Í mars 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um Þróunarsamvinnuáætlun 2013-2016, unna af utanríkisráðuneytinu, sem málaflokkurinn heyrir undir. Í henni er stefnt að því að hlutdeild Þróunarsamvinnustofnunar Íslands(ÞSSÍ) í útgjöldum til þróunarmála verði 40% á meðan afgangnum er ráðstafað fyrst og fremst til alþjóðstofnanna. Nú eru þær fyrirætlanir breyttar að því leyti að nú stendur til að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands og færa hana undir Utanríkisráðuneytið samkvæmt frumvarpi sem Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hefur lagt fram á Alþingi. Í frumvarpinu má sjá að aðgerðin er fyrst og fremst stjórnsýsluleg þar sem allt starsfólk og öll verkefni ÞSSÍ munu færast inn í ráðuneytið. Ekki á afnám ÞSSÍ (eins og aðgerðin var orðuð í fyrstu) að fela í sér stefnubreytingu og að sögn utanríkisráðherra verður t.a.m. áfram haldið í ICEIDA nafnið, sem stofnunin ber erlendis.
ÞSSÍ hefur frá formlegri stofnun árið 1981 haft yfirumsjón með svokallaðri tvíhliða þróunaraðstoð Íslendinga, þar sem Ísland er í beinu starfstarfi við ákveðin lönd sem þiggja þróunaraðstoð. Í dag eru þau lönd Malaví, Mósambík og Úganda, auk þess sem ÞSSÍ hefur stutt jarðhitarannsóknir á nokkrum stöðum í austanverðri Afríku. Marghliða þróunarsamvinna, þar sem Ísland leggur sitt að mörkum til alþjóðastofnanna eins Alþjóðabankans (World Bank) og þróunaraðstoðar Sameinuðu Þjóðanna(UNDP) er á forræði utanríkisráðuneytisins sjálfs.
Hörð andstaða og skiptar skoðanir
Í fyrstu umræðu á Alþingi mætti frumvarpið mikilli andstöðu. Nær eingöngu þingmenn stjónarandstöðunnar tjáðu sig um málið og hafa nokkrir þeirra lagt fram 21 spurningu til ráðherra. Árni Páll Árnason gagnrýndi t.d. harðlega að það væri mjög óljóst hvernig ætti að haga eftirliti með framkvæmd þróunarsamvinnu samkvæmt frumvarpinu, Alþingi hefði minna um málaflokkinn að segja, vinna stofnunarinnar væri mjög sérhæfð og að með þessu skapaðist hætta á að fólk sem skortir fagþekkingu vinni að málaflokknum. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, ásamt fleirum spurðu hvers vegna væri ekki beðið eftir niðurstöðu úttektar þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) á þróunarsamvinnu Íslendinga sem verður tilbúin á næsta ári. Margir þingmenn undruðust einnig að það ætti að leggja niður stofnun sem eftirlitsaðilar og utanríkisráðherra sjálfur segja að standi sig mjög vel.
Gunnar Bragi Sveinsson hefur lagt fram frumvarp um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun.
Í samtali við Kjarnann sagði utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, að tilgangurinn með frumvarpinu sé að ná fram samlegðaráhrifum, nýta betur starfsfólk og gera þannig betur í málaflokknum eins og lagt er til í skýrslu Þóris Guðmundssonar. Hann óttast ekki að hagsmunaárekstrar verði á milli diplómatískra hagsmuna Íslands annars vegar og hagsmuna þeirra sem þiggja aðstoð hins vegar. Raunar sé þetta leið sem ýmis nágrannalönd okkar, t.d. Danir og Norðmenn, hafa farið með góðum árangri að hans sögn og að skilin milli utanríkisstefnu og þróunarmála séu ekki eins skýr og áður. Ráðherra áréttaði að ekki stæði til að breyta framkvæmd þróunarsamvinnu að öðru leyti og að tillögur Þóris um að fækka samstarfslöndum og opna í staðinn sendiráð í Eþíópíu eða Kenýa séu ekki í kortunum sem stendur.
Starfsmaður ÞSSÍ, sem ekki vill láta til nafns síns getið, óttast þó að raunin sé önnur. Á síðustu 20 árum hafi allir utanríkisráðherrar fengið það inn á borð til sín að leggja stofnunina niður og færa hana inn í ráðuneytið. Hann spyr: af hverju er þessi löngun fyrir hendi hjá starfsmönnum ráðuneytisins? "Ég held að svarið sé þá að það sé löngun til að komast yfir þessa fjármuni til þess að geta opnað fyrir fleiri sendiráðspósta fyrir utanríkisþjónustuna. Þetta er vandinn sem við eigum við að glíma um leið og við eigum að taka til varna fyrir stofnunina sem á að leggja niður, þá erum að fara inn í faðm ráðuneytisins sem ætlar að taka á móti okkur. Hræðileg staða og þess vegna segir enginn neitt. Það þorir enginn að opna munninn.“
Starfsmaðurinn sagði að innan stofnunarinnar væri mikil óánægja með tillögunar, þær þyki ótímabærar og illa rökstuddar, eins og rakið er í athugasemdum ÞSSÍ við skýrslu Þóris.
ÞSSÍ starfar meðal annars í Malaví.
Langt á eftir nágrönnum okkar
Heildarframlög til þróunarsamvinnu Íslendinga árið 2015 verða 3,6 milljarðar samkvæmt fjárlögum, þar fær ÞSSÍ 1,6 milljarða. Þetta er ríflega helmingur af því sem stefnt var á í Þróunarsamvinnuáætlun 2013-2016. Utanríkisráðherra segir að í Þróunarsamvinnuáætlun hafi mennt ætlað sér of mikið. Hann vonast þó til að sjá framlög hækka hægt og bítandi og mun líklega leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis á vorþingi. Að hans sögn er 0,3% af vergri þjóðarframleiðslu, sem er meðaltal OECD ríkja, eitthvað sem hann langi að horfa til á fyrirséðum tíma. Þess má geta að viðmið Sameinuðu Þjóðanna er að framlög til þróunarmála nemi 0,7% af þjóðarframleiðslu.
Ísland er mikill eftirbátur Norðurlandanna í framlögum til þróunarsamvinnu og var hlutfall þróunaraðstoðar af þjóðarframleiðslu Íslands árið 2013 einungis 0.26% á meðan Svíþjóð og Noregur voru yfir 1%. Raunar er Ísland eftirbátur mestallrar Norður-Evrópu í þessum málum. Ef horft er á útgjöld á mann til tvíhliða þróunaraðstoðar sést að þau eru frekar lág miðað við aðrar þjóðir eða um rúmlega 5.000 krónur á mann. Það er um tíundi hluti af framlagi Dana, sem þó hafa nær sömu landsframleiðslu á mann og Íslendingar. Sé ennfremur horft á hve Ísland er fámennt sést að ÞSSÍ er mjög lítil stofnun miðað við sambærilegar erlendar stofnanir. Í Úganda var framlag ÞSSÍ einungis 0,14% af allri tvíhliða þróunaraðstoðar til landsins árið 2013, þrátt fyrir að Úganda sé eitt af þremur samstarfslöndum Íslands. Þar að auki starfa nær allir, ef ekki allir, veitendur þróunaraðstoðar í mun fleiri löndum.
Löndunarstaður í Kalangala héraði á Viktoríuvatni, sem er fjármagnaður af ÞSSÍ.
Í ljósi þess hve lítil stofnun ÞSSÍ er í alþjóðlegu samhengi má skilja þessar fyrirætlanir. Margir hafa þó spurt á móti hvort ekki sé nær að færa fleiri verkefni inn í þróunarsamvinnustofnun. Að sögn ÞSSÍ eru ýmis verkefni utanríkisráðuneytisins í eðli sínu tvíhliða aðstoð, þó þau séu marghliða að nafninu til, vegna þess að þau eru eyrnamerkt ákveðnum verkefnum. Vilji er innan stofnunarinnar til að taka að sér fleiri verkefni og reyndi Davíð Oddsson þegar hann var utanríkisráðherra að færa öllu þróunarsamvinnu verkefni þangað, sem mætti vægast sagt harðri andstöðu.
Það er ljóst að rök eru fyrir því að reyna að ná fram stærðarhagræði í þróunarsamvinnu með tillögunum. Einnig eru, eins og hefur verið tíundað hér að ofan, ýmislegt sem mælir gegn því. Þess vegna verður mjög forvitnilegt að sjá hvernig þessi málefni þróast. Einnig verður athyglisvert að sjá hvert Íslendingar ætla að stefna í sinni þróunarsamvinnu, þar við erum langt á eftir öðrum nágrannaþjóðum okkar þegar kemur að framlögum. Við erum að dragast frekar aftur úr ef eitthvað er, þvert á þingsályktunartillöguna sem var samþykkt árið 2013. Ekki er þetta einungis forvitnilegt því þarna er farið með skattfé, heldur sérstaklega vegna þess að því er ráðstafað til að hjálpa fátækasta fólki heims, sem getur aðeins látið sig dreyma um lífsgæðin sem við búum við á Íslandi.