Tröllefldir kraftar hrista hinn trygga Keili
Hann er svo einstakur. Svo formfagur. Líkur konungsstól í salnum, líkt og Kiljan orti. Keilir hefur staðið keikur í mörg þúsund ár en nú gæti ein „höfuðskepnan“ – eldurinn – farið að hvæsa í hans næsta nágrenni.
Söm er hún Esja,
samur er Keilir,
eins er Skjaldbreið
og á Ingólfs dögum.
Þannig orti Bjarni Thorarensen um miðja nítjándu öld. Síðan eru liðin hundrað ár og nokkrir áratugir til og enn standa þau öll á sínum stað, söm við sig. Eða svona næstum því. Þessir þrír tignarlegu klettar í tilveru okkar hafa kannski ekki breyst stórkostlega, hvorki frá tímum Bjarna né landnámi en „öllum stundum, dag og nótt, öld af öld, vinna tröllefldir kraftar óslitið að því starfi, að rífa landið niður og byggja það upp, og þeim verður mikið ágengt, þótt hægt fari,“ skrifaði Árni Friðriksson, fiskifræðingur og annar stofnandi Náttúrufræðingsins, árið 1932. „Þessir kraftar eru „höfuðskepnurnar“ þrjár; eldur, vatn og loft og svo hreyfingar í jarðskorpunni.“
Árni skrifaði að skáldið Bjarni hefði séð „hin tignu íslensku fjöll mynda baksýn þeirra sögulegu viðburða, sem gerast í landinu“. Esja, Keilir og Skjaldbreið hafi „sjeð Ingólf reisa bú á Arnarhvoli, þau hafa sjeð stórveldi sögualdarinnar verða til, ná hámarki sínu og líða undir lok, þau hafa sjeð aldaraðir ófrelsis og kúgunar breiðast eins og koldimma nótt yfir hina fámennu þjóð, og enn standa þau sem risavaxin baksýn þeirra viðburða sem gerast í landinu“.
Ekkert eldgos varð á Reykjanesskaga á meðan Bjarni Thorarensen lifði og ekki heldur á ævi Árna Friðrikssonar. Áður en eldgosið í Fagradalsfjalli hófst fyrir rúmlega hálfu ári hafði ekki gosið þar frá miðri 13. öld og ekki í því eldstöðvakerfi sem Fagradalsfjall tilheyrir í 6.000 ár eða þar um bil.
Keilir, sem myndaðist við gos undir jökli á síðustu ísöld sem lauk fyrir um 10 þúsund árum, hefur staðið óhaggaður (að minnsta kosti ekki látið mikið á sjá) í atburðum síðustu mánaða þótt hann hafi vissulega skolfið eins og jörð öll á svæðinu. En allt er breytingum háð eins og þar stendur og í ljósi nýjustu tíðinda er ekki hægt að útiloka að ásýnd Keilis hins formfagra verði önnur og það jafnvel í náinni framtíð. Engu skal þó slá föstu á þessu stigi máls eins og jarðvísindamenn hafa ítrekað varað við þegar jarðhræringar eru annars vegar.
Eldgos við Keili ein sviðsmyndin
„Það er sérstakt tímabil aðgæslu núna á meðan eldgos er ekki sýnilegt á yfirborði og það er jarðskjálftavirkni,“ sagði Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur í fréttum RÚV í lok síðustu viku. Engin kvika hefur sést á yfirborði við Fagradalsfjall í yfir tvær vikur en síðustu daga hefur hins vegar stöðug skjálftavirkni verið í næsta nágrenni Keilis. Stærsti skjálftinn var 4,2 stig. Að sögn Freysteins er líklegast að bergkvika sé á ferð neðanjarðar en að „einhver vandræði“ séu við að koma henni upp á yfirborðið. Þess vegna, í ljósi skjálftavirkninnar, sé „auðvitað ekki hægt að útiloka þann möguleika að bergkvika sé að finna sér nýja leið“. Í augnablikinu sé því líklegast að það gerist „nálægt Keili“, þ.e.a.s. á því svæði sem skjálftarnir eru mestir. „Vegna þess að það svæði tengist þessum kvikugangi sem var að myndast í jarðskorpunni vikurnar áður en eldgosið í Fagradalsfjalli byrjaði.“
Í sama streng tekur Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands. Eldgos í nágrenni Keilis „sé sviðsmynd sem við þurfum alvarlega að íhuga“.
Reykjanesið allt er eldbrunnið, eins og sagt er, og ásýnd þess einkennist af hraunum, gígum, misgengjum og jarðhita. Um það liggja mót Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna og gliðnun hefur átt sér stað með tilheyrandi jarðskjálftum oft og reglulega síðustu ár og áratugi. Keilir hefur oftsinnis ratað í fréttir vegna einmitt þessa en nú líklega sem aldrei fyrr.
Keilir er ekki virkt eldfjall í þeim skilningi sem almennt er lagður í það orð. Hann er ekki einu sinni fjall ef út í það er farið heldur fell. Hann er hvorki mikill um sig né sérstaklega hávaxinn – stendur 378 metra yfir sjávarmáli og í um 200 metra hæð yfir landslaginu í kring. Fjarskyld frænka hans, Esjan, er svo dæmi sé tekið 914 metra há. En þar sem hann stendur stakur, eins og kóngur í ríki sínu mitt á Reykjanesskaganum, sést hann víða að og vekur vissulega athygli og jafnvel aðdáun. Hann er nefnilega svo fallegur.
Halldór Laxness orti um Keili í kvæðinu Vegurinn austur:
Keilir er líkur konungsstól í salnum,
kallarnir spá og taka í nef úr bauki.
Austur í Fljótshlíð glóir á grænum lauki
glampar í Ölvesinu á mó í hrauki.
Keilir er „fyrirfjall“ Reykjanesskagans. Hann er til að mynda bæjarfjall sveitarfélagsins Voga en Reykvíkingar og nærsveitamenn þekkja hann best í bláma fjarlægðarinnar eða í skjannahvítum vetrarham sínum. Stundum slær á hann rauðleitum bjarma að kvöldlagi. „Þá er hann fegurstur,“ skrifaði Gestur Guðfinnsson í pistli um göngu á Keili í Alþýðublaðið árið 1958. Gestur vitnaði þar m.a. í Suðurnesjaskáldið Kristin Pétursson sem á að hafa sagt eitt sinn: „Ásýnd Keilis er eirrauð sem egypzkur píramíði.“
Nafn Keilis er augljóslega dregið af keilulaga lögun hans en hann er þó ekki eldkeila eins og hún er útskýrð á fræðamáli jarðfræðinga. Eldkeilur, svo sem Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull, eru keilulaga eldstöðvar sem gjósa reglulega. Keilir myndaðist hins vegar í einu stöku gosi undir nokkuð þykkum ísaldarjökli. Slíkar eldstöðvar eru yfirleitt úr móbergi og gjósa aðeins einu sinni á lífstíð sinni. Keilir er því það sem kallast móbergsfell, eða jafnvel móbergskeila vegna lögunar sinnar, segir í svari á Vísindavefnum um tilurð hins tilkomumikla Keilis. Hann hefur líklega í upphafi verið hluti af móbergshrygg sem hefur svo veðrast burt að mestu.
Þegar Keilir myndaðist lá eins og fyrr segir þykkur jökull yfir Reykjanesskaganum, „suðvestlægur útvörður ísaldarjökulsins sem huldi landið á síðasta jökulskeiði,“ segir enn fremur í svarinu. Gosið sem myndaði hann hefur líklegast hafist sem sprungugos undir jöklinum en fljótt einangrast við einn aðalgíg, sem hlóð Keili upp. Efst á toppi hans liggur hraunhetta, sennilega kvikuafgangur sem storknað hefur í gosrásinni og myndað þéttan gígtappa. Þetta berg í miðju hans hefur komið í veg fyrir mikla veðrun í aldanna rás þótt vatni og frosti hafi smám saman tekist að flytja efni af efstu brúnum niður með hlíðum og myndað strýtuna, sem nú má sjá.
Sykurtoppurinn
Í lýsingu Kálfatjarnarsóknar frá árinu 1840 eftir séra Pétur Jónsson segir að sjófarendur kalli Keili Sykurtopp. Líklega er þar um að ræða samlíkingu við keilulöguð sykurstykki sem menn kölluðu sykurtoppa og voru á markaðnum áður en strásykur kom til sögunnar. Fjöll annars staðar í heiminum hafa einnig fengið sama viðurnefni.
Keilir kann að virðast standa einn og óstuddur en hann á bæði „börn“ og „bræður“. Lágu hæðirnar norðan við hann, eða stabbarnir eins og stundum er sagt, eru kallaðar Keilisbörn.
Hann á svo einnig tvo „bræður“ líkt og Sesselja Guðmundsdóttir fjallaði um í ritinu Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi árið 2007. Þeir nefnast Nyrðri- og Syðri-Keilisbræður en eru einnig kallaðir Litli- og Stóri-Hrútur, skrifar Sesselja.
Síðustu ár hefur Keilir verið vinsæll hjá göngufólki. Gangan á toppinn er ekki löng, enda Keilir ekki hár, en þó brött og stundum varasöm. Á seinni hluta 18. aldar voru í nágrenni hans hins vegar vinsælar slóðir hreindýra sem sleppt var lausum á Reykjanesfjallgarðinn. Dýrin voru 20 í fyrstu en fjölgaði svo og dreifðu sér víðar um svæðið. Um aldamótin voru þau útdauð á þessum slóðum.
En Keilir hefur í gegnum tíðina einnig haft mikilvægu öryggishlutverki að gegna og var víðfrægt mið af sjó. Þannig má sjá að margar innsiglingavörður í varir og lendingar á norðan- og vestanverðum Reykjanesskaganum hafa fyrrum haft vísan á Keili.
Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysustrandarhreppi orti um þetta:
Keilir fríður kennast skal,
knappt þó skrýði runnur,
fagran prýðir fjallasal
fyrr og síðar kunnur.
Þekkti ég siðinn þann af sjón
þekkan liði drengja
Keilir við um flyðrufrón
fiskimiðin tengja.
Sæfarendur reyna rétt
rata’ að lending heilir;
til að benda’ á takmark sett
tryggur stendur Keilir.
Já, tryggur stendur Keilir. Að minnsta kosti enn sem komið er.
„Við megum ekki gleyma því að eldgosið sem hefur staðið í sex mánuði er partur af miklu víðtækari atburðarás sem tekur til alls Reykjanesskagans,“ sagði Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur við RÚV á fimmtudag. „Þetta gæti verið þáttur í því, en það fer ekkert á milli mála að það er nýr þáttur í gangi í þessari atburðarás sem er full ástæða til að fylgjast mjög vandlega með.“