Viljayfirlýsingar og loforðaflaumur í aðdraganda kosninga
Kjördagur sveitarstjórnarkosninga nálgast óðfluga. Svo mikið er víst, ekki síst þegar litið er til allra viljayfirlýsinga, lóðavilyrðasamninga og annarra samninga um uppbyggingu í húsnæðismálum sem undirritaðir hafa verið síðustu daga og vikur. Ljóst er að sveitarfélögin vilja minna kjósendur á að þau sitja ekki auðum höndum rétt fyrir kosningar.
Að minnsta kosti fjórar viljayfirlýsingar, allt frá húsnæðisuppbyggingu til þjóðarhallar, hafa verið undirritaðar í yfirstandandi kosningabaráttu til sveitarstjórnarkosninga sem fram fara næstkomandi laugardag. Þá hafa fréttatilkynningar um ýmsa áfanga og undirritanir ýmissa samninga hrúgast inn til fjölmiðla. Kjarninn tók saman það helsta sem sveitarfélögin hafa verið að vekja athygli á þessa síðustu daga fyrir kosningar.
Viljayfirlýsingar: Keldnaland, Listaháskólinn og þjóðarhöll
28. apríl: Uppbygging Keldnalands og Keldnaholts
Reykjavíkurborg og Betri samgöngur ohf. riðu á vaðið hvað viljayfirlýsingar varðar 28. apríl þegar fulltrúar þeirra undirrituðu viljayfirlýsingu um samstarf vegna þróunar og uppbyggingar Keldnalands og Keldnaholts og flýtingu uppbyggingar innviða tveggja Borgarlínuleiða. Á mynd sem tekin var við undirritunina má sjá tvö borð sem hafa sést ítrekað við undirritanir viljayfirlýsinga og samninga síðustu vikur fyrir kosningar.
6. maí : Lóðavilyrði fyrir um 2.000 íbúðir
Viljayfirlýsingarnar byrjuðu að hrannast inn í maí. Viljayfirlýsing um lóðavilyrði til handa fimm óhagnaðardrifnum íbúðafélögum féll óneitanlega í skuggann á viljayfirlýsingu um þjóðarhöll sem var undirrituð sama dag, föstudaginn 6. maí. Samkvæmt lóðavilyrðunum geta íbúafélögin byggt um tvö þúsund íbúðir á næstu tíu árum. Undirritunin fór fram á Klambratúni og þegar henni var lokið hélt borgarstjóri leið sinni áfram í Laugardalinn þar sem undirritun á viljayfirlýsingu um þjóðarhöll fór fram.
6. maí: Þjóðarhöll rís í Laugardal
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu viljayfirlýsingu um byggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum. Þannig var hoggið á hnút milli Reykjavíkurborgar og ríkisins sem myndast hafði um byggingu þjóðarhallar.
Samkvæmt viljayfirlýsingunni á höllin að rísa á næstu þremur árum milli Laugardals og Suðurlandsbrautar. Þjóðarhöllin mun uppfylla kröfur fyrir alþjóðlega keppni í innanhússíþróttagreinum og stórbæta íþróttaaðstöðu fyrir skóla og íþróttafélög í Laugardal.
7. maí: Framtíðarhúsnæði Listaháskólans í Tollhúsinu
Síðastliðinn laugardag, viku fyrir kosningar, undirrituðu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur, ásamt fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins, viljayfirlýsingu um framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands (LHÍ) í Tollhúsinu við Tryggvagötu.
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor LHÍ, sagði í samtali við fjölmiðla að um væri að ræða stærstu stund í sögu skólans frá því að hann var sofnaður. Ráðherrar og borgarstjóri nýttu tækifærið og smelltu mynd af sér í sérstökum blómaramma sem búið var að útbúa í tilefni undirritunar viljayfirlýsingarinnar.
Undirritun samninga og aðrar tilkynningar:
28. apríl: Fossvogslaug í miðjum dalnum
Viljayfirlýsing um Fossvogslaug var undirrituð af Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra í Kópavogi, og Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í mars 2021. Í lok apríl barst tilkynning frá Reykjavík og Kópavogi þar sem greint var frá því að Fossvogslaugin verði staðsett fyrir miðjum Fossvogsdal. „Sveitarfélögin munu nú hefjast handa við næstu skref við undirbúning samkeppni um hönnun laugarinnar í samvinnu við Arkitektafélag Íslands,“ segir í tilkynningunni sem send var á fjölmiðja..
5. maí: Blikastaðaland
Mosfellsbær og Blikastaðaland ehf. undirrituðu samstarfssamning um uppbyggingu „sjálfbærrar og mannvænnar byggðar í landi Blikastaða“. Stefnt er að því að byggja 3.500 til 3.700 nýjar íbúðir á Blikastaðalandinu, sem er í endanlegri eigu Arion banka. Fjöldi þeirra íbúða sem fyrirhugaðar eru slagar langleiðina upp í þann fjölda íbúða sem eru í Mosfellsbæ í dag.
Þó svo að samstarfssamningurinn hafi verið undirritaður nú, níu dögum fyrir kosningar, er um langtímaverkefni er að ræða og ætla má með að uppbygging hverfisins taki 15-20 ár, samkvæmt því sem haft er eftir Þorgerði Örnu Einarsdóttur framkvæmdastjóra Blikastaðalands ehf. í frétt RÚV.
9. maí: Lífsgæðakjarnar fyrir eldri borgara
Borgarstjóri undirritaði samning um lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara við Samtök aldraðra og Leigufélag aldraðra. Undirritunin fór fram við Leirtjörn þar sem við hana, vestur í Úlfarsárdal, í Gufunesi og við Ártúnshöfða er gert ráð fyrir allt að 300 íbúðum fyrir eldri borgara.
10. maí: Umhverfisvæn bygging á iðnaðarlóð og makaskipti á lóðum
Á þriðjudag voru tveir samningar undirritaðir, annars vegar um lóðarvilyrði fyrir umhverfisvæna byggingu við Ártúnshöfða og hins vegar um makaskiptasamning á lóðum milli Reykjavíkurborgar og Sorpu.Borðin góðu voru á sínum stað.
Fréttatilkynningar
Eftir því sem nær dregur kosningum fjölgar fréttatilkynningum frá sveitarfélögum, ekki síst Reykjavíkurborg, um ýmis konar áfanga, undirritun samninga og önnur tímamót. Samkvæmt óformlegri samantekt Kjarnans hafa mest borist tíu fréttatilkynningar frá Reykjavíkurborg á einum degi, frá átta mismunandi upplýsingafulltrúum.