7DM_5460_raw_1689.JPG

„Vona að börnin mín verði klárari en ég“

Hilmar Veigar Pétursson er forstjóri CCP og leiðtogi í íslenska tækni- og hugverkageiranum. Hann segir Íslendinga eiga að sækja tækifæri sín í geiranum. Hér sé margt bilað þótt ýmislegt sé á réttri leið. Laun kennara þurfi að hækka fullt, kröfur þurfi að aukast og við þurfum að viðurkenna að sumir séu bara klárari en aðrir.

Hilmar Veigar Pétursson er líklegast þekktasta andlit íslenska tækni- og hugverkaiðnaðarins. Hann stýrir tölvuleikjafyrirtækinu CCP, langstærsta slíka fyrirtækinu sem starfrækt er á Íslandi, og er formaður Hugverkaráðs, starfsgreinahóps sem settur var á fót innan Samtaka iðnaðarins í fyrra. Hilmar er ekki síður þekktur fyrir að segja umbúðarlaust sína skoðun á því umhverfi sem alþjóðlegu fyrirtæki eins og hans, með höfuðstöðvar á Íslandi gjaldeyrishafta og íslenskrar krónu, er gert að starfa í. 

Nýverið hóf Hagstofa Íslands að taka saman sérstaklega, og birta, hagtölur fyrir íslenska tækni- og hugverkaiðnaðinn. Við það kom í ljós að hann er sá iðnaður sem á stærstan hlut í landsframleiðslu á Íslandi. Alls er hlutur iðnaðarins í landsframleiðslunni 9,6 prósent. Áður hafði tækni- og hugverkaiðnaðurinn verið flokkaður í hinu víða mengi „eitthvað annað“.

Hilmar segir að það hafi verið algjört grundvallaratriði, sem barist hafi verið fyrir árum saman, að það yrði mælt sérstaklega hvaða áhrif geirinn hefði á íslenska hagkerfið. „Þetta er búið að vera ofarlega í allri stefnumörkum sem við höfum verið að vinna eftir undanfarinn áratug. Ég er sjálfur tölvunarfræðingur og mig hefur oft undrað af hverju það hefur þótt flókið að taka þessar tölur saman. Seðlabankinn gerði könnun á útflutningi á hugbúnaðarþjónustu á árunum fyrir hrun. Hún var gerð þannig að það var hringt í fyrirtækin og þau spurð hvað þau fluttu mikið út. Mér þótti þetta skrýtin aðferðarfræði. Var ekki hægt að vera með reit í virðisaukaskattaskýrslunum sem skilað var í hverjum ársfjórðungi þar sem þetta var fyllt út? Ef þetta voru mikilvægar upplýsingar, var þá ekki mikilvægt að fylgjast með þeim?

Það er einfaldlega þannig að ef þú getur ekki mælt og haldið utan um eitthvað, þá hefurðu ekki hugmynd um hvernig það gengur.“

Hilmar er þeirrar skoðunar að samantekt á gögnum um tækni- og hugverkaiðnaðinn hjálpi til með sjálfstraust hans. Þá skilji geirinn hversu stór hluti af kökunni hann er orðinn. „Þessi gögn sýna að verðmætasköpunin er meiri en í álbræðslu og byggingaiðnaði samanlagt. Og það sem er enn merkilegra er að upplýsingatækni er stærri hluti af verðmætasköpun en ferðaþjónustan. Í nýlegri úttekt Arion banka á ferðaþjónustu sem atvinnugrein segir að hlutur greinarinnar í landframleiðslu sé átta prósent. Það hefði mér ekki einu sinni dottið í hug, og ég trúi því eiginlega ekki ennþá.“

Fyrr á þessu ári voru samþykktar breytingar á lögum sem ætlað var að gera starfsumhverfi hugverkafyrirtækja með alþjóðlega starfsemi á Íslandi skaplegra. Í þeim fólst meðal annars að erlendir sérfræðingar sem ráðnir verða til starfa hérlendis munu einungis þurfa að greiða skatta af 75 prósent af tekjum sínum í þrjú ár. Í breytingunum var einnig gerð sú breytinga að skattaívilnanir til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar voru hækkaðar verulega. Hámark slíks kostnaðar til almennrar viðmiðunar á frádrætti fór úr 100 milljónum króna í 300 milljónir króna og úr 150 í 450 milljónir króna þegar um aðkeypta rannsóknar- og þróunarþjónustu er að ræða frá ótengdu fyrirtæki, háskóla eða rannsóknastofnun. 

Hilmar segir að breytingarnar hafi verið mjög mikilvægar. Fyrir þessu hafi hann, og fleiri í geiranum, talað í áratug. „Við fundum að nú var tíminn. Það var ekki þessi barátta að koma þessu í gegnum stjórnmálamennina eins og það hefur verið. Fólk var tilbúið að hlusta og skilja. Þegar það er komið á þann stað þá eru þetta svo mikil skynsemismál. Þau eru ekkert umdeild, eða ættu ekkert að vera það. Það er ekki verið að útdeila takmörkuðum gæðum eða verið að taka úr einu og setja í annað.

Við fundum það núna að orðum myndi fylgja aðgerðir. Það hefur oft vantað upp á það og verið meira um orðagjálfur eða 17. júní ræður. Ég vill hrósa Bjarna Benediktssyni og fjármálaráðuneytinu hástert fyrir að hafa komið þessu í gegn.

Ég myndi samt sem áður vilja að þakið á frádrættinum vegna rannsóknar og þróunar yrði alveg afnumið. Núna rúmast bara lítil fyrirtæki undir því. Það leiðir til óeðlilegrar hegðunar. Það eru engin vísindi á bak við þessar tölur sem voru ákveðnar. Þetta er bara einhver þægindarammi sem er ekki studdur neinu sérstöku.“

Þarf að tækla verkefnið eins og gert var í fótboltanum

Aðspurður hvað hann myndi gera ef honum yrðu færð völdin á Íslandi í eitt ár, utan þess að afnema þakið á frádrættinum, vantar ekki svörin. „Ég myndi fara í að laða íslenska fjárfesta til Íslands kerfisbundið. Svona eins og var gert þegar „Invest in Iceland“ var sett í gang til að finna álver til að kaupa orkuna okkar. Setja það einfaldlega á dagskrá að finna erlenda fjárfesta fyrir íslenskt hugvit, búa til bæklinga og fara í stríð. Íslendingar eru frábærir þegar málin eru sett svona hressilega á dagskrá. Það þarf að tækla þetta eins og fótboltalandsliðið var tæklað. Fjárfesta í aðstöðu, þjálfurum og fá þannig hægt og rólega betri leikmenn. Svo þarf að fá inn erlendan sérfræðing til að reka smiðshöggið á þetta allt saman, líkt og það gerði með Lars Lagerbäck

Við þurfum að átta okkur á því að við erum ekkert sérstök. Það eru engar raðir af fjárfestum að bíða eftir að fá að fjárfesta á Íslandi, og það er eiginlega fáránleg hugmynd í huga flestra. En það er alveg hægt að sækja þetta, það þarf bara að berjast fyrir því.“

Hann segir aðgang að erlendu starfsfólki, og utanumhald um það, gríðarlega mikilvægt. „Ísland er lítið land og það eru örfá tækni- og hugverkafyrirtæki sem náð hafa einhverjum árangri. Þau er raunar hægt að telja á fingrum annarrar handar. Það eru líklega bara nokkur hundruð Íslendingar sem eru virkilega góðir í þessu. Það verður því að flytja inn fólk frá útlöndum til að sinna vinnunni og rækta hæfileikanna sem hér eru. Það tekur áratugi og kostar mikið. Maður lærir fyrst og fremst af því að gera mistök og mistök eru dýr. 

Með því að laða að fólk erlendis frá þá eykurðu á framkvæmdarvissu fyrirtækjanna. En til þess að laða það fólk að þá þarftu að fara að hugsa um mál eins og alþjóðlega leikskóla, ensku í stjórnsýslunni, og almennt að aðlaga samfélagið á Íslandi að þeim. Það eru oft skrýtnir hlutir sem sitja í útlendingum sem flytja hingað. Þeir vilja til dæmis borða ostinn sinn, en þeir mega ekki gera það vegna þess að það er ekki hægt að flytja hann inn. Svona hlutir skipta allir máli.“

Hilmar segir að við þurfum í raun að verða alþjóðlegri sem heild ef við ætlum að laða að fólkið sem við þurfum til að þróast áfram í tækni- og hugverkaiðnaði. „Og þá erum við ekkert byrjuð að tala um gjaldmiðilinn og peningamálastefnuna. Það er til að æra óstöðugan að útskýra fyrir einhverjum að flytja til lands sem er með sinn eigin gjaldmiðil sem þú mátt síðan ekki taka með þér heim þegar þú ert búinn að vinna þar. Eða að þú sért skyldugur til að borga í lífeyrissjóð án þess að þú hafir nokkurn hug á því að eyða ellinni hérna. Ætlar kannski að vinna hérna í 3-5 ár, sem er frábært, það er nákvæmlega það sem við þurfum til að sjúga reynsluna úr viðkomandi.“

Það þarf að hækka kennaralaun og auka kröfur

Það er fleira en gjaldmiðla- og peningastefnumál sem valda Hilmari áhyggjum. Hann telur að íslenska menntakerfið hafi dregist verulega aftur úr á undanförnum áratugum. „Það má endurskoða rammann sem er sniðinn í kringum skóla mikið. Það ætti að gefa skólastjórum miklu meira frelsi um hvernig þeir haga sínum málum. Og svo er kennurum borgað allt of lítið. Það er bara staðreynd, hvort sem það er í samanburði við löndin í kringum okkur eða við stöðuna eins og hún var fyrir 20 árum síðan. Þetta er bara bilað og það þarf að laga það. Það eru alveg til peningar og það þarf að forgangsraða til kennaralauna.

Slush Play ráðstefnan fór fram í Reykjavík í lok síðasta mánaðar. CCP var eitt þeirra fyrirtækja sem stóðu að henni og Hilmar var einn þeirra sérfræðinga sem talaði á ráðstefnunni.
mynd:Birgir Þór Harðarson

Þegar það er búið er hægt að gera miklu meiri kröfur, bæði til kennara og nemenda. Ég held að báðir muni rísa undir því. Svo þarf að nálgast málin allt öðruvísi og viðurkenna bara að sumir eru betri í skóla en aðrir. Það þarf að vinna öðruvísi í þeim. Sumir eru stórir, aðrir eru litlir, sumir hlaupa hratt og troða í körfu og sumir eru bara klárari en aðrir. Það bara er þannig.“

Hann segir að það þurfi einfaldlega að byrja alveg frá byrjun, frá yngstu krökkunum, og setja sér markmið. Það markmið á að vera að fjárfesta í menntakerfinu til að ýta undir að hæfileikar barna okkar njóti sín í menntakerfinu og búa þannig til klárt fólk á sínu sviði. „Ég vona að börnin mín verði klárari en ég og finni upp eitthvað nýtt í framtíðinni sem er ekki til. 30 prósent starfa framtíðarinnar eru ekki til í dag, þau verða búin til að krökkunum okkar. Það þarf að nálgast þetta svona og við erum nægilega lítil til þess að gera það. 

Það eru til lönd sem hafa gert þetta sem eru miklu stærri. Suður Kórea er til dæmis frábært dæmi. Fyrir nokkrum áratugum  ákváðu þeir bara að ætla sér að verða bestir í heimi í nýsköpun. Þar voru vísindamenn settir í ráðherra- og embættismannastöður, fullt af peningum settir í háskólanna og í dag eru þeir eitt merkilegasta þjóðfélag í heimi og Samsung eitt merkilegasta fyrirtæki í heimi sem framleiðir síma, geimför og strokleður, sem dæmi. Montreal í Kanada er annað gott dæmi. Fyrir 15 árum var borgin nýlega hrunin kola- og stálborg með núll starfsmenn í tölvuleikjaiðnaði. Nú vinna 10 þúsund manns þar við að búa til tölvuleiki. 

Finnar eiga líklega merkilegasta fyrirtækið í tölvuleikjabransanum í dag, sem er Supercell. Þeir hafa 1000 milljón dollara í tekjur á ári og eru með um 150 manns í vinnu. Það eru ágætistekjur per starfsmann. Viðskiptamódelið er einfalt. Fyrirtækið selur vinnumenn í tölvuleiknum Clash of ClansEf við yfirfærum þetta á íslenskan veruleika og snúum þessu yfir á þorskinn okkar, þá eru útflutningsverðmæti Supercell tvöfalt meiri en allra þeirra afurða sem Íslendingar vinna úr þorskafla og munum að það eru 150 einstaklingar á bak við þessa verðmætasköpun, slík eru tækifærin í hugverkageiranum þegar vel tekst til.“

Spennandi sprotar en vantar upp á árangurinn

Hilmari finnst margt spennandi vera að gerast í nýsköpun á Íslandi. Hann sér marga sprota og það hefur verið reyndin lengi en það vantar upp á árangurinn. „Ég veit það ekki alveg. Þetta er svolítið stór spurning.  Síðan CCP var á stofn sett, sem eru um 20 ár síðan, þá hafa ekki mörg fyrirtæki náð yfir tíu milljónir dollara í tekjur, Meniga og Nox Medical eru líklega komin yfir, og ORF líftækni komið nálægt. Á 20 árum hefði maður haldið að þetta væru fleiri. Staðan er því þannig að við erum með tvö alþjóðafyrirtæki á tæknigeiranum með veltu á bilinu 500-1000 milljónir dala, sem eru Össur stofnað fyrir rúmum 40 árum og Marel stofnað fyrir rúmum 30 árum. Svo erum við hjá CCP um 20 ára með um 100 milljónir dala veltu og Meniga og Nox Medical, að fara yfir tíu milljónir dali. Þetta er kannski ágætur árangur miðað við höfðatölu, en hann er samt ekkert rosalegur.“

En hvað erum við þá ekki að gera rétt? Hilmar hefur hugmyndir um það, sem eru þó ekki orðnar nægilega fastmótaðar til að teljast kenningar. „Spekilekinn er orðinn öðruvísi en hann var. Ungt hæfileikafólk hefur meiri áræðni til þess en áður. Ég sé rosalega mikið af klárasta fólkinu okkar fara beint að vinna hjá til dæmis Google, í stað þess að stofna fyrirtæki á Íslandi. Þegar ég var ungur þá var það ekkert möguleiki í stöðunni, enda Google ekki til þá. Þá var kannski fjarlægur draumur að vinna hjá Microsoft eða NASA en það fóru kannski þrír Íslendingar í það. Þetta er allt öðruvísi núna og erlendu stórfyrirtækin í geiranum eru svo gröð í hæfileikafólk að þau leita það uppi hvar sem er í heiminum og hæfileikarnir leita til þeirra.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiViðtal