MP banki,Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) og félag í eigu Garðars K. Vilhjálmssonar gerðu tilboð í 27,5 prósent hlut Íslandsbanka í Íslenskum Verðbréfum í október. Föstudaginn 24. október var ákveðið að taka tilboðinu. Þann sama daga bárust tilboðsgjöfunum upplýsingar um að Straumur hefði lagt inn tilboð í hlutinn þegar allt stefndi í að kaupin myndu ganga í gegn. Þær upplýsingar, sem voru byggðar á orðrómi á fjármálamarkaðnum, reyndust ekki réttar. Straumur gerði aldrei tilboð í hlutinn.
Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums.
Hins vegar keypti bankinn 64,3 prósent hlut Sævars Helgasonar og Ásgeirs Ásgeirssonar, í gegnum félagið Gunner ehf., í Íslenskri eignastýringu ehf., sem á 21,83 prósent hlut í Íslenskum verðbréfum, samkvæmt heimildum Kjarnans. Straumi býðst síðan að ganga inn í tilboð í aðra hluti í ÍV á grundvelli forkaupsréttarákvæðis. Þar á meðal er 27,5 prósent hlutur Íslandsbanka sem MP banki (10 prósent), LIVE (10 prósent) og Garðar Vilhjálmsson (7,5 prósent) tilkynntu um kaup á fyrir skömmu. Þau viðskipti, líkt og kaup Straums á hlut Sævars og Ásgeirs, eru háð samþykki Fjármálaeftirlitsins. Eins og áður segir gætu þessi áform breyst, þar sem Straumur hefur hug á að nýta forkaupsréttarákvæði og einnig auka eign sína í ÍV enn frekar. Því gæti staðan orðið sú þegar öll kurl eru komin til grafar að Straumur yrði með tögl og hagldir.
Hröð atburðarás
Á mánudagsmorgun, 27. október, voru kaupin á hlut Íslandsbanka í Íslenskum verðbréfum undirrituð. Síðar sama dag bárust fregnir til eigendahóps MP banka að Straumur hefðu keypt tæplega 20 prósent hlut þeirra Joe Lewis og Rowland-fjölskyldunnar í MP banka. Samkvæmt heimildum Kjarnans var kaupverðið í þeim viðskiptum grundvallað á sama verðmati og Kjarninn hafði greint frá september síðastliðnum. Það er að virði hlutafjár bankans væri á bilinu 0,3 til 0,6 sinnum eigið fé hans, sem þá nam 1,5 til þremur milljörðum króna. Kaupverðið á 20 fyrrnefndum 20 prósent hlut nam því á bilinu 300 til 600 milljónum króna.
Kaupverðið á 20 fyrrnefndum 20 prósent hlut nam því á bilinu 300 til 600 milljónum króna.
Þessi sala fór ekki vel í aðra hluthafa MP banka, samkvæmt heimildum Kjarnans. Þeir hefðu viljað fá möguleikann á því að kaupa hlutinn áður en hann var seldur til Straums. Þeir töldu augljóst að tilgangurinn væri að reyna að taka yfir MP banka, en fyrir áttu aðilar tengdir Straumi samtals um 3,5 prósent hlut í MP banka. Þar er um að ræða Steinunni Jónsdóttur, eiganda félagsins Arkur ehf., sem á 2,56 prósent hlut, og Siglu ehf., í eigu Finns Reys Stefánssonar og Tómasar Kristjánssonar, sem á um eitt prósent hlut. Steinunn er eiginkona Finns. Sigla er einn stærsti eigandi Straums með 16,25 prósent eignarhlut og Finnur er stjórnarformaður bankans.
Aðrir stórir eigendur MP banka litu því á að Arkur og Sigla myndu stilla sér upp með Straumi ef að yfirtökutilraun kæmi.
Endurreisn
Þegar MP banki var lagt til 5,5 milljarðar króna í nýtt hlutafé, og bankinn í raun endurvakinn frá dauðum, í apríl 2011, þá leiddi fjárfestirinn Skúli Mogensen þá vegferð. Einn viðmælanda Kjarnans sagði að Skúli hafi verið nokkur konar „master of ceremony“ í þeirri endurreisn. Hann hafi komið hópnum saman sem lagði til féð og sjálfur orðið stærsti hluthafinn með 17,5 prósent hlut.
Sigurður Atli Jónsson er forstjóri MP Banka.
Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Ókyrrð hefur komist á hluta hluthafanna, sérstaklega þá erlendu aðila sem Skúli fékk að MP banka, og þeir hafa viljað selja sinn hlut. Rekstur MP banka hefur enda ekki gengið neitt afskaplega vel síðan að nýju hluthafarnir komu að bankanum. Skúli og eiginkona hans skildu í byrjun árs 2013 og eignarhlut fjárfestingafélags hans í MP banka var í kjölfarið skipt upp á milli þeirra. Skyndilega var Manastur Holding, félag í eigu Joseph C. Lewis, orðið stærsti eigandi bankans. Smærri aðilar á íslenskum fjármálamarkaði virðast einfaldlega ekki geta náð nægilega arðbærum rekstri nema með því að sameinast öðrum og ná þar með fram kostnaðarsamlegð. Þess vegna hafa nánast allir á „litla“ markaðnum verið að reyna að sameinast einhverjum öðrum.
Þess vegna hafa nánast allir á „litla“ markaðnum verið að reyna að sameinast einhverjum öðrum.
Sameiningatilraunir MP banka hafa reyndar verið töluvert meira í dagsljósinu en annnarra. Í maí 2013 hófust viðræður við Íslensk Verðbréf um kaup MP banka á hinu síðarnefnda fyrirtæki. Þeim viðræðum var formlega slitið í febrúar 2014, meðal annars vegna andstöðu í hluthafahópi Íslenskra Verðbréfa. Í september síðastliðnum var síðan tilkynnt að MP banki og Virðing hf. hefðu ákveðið að taka upp formlegar viðræður um sameiningu. Þær viðræður náðu því ekki að verða mánaðargamlar áður en þeim var hætt.
Straumur að reyna að ráða för
Og nú er Straumur að reyna að ná undirtökunum í MP banka. Í frétt í Morgunblaðinu í dag segir að samkvæmt fjárfestakynningu sem Straumur hefur kynnt ýmsum hluthöfum MP banka undanfarna daga mui nást kostnaðarsamlegð sem nemur 666 milljónum króna á ári ef bönkunum tveimur verður rennt saman.
Samkvæmt heimildum Kjarnans eru stærstu hluthafar MP banka þó alls ekki hrifnir af sameiningu við Straum.
Samkvæmt heimildum Kjarnans eru stærstu hluthafar MP banka þó alls ekki hrifnir af sameiningu við Straum. Og aðferðarfræðin sem beitt var við kaupin kemur sérstaklega við kauninn á þeim. Stærstu hluthafarnir fóru samstundis að ráða ráðum sínum eftir að þeir fengu fregnir af kaupum Straums á hlut í bankanum. Niðurstaðan er sú að eigendur um 70 prósent hlutafjár standa saman gegn öllum tilraunum til yfirtöku og ætla „ekki að láta koma aftan að sér“, eins og einn viðmælandi Kjarnans orðaði það. Ljóst er þó innan Straums, bæði meðal stjórnenda og hluthafa, er vilji til þess að sameina öll félögin, MP banka, Straum og ÍV, tiltölulega hratt.