Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur rifjar upp 40 ára gamalt ófærðarveður suðvestanlands, eða öllu heldur nokkra daga með ítrekuðum snjóbyljum og skafrenningi í ársbyrjun 1983. Slíkt veður í dag myndi valda gríðarlegu raski, ekki síst fyrir þær þúsundir ferðamanna sem fara um landið. Mögulega versta sviðsmyndin myndi einhver segja.
Óveðrið nú fyrir jólin var vissulega slæmt og Reykjanesbrautin tepptist í meira en sólarhring. Grindavíkurvíkurvegur enn lengur. Fólk lokaðist af í Bláa lóninu og fjöldahjálparstöð var opnuð í Grindavík fyrir strandaglópa. Örtröð fólks var í flugstöðinni, sumar vélar hófu sig samt til flugs, en öðrum flugum var aflýst.
Margar sögur fóru á flug af fólki í hrakningum, ýmist á Reykjanesbrautinni, þar sem fastir og yfirgefnir bílar heftu för eða af hinum sem komnir voru til Keflavíkur. Þar var flugum aflýst eða seinkað. Vantaði ýmist áhafnir eða bróðurpart farþega.
Margar sögur fóru á flug af fólki í hrakningum, ýmist á Reykjanesbrautinni, þar sem fastir og yfirgefnir bílar heftu för eða af hinum sem komnir voru til Keflavíkur. Þar var flugum aflýst eða seinkað. Vantaði ýmist áhafnir eða bróðurpart farþega.
Í raun var þetta illviðráðanlegt ástand sem þarna skapaðist af völdum veðurs. Skyggnið varð nánast ekkert þegar lágarenningur varð að hárenningi og kófið samfellt.
Ef lausamjöll er næg í umhverfinu eykst flutningur á snjó með vindinum í þriðja veldi. Þetta samband er vel þekkt í tengslum við snjóflóðahættu. Þannig er snjóflutningur þrisvar sinnum meiri í 15 m/s en í 10 m/s. Hvessi enn er flutningsgetan áttföld í 20 m/s miðað við 10 m/s.
Við áttum okkur nú á hvað við er að eiga þegar saman fer hvass vindur og blinda í skafrenningi. Á Reykjanesbrautinni var nóg að vindur færi úr 10 í 15 m/s aðfaranótt 19. desember, svo að allt færi í steik og það aðeins á 1 til 2 klukkustundum. Fram að því í strekkingsvindinum náðist að halda í horfinu. Bílar sem skildir voru eftir á Grindavíkurvegi eða Reykjanesbrautinni voru líka fljótir að fenna í kaf við þessar aðstæður. Engin snjóruðningstæki ráða við slíkt ástand og að auki fennir mjög fljótt að gatnamótum við þessar aðstæður, ekki síst þar sem þau eru tekin niður, eins t.d. var raunin við Grindavíkurafleggjarann.
Það var norðaustan vindur sem blés þessa daga. Á höfuðborgarsvæðinu fundu menn ekki fyrir neinu þótt þar hafi lausamjöllin frá deginum áður verið síst minni. Þökk sé Esjuskjólinu sem skýlir stærstum hluta höfuðborgarsvæðisins í norðaustan átt. Það nær frá Straumi og í Mosfellsbæ. Þegar komið var af Vesturlandsvegi á Esjumela norðan Leirvogsár var fjandinn laus. Norðaustan áttin óbeisluð og skilaði heilmiklum skafli, um þriggja metra háum þvert yfir veginn.
Keflavíkurflugvöllur lokaðist hins vegar ekki eða í aðeins stutta stund á meðan á þessu stóð. Það var vegna þess að völlurinn er mjög opinn og þrátt fyrir bullandi skafrenning, blés snjónum yfir brautirnar og ekki í skafla að ráði. Skyggni var heldur ekki eins slæmt og búast hefði mátt við. Á flughlöðum uppi við flugstöð varð staðbundið skjól hins vegar til þess að safna frekar snjó að mannvirkjum og eins kyrrstæðum vélunum. Kófið var þar meira og verra.
Einhver vís spekingurinn áætlaði það að beint tjón af þessu óveðri fyrir jólin næmi um tveimur milljörðum. Svo slæmt þótti ástandið að skipaður var sérstakur starfshópur stjórnvalda í kjölfarið til að greina samgönguóreiðuna og hvert viðbragðið þurfi að vera til að slíkt endurtaki sig ekki.
Snjóasyrpan 3. til 5. janúar 1983
En er þetta með því versta sem hugsast getur suðvestanlands?
Eða hver er væntur endurkomutími einhvers með svipaðar afleiðingar? 50 ár eða 100 ár?
Vel er hægt að hugsa sér byl og snjókomu að vetri sem hefði í för mér miklu meira og afdrifaríkara rask en varð hér dagana 16. til 20. desember. Hríðarbyl þar sem Reykjavík og nágrannabyggðirnar myndu ekki sleppa. Ófærð þá meiriháttar innan bæjar og allar leiðir frá höfuðborgarsvæðinu jafnframt tepptar. Eins kolófært um Hellisheiði og Þrengsli og Keflavíkurflugvöllur meira og minna lokaður vegna skafbyls og sama ætti við um Reykjavíkurflugvöll.
Eitthvað þessu líkt gerðist hér fyrir 40 árum, 3. til 5. janúar 1983, og verst að morgni þess 4. Flest fór úr skorðum og samfélagið suðvestanlands hálf lamaðist þarna fyrstu vinnudagana eftir áramót. Veðráttan, tímarit Veðurstofunnar, fer um þetta nokkuð hlutlausum orðum, en þar segir: „Gerði ófærð í Reykjavík og nágrenni og 4. og 5. Voru miklir umferðarörðugleikar um allt sunnan- og vestanvert landið. Tveir menn slösuðust þegar verið var að draga bíla úr sköflum. Fólk átti í erfiðleikum með að komast til og frá vinnu og mjólkurflutningar fóru úr skorðum.“
Verra var hins vegar að fólk komst ekki til vinnu, og mannlífið suðvestanlands lamaðist meira og minna þessa þrjá daga. Miklu bjargaði jólafrí í framhaldsskólum á þessum árum sem stóð fram að þrettándanum. Grunnskólar í Reykjavík byrjuðu hins vegar 4. janúar. Björgunarsveitir voru önnum kafnar við að koma fólki í nauðsynlega vaktavinnu, s.s. á sjúkrahúsin. Eins með lögreglu, slökkvilið, fréttastofu útvarps o.s.frv.
Þegar ég hóf störf á spádeild Veðurstofunnar um 1990 voru sagðar sögur með glampa í augum um einangrun þessa daga og að vaktafólkið hefði verið ferjað á breyttum jeppum eða hálfgerðum snjóbílum. Sjálfur man ég þetta mæta vel. Blindbylur í minningunni í heilan dag. Nokkrir félaga minna úr Flensborg klofuðu skaflana alla leið upp í Norðurbæ í Hafnarfirði. Þótti bara talsvert afrek!
Þarfir samfélagsins gerbreyttar í dag
Áramótin 1982/83 voru landsmönnum erfið í margvíslegum skilningi ekki bara í veðri með útsynningi og snjó. Slysfarir þegar tveir menn hröpuðu til bana í Vífilsfelli á nýársdag. Þá var maður stunginn til bana í samkvæmi í Kópavogi á nýársnótt. Verðbólga var á yfirsnúningi. Seðlabankinn felldi gengið um 9% á fyrsta virka degi eftir áramót. Þótti óhjákvæmilegt til að reyna að bjarga enn eina ferðina mikilvægustu atvinnugreininni, sjávarútvegi, sem átti í miklu basli.
Óveðrið var í raun röð illviðra og verst að morgni 4. janúar. Mjög kalt loft var við Suðvestur-Grænland. Það streymdi til austurs sunnan við Hvarf og inn á Grænlandshaf. Kaldar lægðir með snjókomubökkum komu hver á fætur annarri, en skárra var á milli. Að síðustu þann 5. janúar kom mjög djúp lægð sem olli miklum skafrenningsbyl í norðanátt sunnan- og vestanlands þegar lausamjöllin fór af stað.
Trausti Jónsson veðurfræðingur rifjaði upp í stuttu erindi á Fræðaþingi veðurfræðifélagsins fyrir nokkrum árum hvernig tilfinning það hefði verið að mæta með veðurspá í sjónvarpi að kvöldi 3. janúar 1983. Sjónvarpskortið gamla úr hans fórum sýnir tvenn kuldaskil eða snjókomubakka. Tunglmyndir voru mikilvægt tól í veðurspám á þessum árum. Voru reyndar fáar og bárust stundum of seint. Sú kl. 15:12 þann 3. janúar sýnir a.m.k. þrjá bakka og sá vestasti heldur ófrýnilegur. Með honum varð versti bylurinn í þessari syrpu morguninn eftir.
Bylurinn var alvöru, skall á kl. nákvæmlega 08:07. Suðvestan átt um 20 m/s við Veðurstofuna með glórulausu veðri sem stóð fram yfir hádegi. „Hvorki sá út úr augum, né náðu menn öndinni,“ sagði eitt blaðið. Úrklippurnar sem hér fylgja segja sína sögu.
Þarna eru kunnuglegar fréttir af lokun Hellisheiðar og Reykjanesbrautar, en líka fréttir af aðgerðum almannavarnanefndar Reykjavíkur sem skipulagði ferðir á rútum og háfjallatrukkum um Breiðholts, Árbæjar- og Seláshverfin.
Samfélagið var þarna fyrir 40 árum allt annað. Nefna má að árið 1983 voru nánast engir ferðamenn að vetrinum, kannski nokkrir tugir þessa illvirðisdaga í ársbyrjun og þeir eingöngu í Reykjavík. Hagstofan segir að ferðamenn hafi verið 72 þúsund allt árið. Flugleiðir var eina flugfélagið í áætlunarflugi milli landa með sínar sjö flugvélar. Örfáar flugferðir hafa væntanlega verið þessa fyrstu daga ársins og enginn héraðsbrestur þótti þó flug félli niður. Komst varla í fréttirnar.
Höfundur er veðurfræðingur og ritstjóri Bliku.