Tíu ár eru síðan Óperuhúsið í Kaupmannahöfn, Óperan, var tekið í notkun. Ekki er hægt að segja að friður og sátt hafi ríkt um þetta stóra hús og starfsemina þar, deilurnar hófust áður en byrjað var að byggja og þær standa enn. Sýningagestum fækkar ár frá ári.
Í grein sem danski óperusöngvarinn Stig Fogh Andersen skrifaði og birt var í dagblaðinu Politiken árið 1999, stakk hann upp á því að byggt yrði óperuhús í Kaupmannahöfn. Gamla Konunglega leikhúsið við Kóngsins Nýjatorg var þá eina húsið í borginni þar sem hægt var að sviðsetja óperur, þótt það hafi á sínum tíma ekki verið byggt með slíkt í huga.
Ári eftir að grein óperusöngvarans birtist í Politiken tilkynnti skipakóngurinn (Arnold) Mærsk Mc-Kinney Möller að A.P. sjóðurinn (í eigu Mærsk fjölskyldunnar) ætlaði að gefa dönsku þjóðinni óperuhús sem reist skyldi á Hólmanum gegnt Amalíuborg og Marmarakirkjunni. Þar var sjóðurinn búinn að kaupa lóð (svæði er líklega réttara orð) og borgaði fyrir 120 milljónir danskra króna (ca. 2.5 milljarðar íslenskir).
Í ágúst árið 2001 hófust framkvæmdirnar. Þá hafði ekki verið gefið út byggingaleyfi og enginn vissi hvernig húsið myndi líta út.
Þótt Danir hafi á undanförnum áratugum vanist rausnarlegum styrkjum og gjöfum af öllu mögulegu tagi frá A.P. sjóðnum var öllum ljóst að þessi þjóðargjöf, eins og Óperan hefur stundum verið kölluð, tæki öllu fram í þeim efnum. Gjöfinni fylgdu þrjú skilyrði: Óperan skyldi heyra undir Konunglega leikhúsið, húsið skyldi byggt á þessum tiltekna stað á Hólmanum og að gefandinn réði vali arkitektsins.
Gröfurnar í gang þótt byggingarleyfið vantaði
Í ágúst árið 2001 hófust framkvæmdirnar. Þá hafði ekki verið gefið út byggingaleyfi og enginn vissi hvernig húsið myndi líta út. Þessu verklagi var mótmælt, það breytti engu og stórvirkar vélar grófu einhverja stærstu holu sem sést hefur í Danmörku, eins og blöðin orðuðu það.
Í október sama ár var tilkynnt að arkitektastofa Hennings Larsen myndi annast hönnun hússins. Enginn hafði neitt við valið á arkitektinum að athuga, Henning Larsen (1925 – 2013) var í hópi þekktustu arkitekta Danmerkur og teiknistofa hans tekið þátt í hönnun margra þekktra bygginga, þar á meðal Hörpu í Reykjavík.
Þegar Henning Larsen lagði fram teikningar sínar kom í ljós að ekki veitti af stórri og djúpri holu því samkvæmt teikningunum yrði húsið samtals 41 þúsund fermetrar á fjórtán hæðum, þar af fimm neðanjarðar. Mikill kraftur var í byggingarframkvæmdunum, blöðin gerðu því skóna að Mærsk Mc-Kinney Möller vildi að verkinu yrði lokið meðan hans nyti við en hann var að verða níræður þegar framkvæmdirnar hófust.
Ráðríkur gefandi
Fljótlega eftir að byrjað var að byggja lak það út, eins og sagt er, að Mærsk Mc-Kinney Möller vildi hafa sitt að segja um vinnu arkitektanna. Þær lekafréttir voru svo staðfestar þegar kynnt var nýtt og talsvert breytt útlit framhliðar hússins, þeirrar sem snýr að Amalienborg.
Ekki voru allir jafnhrifnir af þeirri breytingu og í einu blaðanna mátti lesa „að vissulega væri Mærsk klár viðskiptajöfur en hann ætti kannski að láta arkitektana ráða útliti Óperunnar.“ Skipakóngurinn og arkitektinn deildu um fjölmörg önnur atriði og síðar var haft eftir Hennig Larsen að hann hefði gjarna viljað losna undan þessu verkefni ef hann hefði getað.
Þekktir listamenn voru fengnir til að gera skreytingar, velja veggklæðningar og svo framvegis. Þar á meðal Ólafur Elíasson (sem Danir kalla ætíð dansk-íslenskan listamann) sem gerði þrjá stóra ljósakúpla sem prýða anddyrið.
Arnold Mærsk Mc-Kinney Möller vildi hafa sitt að segja um útlit óperuhússins. Afskiptasemi hans lagðist þungt á arkitekt hússins. Mærsk Mc-Kinney Möller lést 16. apríl 2012, þá 98 ára gamall.
Stórt og dýrt
Húsið er eins og áður sagði um það bil 41 þúsund fermetrar. Þar eru tveir salir, sá stærri, kallaður Stóra sviðið, tekur 1500 – 1700 manns í sæti en sá minni Takkelloftet (kaðlaloftið, veiðarfæraloftið) 180 manns. Í anddyrinu er veitingastaður en alls eru í húsinu um það bil 1000 vistarverur, stórar og smáar.
Heildarkostnaður við byggingu hússins, fyrir utan lóðina, nam 2,5 milljörðum danskra króna árið 2005 (ca. 52 milljarðar íslenskir). Óperuhúsið var tekið í notkun, með mikilli viðhöfn, þann 15. janúar 2005.
Eitt er að gefa, annað að þiggja
Í gjafabréfi A.P. Möller sjóðsins er skýrt tekið fram að húsið sé gjöf til dönsku þjóðarinnar, ekkert rekstrafé fylgdi með. Ekki kom til greina að afþakka svo höfðinglega gjöf en hjá yfirstjórn Konunglega leikhússins byrjuðu viðvörunarljósin strax að blikka. Stjórninni var semsé ljóst að þótt hún fengi húsið í hendurnar væri ekki nema hálf sagan sögð: það kostar stórfé að reka Óperuhús og tekjur af miðasölu og öðru slíku geta aldrei staðið undir rekstrinum.
Stjórn leikhússins var komin með heilt óperuhús á herðarnar án þess að fjárframlög til leikhússins í heild ykjust að sama skapi. Í upphafi fékk Konunglega reyndar 100 milljóna króna (rúma 2 milljarða íslenska) aukafjárveitingu vegna Óperunnar, svona til að koma henni almennilega úr sporunum eins og einn þingmaður orðaði það.
Stjórninni var vandi á höndum, til tals kom að loka gamla leikhúsinu við Kóngsins Nýjatorg en þegar til kom reyndist ekki vilji til þess. Gamla leikhúsið er glæsileg bygging (tekin í notkun 1874) og rúmar 1600 manns í sæti. Þegar þarna var komið sögu var líka verið að byggja nýtt leikhús, Skuespilhúsið, neðan við Nýhöfnina, það kom í stað Stærekassans svonefnda sem stendur við hlið gamla leikhússins. Í dag rekur Konunglega því þrjú hús, Konunglega leikhúsið, Óperuna og Skuespilhúsið.
Frá formlegri opnun óperuhússins í Kaupmannahöfn, þann 15 janúar árið 2005.
Á fyrsta heila starfsári Óperunnar á Hólmanum (2006) voru áhorfendurnir 244 þúsund og sýningarnar 287. Þetta var mikil aukning en 148 þúsund sóttu óperusýningar í gamla leikhúsinu árið 2004. Þessi aðsókn reyndist þó ekki fyrirboði „rífandi gangs“ eins og stundum er komist að orði, því síðan hefur sýningagestum fækkað ár frá ári og á síðasta ári komu 152 þúsund gestir í húsið á 128 sýningar. Þessar tölur tala sínu máli.
Framtíðin og fortíðin
Stjórnendur Óperunnar segja ástæðurnar fyrir því að færri sæki sýningar en áður þær að starfseminni sé þröngur stakkur skorinn og fjárveitingar leyfi ekki meiri starfsemi, 100 milljónirnar sem fylgdu með í upphafi hafi verið skornar við trog. Fækkað hefur verið í óperuhljómsveitinni og litla sviðið, Takkelloftið, er lokað og óvíst hvenær þar verður breyting á. Menningarmálaráðherrann, Marianne Jelved, hefur sagt að eins og nú sé ástatt í fjármálum danska ríkisins séu ekki meiri peningar í boði og þar við sitji.
Í tilefni þess að tíu ár eru frá því að Óperuhúsið var tekið í notkun hafa farið fram miklar umræður um starfsemina og hvað sé framundan. Gagnrýnisraddirnar eru margar og áberandi: verkefnavalið sé íhaldssamt, það sé alltaf verið að sýna gamlar óperur, á síðasta leikári var nýjasta óperan frá 1977 og meira en helmingur verkanna eldri en 100 ára. Helmingur þeirra verka sem sýnd verða á þessu starfsári hafa verið sýnd áður í Óperunni.
Stjórnendur segja að það sé einfaldlega þannig að óperugestir hér, eins og annars staðar, vilji helst sjá þekkt verk jafnvel þótt þeir hafi séð þau margsinnis áður.
Þótt Óperan sé áberandi þar sem hún stendur er ekki að sama skapi auðvelt að komast að henni, það var öllum ljóst frá upphafi. Húsið er einangrað, engir eiga leið þar hjá í dagsins önn og þegar þessi pistlaskrifari var þar á ferð fyrir skömmu var ekki lifandi sálu að sjá, hvorki utan dyra né innan. Gagnrýnendur segja að þó húsið sé sýnilegt sé ekki hægt að segja það sama um starfsemina, í könnun sem eitt dagblaðanna gerði kom í ljós að enginn þeirra sem spurður var vissi nafn óperustjórans. Engin skipuleg kynningarstarfsemi fer fram, engar skólaheimsóknir, allt einfaldlega steindautt segir fólk.
Óperustjórinn, Sven Muller, (byrjaði 2012) tekur undir þá gagnrýni að Óperan sé alltof ósýnileg og því verði að breyta. Í blaðaviðtali vegna tíu ára afmælisins segist hann, þrátt fyrir erfiðleikana nú um stundir, vera bjartsýnn og viss um að brátt komi betri óperutímar. Undir þá ósk geta margir tekið en eins og í ljóðinu um þá Snata og Óla er ekki gott að segja hvenær kakan og jólin koma hjá Óperunni.