Úr fangaklefa í forsetastól

Hann er tákn vinstrisins í rómönsku Ameríku holdi klætt. Sonur fátækra bænda, síðar verkalýðsforingi og loks forseti. Hnepptur í fangelsi af pólitískum andstæðingum en nú hefur Luis Inácio Lula da Silva verið kosinn forseti Brasilíu í þriðja sinn.

Luis Inácio Lula da Silva.
Luis Inácio Lula da Silva.
Auglýsing

Luis Inácio Lula da Silva var kos­inn for­seti Bras­ilíu í gær í kjöl­far hnífjafnrar bar­áttu milli hans og Jair Bol­son­aro, for­seta til síð­ustu fjög­urra ára. Það var sann­ar­lega mjótt á mun­un­um. Er um 99,8 pró­sent atkvæða höfðu verið talin í morgun hafði Lula, eins og hann er oft­ast kall­að­ur, hlotið 50,89 pró­sent og Bol­son­aro 49,11.

Lula hefur áður gegnt emb­ætti for­seta í tvígang og tekur við því í þriðja sinn í byrjun næsta árs. Í kosn­inga­bar­áttu sinni lagði hann áherslu á lýð­ræð­is­leg gildi, að sam­eina og byggja upp að nýju brasil­ískt sam­fé­lag sem hann segir hafa verið brotið niður og sundrað í tíð hægri manns­ins Bol­son­aro.

Auglýsing

Þetta er ekk­ert lítið verk­efni. Brasilía er eitt fjöl­menn­asta ríki heims og lang­fjöl­menn­asta ríki rómönsku Amer­íku en þar búa um 217 millj­ónir manna. Um 100 millj­ónir þeirra búa við fátækt og um 33 millj­ónir við hung­ur­mörk í óða­verð­bólgu sem þar geis­ar. Slíkt ástand hefur ekki ríkt í Bras­ilíu í árarað­ir.

Á alþjóða svið­inu verður stóra verk­efnið m.a. að end­ur­heimta traust umheims­ins á því að Amazon-frum­skóg­ur­inn verði vernd­að­ur. Í tíð Bol­son­aro hefur eyð­ing hans stór­auk­ist á tímum þegar jarð­ar­búar og heilu þjóð­irnar kepp­ast við að planta trjám og kolefn­is­jafna athafnir sínar til að reyna að verj­ast alvar­legum afleið­ingum lofts­lags­breyt­inga sem vofa yfir.

Gullnáma í Amazon-frumskóginum. Mynd: EPA

Lula kom inn á þetta í sig­ur­ræðu sinni í gær en lagði áherslu á að efst á for­gangs­list­anum væri að bæta lífs­gæði fátæk­ustu landa sinna.

„Við getum ekki sætt okkur við að millj­ónir karla, kvenna og barna í þessu landi hafi ekki nóg að borða,“ sagði hann fyrir framan fagn­andi áhorf­enda­sk­ar­ann. „Við erum þriðji stærsti fram­leið­andi mat­væla og stærsti fram­leið­andi dýra­próteins í heim­in­um. Okkur ber skylda til að tryggja að hver ein­asti Bras­il­íu­maður geti borðað morg­un­mat, hádeg­is­mat og kvöld­mat á hverjum deg­i.“

Mik­ill metn­aður en mögu­lega óraun­hæfur

Í kosn­inga­bar­átt­unni birti Lula stefnu­mál sín í ítar­legu bréfi til þjóð­ar­inn­ar. Stefnu­skráin er metn­að­ar­full, það verður ekki af honum tek­ið, en ef til vill ekki raun­hæf að mati þeirra sem rýnt hafa í hana og lagt mat sitt á hana. Lula ætlar að jafna laun karla og kvenna, útrýma biðlistum eftir skurð­að­gerðum og lækn­is­rann­sóknum og tryggja pláss á vöggu­stofum og leik­skólum fyrir hvert ein­asta smá­barn.

Hann hefur heitið því að reist verði meira af íbúð­ar­hús­næði á við­ráð­an­legu verði og koma renn­andi vatni og raf­magni til ein­angr­uð­ustu byggða lands­ins. Hann ætlar auk þessa í ýmsa aðra inn­viða­upp­bygg­ingu.

Luis Inácio Lula da Silva og Jair Bolsonaro í kappræðum í kosningabaráttunni. Mynd: EPA

Í frétta­skýr­ingu Was­hington Post er bent á að engin kostn­að­ar­á­ætlun hafi fylgt lof­orða­list­anum en Lula er sagður hafa treyst á að árangur hans frá fyrri tíð væri kjós­endum enn í fersku minni og að þegar hann stóð upp úr for­seta­stólnum fyrir tólf árum, er hann hafði gegnt emb­ætt­inu í átta ár, naut hann hylli um 80 pró­senta Bras­il­íu­manna sam­kvæmt könn­un­um.

Bróð­ur­part­inn af for­seta­tíð Lula á árunum 2003-2010 var upp­sveifla í brasil­ísku hag­kerfi. Einka­neysla jókst og það reynd­ist auð­veld­ara en áður að fjár­magna mikla inn­viða­upp­bygg­ingu.

Auglýsing

En staðan er allt önnur í dag. Að auki stendur Lula frammi fyrir því að stuðn­ings­menn Bol­son­aros eru í meiri­hluta í báðum deildum þings­ins. Það getur því reynst þrautin þyngri, ólíkt því sem var uppi á ten­ingnum í síð­ustu umferð, að koma alls konar málum í gegn.

Hann gæti líka mætt mik­illi and­stöðu í einu stærsta kosn­inga­lof­orði sínu: Að end­ur­heimta Amazon-­skóg­inn og vernda hann til fram­tíð­ar. Bol­son­aro hvatti fólk og fyr­ir­tæki til að nýta skóg­inn, þessa miklu og ein­stöku auð­lind sem Brasilía geym­ir. Þetta gaf fyr­ir­tækjum í stór­tæku skóg­ar­höggi og námu­vinnslu byr í segl­in. Þessi fyr­ir­tæki eru engin smælki heldur mörg hver risa­stór og ítök þeirra í stjórn­málum og efna­hags- og atvinnu­lífi lands­ins, sem og víðar í heim­in­um, eru mik­il. Þau eru ekki að fara að aka stór­virkum vinnu­vélum sínum út úr skóg­inum án þess að fá eitt­hvað í stað­inn.

Bolsonaro tók við embætti forseta eftir frækinn sigur í kosningunum árið 2018. Mynd: EPA

Frá því að Bol­son­aro tók við emb­ætti í byrjun árs 2019 hefur skóg­areyð­ing í Amazon auk­ist ár frá ári. Lula vill ná jafn­vægi, að ekki verði gengið meira á skóg­inn en hann end­ur­nýjar sig. Hann seg­ist hins vegar sætta sig við að dregið verði úr eyð­ingu hans ár frá ári, líkt og gerð­ist í hans fyrri for­seta­tíð.

Bol­son­aro rak að mati Lula fleyg milli fólks af ættum frum­byggja í Bras­ilíu og ann­arra íbúa lands­ins. Hann fjársvelti sam­tök og stofn­anir sem ein­beittu sér að mál­efnum frum­byggja. Sömu sögu er að segja um stofn­anir og sam­tök tengdum umhverf­is- og nátt­úru­vernd.

Leið­andi varð­menn lofts­lags

Lula ætlar að snúa þess­ari þróun við – end­ur­heimta traust sam­fé­laga frum­byggja, sam­fé­laga sem nýtt hafa auð­lindir Amazon með sjálf­bærum hætti í aldir og árþús­und og eru lyk­ill­inn að því að snúa hinni ógn­væn­legu skóg­areyð­ingu við.

„Í stað þess að vera leið­andi í skóg­areyð­ingu viljum við verða heims­meist­arar í því að fást við loft­lagskrís­una,“ segir Lula. Það verði ekki gert nema með því að treysta sam­fé­lög fólks sem búa í Amazon. „Þannig getum við ræktað heil­brigð mat­væli, andað að okkur hreinu lofti, drukkið hreint vatn og skapað fjöl­mörg störf með grænum fjár­fest­ing­um.“

Luis Inácio Lula da Silva kyssir eiginkonuna rembingskossi eftir að sigurinn var ljós í gær. Mynd: EPA

Ein­hverjir stjórn­mála­spek­ingar hafa viðrað þá skoðun sína að Lula sé gam­al­dags stjórn­mála­mað­ur. Hann hugsi um að skapa verka­manna­störf og störf í opin­bera geir­anum þegar hug­vit og þekk­ing séu fram­tíð­in. Að ríkið eigi að fjár­magna allt heila klabb­ið. Um sé að ræða vanda sem mörg ríki í rómönsku Amer­íku glíma við. Beitt sé 20. aldar aðferða­fræði sem virki ekki leng­ur. Þessi hug­mynda­fræði hafi gert sitt gagn í fyrri tíð Lula en aðeins í skamman tíma. Aðeins fáum árum eftir að hann fór úr emb­ætti fór allt bein­ustu leið niður á við. Úr varð kreppa sem Bol­son­aro hlaut kosn­ingu út á. Hann lof­aði að koma Bras­il­íu­mönnum út úr henni. Það mistókst.

Maður fólks­ins

Lula hefur mikla per­sónu­töfra. Hann er alþýðu­mað­ur, fæddur í norð­austur hluta Bras­ilíu árið 1945 og fagn­aði 77 ára afmæli sínu 27. októ­ber. Hann átti sjö systk­ini og for­eldrar hans voru fátækir bændur sem gátu ekki séð öllum börnum sínum fyrir mat. Er hann var sjö ára fór hann ásamt móður sinni og nokkrum systk­inum sínum til São Paulo-­ríkis í leit að betra lífi. Þau end­uðu á því að setj­ast að í sam­nefndi borg, þeirri fjöl­menn­ustu í Bras­il­íu.

Hann flosn­aði upp úr námi og fór að vinna fyrir sér við að pússa skó á götum úti. Síðar fékk hann vinnu í verk­smiðju. Þar missti hann fingur í vinnu­slysi og ekki mörgum árum síð­ar, er hann var rétt skrið­inn yfir tví­tugt, fór hann að láta sig verka­lýðs­mál varða.

Lula varð fyrir því áfalli aðeins 25 ára gam­all að missa eig­in­konu sína, Lour­des, eftir að þau höfðu verið gift í tvö ár. Hún var gengin átta mán­uði með barn þeirra er hún sýkt­ist alvar­lega af lifr­ar­bólgu og lést.

Með hverju árinu sem leið sökkti hann sér meira í rétt­inda­bar­áttu fyrir bættum kjörum verka­lýðs­ins og árið 1975 var hann kjör­inn for­maður félaga­sam­taka málm­iðn­að­ar­manna. Á meðan hann gegndi for­mennsk­unni skipu­lagði hann nokkur verk­föll en á þeim tíma var ein­ræð­is­stjórn í Bras­il­íu. Vin­sældir hans juk­ust og ekki aðeins meðal verka­manna. Hann barð­ist fyrir auknu lýð­ræði og var oft og tíðum líkt við hinn pólska leið­toga Lech Walesa.

Hafði í fyrstu ekki erindi sem erf­iði

Í upp­hafi níunda ára­tugar síð­ustu aldar stofn­aði Lula í félagi við verka­fólk og aðra verka­lýðs­leið­toga, lista­fólk, fræða­fólk og fleiri hópa, Verka­manna­flokk­inn, vinstri­s­innað afl til höf­uðs her­for­ingja­stjórn­inni.

Lula bauð sig þrisvar sinnum fram til for­seta áður en hann loks náði kjöri árið 2002. Þá gekk yfir rómönsku Amer­íku það sem kallað var „bleika bylgj­an“ sem ein­kennd­ist af efna­hags­legum og félags­legum umbótum við dögun nýrrar ald­ar. Sú efna­hags­upp­sveifla sem fylgdi Lula í emb­ætti for­seta var ekki aðeins rakin til hans verka. Hún átti sér ástæður í lífs­kjara­bótum sem voru að eiga sér stað víð­ar, auk­inni einka­neyslu og eft­ir­spurn á alþjóða vísu. Hjól hag­kerf­is­ins snér­ust sem aldrei fyrr.

Auglýsing

Lula nýtti upp­sveifl­una til að byggja undir félags­legt kerfi sem varð til þess að millj­ónir landa hans komust út úr fátækt. Hann styrkti líka stoðir olíu­iðn­að­ar­ins. Sem átti eftir að reyn­ast vopn í höndum óvina hans nokkrum árum síð­ar.

Árið 2010 bauð hann sig ekki aftur fram. Arf­tak­inn var honum að skapi, fyrr­ver­andi hægri hönd hans á for­seta­skrif­stof­unni, hag­fræð­ing­ur­inn Dilma Rouss­eff. Henni var hins vegar bolað úr emb­ætti með ákæru fyrir emb­ætt­is­glöp árið 2016.

580 dagar

Tveimur árum síðar var Lula fang­els­aður fyrir spill­ingu. Málið tengd­ist rann­sókn dóm­ar­ans Sér­gio Moro á meintum mútu­greiðslum rík­is­ol­íu­fyr­ir­tæk­is­ins Petr­obras. Málið teygði anga sína um alla rómönsku Amer­íku.

Lula var sak­felld­ur, dæmur í 22 ára fang­elsi, og haldið einum í litlum klefa í 23 klukku­stundir á sól­ar­hring. Árið 2019 var hann hins vegar sýkn­aður í Hæsta­rétti þar sem sýnt þótti að Moro dóm­ari var hlut­drægur í máli for­set­ans fyrr­ver­andi.

Luis Inácio Lula da Silva heilsar stuðningmönnum sínum. Mynd: EPA

„Hvernig reyndu þeir að kné­setja Lula? Ég eyddi 580 dögum í fang­elsi af því að þeir vildu koma í veg fyrir að ég byði mig fram,“ sagði hann á kosn­inga­fundi í síð­ustu viku. „Ég hélt ró minni í fang­els­inu, und­ir­bjó mig eins og Mand­ela und­ir­bjó sig,“ hélt hann áfram og vís­aði þar til Nel­sons Mand­ela, leið­toga svartra í Suð­ur­-Afr­íku, sem var bak við lás og slá í 27 ár.

Líkt og hjá Mand­ela mun for­seta­stóll­inn taka við í kjöl­far fang­els­is­vistar fyrir Lula.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar