„Það var frelsismál að hefjast handa við bankasöluna“
Sala á hlut ríkisins í bönkum snýst „ekki aðeins um að frelsa fjármagnið, heldur ekki síður um að frelsa íslenskan almenning undan ábyrgðinni,“ sagði Bjarni Bendiktsson, baðaður bláu ljósi, með mynd af fossi og orðið „frelsi“ á bak við sig, er hann setti 44. landsfund Sjálfstæðisflokksins með ræðu þar sem hann hafði orð á frelsinu að minnsta kosti 30 sinnum.
Truflanir í gömlu túbusjónvarpi voru það fyrsta sem gestir sáu í myndbandi sem sýnt var við upphaf 44. landsfundar Sjálfstæðisflokksins sem Bjarni Benediktsson formaður setti í Laugardalshöll síðdegis.
Því næst tóku við börn að leik – í svart hvítu. „Velgengni verður ekki til af engu,“ sagði þulur undir myndum af vinnandi fólki. „Farsælt samfélag verður ekki til af sjálfu sér. Til þess þurfum við frelsi, kraft og frjóan jarðveg fyrir góðar hugmyndir. Í næstum heila öld hefur Sjálfstæðisflokkurinn stuðlað að framförum, öryggi og stöðugleika.“
Á skjánum birtist Hallgrímskirkja í byggingu. Og svo, eins og hendi sé veifað, færist kirkjan og lífið í lit. Brosandi fólk, bakandi fólk. Fullt af fólki. „Saman höfum við gert hrjóstrugt en gjöfult land að stað sem er öðrum fyrirmynd.“
Er myndbandinu lýkur með sprengikrafti goshversins Strokks, gengur formaðurinn á svið undir dynjandi lófaklappi.
Bjarni fer inn á mitt sviðið, sem er baðað bláum bjarma, einkennislit flokksins sem hann hefur leitt í þrettán ár. Í gegnum súrt og sætt. Oftast í ríkisstjórn.
Tekur sér stöðu við púltið, sem skreytt er fálkanum, merki flokksins. Lítill fálki hefur svo tyllt sér í barminn á honum sjálfum.
„Já,“ byrjar formaðurinn á að segja. En hann kemst ekki lengra. Í bili.
Lófaklappið dynur enn.
„Mikið er nú gott að vera kominn hingað aftur,“ segir hann er um hægist. „Það gleður mig mjög að sjá ykkur svona mörg saman komin hér aftur.“
Það er vissulega langt um liðið síðan að sjálfstæðismenn komu saman til landsfundar. Það gerðist síðast árið 2018. Fyrir fjórum og hálfu ári.
Formannstíð hans er orðin löng en hann hefur þó engin met slegið í því sambandi. Það á Ólafur Thors, sem sat í 27 ár, og þar á eftir kemur Davíð Oddsson, nú ritstjóri Morgunblaðsins, sem gegndi formennskunni í 14 og hálft ár. Bjarni þarf því nokkra mánuði til að ná öðru sætinu. Og hann vill nokkra mánuði til.
En það er ekki víst að hann fái þá ósk sína uppfyllta. Því á 44. landsfundinum í Laugardalshöll er annar maður sem vill gjarnan setjast í stólinn. Verða formaður flokksins sem hann hefur gegnt þingmennsku fyrir í tæpa tvo áratugi. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skorað Bjarna á hólm. Á morgun muni þeir báðir flytja framboðsræður sínar. Um hádegisbil á sunnudaginn verður svo kosið og munu úrslitin liggja fyrir síðar um daginn.
En í dag er það Bjarni sem á sviðið. Stendur við púltið í heila klukkustund og fimmtán mínútum betur. Með orðið „frelsi“ á stórum skjá sér á aðra hönd og mynd af fossi að steypast fram af klettabrún á hina. Bjarni stendur í fallvatninu miðju og fer yfir það sem til sjávar hefur runnið í hans formannstíð, í hans tíð í ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsóknarflokknum. Og horfir til framtíðar. Guðlaugur Þór situr á fremsta bekk og fylgist með.
„Það er hér sem hlutirnir gerast,“ segir Bjarni um samkomuna, þá langstærstu sem íslenskur stjórnmálaflokkur stendur fyrir, „og þá sem mestu skiptir“ segir formaðurinn og ýtir gleraugunum, sem eru stíl við koníakslitað púltið, upp á nefið.
Hann talar um hvað hefur áunnist. Að á aðeins örfáum árum sé Ísland orðið „sannkölluð vagga nýsköpunar“. Að ný stórfyrirtæki hafi orðið til. Nefnir fiskeldi meðal annars sérstaklega. Það hafi gert „brothættar byggðir blómlegar“.
Að nú þurfi að standa vörð um helstu kosti fiskveiðistjórnunarkerfisins svo öll tækifæri í þeirri grein til nýsköpunar og annarra tækifæra fari ekki forgörðum. Að byggja þurfi fleiri smávirkjanir. Minnir á að iðnfyrirtæki í grænni orku séu farin að banka upp á í öllum ráðuneytum. „Orkuskiptin eru hafin,“ segir Bjarni. Orkan frá fundargestum er líka allt að því áþreifanleg. Það er klappað, hrópað og blístrað þegar Bjarni slær á rétta strengi. Og stundum létta. Til dæmis þegar hann gerir góðlátlegt grín að pólitískum andstæðingum. Andstæðingum sem þurfi að skipta um nafn, skipta um merki. Þess þurfi Sjálfstæðisflokkurinn ekki. Hann standi keikur um sín grunngildi. Frelsið. Tækifærin. Varfærnina. Fyrirhyggjuna.
Og allt hitt.
„Við höfum sett okkur háleit markmið,“ segir Bjarni er hann heldur áfram að ræða um orkuskiptin. „En við þurfum að taka réttar ákvarðanir, í tíma.“ Það muni skera úr um hvort Íslendingar verði áfram í fararbroddi eður ei.
Vatnið virðist allt að því hríslast niður vegginn að baki Bjarna. Eða eiginlega virðist Bjarni standa á bak við fossinn. Þetta er áhugaverð sjónhverfing. Bjarni, sem talar fyrir virkjunum í þágu orkuskipta og græns iðnaðar, sem hann kallar svo, minnist hins vegar ekki á náttúruna í ræðu sinni. Og ekki heldur ferðaþjónustuna, hina sterku atvinnugrein. Ekki berum orðum að minnsta kosti. En náttúran umvefur landsfundargesti á hverjum skjánum á eftir öðrum sem stillt hefur verið upp í Laugardalshöll.
Bjarni rifjar upp hvað á daga sína hefur persónulega drifið síðan á síðasta landsfundi. Að hann sé nú orðinn afi. Að hann hafi orðið fimmtugur en ekki getað haldið upp á afmælið vegna heimsfaraldurs og óveðurs.
Hann talar til unga fólksins. Minnir á ungu konurnar tvær sem hann eigi stóran þátt í að sitji í ríkisstjórninni: Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Hann talar til eldra fólksins. Um frítekjumark og ellilífeyri. Um grunngildin sem aldrei breytast, íhaldssemina og frjálslyndið sem geti vel átt samleið. Hann hvetur fundargesti til þess að standa upp og klappa fyrir „kvenskörungnum“ Salóme Þorkelsdóttur, fyrrverandi þingmanni og forseta Alþingis, sem hefur sótt fleiri landsfundi flokksins en flestir. Gestir láta ekki segja sér það tvisvar og Salóme fær standandi lófaklapp. Vel og lengi.
„Þetta ætti að sýna breiddina í flokknum okkar,“ segir Bjarni.
„Kjörorð þessa fundar er einfalt en máttugt,“ segir hann og augu gesta hvarfla að stóra skjánum við hlið hans á sviðinu. „Frelsi,“ segir Bjarni með áherslu. „Okkur sjálfstæðismönnum er umhugað um frelsi. Okkur er það hugleikið. Og það er leiðarljós sjálfstæðisstefnunnar.“
Hann segir frelsið drifkraft nær allra framfara og það er ekki að spyrja að því. Fundargestir eru honum sammála og klappa af krafti.
„Við erum ábyrgur flokkur,“ segir hann svo. „Við vitum að árangur kemur ekki af sjálfu sér.“ Með Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn er Ísland komið í fremstu röð á ný meðal þjóða.“
Og enn er klappað.
Staða heimilanna hefur aldrei verið betri.
Klappað.
Svo ræðir hann um samstarfið við vinstri flokk, flokk sem hann var í og með að gagnrýna skömmu áður – flokkinn sem sat í vinstri stjórninni sem klauf samfellda ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991.
„Við héldum fast í okkar gildi þegar við gengum í ríkisstjórnarsamstarfið,“ segir hann, samstarfið við VG og Framsókn sem hófst fyrir fimm árum.
„Sumir lyftu brún yfir því að við, unnendur frelsisins, færum í ríkisstjórn með Vinstri grænum. Sumir hafa einnig fundið að því að þar höfum við þurft að gefa eftir í einstöku málum en slíkt er einfaldlega óhjákvæmilegt í samsteypustjórn. Enn frekar auðvitað þegar flokkarnir spanna nánast allt hið pólitíska litróf. Þar hafa allir flokkarnir þurft að leita málamiðlana. En, ég segi það fullum fetum, þeir hafa um leið staðið vörð um sín helstu áherslumál. Og það höfum við sannarlega gert.“
Samstarfið hafi verið gott. Það hafi byggst á trausti. „Byggst á sameiginlegum skilningi á þeirri ábyrgð sem við berum gagnvart kjósendum í landinu.“
Bjarni segir fundargestum að þegar sjálfstæðismenn standa saman séu þeir „algjörlega ósigrandi“.
Enn ræðir hann um frelsið og nú í tengslum við söluna á Íslandsbanka. „Það var frelsismál að hefjast handa við bankasöluna og draga þannig úr ríkisumsvifum.“ Með því að selja Íslandsbanka segist hann hafa verið að berjast fyrir framgangi landsfundarályktana. „Ég verð ávallt reiðubúin að taka harðan slag, ef á þarf að halda og veit að þið ætlist til þess af mér.“
Það er klappað og klappað.
Hann segir að í bönkunum sem eru í eigu ríkisins hafi verið og séu enn gríðarlegir fjármunir sem leysa þurfi úr læðingi. „Við ætlum að nota þessa peninga annars staðar, helst í fjárfestingu.“
Bankasala snúist „ekki aðeins um að frelsa fjármagnið, heldur ekki síður um að frelsa íslenskan almenning undan ábyrgðinni á bönkunum. Þeir eru stöndugir í dag, en við hljótum að átta okkur á því að það getur breyst. Það er betra að aðrir axli þá áhættu en almenningur.“
Bjarni talar um heimsfaraldurinn. Að landsfundur væri haldinn í salnum þar sem fjöldabólusetningarnar fóru fram. „Hérna bretti maður upp ermar og fékk stunguna.“
Vel hafi tekist að tryggja hag heimila og fyrirtækja í faraldrinum og verja þjóðina með bólusetningum. Engu síður hafi verið „mjög langt gengið“ í að hefta veiruna. „Með sama hætti og við gerðum upp árangur af efnahagslegum aðgerðum þá er mikilvægt að við höfum þrek og þor til að ræða reynsluna af beitingu sóttvarnaráðstafana. [...] Við verðum að láta okkur svona stórar spurningar varða.“
Enn er klappað af ákafa.
Bjarni víkur að stríðinu í Úkraínu og orkukrísunni í Evrópu. Við slíkan vanda þurfi Íslendingar ekki að glíma vegna frumkvöðlastarfs og framsýni í orkumálum. „Við í Sjálfstæðisflokknum höfum aldrei efast um mikilvægi þess að treysta á sjálfstæðið. Og á tímum sem þessum verður mikilvægi sjálfstæðis enn ljósara. Að vera ekki öðrum háður um orku, njóta orkusjálfstæðis.“
Íslendingum sé vel borgið utan Evrópusambandsins.
Því næst skaut hann léttum skotum á Samfylkinguna. „Mér sýnist að meira að segja Samfylkingin hafi áttað sig á því að Ísland muni ekki ganga í Evrópusambandið.“ Nú sé „þetta gamla og helsta baráttumál“ flokksins verið lagt í kassa niður í kjallara, segir hann í hæðnistón. „Þetta er stórmerkilegur kassi, fer sístækkandi og inniheldur ýmis sígild mál vinstri manna eins og baráttuna gegn frjálsri fjölmiðlun og bjórnum.“ Gott ef baráttan gegn litasjónvarpinu sé ekki þar líka í þessum sama kassa.
Hann óskar Samfylkingunni til hamingju með „glænýjan varaformann“, Guðmund Árna Stefánsson. „Hafið þið séð betra dæmi um hringrásarhagkerfið?“
Þá var komið að Viðreisn. „Sjálfstæðisflokkurinn stendur öllum þeim opnum örmum sem trúa á frelsi einstaklingsins,“ segir hann. „Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðina og borgaralega þenkjandi fólk að allir standi saman undir merkjum sjálfstæðisstefnunnar. Kæru vinir, þau eru öll velkomin aftur heim.“
Það er klukkutími liðinn síðan að Bjarni steig á svið. Sviti hefur myndast á enni hans undir sterkum ljósunum. En fallegu blómaskreytingarnar sitt hvorum megin við púltið eru þó enn fullar af lífi.
Bjarni skjallar þær Þórdísi og Áslaugu Örnu. Fer yfir mál sem þær hafa leitt. „Guðlaugur Þór hefur sannarlega ekki setið auðum höndum – og ég er ekki bara að tala síðan á sunnudaginn.“
Hann hlær sjálfur og aðrir með.
Einnig hrósar hann Jóni Gunnarssyni sem hafi „þurft að bregðast við afar krefjandi aðstæðum í hælisleitendamálum“.
Þar á hann við frávísun hóps hælisleitenda sem flestir hafa ílengst á Íslandi í gegnum allan heimsfaraldurinn þar sem ekki var hægt að senda þá til Grikklands eins og íslensk stjórnvöld vildu. Fólk sem nú er komið á götuna í Aþenu.
„Má ég ekki bara biðja um gott klapp fyrir þessum öflugu ráðherrum sem við eigum,“ segir Bjarni og leiðir klappið af miklum móð.
Bláa birtan og Bjarni eru einhvern veginn orðin eitt. Eða svo virðist að minnsta kosti á tölvuskjám þeirra sem fylgjast með setningarræðunni utan Laugardalshallarinnar. Bláum bjarma slær á hár Bjarna. Eins og hann hafi brilljantín í því, rétt eins og kóngurinn sjálfur, Elvis.
Framtíðin.
Við munum nota næstu þrjú ár, fái ég nokkru um það ráðið, leggja til að skattar á fólk og fyrirtæki verði lækkaðir þannig að um muni. Við skulum láta næstu kosningar snúast um tillögur okkar sjálfstæðismanna um lækkun skatta.“
Formaðurinn minnir á grunnstoðir flokksins; vinnusemi, frelsi, og ábyrgð. „Hér erum við saman komin vegna þess að okkur þykir vænt um landið okkar og við vitum að sjálfstæðisstefnan sameinar þjóðina og gagnast öllum, óháð stöðu eða uppruna.
Sameinuð og samtaka, frjáls og sjálfstæð, eru okkur allir vegir færir, íslensku samfélagi og þjóð til heilla.“
Kæru vinir, segir Bjarni að lokum. „Ég lýsi 44. landsfund Sjálfstæðisflokksins settan!“
Fundargestir hrópa. Klappa. Blístra. Flöss myndavéla bergmála um salinn undir taktföstum fögnuði er formaðurinn gengur niður af sviðinu.
Í bili.
Ekki hætta að hugsa um morgundaginn, syngur Fleetwood Mac í laginu Don‘t Stop sem fer að hljóma. Gærdagurinn er liðinn, gærdagurinn er liðinn.
Og innan fárra klukkustunda, er úrslit í formannskosningu verða kynnt, ráðast pólitísk örlög Bjarna Benediktssonar.