Óflokkað

Tvöföld og ógagnsæ verðlagning á rafmagni til rannsóknar

Verðlagning N1 Rafmagns, sem áður hét Íslensk orkumiðlun, á rafmagni til þeirra fjölmörgu viðskiptavina sem koma óafvitandi i viðskipti hjá félaginu á grundvelli þrautavarakerfis, hefur verið harðlega gagnrýnd af samkeppnisaðilum félagsins og jafnvel kölluð okur. Orkustofnun rannsakar nú viðskiptahætti fyrirtækisins, en lögfræðingur stofnunarinnar segir við Kjarnann að hún viti ekki til þess að orkusalar til þrautavara séu með tvo mismunandi taxta í gangi í öðrum löndum.

Ekki er hægt að segja til um það hvenær Orku­stofnun verður búin að ljúka rann­sókn máls sem varðar verð­lagn­ingu N1 Raf­magns á raf­orku til við­skipta­vina sem ekki hafa valið að vera í við­skiptum við fyr­ir­tæk­ið. Stofn­unin leggur áherslu á að skoða málið vel, en er fáliðuð og hefur mörg verk­efni á sinni könnu þessa dag­ana, sam­kvæmt svari Hönnu Bjargar Kon­ráðs­dótt­ur, lög­fræð­ings Orku­stofn­un­ar, við fyr­ir­spurn Kjarn­ans um fram­gang máls­ins.

Form­leg kvörtun vegna við­skipta­hátta N1 Raf­magns, sem áður hét Íslensk orku­miðl­un, kom inn á borð Orku­stofn­unar um miðjan des­em­ber. Eins og fjallað var um í tveimur fréttum Stund­ar­innar í kjöl­farið varðar kvörtunin það að N1 Raf­magn, sem Orku­stofnun hefur útnefnt sem svo­kall­aðan orku­sala til þrauta­vara, hefur rukkað neyt­endur sem fær­ast óaf­vit­andi í við­skipti við félagið öllu hærra verð fyrir raf­orku en almennum við­skipta­vinum stendur til boða.

Hanna Björg segir í sam­tali við Kjarn­ann að það hafi ekki verið fyr­ir­séð að þessi staða kæmi upp – og sömu­leiðis lætur hún þess getið að hún þekki engin dæmi þess frá Evr­ópu að orku­sölu­fyr­ir­tæki séu með tvö verð á raf­orku eins og N1, þ.e. einn opin­beran taxta fyrir neyt­endur sem velja sér að koma í við­skipti og annan taxta, sem hvergi er opin­ber­lega upp­gef­inn, fyrir hina svoköll­uðu þrauta­vara­við­skipta­vini.

Hanna Björk Konráðsdóttir lögfræðingur hjá Orkustofnun.

Á sama tíma, segir Hanna Björg, var það ekki fyr­ir­séð að margir stórir kúnnar væru að lenda í þrauta­vara­við­skiptum og það sé sér­stakt rann­sókn­ar­efni enda eigi allir að vera upp­lýstir um rétt sinn til að velja sér sölu­fyr­ir­tæki. Hún segir að rann­sókn Orku­stofn­unar taki til þess hvað hafi ger­st, hvernig heild­sölu­mark­að­ur­inn hafi breyst og hvort verðið hafi hækkað mjög mik­ið. Það sé mjög margt sem taka þurfti til skoð­unar á grund­velli þeirrar kvört­unar sem barst.

Hún segir að ástæða sé til að skoða hvort ástæða sé til að breyta núver­andi fyr­ir­komu­lagi varð­andi orku­sölu til þrauta­vara og hvort aðrar leiðir væru betur til þess fallnar að ná þeim mark­miðum sem núver­andi fyr­ir­komu­lagi er ætlað að ná – að neyt­endur standi ekki skyndi­lega uppi orku­lausir og tryggt verði með betri hætti að þeir velji sér raf­orku­sala.

Stundin sagði frá nýjum vend­ingum í mál­inu síð­degis í gær, en sam­kvæmt frétt mið­ils­ins hefur Orku­stofnun nú sent út upp­færðar leið­bein­ingar til sölu­fyr­ir­tækja um að ekki sé hægt að selja orku til þrauta­varakúnna nema á birtu verði. Rann­sókn Orku­stofn­unar heldur þó áfram og stofn­unin mun skera úr um hvort N1 Raf­magni hafi verið heim­ilt að rukka þrauta­vara­við­skipta­vini um hærra verð en opin­ber­lega var gefið upp af hálfu fyr­ir­tæk­is­ins.

Hörð gagn­rýni frá keppi­nautum á raf­orku­mark­aði

Keppi­nautar N1 Raf­magns á smá­sölu­mark­aði með raf­orku hafa gagn­rýnt þessa tvö­földu verð­lagn­ingu fyr­ir­tæk­is­ins harð­lega á opin­berum vett­vangi. Berg­lind Rán Ólafs­dótt­ir, fram­kvæmda­stýra Orku nátt­úr­unn­ar, birti aðsenda grein á Vísi í gær þar sem hún segir N1 Raf­magn fá að okra á ómeð­vit­uðum neyt­endum í skjóli rík­is­valds­ins, með núver­andi fyr­ir­komu­lagi.

„Fyr­ir­tækið sem sendir opin­beru starfs­mönn­unum lægsta lista­verðið er nefni­lega búið að búa til sér­stakan okur­flokk fyrir unga parið og önnur þau sem ekki velja sér raf­magns­sala sjálf. Í stað­inn fyrir að borga lista­verðið sem opin­beru starfs­menn­irnir eru með í hönd­unum borga sögu­hetjur okkar verð sem er næstum tvö­falt hærra, 75% hærra en verðið sem var gefið upp til að verða þess­ara nauð­ung­ar­flutn­inga raf­orku­kaup­enda aðnjót­andi. Í stað þess að borga lista­verðið 6,44 kr eru þau að borga 11,16 kr. á kílóvatt­stund,“ segir í grein Berg­lind­ar.

Hún segir í grein­inni að núver­andi fyr­ir­komu­lag ekki bara óvið­un­andi, heldur sé það „al­ger­lega ótækt að ríkið taki að sér að flytja við­skipti mörg þús­und manns án vit­neskju þess yfir í hæsta verðið á mark­aðn­um.“

Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastýra Orku náttúrunnar.
Aðsend

Svona gangi það hins veg­ar, „mánuð eftir mánuð eftir mán­uð, að ung pör á öllum aldri sem eru að byrja búskap, eða bara að flytja, eru þvinguð af rík­inu í við­skipti við fyr­ir­tæki sem aug­lýsir lægsta verðið en rukkar svo hæsta verðið – lang­hæsta verðið hjá N1 raf­magn.“

Í sam­tali við Stund­ina í des­em­ber sagði Símon Ein­ars­son, einn eig­enda raf­orku­sal­ans Straum­lind­ar, að hann teldi málið hneyksli. „Verðið er allt of hátt. Maður vill bara sjá ákveðna sann­girni og mér finnst fólk hafa rétt á að vita þetta því það er bara verið að svindla á fólki,“ sagði Sím­on.

Fram­kvæmda­stjóri N1 sagði fyr­ir­tækið ekki reyna að blöffa einn né neinn

Í fram­halds­um­fjöllun Stund­ar­innar um málið kom þó fram frá for­svars­mönnum N1 að fyr­ir­tækið teldi sig ekki vera að hafa rangt við að neinu leyti, heldur væri ástæðan fyrir því að þrauta­varakúnnar væru á hærri taxta en þeim almenna sú að N1 Raf­magn gæti ekki gert ráð fyrir þessum kúnnum í lang­tímainn­kaup­um.

Hinrik Örn Bjarnason framkvæmdastjóri N1.

„Við erum hins vegar vissu­lega að hvetja fólk til að skrá sig í við­skipti hjá okkur og greiða þá lægra verð hjá okk­ur. Vanda­málið er hins vegar að við höfum engar upp­lýs­ingar um fólkið sem kemur inn hjá okkur í gegnum þrauta­vara­leið­ina og getum því ekki haft sam­band við það. Við erum því ekk­ert að reyna að blöffa einn né neinn í þessum bransa og þetta er alveg heim­ilt sam­kvæmt lög­um,“ sagði Hin­rik Örn Bjarna­son fram­kvæmda­stjóri N1 í svari sínu til Stund­ar­inn­ar.

Þrauta-vara-hvað?

Orku­sala til þrauta­vara er kannski ekki eitt­hvað sem hinn almenni neyt­andi veltir fyrir sér í amstri hvers­dags­ins, en það raf­orku­fyr­ir­tæki sem er með lægst með­al­verð á til­teknu tíma­bili er útnefnt sem raf­orku­sali til þrauta­vara af Orku­stofn­un.

Fyr­ir­tæki eru valin til að gegna þessu hlut­verki til sex mán­aða í senn og hefur N1 Raf­magn, sem áður hét Íslensk orku­miðl­un, verið valið þrisvar sinnum í hlut­verkið frá því að valið fór fyrst fram með þessum hætti í maí árið 2020.

Á þessa svoköll­uðu þrauta­vara­leið fær­ast síðan þeir raf­orku­not­endur sem ekki hafa af ein­hverjum ástæðum valið sér til­tek­inn raf­orku­sala til að vera í við­skiptum við. Þetta getur gerst þegar fólk flytur í nýtt hús­næði eða tekur við sem nýir við­skipta­vinir á neyslu­veitu, til dæmis við frá­fall maka sem áður var skráður fyrir raf­magns­reikn­ingn­um. Eða ein­fald­lega, þegar fólk hefur ekki hug­mynd um að það eigi og þurfi að velja sér sér­stak­lega fyr­ir­tæki til að vera í við­skiptum við um raf­orku.

N1 Rafmagn auglýsir þessa dagana af miklum móð að fyrirtækið bjóð upp á ódýrustu raforkuna á Íslandi. Á vef fyrirtækisins er tekið fram að þetta verð gildi ekki um þrautavaraleið.
Skjáskot af vef N1

Núgild­andi reglu­gerð um þetta fyr­ir­komu­lag var sett árið 2019, af Þór­dísi Kol­brúnu R. Gylfa­dóttur fyrr­ver­andi ráð­herra orku­mála. Ekki er skýrt af lestri þeirrar reglu­gerðar hvort orku­sali til þrauta­vara skuli að veita þeim sem koma í við­skipti sjálf­krafa sama verð og öðrum not­end­um. Þó er orku­sal­inn settur í það hlut­verk á grund­velli þess að vera með lægsta orku­verðið á land­inu.

Hanna Björg segir við Kjarn­ann að ef horft sé út fyrir land­stein­ana sé mis­mun­andi hvernig ríki ákvarði hver skuli vera orku­sali til þrauta­vara, í Bret­landi sé til dæmis ekki horft til þess að lægsta verðið ráði för þegar verið er að velja þrauta­vara­að­il­ann. Þar í landi sé hins vegar ljóst af gild­andi lög­gjöf að ekki sé gert ráð fyrir því að fólk lendi hjá þrauta­vara­sala á öðrum taxta en sá orku­sali aug­lýs­ir.

Hið nýlega fyr­ir­komu­lag hvað þetta varðar hér á landi á rætur sínar að rekja til þess að Orku­stofnun tók árið 2019 ákvarð­anir þess efnis að allar dreifi­veitur lands­ins hefðu gerst brot­legar við þágild­andi reglu­gerð um raf­orku­við­skipti og mæl­ing­ar, með því að færa við­skipta­vini sjálf­krafa til tengdra orku­sölu­fyr­ir­tækja við not­enda­skipti.

Þessir starfs­hætt­ir, segir Hanna Björg, voru leifar af gam­alli tíð, áður en upp­skipt­ing raf­orku­fyr­ir­tækj­anna átti sér stað. Í kjöl­far inn­leið­ingar á öðrum raf­orku­pakka Evr­ópu­sam­bands­ins hér á landi áttu síðan allir almennir not­endur að geta valið sér það sölu­fyr­ir­tæki sem þeir vildu versla við. Árið 2019 segir Hanna Björg að heil­mikil vinna unnin við að breyta reglu­verk­inu og nið­ur­staðan varð á end­anum að fela Orku­stofnun að til­nefna ákveðið fyr­ir­tæki sem sölu­fyr­ir­tæki til þrauta­vara á grund­velli lægsta verðs.

Hún segir að „höf­uð­mark­mið­ið“ með þessum þrauta­vara­við­skiptum sé að neyt­endur fái raf­orku þrátt fyrir að hafa ekki valið sér raf­orku­sala. Fólk sé mjög háð raf­orku og það geti haft hörmu­legar afleið­ingar ef heim­ili eða stofn­anir hrein­lega verði raf­magns­laus þó það væri ein­ungis í stuttum tíma. Hún segir núver­andi fyr­ir­komu­lag líka hafa búið til hvata fyrir aukna verð­sam­keppni á þessum mark­aði.

„Að þessu leyti má segja að það hafi náðst góður árangur í að efla sam­keppni á mark­aði og líka neyt­enda­vit­und almenn­ings um að taka ákvörðun um hvar þau vilji kaupa raf­orku,“ segir Hanna Björg.

Algengt að þrauta­vara­verð lúti eft­ir­liti eða sé ákvarðað

Starfs­hópur um orku­ör­yggi fjall­aði um þrauta­vara­leið­ina, sem byggir á til­skipun Evr­ópu­sam­bands­ins um innri markað raf­orku, í skýrslu sem gefin var út árið 2020. Þar segir að sam­kvæmt til­skupun­inni eigi heim­il­is­not­endur rétt á alþjón­ustu hvað raf­orku varð­ar, þ.e. „að fá afhenta raf­orku af til­teknum gæðum á sann­gjörnu verði sem er auð­veld­lega og greini­lega sam­an­burð­ar­hæft, gagn­sætt og án mis­mun­un­ar“.

Hverju og einu ríki er síðan falið að útfæra þessa alþjón­ustu. Starfs­hóp­ur­inn segir frá því í skýrsl­unni að í flestum ríkjum ESB sé skil­greindur svo­kall­aður sölu­að­ili til þrauta­vara – og þá sé „al­gengt, en ekki algilt, að verð fyrir raf­ork­una sé háð sér­stöku eft­ir­liti eða hrein­lega ákvarðað af eft­ir­lits­að­ila“ en til­gangur alþjón­ust­unnar þó fyrst og fremst sagður sá að sjá til þess að heim­ili sem ekki velji raf­orku­sala fái samn­ing um raf­orku.

Hanna Björg segir að um 40 pró­sent aðild­ar­ríkja á raf­orku­mark­aði Evr­ópu­sam­bands­ins séu með ein­hvers­konar verð­stýr­ing­ar, en að þær þykji ekki ákjós­an­legar og geti haft slæm áhrif á mark­að­inn, sér í lagi ef þær hafa þannig áhrif að verð sé undir kostn­að­ar­verði.

Verðstýringar á orkusölu til þrautavara tíðkast að einhverju leyti allvíða í þeim ríkjum sem eru hluti af innri markaði Evrópusambandins um raforku.

Hún segir jafn­framt að með reglu­gerð­inni frá 2019 hafi auknar skyldur verið lagðar á sölu­fyr­ir­tæki og dreifi­veit­ur, með það að mark­miði að upp­lýsa neyt­endur um rétt sinn til að velja sér raf­orku­sölu­fyr­ir­tæki, leið­beina þeim með aðgengi­legum og sýni­legum og hætti og gæta jafn­ræðis í hví­vetna þannig að ekki sé til dæmis vakin athygli not­enda á einu sölu­fyr­ir­tæki umfram ann­að.

Varð­andi rann­sókn­ina sem er í gangi hjá Orku­stofnun segir Hanna Björg að stofn­un­inni beri að rann­saka málið með full­nægj­andi hætti og hafa allar stað­reyndir á hreinu. „Meðal ann­ars að skoða frá hvaða tíma­punkti slíkir við­skipta­hættir hafa verið við­hafðir og hver ástæðan er fyrir þeim. Við erum stjórn­sýslu­stofnun sem ber að hafa eft­ir­lit með raf­orku­mark­aði og á sama tíma er okkar meg­in­mark­mið að þjóna almenn­ingi í land­in­u,“ segir Hanna Björg.

Spurð út í heim­ildir Orku­stofn­unar til að beita sér, komi í ljós að eitt­hvað athuga­vert þyki við tvö­falda verð­lagn­ingu N1 Raf­magns til neyt­enda, segir Hanna Björg að þær séu að finna í ákvæðum raf­orku­laga.

Sam­kvæmt lög­unum hefur Orku­stofnun heim­ild til að beita dag­sektum ef eft­ir­lits­skyld starf­semi sam­ræm­ist ekki skil­yrðum þeirra sömu laga, eða áminn­ingum með veittum fresti til úrbóta, komi í ljós að brotið hafi verið gegn lög­um. Hvort ástæða sé til að grípa til ein­hverra slíkra aðgerða er óvíst, enda liggur engin ákvörðun fyrir hjá Orku­stofnun vegna máls­ins.

Eigna­lítið fyr­ir­tæki keypt á 722,5 millj­ónir

Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festi og Magnús Júlíusson, þáverandi framkvæmdastjóri Íslenskrar orkumiðlunar.
Aðsend

Rifjum upp hvernig það kom til að N1 fór að gera sig gild­andi á raf­orku­mark­aði. Fyr­ir­tækið Íslensk orku­miðlun byrj­aði að selja íslenskum neyt­endum raf­orku árið 2017. Félagið var stofnað af þeim Bjarna Ármanns­syni fjár­festi sem var stærsti hlut­hafi þess og Magn­úsi Júl­í­us­syni, sem var fram­kvæmda­stjóri félags­ins og einnig hlut­hafi. Hann var nýlega ráð­inn aðstoð­ar­maður Áslaugar Örnu Sig­ur­björns­dóttur ráð­herra.

Aðrir stærstu hlut­hafar Íslenskrar orku­miðl­unar voru Kaup­fé­lag Skag­firð­inga og Ísfé­lag Vest­manna­eyja og síðar Festi, en Festi keypti félagið síðan að fullu undir lok árs 2020 og greiddi 722,5 millj­ónir króna fyrir félag­ið, sem síðar féll undir N1 og fékk síðla árs 2021 nafnið N1 Raf­magn.

Verð­matið á félag­inu á þeim tíma er það var selt var alls 850 millj­ónir króna, sem vakti nokkra athygli, enda var hátt í 70 pró­sent af bók­færðu virði félags­ins óefn­is­legar eignir í formi við­skipta­vild­ar. Ekki lá fyrir í hverju nákvæm­lega þessu verð­mæta við­skipta­vild fælist.

Stundin fjall­aði um náin tengsl lyk­il­leik­enda í þessum við­skiptum þegar þau áttu sér stað, en Egg­ert Þór Krist­ó­fers­son for­stjóri Festi er vinur og fyrr­ver­andi við­skipta­fé­lagi Bjarna Ármanns­son­ar, og var á árum áður fram­kvæmda­stjóri fjár­fest­ing­ar­fé­lags Bjarna, sem er einmitt sama fyr­ir­tæki og Festi keypti hlut­inn í Íslenskri orku­miðlun af.

Þáver­andi stjórn­ar­for­maður Festi, Þórður Már Jóhann­es­son, sem nýlega lét af störfum í kjöl­far ásak­ana um kyn­ferð­is­brot, hefur einnig verið við­skipta­fé­lagi Bjarna og þekkt hann frá því á upp­vaxt­ar­árum þeirra á Akra­nesi, eins og blogg­ar­inn Guð­mundur Hörður Guð­munds­son vakti athygli á í færslu sinni um mál­ið, sem sett var fram undir fyr­ir­sögn­inni „Vin­sam­legt verð­mat“.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar