Guðni tekur við embætti forseta Íslands
Guðni Th. Jóhannesson var formlega gerður að forseta Íslands við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu í gær. Guðni er sjötti forseti Lýðveldisins Ísland.
Guðni Th. Jóhannesson er sjötti forseti Lýðveldisins Ísland. Hann tók formlega við embættinu í Alþingishúsinu í gær þegar hann undirritaði forsetabréf að viðstöddu margmenni. Alþingishúsið var þétt setið ráðherrum, þingmönnum, embættismönnum og sendiherrum erlendra ríkja, auk fyrrverandi þjóðhöfðingja Íslands og fyrrverandi forsætisráðherrum. Guðni bauð einnig vinum sínum og þeim sem aðstoðuðu við framboð hans í vor til að vera vitni að þessari stund.
Birgir Þór Harðarson, ljósmyndari Kjarnans, fylgdist með framvindu mála í Alþingishúsinu.

Biskup í gæslu
Mynd: Birgir Þór
Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands, var fylgt af þingverði yfir í Alþingishúsið eftir að hafa skilað af sér hempunni í Dómkirkjuna. Agnes gekk svo við hlið forsetafrúarinnar Elizu Reid aftur í Dómkirkjuna; í humátt á eftir Guðna og Markúsi Sigurbjörnssyni, forseta Hæstaréttar. Agnes predikaði svo við guðsþjónustuna og lagði áherslu á að allir menn séu dæmdir af verkum þeirra en ekki þeim loforðum sem þeir gefa.

Veifað til ljósmyndara
Mynd: Birgir Þór
Guðni virtist hafa gaman af umstanginu í kringum sig og veifaði kátur til ljósmyndara sem sátu um valdsmennina er þeir gengu úr Alþingishúsinu til guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Embættistaka forseta hefur hafist með guðsþjónstu handan Templarasundsins síðan Lýðveldið Ísland var stofnað, fyrir utan það þegar Sveinn Björnsson tók við embættinu 17. júní 1944 á Þingvöllum.

Heyr himna smiður
Mynd: Birgir Þór
Það sló dauðaþögn á margmennið sem var samankomið á Austurvelli þegar sálmur Kolbeins Tumasonar Heyr hima smiður ómaði í hátalakerfinu úr Dómkirkjunni. Það fór gæsahúð um ljósmyndara sem stóðst ekki mátið og myndaði fólk þungt hugsi undir miskunarákalli miðaldaskáldsins.

Gaman saman
Mynd: Birgir Þór
Vel fór á með þeim Guðna og Markúsi Sigurbjörnssyni, forseta Hæstaréttar, er þeir leiddu halarófuna út úr Dómkirkjunni og aftur í Alþingishúsið. Sjaldséð bros læddist fram á varir Markúsar. Guðni virtist ánægður með hversu margir höfðu séð sér fært að mæta á Austurvöll að fylgjast með.

Lögregluþjónar stóðu heiðursvörð
Mynd: Birgir Þór
Lögregluþjónar stóðu heiðursvörð á meðan athafnargestir gengu úr Dómkirkjunni og yfir í Alþingishúsið. Þessi hefð er eins og svo margar aðrar táknræn. Þarna standa laganna verðir vörð um lýðveldið og lýðræðið. Marsering lögregluþjónanna er nokkuð tilkomumikil og minnir helst á formfestu og aga erlendra herja þar sem ofursti kallar skipanir. Enginn lögregluþjónn bar þó byssur eins og tíðkast svo víða.

Formföst athöfn í þingsalnum
Mynd: Birgir Þór
Embættistaka forseta Íslands er ein formfastasta hefð í stjórnskipun íslenska lýðveldisins. Hefðbundnum þingpöllum og ræðupúlti er rutt úr þingsal Alþingis. Þar sem ræðustóllinn er vanalega stendur skrifborð og útskorinn stóll forseta Alþingis er sæti nýs forseta.

Hæstiréttur gaf út kjörbréf
Mynd: Birgir Þór
Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar og einn handhafa forsetavaldsins, las upp kjörbréfið sem Hæstiréttur gaf út þegar hann staðfesti úrslit forsetakosninganna fyrr í sumar. Formlega þá annast handhafar forsetavalds athöfnina. Handhafarnir eru forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar.

Kvittaði uppá kjörbréfið
Mynd: Birgir Þór
Guðna var því næst afhent kjörbréfið sem hann undirritaði. Með því vinnur hann drengskaparheit. Með öðrum orðum lofaði hann að fylgja reglum embættisins og vera landi og þjóð til sóma. Ólafur Ragnar Grímsson, fráfarandi forseti, fylgist með við hlið Dorritar Moussaieff. Þau eru þegar flutt frá Bessastöðum þar sem Ólafur hefur búið síðan 1996.

Undir vökulum augum
Mynd: Birgir Þór
Þingverðir fylgdust með og sáu til þess að athöfnin gengi hnökralaust fyrir sig. Eftir að Guðni hafði undirritað kjörbréf sitt leiddi hann eiginkonu sína út á svalir Alþingishússins og veifaði til mannfjöldans. Hann tók sér dálitla stund á svölunum, örugglega feginn að fá að fara aðeins út enda var orðið mjög heitt í þingsalnum.

Flott forsetahjón
Mynd: Birgir Þór
Guðni og Eliza hafa verið gift síðan árið 2004. Þau kynntust þegar þau voru bæði saman við Oxfordháskóla árið 1998. Saman eiga þau fjögur börn. Fólkið sem hafði safnast saman á Austurvelli klappaði fyrir þeim er þau stigu út á svalir Alþingishússins og veifuðu mannfjöldanum.

Vill snúa við blaðinu
Mynd: Birgir Þór
Viðbrögðin við innsetningarræðu Guðna hafa nær öll verið mjög jákvæð. Guðni sagðist ætla að víkja oft að ýmsum samfélagsmálum á forsetastóli. Hann sagðist vita að stjórnmálamennirnir beri þau einnig fyrir brjósti. „Þeirra er ábyrgðin og þeir setja lögin. Þau breytast í tímans ráðs. Það á líka við um stjórnarskrána okkar, grunnsáttmála samfélagsins,“ sagði Guðni meðal annars. Hann benti einnig á að ólík sjónarmið þurfi að heyrast; hann muni einhverntíma segja eitthvað sem víst er að muni ekki hljóta hljómgrunn hjá öllum.

Bannað að vera of nálægt
Mynd: Birgir Þór
Reglur Alþingis sem snerta gesti, ljósmyndara og blaðamenn eru strangar. Sömu sögu er auðvitað að segja um formfasta viðburði eins og embættistöku forseta. Þingverðirnir eru þó tillitssamir og opna þær hurðir sem þeir geta, án þess þó að gefa manni lausan tauminn.

Heilsaði upp á alla
Mynd: Birgir Þór
Guðni og Eliza stilltu sér upp í Kringlu Alþingishússins að lokinni athöfninni og tóku við heillaóskum frá þeim sem þekktust boð í athöfnina. Svandís Svavarsdóttir, þingkona Vinstri grænna, var ein þeirra þingmanna sem létu sjá sig. Guðni bauð svo venslafólki til veislu í Bessastaðastofu. Það var jafnframt fyrsta partíið sem hann heldur þar en víst er að þau verða mun fleiri í framtíðinni.