Luis Inácio Lula da Silva var kosinn forseti Brasilíu í gær í kjölfar hnífjafnrar baráttu milli hans og Jair Bolsonaro, forseta til síðustu fjögurra ára. Það var sannarlega mjótt á mununum. Er um 99,8 prósent atkvæða höfðu verið talin í morgun hafði Lula, eins og hann er oftast kallaður, hlotið 50,89 prósent og Bolsonaro 49,11.
Lula hefur áður gegnt embætti forseta í tvígang og tekur við því í þriðja sinn í byrjun næsta árs. Í kosningabaráttu sinni lagði hann áherslu á lýðræðisleg gildi, að sameina og byggja upp að nýju brasilískt samfélag sem hann segir hafa verið brotið niður og sundrað í tíð hægri mannsins Bolsonaro.
Þetta er ekkert lítið verkefni. Brasilía er eitt fjölmennasta ríki heims og langfjölmennasta ríki rómönsku Ameríku en þar búa um 217 milljónir manna. Um 100 milljónir þeirra búa við fátækt og um 33 milljónir við hungurmörk í óðaverðbólgu sem þar geisar. Slíkt ástand hefur ekki ríkt í Brasilíu í áraraðir.
Á alþjóða sviðinu verður stóra verkefnið m.a. að endurheimta traust umheimsins á því að Amazon-frumskógurinn verði verndaður. Í tíð Bolsonaro hefur eyðing hans stóraukist á tímum þegar jarðarbúar og heilu þjóðirnar keppast við að planta trjám og kolefnisjafna athafnir sínar til að reyna að verjast alvarlegum afleiðingum loftslagsbreytinga sem vofa yfir.
Lula kom inn á þetta í sigurræðu sinni í gær en lagði áherslu á að efst á forgangslistanum væri að bæta lífsgæði fátækustu landa sinna.
„Við getum ekki sætt okkur við að milljónir karla, kvenna og barna í þessu landi hafi ekki nóg að borða,“ sagði hann fyrir framan fagnandi áhorfendaskarann. „Við erum þriðji stærsti framleiðandi matvæla og stærsti framleiðandi dýrapróteins í heiminum. Okkur ber skylda til að tryggja að hver einasti Brasilíumaður geti borðað morgunmat, hádegismat og kvöldmat á hverjum degi.“
Mikill metnaður en mögulega óraunhæfur
Í kosningabaráttunni birti Lula stefnumál sín í ítarlegu bréfi til þjóðarinnar. Stefnuskráin er metnaðarfull, það verður ekki af honum tekið, en ef til vill ekki raunhæf að mati þeirra sem rýnt hafa í hana og lagt mat sitt á hana. Lula ætlar að jafna laun karla og kvenna, útrýma biðlistum eftir skurðaðgerðum og læknisrannsóknum og tryggja pláss á vöggustofum og leikskólum fyrir hvert einasta smábarn.
Hann hefur heitið því að reist verði meira af íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði og koma rennandi vatni og rafmagni til einangruðustu byggða landsins. Hann ætlar auk þessa í ýmsa aðra innviðauppbyggingu.
Í fréttaskýringu Washington Post er bent á að engin kostnaðaráætlun hafi fylgt loforðalistanum en Lula er sagður hafa treyst á að árangur hans frá fyrri tíð væri kjósendum enn í fersku minni og að þegar hann stóð upp úr forsetastólnum fyrir tólf árum, er hann hafði gegnt embættinu í átta ár, naut hann hylli um 80 prósenta Brasilíumanna samkvæmt könnunum.
Bróðurpartinn af forsetatíð Lula á árunum 2003-2010 var uppsveifla í brasilísku hagkerfi. Einkaneysla jókst og það reyndist auðveldara en áður að fjármagna mikla innviðauppbyggingu.
En staðan er allt önnur í dag. Að auki stendur Lula frammi fyrir því að stuðningsmenn Bolsonaros eru í meirihluta í báðum deildum þingsins. Það getur því reynst þrautin þyngri, ólíkt því sem var uppi á teningnum í síðustu umferð, að koma alls konar málum í gegn.
Hann gæti líka mætt mikilli andstöðu í einu stærsta kosningaloforði sínu: Að endurheimta Amazon-skóginn og vernda hann til framtíðar. Bolsonaro hvatti fólk og fyrirtæki til að nýta skóginn, þessa miklu og einstöku auðlind sem Brasilía geymir. Þetta gaf fyrirtækjum í stórtæku skógarhöggi og námuvinnslu byr í seglin. Þessi fyrirtæki eru engin smælki heldur mörg hver risastór og ítök þeirra í stjórnmálum og efnahags- og atvinnulífi landsins, sem og víðar í heiminum, eru mikil. Þau eru ekki að fara að aka stórvirkum vinnuvélum sínum út úr skóginum án þess að fá eitthvað í staðinn.
Frá því að Bolsonaro tók við embætti í byrjun árs 2019 hefur skógareyðing í Amazon aukist ár frá ári. Lula vill ná jafnvægi, að ekki verði gengið meira á skóginn en hann endurnýjar sig. Hann segist hins vegar sætta sig við að dregið verði úr eyðingu hans ár frá ári, líkt og gerðist í hans fyrri forsetatíð.
Bolsonaro rak að mati Lula fleyg milli fólks af ættum frumbyggja í Brasilíu og annarra íbúa landsins. Hann fjársvelti samtök og stofnanir sem einbeittu sér að málefnum frumbyggja. Sömu sögu er að segja um stofnanir og samtök tengdum umhverfis- og náttúruvernd.
Leiðandi varðmenn loftslags
Lula ætlar að snúa þessari þróun við – endurheimta traust samfélaga frumbyggja, samfélaga sem nýtt hafa auðlindir Amazon með sjálfbærum hætti í aldir og árþúsund og eru lykillinn að því að snúa hinni ógnvænlegu skógareyðingu við.
„Í stað þess að vera leiðandi í skógareyðingu viljum við verða heimsmeistarar í því að fást við loftlagskrísuna,“ segir Lula. Það verði ekki gert nema með því að treysta samfélög fólks sem búa í Amazon. „Þannig getum við ræktað heilbrigð matvæli, andað að okkur hreinu lofti, drukkið hreint vatn og skapað fjölmörg störf með grænum fjárfestingum.“
Einhverjir stjórnmálaspekingar hafa viðrað þá skoðun sína að Lula sé gamaldags stjórnmálamaður. Hann hugsi um að skapa verkamannastörf og störf í opinbera geiranum þegar hugvit og þekking séu framtíðin. Að ríkið eigi að fjármagna allt heila klabbið. Um sé að ræða vanda sem mörg ríki í rómönsku Ameríku glíma við. Beitt sé 20. aldar aðferðafræði sem virki ekki lengur. Þessi hugmyndafræði hafi gert sitt gagn í fyrri tíð Lula en aðeins í skamman tíma. Aðeins fáum árum eftir að hann fór úr embætti fór allt beinustu leið niður á við. Úr varð kreppa sem Bolsonaro hlaut kosningu út á. Hann lofaði að koma Brasilíumönnum út úr henni. Það mistókst.
Maður fólksins
Lula hefur mikla persónutöfra. Hann er alþýðumaður, fæddur í norðaustur hluta Brasilíu árið 1945 og fagnaði 77 ára afmæli sínu 27. október. Hann átti sjö systkini og foreldrar hans voru fátækir bændur sem gátu ekki séð öllum börnum sínum fyrir mat. Er hann var sjö ára fór hann ásamt móður sinni og nokkrum systkinum sínum til São Paulo-ríkis í leit að betra lífi. Þau enduðu á því að setjast að í samnefndi borg, þeirri fjölmennustu í Brasilíu.
Hann flosnaði upp úr námi og fór að vinna fyrir sér við að pússa skó á götum úti. Síðar fékk hann vinnu í verksmiðju. Þar missti hann fingur í vinnuslysi og ekki mörgum árum síðar, er hann var rétt skriðinn yfir tvítugt, fór hann að láta sig verkalýðsmál varða.
Lula varð fyrir því áfalli aðeins 25 ára gamall að missa eiginkonu sína, Lourdes, eftir að þau höfðu verið gift í tvö ár. Hún var gengin átta mánuði með barn þeirra er hún sýktist alvarlega af lifrarbólgu og lést.
Með hverju árinu sem leið sökkti hann sér meira í réttindabaráttu fyrir bættum kjörum verkalýðsins og árið 1975 var hann kjörinn formaður félagasamtaka málmiðnaðarmanna. Á meðan hann gegndi formennskunni skipulagði hann nokkur verkföll en á þeim tíma var einræðisstjórn í Brasilíu. Vinsældir hans jukust og ekki aðeins meðal verkamanna. Hann barðist fyrir auknu lýðræði og var oft og tíðum líkt við hinn pólska leiðtoga Lech Walesa.
Hafði í fyrstu ekki erindi sem erfiði
Í upphafi níunda áratugar síðustu aldar stofnaði Lula í félagi við verkafólk og aðra verkalýðsleiðtoga, listafólk, fræðafólk og fleiri hópa, Verkamannaflokkinn, vinstrisinnað afl til höfuðs herforingjastjórninni.
Lula bauð sig þrisvar sinnum fram til forseta áður en hann loks náði kjöri árið 2002. Þá gekk yfir rómönsku Ameríku það sem kallað var „bleika bylgjan“ sem einkenndist af efnahagslegum og félagslegum umbótum við dögun nýrrar aldar. Sú efnahagsuppsveifla sem fylgdi Lula í embætti forseta var ekki aðeins rakin til hans verka. Hún átti sér ástæður í lífskjarabótum sem voru að eiga sér stað víðar, aukinni einkaneyslu og eftirspurn á alþjóða vísu. Hjól hagkerfisins snérust sem aldrei fyrr.
Lula nýtti uppsveifluna til að byggja undir félagslegt kerfi sem varð til þess að milljónir landa hans komust út úr fátækt. Hann styrkti líka stoðir olíuiðnaðarins. Sem átti eftir að reynast vopn í höndum óvina hans nokkrum árum síðar.
Árið 2010 bauð hann sig ekki aftur fram. Arftakinn var honum að skapi, fyrrverandi hægri hönd hans á forsetaskrifstofunni, hagfræðingurinn Dilma Rousseff. Henni var hins vegar bolað úr embætti með ákæru fyrir embættisglöp árið 2016.
580 dagar
Tveimur árum síðar var Lula fangelsaður fyrir spillingu. Málið tengdist rannsókn dómarans Sérgio Moro á meintum mútugreiðslum ríkisolíufyrirtækisins Petrobras. Málið teygði anga sína um alla rómönsku Ameríku.
Lula var sakfelldur, dæmur í 22 ára fangelsi, og haldið einum í litlum klefa í 23 klukkustundir á sólarhring. Árið 2019 var hann hins vegar sýknaður í Hæstarétti þar sem sýnt þótti að Moro dómari var hlutdrægur í máli forsetans fyrrverandi.
„Hvernig reyndu þeir að knésetja Lula? Ég eyddi 580 dögum í fangelsi af því að þeir vildu koma í veg fyrir að ég byði mig fram,“ sagði hann á kosningafundi í síðustu viku. „Ég hélt ró minni í fangelsinu, undirbjó mig eins og Mandela undirbjó sig,“ hélt hann áfram og vísaði þar til Nelsons Mandela, leiðtoga svartra í Suður-Afríku, sem var bak við lás og slá í 27 ár.
Líkt og hjá Mandela mun forsetastóllinn taka við í kjölfar fangelsisvistar fyrir Lula.