Tvöföld og ógagnsæ verðlagning á rafmagni til rannsóknar
Verðlagning N1 Rafmagns, sem áður hét Íslensk orkumiðlun, á rafmagni til þeirra fjölmörgu viðskiptavina sem koma óafvitandi i viðskipti hjá félaginu á grundvelli þrautavarakerfis, hefur verið harðlega gagnrýnd af samkeppnisaðilum félagsins og jafnvel kölluð okur. Orkustofnun rannsakar nú viðskiptahætti fyrirtækisins, en lögfræðingur stofnunarinnar segir við Kjarnann að hún viti ekki til þess að orkusalar til þrautavara séu með tvo mismunandi taxta í gangi í öðrum löndum.
Ekki er hægt að segja til um það hvenær Orkustofnun verður búin að ljúka rannsókn máls sem varðar verðlagningu N1 Rafmagns á raforku til viðskiptavina sem ekki hafa valið að vera í viðskiptum við fyrirtækið. Stofnunin leggur áherslu á að skoða málið vel, en er fáliðuð og hefur mörg verkefni á sinni könnu þessa dagana, samkvæmt svari Hönnu Bjargar Konráðsdóttur, lögfræðings Orkustofnunar, við fyrirspurn Kjarnans um framgang málsins.
Formleg kvörtun vegna viðskiptahátta N1 Rafmagns, sem áður hét Íslensk orkumiðlun, kom inn á borð Orkustofnunar um miðjan desember. Eins og fjallað var um í tveimur fréttum Stundarinnar í kjölfarið varðar kvörtunin það að N1 Rafmagn, sem Orkustofnun hefur útnefnt sem svokallaðan orkusala til þrautavara, hefur rukkað neytendur sem færast óafvitandi í viðskipti við félagið öllu hærra verð fyrir raforku en almennum viðskiptavinum stendur til boða.
Hanna Björg segir í samtali við Kjarnann að það hafi ekki verið fyrirséð að þessi staða kæmi upp – og sömuleiðis lætur hún þess getið að hún þekki engin dæmi þess frá Evrópu að orkusölufyrirtæki séu með tvö verð á raforku eins og N1, þ.e. einn opinberan taxta fyrir neytendur sem velja sér að koma í viðskipti og annan taxta, sem hvergi er opinberlega uppgefinn, fyrir hina svokölluðu þrautavaraviðskiptavini.
Á sama tíma, segir Hanna Björg, var það ekki fyrirséð að margir stórir kúnnar væru að lenda í þrautavaraviðskiptum og það sé sérstakt rannsóknarefni enda eigi allir að vera upplýstir um rétt sinn til að velja sér sölufyrirtæki. Hún segir að rannsókn Orkustofnunar taki til þess hvað hafi gerst, hvernig heildsölumarkaðurinn hafi breyst og hvort verðið hafi hækkað mjög mikið. Það sé mjög margt sem taka þurfti til skoðunar á grundvelli þeirrar kvörtunar sem barst.
Hún segir að ástæða sé til að skoða hvort ástæða sé til að breyta núverandi fyrirkomulagi varðandi orkusölu til þrautavara og hvort aðrar leiðir væru betur til þess fallnar að ná þeim markmiðum sem núverandi fyrirkomulagi er ætlað að ná – að neytendur standi ekki skyndilega uppi orkulausir og tryggt verði með betri hætti að þeir velji sér raforkusala.
Stundin sagði frá nýjum vendingum í málinu síðdegis í gær, en samkvæmt frétt miðilsins hefur Orkustofnun nú sent út uppfærðar leiðbeiningar til sölufyrirtækja um að ekki sé hægt að selja orku til þrautavarakúnna nema á birtu verði. Rannsókn Orkustofnunar heldur þó áfram og stofnunin mun skera úr um hvort N1 Rafmagni hafi verið heimilt að rukka þrautavaraviðskiptavini um hærra verð en opinberlega var gefið upp af hálfu fyrirtækisins.
Hörð gagnrýni frá keppinautum á raforkumarkaði
Keppinautar N1 Rafmagns á smásölumarkaði með raforku hafa gagnrýnt þessa tvöföldu verðlagningu fyrirtækisins harðlega á opinberum vettvangi. Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar, birti aðsenda grein á Vísi í gær þar sem hún segir N1 Rafmagn fá að okra á ómeðvituðum neytendum í skjóli ríkisvaldsins, með núverandi fyrirkomulagi.
„Fyrirtækið sem sendir opinberu starfsmönnunum lægsta listaverðið er nefnilega búið að búa til sérstakan okurflokk fyrir unga parið og önnur þau sem ekki velja sér rafmagnssala sjálf. Í staðinn fyrir að borga listaverðið sem opinberu starfsmennirnir eru með í höndunum borga söguhetjur okkar verð sem er næstum tvöfalt hærra, 75% hærra en verðið sem var gefið upp til að verða þessara nauðungarflutninga raforkukaupenda aðnjótandi. Í stað þess að borga listaverðið 6,44 kr eru þau að borga 11,16 kr. á kílóvattstund,“ segir í grein Berglindar.
Hún segir í greininni að núverandi fyrirkomulag ekki bara óviðunandi, heldur sé það „algerlega ótækt að ríkið taki að sér að flytja viðskipti mörg þúsund manns án vitneskju þess yfir í hæsta verðið á markaðnum.“
Svona gangi það hins vegar, „mánuð eftir mánuð eftir mánuð, að ung pör á öllum aldri sem eru að byrja búskap, eða bara að flytja, eru þvinguð af ríkinu í viðskipti við fyrirtæki sem auglýsir lægsta verðið en rukkar svo hæsta verðið – langhæsta verðið hjá N1 rafmagn.“
Í samtali við Stundina í desember sagði Símon Einarsson, einn eigenda raforkusalans Straumlindar, að hann teldi málið hneyksli. „Verðið er allt of hátt. Maður vill bara sjá ákveðna sanngirni og mér finnst fólk hafa rétt á að vita þetta því það er bara verið að svindla á fólki,“ sagði Símon.
Framkvæmdastjóri N1 sagði fyrirtækið ekki reyna að blöffa einn né neinn
Í framhaldsumfjöllun Stundarinnar um málið kom þó fram frá forsvarsmönnum N1 að fyrirtækið teldi sig ekki vera að hafa rangt við að neinu leyti, heldur væri ástæðan fyrir því að þrautavarakúnnar væru á hærri taxta en þeim almenna sú að N1 Rafmagn gæti ekki gert ráð fyrir þessum kúnnum í langtímainnkaupum.
„Við erum hins vegar vissulega að hvetja fólk til að skrá sig í viðskipti hjá okkur og greiða þá lægra verð hjá okkur. Vandamálið er hins vegar að við höfum engar upplýsingar um fólkið sem kemur inn hjá okkur í gegnum þrautavaraleiðina og getum því ekki haft samband við það. Við erum því ekkert að reyna að blöffa einn né neinn í þessum bransa og þetta er alveg heimilt samkvæmt lögum,“ sagði Hinrik Örn Bjarnason framkvæmdastjóri N1 í svari sínu til Stundarinnar.
Þrauta-vara-hvað?
Orkusala til þrautavara er kannski ekki eitthvað sem hinn almenni neytandi veltir fyrir sér í amstri hversdagsins, en það raforkufyrirtæki sem er með lægst meðalverð á tilteknu tímabili er útnefnt sem raforkusali til þrautavara af Orkustofnun.
Fyrirtæki eru valin til að gegna þessu hlutverki til sex mánaða í senn og hefur N1 Rafmagn, sem áður hét Íslensk orkumiðlun, verið valið þrisvar sinnum í hlutverkið frá því að valið fór fyrst fram með þessum hætti í maí árið 2020.
Á þessa svokölluðu þrautavaraleið færast síðan þeir raforkunotendur sem ekki hafa af einhverjum ástæðum valið sér tiltekinn raforkusala til að vera í viðskiptum við. Þetta getur gerst þegar fólk flytur í nýtt húsnæði eða tekur við sem nýir viðskiptavinir á neysluveitu, til dæmis við fráfall maka sem áður var skráður fyrir rafmagnsreikningnum. Eða einfaldlega, þegar fólk hefur ekki hugmynd um að það eigi og þurfi að velja sér sérstaklega fyrirtæki til að vera í viðskiptum við um raforku.
Núgildandi reglugerð um þetta fyrirkomulag var sett árið 2019, af Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur fyrrverandi ráðherra orkumála. Ekki er skýrt af lestri þeirrar reglugerðar hvort orkusali til þrautavara skuli að veita þeim sem koma í viðskipti sjálfkrafa sama verð og öðrum notendum. Þó er orkusalinn settur í það hlutverk á grundvelli þess að vera með lægsta orkuverðið á landinu.
Hanna Björg segir við Kjarnann að ef horft sé út fyrir landsteinana sé mismunandi hvernig ríki ákvarði hver skuli vera orkusali til þrautavara, í Bretlandi sé til dæmis ekki horft til þess að lægsta verðið ráði för þegar verið er að velja þrautavaraaðilann. Þar í landi sé hins vegar ljóst af gildandi löggjöf að ekki sé gert ráð fyrir því að fólk lendi hjá þrautavarasala á öðrum taxta en sá orkusali auglýsir.
Hið nýlega fyrirkomulag hvað þetta varðar hér á landi á rætur sínar að rekja til þess að Orkustofnun tók árið 2019 ákvarðanir þess efnis að allar dreifiveitur landsins hefðu gerst brotlegar við þágildandi reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar, með því að færa viðskiptavini sjálfkrafa til tengdra orkusölufyrirtækja við notendaskipti.
Þessir starfshættir, segir Hanna Björg, voru leifar af gamalli tíð, áður en uppskipting raforkufyrirtækjanna átti sér stað. Í kjölfar innleiðingar á öðrum raforkupakka Evrópusambandsins hér á landi áttu síðan allir almennir notendur að geta valið sér það sölufyrirtæki sem þeir vildu versla við. Árið 2019 segir Hanna Björg að heilmikil vinna unnin við að breyta regluverkinu og niðurstaðan varð á endanum að fela Orkustofnun að tilnefna ákveðið fyrirtæki sem sölufyrirtæki til þrautavara á grundvelli lægsta verðs.
Hún segir að „höfuðmarkmiðið“ með þessum þrautavaraviðskiptum sé að neytendur fái raforku þrátt fyrir að hafa ekki valið sér raforkusala. Fólk sé mjög háð raforku og það geti haft hörmulegar afleiðingar ef heimili eða stofnanir hreinlega verði rafmagnslaus þó það væri einungis í stuttum tíma. Hún segir núverandi fyrirkomulag líka hafa búið til hvata fyrir aukna verðsamkeppni á þessum markaði.
„Að þessu leyti má segja að það hafi náðst góður árangur í að efla samkeppni á markaði og líka neytendavitund almennings um að taka ákvörðun um hvar þau vilji kaupa raforku,“ segir Hanna Björg.
Algengt að þrautavaraverð lúti eftirliti eða sé ákvarðað
Starfshópur um orkuöryggi fjallaði um þrautavaraleiðina, sem byggir á tilskipun Evrópusambandsins um innri markað raforku, í skýrslu sem gefin var út árið 2020. Þar segir að samkvæmt tilskupuninni eigi heimilisnotendur rétt á alþjónustu hvað raforku varðar, þ.e. „að fá afhenta raforku af tilteknum gæðum á sanngjörnu verði sem er auðveldlega og greinilega samanburðarhæft, gagnsætt og án mismununar“.
Hverju og einu ríki er síðan falið að útfæra þessa alþjónustu. Starfshópurinn segir frá því í skýrslunni að í flestum ríkjum ESB sé skilgreindur svokallaður söluaðili til þrautavara – og þá sé „algengt, en ekki algilt, að verð fyrir raforkuna sé háð sérstöku eftirliti eða hreinlega ákvarðað af eftirlitsaðila“ en tilgangur alþjónustunnar þó fyrst og fremst sagður sá að sjá til þess að heimili sem ekki velji raforkusala fái samning um raforku.
Hanna Björg segir að um 40 prósent aðildarríkja á raforkumarkaði Evrópusambandsins séu með einhverskonar verðstýringar, en að þær þykji ekki ákjósanlegar og geti haft slæm áhrif á markaðinn, sér í lagi ef þær hafa þannig áhrif að verð sé undir kostnaðarverði.
Hún segir jafnframt að með reglugerðinni frá 2019 hafi auknar skyldur verið lagðar á sölufyrirtæki og dreifiveitur, með það að markmiði að upplýsa neytendur um rétt sinn til að velja sér raforkusölufyrirtæki, leiðbeina þeim með aðgengilegum og sýnilegum og hætti og gæta jafnræðis í hvívetna þannig að ekki sé til dæmis vakin athygli notenda á einu sölufyrirtæki umfram annað.
Varðandi rannsóknina sem er í gangi hjá Orkustofnun segir Hanna Björg að stofnuninni beri að rannsaka málið með fullnægjandi hætti og hafa allar staðreyndir á hreinu. „Meðal annars að skoða frá hvaða tímapunkti slíkir viðskiptahættir hafa verið viðhafðir og hver ástæðan er fyrir þeim. Við erum stjórnsýslustofnun sem ber að hafa eftirlit með raforkumarkaði og á sama tíma er okkar meginmarkmið að þjóna almenningi í landinu,“ segir Hanna Björg.
Spurð út í heimildir Orkustofnunar til að beita sér, komi í ljós að eitthvað athugavert þyki við tvöfalda verðlagningu N1 Rafmagns til neytenda, segir Hanna Björg að þær séu að finna í ákvæðum raforkulaga.
Samkvæmt lögunum hefur Orkustofnun heimild til að beita dagsektum ef eftirlitsskyld starfsemi samræmist ekki skilyrðum þeirra sömu laga, eða áminningum með veittum fresti til úrbóta, komi í ljós að brotið hafi verið gegn lögum. Hvort ástæða sé til að grípa til einhverra slíkra aðgerða er óvíst, enda liggur engin ákvörðun fyrir hjá Orkustofnun vegna málsins.
Eignalítið fyrirtæki keypt á 722,5 milljónir
Rifjum upp hvernig það kom til að N1 fór að gera sig gildandi á raforkumarkaði. Fyrirtækið Íslensk orkumiðlun byrjaði að selja íslenskum neytendum raforku árið 2017. Félagið var stofnað af þeim Bjarna Ármannssyni fjárfesti sem var stærsti hluthafi þess og Magnúsi Júlíussyni, sem var framkvæmdastjóri félagsins og einnig hluthafi. Hann var nýlega ráðinn aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra.
Aðrir stærstu hluthafar Íslenskrar orkumiðlunar voru Kaupfélag Skagfirðinga og Ísfélag Vestmannaeyja og síðar Festi, en Festi keypti félagið síðan að fullu undir lok árs 2020 og greiddi 722,5 milljónir króna fyrir félagið, sem síðar féll undir N1 og fékk síðla árs 2021 nafnið N1 Rafmagn.
Verðmatið á félaginu á þeim tíma er það var selt var alls 850 milljónir króna, sem vakti nokkra athygli, enda var hátt í 70 prósent af bókfærðu virði félagsins óefnislegar eignir í formi viðskiptavildar. Ekki lá fyrir í hverju nákvæmlega þessu verðmæta viðskiptavild fælist.
Stundin fjallaði um náin tengsl lykilleikenda í þessum viðskiptum þegar þau áttu sér stað, en Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festi er vinur og fyrrverandi viðskiptafélagi Bjarna Ármannssonar, og var á árum áður framkvæmdastjóri fjárfestingarfélags Bjarna, sem er einmitt sama fyrirtæki og Festi keypti hlutinn í Íslenskri orkumiðlun af.
Þáverandi stjórnarformaður Festi, Þórður Már Jóhannesson, sem nýlega lét af störfum í kjölfar ásakana um kynferðisbrot, hefur einnig verið viðskiptafélagi Bjarna og þekkt hann frá því á uppvaxtarárum þeirra á Akranesi, eins og bloggarinn Guðmundur Hörður Guðmundsson vakti athygli á í færslu sinni um málið, sem sett var fram undir fyrirsögninni „Vinsamlegt verðmat“.
Lestu meira
-
10. janúar 2023Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
3. janúar 2023Orku- og veitumál í brennidepli
-
30. desember 2022Austurland 2022: Miklar fórnir fyrir stóra vinninga?
-
19. desember 2022Nær öllum sundlaugum höfuðborgarsvæðisins lokað vegna bilunar í Hellisheiðarvirkjun