Félagsskiptasögur í knattspyrnuheiminum eru hluti af umfangsmikilli fjölmiðlaumfjöllun ár hvert. Þær eru í hámarki á sumrin þegar knattspyrnufélög eru að stilla saman strengi sína og setja saman leikmannahópa. Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur er mikill áhugamaður um fótbolta, og tók saman lista yfir sögur þar sem leikmenn ýmist fóru eða fóru ekki frá félögum sínum þegar allt koma til alls.
10. Alan Shearer
Til Manchester United 1991-1996
Sennilega ein lengsta félagaskiptasaga enskrar knattspyrnu. Shearer sló í gegn hjá Southampton og mörg lið höfðu áhuga, þar á meðal Manchester United sem tvisvar sinnum báru víurnar í hann. Það voru þó hinir nýríku Blackburn Rovers sem brugðust skjótt við og keyptu Shearer á metupphæð, 3,3 milljónir punda árið 1992. Aftur reyndu United að kaupa hann fjórum árum síðar og allt virtist frágengið. En þá fundaði Kevin Keegan, stjóri Newcastle United, með Shearer. Shearer sem uppalinn er í Newcastle var í kjölfarið keyptur á 15 milljónir punda og varð þar með dýrasti leikmaður heims. Hann vann einungis einn titil á ferlinum en er markahæsti leikmaður deildarinnar með töluverðum yfirburðum, vann slatta af einstaklingsverðlaunum og er lifandi goðsögn í heimabæ sínum.
Ronaldinho
Frá Paris St. Germain til Barcelona 2003
Joan Laporta vann kosningar til forseta Barcelona árið 2003 á því loforði að kaupa David Beckham frá Manchester United. Eftir nokkur mögur ár þurftu Barcelona nýja hetju til að lyfta þeim. Það var þó löngu ákveðið að Beckham færi til erkifjendanna í Madrid. Sem staðgengil ætluðu United að fá brasilíska ungstirnið Ronaldinho. Barcelona stigu þá fram og beittu Sandro Rosell, sem var nýkjörinn í stjórn Barca og þekkti Ronaldinho í gegnum Nike. Ronaldinho var um það bil að fara að skrifa undir hjá United þegar Rosell hringdi. Ronaldinho vann allt sem hægt var að vinna í Barcelona og fékk meira að segja standandi lófaklapp frá aðdáendum Real Madrid eftir magnaða frammistöðu. Það má í raun segja að mótun besta liðs allra tíma hafi byrjað með þessum skiptum.
Cesc Fabregas
Frá Arsenal til Barcelona 2010-2011
Endurkoma Cesc Fabregas til Barcelona er ein langdregnasta félagaskiptasaga seinni tíma. Stjórnarmenn, þjálfarar og leikmenn Barcelona virtust skiptast á í að koma fram í fjölmiðlum og tjá sig um hugarástand Fabregas. Það var jú vitað að Fabregas þráði að komast aftur á sínar æskuslóðir, hann hafði tjáð Arsene Wenger þjálfara Arsenal það. En stanslausar athugasemdir og samskipti Barca-manna við Fabregas voru á gráu svæði lagalega. Þrýstingurinn var mestur á HM í Suður Afríku 2010 þegar Josep Guardiola þjálfari heimsótti liðið í einum tilgangi. Hámark smekkleysunnar átti sér svo stað undir lok mótsins þegar Carles Puyol og Gerard Pique þvinguðu Fabregas í Barca-treyju. Rúmlega ári seinna gengu skiptin í gegn fyrir mun lægri upphæð en Arsenal vildu fá.
Steven Gerrard
Frá Liverpool til Chelsea 2004-2005
Það er erfitt að hugsa sér Steven Gerrard hjá nokkru öðru liði en Liverpool, þar sem hann byrjaði ferilinn átta ára gamall. En sumarið 2005 sendi hann aðdáendur félagsins í tilfinningalegan rússíbana. Ári áður hafði hann hafnað því að ganga til liðs við Chelsea því að hann bar mikið traust til Rafa Benitez sem var þá nýráðinn þjálfari Liverpool. Liverpool unnu meistaradeildina það ár í dramatískum úrslitaleik þar sem Gerrard hreinlega dró liðið áfram. Eftir leikinn sagði hann „Hvernig get ég farið eftir svona kvöld?“. En nokkrum vikum seinna bað hann stjórn Liverpool um félagaskipti. Aðdáendur brenndu treyjur merktar honum og mótmæltu fyrir utan Anfield. Gerrard hélt sig innandyra og bruddi róandi töflur. Þann sama dag dró hann beiðnina til baka og skrifaði loks undir nýjan samning.
Robinho
Frá Real Madrid til Manchester City 2008
Sumarið 2008 var allt í steik hjá Manchester City. Eigandinn Thaksin Shinawatra fyrrverandi forsætisráðherra Tælands var orðinn eftirlýstur og eignir hans í landinu frystar. Fjármögnun liðsins gekk illa og örvætning tók við. En á lokadegi félagaskiptagluggans var tilkynnt að hópur manna frá Abu Dhabi, sem reyndist svo vera Sjeik Mansour, hefði keypt liðið. Nokkrum klukkustundum síðar var tilkynnt að liðið hefði keypt brasilísku stjörnuna með barnsandlitið Robinho af Real Madrid á 32 milljónir punda. Allir voru gjörsamlega slegnir og þó að Robinho hafi ekki staðið sig neitt sérstaklega vel þá voru þessi kaup tilkynning til heimsins um áætlanir nýju eigendanna.
Ashley Cole
Frá Arsenal til Chelsea 2005-2006
Gremja Ashley Cole hjá Arsenal byrjaði þegar samningstilboðið til hans var lækkað úr 60 í 55 þúsund pund á viku. Cole var svo svekktur að hann hafði samband við Pini Zahavi umboðsmann og bað hann að svipast um fyrir sig. Úr varð að Cole ásamt umboðsmanni sínum og Zahavi hittu Jose Mourinho og Peter Kenyon frá Chelsea á leynifundi í London. Þetta komst upp og þeir fengu himinháar sektir fyrir. David Dein stjórnarformaður Arsenal vitnaði gegn Cole og gremja hans jókst. Chelsea buðu í Cole en Arsenal heimtuðu mun hærra verð en Chelsea voru tilbúnir að borga. Það var þó ekki fyrr en á seinasta degi félagaskiptagluggans 2006 að það náðist samkomulag. Chelsea fengu Cole og Arsenal fengu 5 milljónir punda auk William Gallas, sem var álíka ósáttur hjá sínu félagi og Cole.
Roberto Baggio
Frá Fiorentina til Juventus 1990
Sambandið milli Juventus og Fiorentina hafði verið slæmt allar götur síðan 1982 þegar Juventus hafði betur í titilslagnum. Mark sem hefði tryggt Fiorentina titilinn var dæmt af þeim og biturð Flórensbúa mikil út af þessu. Hatrið minnkaði ekki árið 1990 þegar Juventus keyptu stjörnuframherjann af Fiorentina örfáum dögum eftir að hinir fyrrnefndu höfðu slegið þá síðarnefndu út úr UEFA-bikarnum á umdeildu marki. Ólæti brutust út á götum Flórens og um 50 manns slösuðust. Baggio tók þetta mjög nærri sér og þegar liðin mættust neitaði hann að taka vítaspyrnu gegn sínu gamla félagi. Honum var umsvifalaust skipt af leikvelli og alls kyns rusli rigndi yfir hann. Þar á meðal Fiorentina trefill sem hann tók upp og kyssti. Hann sagðist hafa verið nauðbeygður til að ganga til liðs við Juventus.
John Obi Mikel
Frá Lyn til Chelsea (via Manchester United) 2008
Hvernig Mikel komst til Chelsea er hálf lygileg saga. Manchester United töldu sig hafa keypt nígeríska ungstirnið af Oslóarfélaginu en pappírar höfðu verið falsaðir og umboðsmenn sniðgengnir. Chelsea vildu fá leikmanninn og töldu sig hafa átt þátt í að fá hann til Lyn frá Afríku. Dag einn hvarf Mikel og ásakanir um mannrán flugu frá bæði Manchester United og Lyn. Mikel hafði þá farið með umboðsmanni sínum John Shittu til London og sagðist hafa verið beittur þvingunum til að skrifa undir hjá Manchester United. Það var þvertekið fyrir það og allt leit út fyrir að málið yrði tekið fyrir hjá dómstólum. Áður en til þess kom ákváðu Chelsea að greiða félögunum samanlagt 16 milljónir punda og Mikel hefur verið hjá Chelsea allar götur síðan.
Alfredo Di Stefano
Frá Millionarios til Barcelona og Real Madrid 1953
Argentínski framherjinn heillaði Spánverja upp úr skónum í keppnisferðalagi með liði sínu Millionarios árið 1952. Barcelona gekk illa að semja við kólumbíska liðið þannig að þeir sömdu þess í stað við uppeldisfélag leikmannsins, River Plate. Bæði Barcelona og River Plate héldu því fram að félagaskipti Di Stefanos til Millionarios árið 1949 hefðu verið ólögleg. Di Stefano flutti til Barcelona og spilaði meira að segja einn leik fyrir þá. En Real Madrid sömdu þá við Millionarios í staðinn. Spænska knattspyrnusambandið studdi kröfu Real en FIFA studdi kröfu Barcelona. Málið var því í algjörum hnút. En þá kom knattspyrnusambandið með málamiðlunarákvörðun. Di Stefano myndi spila með klúbbunum til skiptis ár frá ári! Þetta gátu Barcelona ekki sætt sig við og riftu samningnum.
Luis Figo
Frá Barcelona til Real Madrid 2000
Svik er ekki nógu sterkt orð til að lýsa þessum skiptum. Luis Figo hafði verið elskaður af stuðningsmönnum Barcelona í fimm ár og hann hafði ekki sýnt neitt annað en hollustu til baka. Hann var á hápunkti ferilsins og átti eftir að fá Gullknöttinn eftirsótta seinna þetta ár. Þá kemur til sögunnar Florentino Perez forsetaframbjóðandi hjá Real Madrid sem byggir alla sína kosningabaráttu á því að ná Figo af erkifjendunum. Barcelona voru ekki viljugir að selja en það var klásúla í samningnum hans sem leysti hann fyrir 37 milljónir punda. Figo varð því fyrstur af hinum svokölluðu Galacticos sem Perez keypti til Real. Stuðningsmennirnir fyrirgáfu honum þetta ekki. Í hvert skipti sem hann sneri aftur á Nou Camp rigndi svívirðingum og skeytum yfir hann, þar á meðal afsöguðu svínshöfði.