka upp stuttmyndina DÓTTIR hér á landi. Safnað er fyrir útgáfu myndarinnar á Karolina Fund.
Kjarninn 25. júlí 2021
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar