Nafn bæjarins Tröglitz, í sambandslandinu Sachsen-Anhalt í Þýskalandi, hefur á nokkrum vikum orðið samnefni fyrir þær áskoranir sem Þýskaland stendur frammi fyrir vegna komu sífellt fleiri flóttamanna til landsins.
Fréttin sem kom Tröglitz á kortið barst í byrjun mars. Bæjarstjórinn, Marcus Nierth, hafði fengið sig fullsaddan af hótunum og svívirðingum hægri öfgasinna í bænum og ákvað að segja af sér. Nierth hafði unnið að því að undirbúa komu 40 flóttamanna til bæjarins og hvatti bæjarbúana, 2800 talsins, til að taka vel á móti þeim, - við dræmar undirtektir. Á hverju sunnudagskvöldi frá því í janúar höfðu um 150 íbúar bæjarins tekið þátt í mótmælagöngum gegn komu flóttafólksins og nú stóð til að gengið yrði að heimili bæjarstjórans. Nierth sá ekki annan kost í stöðunni en að segja af sér, til að vernda fjölskyldu sína, og lýsti því yfir að honum þættu yfirvöld og meirihluti íbúa bæjarins hafa brugðist sér. Um páskana dró aftur til tíðinda í Tröglitz þegar eldur kom upp í húsnæði sem til stóð að myndi hýsa flóttafólkið. Staðfest hefur verið að um íkveikju var að ræða en ekki hefur tekist að upplýsa hver stóð að henni. Eðlilega liggja þeir undir grun sem barist hafa gegn komu flóttafólksins til bæjarins.
Velkomnir
Það er óhætt að segja að fréttirnar frá Tröglitz hafi komið við kaunin á þýskum stjórnmálamönnum. Hver eftir annan hafa þeir lýst því yfir að flóttamenn og hælisleitendur séu velkomnir í Þýskalandi og að ekki verði látið undan kröfum þeirra sem ala á hatri á útlendingum. Í kjölfarið hafa þýskir fjölmiðlar varpað kastljósinu á málefni flóttamanna og hælisleitenda og reynt að svara því hvað fái fólk í litlum bæ úti á landi til að standa upp frá sófaborðinu á sunnudagskvöldum til að sýna í verki andstöðu sína við komu hælisleitenda til bæjarins.
Aðspurðir segja margir mótmælendanna að þeir hafi ekkert á móti útlendingum en þeir séu hræddir. Hræddir um að glæpum muni fjölga, innbrotum og þjófnuðum; hræddir um að þurfa að bíða enn lengur en nú þegar eftir tíma hjá heimilislækninum; hræddir við að fá meiri samkeppni um þau fáu störf sem séu í boði; en líka hræddir um að ef „þetta fólk“ hangi atvinnulaust allan daginn sé ómögulegt að vita upp á hverju það taki. Margir eru líka reiðir. Reiðir yfir því að hafa ekki fengið betri upplýsingar frá bæjaryfirvöldum, til dæmis um hvaðan flóttamennirnir koma, hvað þeir ætli að vera lengi, hvað þeir vilji og hver eigi að borga brúsann.
"Geht die Scheisse weiter, gibts kein DSL" #Troeglitz pic.twitter.com/GkwobjQxLN
— fuer_die_teilung (@fuerdieteilung) May 1, 2015
Flóttafólki sem kemur til Þýskalands er dreift á þýsku sambandslöndin í hlutfalli við íbúafjölda og skatttekjur. Það er á ábyrgð sambandslandanna að sjá fyrir fólkinu, skaffa því húsnæði og tryggja öryggi þess, en flest löndin hafa fært þessi verkefni yfir til héraða og sveitarfélaga. Á meðan Tröglitz hefur orðið að dæmi um allt sem miður getur farið, þegar koma flóttafólks er undirbúin, hafa margir bent á nágrannabæinn Hohenmölsen, þar sem búa um 10.000 manns, sem dæmi um hvernig vel geti tekist til. Bærinn tók nýverið á móti 58 flóttamönnum og hafði undirbúið komu þeirra vel. Mikil áhersla var lögð á að upplýsa bæjarbúa, hlusta á áhyggjur þeirra og ræða þær. Meðal annars var íbúunum boðið að koma og skoða húsnæði flóttamannanna til að sjá með eigin augum hve fábrotin aðstaða þeirra væri. Í stuttu máli gekk áætlunin upp, bæjarbúar hafa sameinast um að taka vel á móti fólkinu og hafa aðstoðað það eftir megni. Bæjarstjórinn, Andy Haugk, vill þó gera sem minnst úr muninum á Tröglitz og Hohenmölsen. Þar í bæ sé líka hópur fólks sem hafi allt á hornum sér vegna flóttafólksins og að í grunninn hafi sami óttinn verið til staðar hjá íbúunum þar. „Við vorum heppin að hjá okkur skyldi enginn fáviti kveikja í“ sagði hann í nýlegu viðtali.
Ræturnar í hinu óþekkta
Í austurhluta Þýskalands, sérstaklega í minni bæjum, eru útlendingar sjaldséðir. Fordómar gagnvart flóttafólki eiga því að einhverju leyti rætur sínar í óttanum við hið óþekkta. Ýmsir hafa líka bent á það til útskýringar að þetta sé fólk sem fæddist í Þýska Alþýðulýðveldinu, þar hafi ekkert uppgjör við nasistatímann átt sér stað til dagsins í dag, engin uppreisn 68 kynslóðarinnar og engin uppræting úreltra viðhorfa, meðal annars til útlendinga. Í dag líti þetta fólk að stórum hluta á sig sem afskipt fórnarlömb sameiningar Þýskalands, sem í aldarfjórðung hafi búið við atvinnuleysi, fólksflótta og brostna drauma af hennar völdum. Frá þeirra sjónarhóli eigi nú að hygla flóttafólkinu á þeirra kostnað.
Mótmæli, móðganir og árásir sem beinast gegn hælisleitendum og flóttafólki og bústöðum þeirra eiga sér þó ekki bara stað í gamla Austur-Þýskalandi heldur í öllu Þýskalandi og raunar víðs vegar í löndum Evrópu. Tröglitz er langt frá því að vera einsdæmi. Samkvæmt tölum frá Amadeu Antonio stofnuninni og Pro Asyl voru gerðar 153 ofbeldisárásir á dvalarstaði flóttamanna og hælisleitenda í Þýskalandi árið 2014, þar af 35 íkveikjur. Þetta eru nær þrisvar sinnum fleiri ofbeldisárásir en árið áður (2012: 24; 2013: 58). Á sama tíma hefur flóttamönnum og hælisleitendum í Þýskalandi fjölgað mjög ört. 202 þúsund manneskjur sóttu um hæli í Þýskalandi árið 2014, nær fjórum sinnum fleiri en árið 2011 (2011: 53.000; 2012: 78.000; 2013: 127.000). Langflestir hælisleitendur komu frá Sýrlandi en því næst frá Serbíu, Erítreu og Afganistan. Útlit er fyrir að þeim muni halda áfram að fjölga hratt en á fyrstu þremur mánuðum ársins 2015 höfðu 85.000 einstaklingar sótt um hæli.
Samkvæmt Dyflinarreglum Evrópusambandsins verða flóttamenn að sækja um hæli í því landi sambandsins sem þeir koma fyrst til. Eins og fréttir af björgunaraðgerðum Týs við Miðjarðarhaf sýna eru það oftast Ítalía, Grikkland eða Malta. Þrátt fyrir það sóttist um þriðjungur allra hælisumsækjenda í Evrópu árið 2014 eftir hæli í Þýskalandi, og það þótt landið liggi ekki að sjó nema til norðurs og eigi ella landamæri að öðrum ESB-ríkjum auk Sviss. Margir umsækjendur eiga því á hættu að vera vísað aftur til baka þangað sem þeir stigu fyrst á land. Tafir á afgreiðslu hælisumsókna hafa mikið til unnist upp eftir að 300 nýir starfsmenn voru ráðnir til afgreiðslunnar. Að meðaltali er biðtími afgreiðslu nú um 6 mánuðir en ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að þeir verði ekki fleiri en þrír. Á meðan er fólkið á framfæri þýsku sambandslandanna og því þarf að finna samastað. Hin öra fjölgun hælisleitenda hefur valdið því að sífellt erfiðar reynist að koma fólkinu í almennilegt húsnæði. Á landsvísu búa einungis um 55% hælisleitenda í íbúðum. Tæpur helmingur fólksins dvelur í stórum hópum í bráðabirgðahúsnæði; neyðarskýlum, íþróttahúsum, gámaþyrpingum, tjöldum, loftbornum/uppblásnum húsum eða aflögðum herskálum.
Bæjaryfirvöld í Tröglitz ætla ekki að láta undan kröfum þeirra sem vilja ekki fá flóttafólkið til bæjarins. Það væru röng skilaboð til hægri öfgasinna. Fyrstu flóttamennirnir eru væntanlegir í maí og hefur þeim verið fundið nýtt húsnæði. Í nýjustu útgáfu vikublaðsins Zeit er sagt frá því að þéttsetið hafi verið í kirkjunni í Tröglitz síðastliðinn sunnudag. Tveir sýrlenskir flóttamenn úr nágrannabænum Hohenmölsen sögðu sögu sína og beðið var fyrir þeim flóttamönnum sem eru væntanlegir til Tröglitz. Á göngu um bæinn síðar sama kvöld hitti blaðamaður Zeit nokkra bæjarbúa, krúnurakaða í joggingöllum, ekki langt frá húsinu sem kveikt var í. „Vonandi kviknar bráðum aftur í“ segir einn í hópnum. Blaðamaður spyr hvort hann hafi heyrt rétt. „Vonandi kviknar bráðum aftur í“ endurtekur hann, „svo að þeir komi örugglega ekki“.
Lærdómurinn af atburðunum í Tröglitz, og umræðunum sem hafa farið fram í kjölfarið, er að það þarf atbeina bæði stjórnmálamanna og almennings til þess að koma málefnum flóttamanna og hælisleitenda í farsælan farveg. Stjórnmálamenn og stjórnsýslan á öllum stigum þurfa að vanda sig í samskiptum við heimamenn; hlusta á áhyggjur þeirra og taka þær alvarlega, svara spurningum heiðarlega en standa um leið fast á sínu. Eftir því sem um er að ræða fátækari svæði, eins og á við um Tröglitz og mörg önnur sveitarfélög einkum í austurhluta Þýskalands, þar sem stjórnmálamenn hafa lengi þurft að skera niður þjónustu við íbúana, verður vandvirkni í vinnubrögðum og rökstuðningi mikilvægari.
Yfirvöld þurfa líka að styðja vel við þá heimamenn sem vilja leggja sitt af mörkum til að aðstoða flóttafólkið við að koma sér fyrir í nýjum heimkynnum. Alls staðar er til fólk sem er reiðubúið að hjálpa, hvort heldur sem er með því að leggja til gamlan húsbúnað, notuð föt eða leikföng eða með því að fylgja fólki til læknis og túlka. Líka í Tröglitz. En á stöðum þar sem hópur hjálpfúsra er lítill og raddir andstæðinga háværar ríður á að hinn þögli meirihluti láti til sín heyra, andmæli þeim sem breiða út hatursboðskap, hlusti á þá sem eru hræddir og grípi til aðgerða ef ekki dugir annað til; uppreisn hinna sómakæru.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.