Íslenskir hápunktar ársins í myndum
Árið 2016 var viðburðaríkt í íslensku þjóðlífi. Kjarninn fylgdist með helstu atburðum í návígi í gegnum ljósmyndavélina og sagði frá á vefnum. Hér eru nokkrir hápunktar ársins 2016.
Árið 2016 verður eflaust skráð í sögubækur framtíðarinnar sem nokkuð merkilegt ár í íslenskum stjórnmálum. Fjórir innlendir atburðir standa uppúr í umfjöllun Kjarnans á árinu. Það er Wintris-málið svokallaða sem kom upp í byrjun apríl sem mótað hefur íslensk stjórnmál síðan, forsetakosningarnar í maí, Alþingiskosningarnar í haust og síðast en ekki síst gríðarlega gott gengi íslenska landsliðsins í knattspyrnu á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi.
Birgir Þór Harðarson, ljósmyndari Kjarnans, var sendur út af örkinni til þess að fanga þessi augnablik í sögu Íslands. Hann hefur tekið saman nokkrar myndir sem teknar voru á merkilegum stundum og þykja fanga stemmninguna vel.

Fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar
4. apríl 2016 Mynd: Birgir Þór
Það höfðu aldrei fleiri komið saman á mótmælum í Íslandssögunni þegar Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og ríkisstjórn hans var mótmælt á Austurvelli 4. apríl 2016. Þá hafði Sigmundur Davíð orðið uppvís af því að hafa átt hagsmuna að gæta í skattaskjóli og að félög sem tengdust honum ættu kröfur í bú föllnu bankanna. Almenningi var að vonum brugðið enda höfðu pólitískar vinsældir Sigmundar Davíðs náð hæðum sínum þegar hann lýsti yfir stríði við kröfuhafana. Þeirra á meðal voru meðal annars félög í eigu eiginkonu hans.

Þingheimur æfur
4. apríl 2016 Mynd: Birgir Þór
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, enn forsætisráðherra, mætti á Alþingi til þess að svara spurningum þingmanna um uppljóstranir Panamaskjalanna. Sagt hafði verið frá eign hans í skattaskjólum í Kastljósi á RÚV kvöldið áður. Það var aðallega stjórnarandstaðan sem tók til máls, milli þess sem Sigmundur varðist í pontu og sagðist „aldrei hafa fundið fyrir öðrum eins stuðningi“ og að hann þyrfti og ætlaði ekki að stíga til hliðar sem forsætisráðherra. Sigmundur lét sig svo hverfa úr þingsalnum um leið og óundirbúnum fyrirspurnatíma lauk.

Gestkvæmt á Bessastöðum
5. apríl 2016 Mynd: Birgir Þór
Forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ákvað þriðjudaginn 5. apríl að stíga til hliðar sem forsætisráðherra. Áður en hann komst að þeirri niðurstöðu hafði hann farið fram á það við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að hann fengi þingrofsheimild og að kosið yrði að nýju. Ólafur Ragnar hafnaði því hins vegar. Sigmundur Davíð mætti ös fjölmiðlamanna fyrir utan Bessastaði sem vildu vita hvað hann hygðist gera. Sigmundur Davíð sagði ekkert og brosti bara.

Bjarni tafðist á Flórída
5. apríl 2016 Mynd: Birgir Þór
Nafn Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal, ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, komu einnig fyrir í Panamaskjölunum. Þau þykja hafa sloppið nokkuð vel frá þessum fregnum. Bjarni hafði misst af flugi frá Flórída þar sem hann var í fjölskyldufrí og kom því ekki til landsins fyrr en á þriðjudagsmorgun. Þá hafði Sigmundur Davíð þegar staðið í storminum í heilan sólarhring. Bjarni gekk á fund forseta Íslands á þriðjudagsmorguninn 5. apríl og var brúnaþungur þegar hann var kominn upp í bíl á ný.

Kvöldstund í tröppunum
6. apríl 2016 Mynd: Birgir Þór
Skáli Alþingis var smekkfullur af fjölmiðlafólki heila kvöldstund miðvikudaginn 6. apríl 2016. Allir biðu þess að þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins annars vegar og Framsóknarflokksins hins vegar lyki en þar var samið áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf þessara flokka. Í hvert sinn sem einhver gekk niður stigann kipptust fjölmiðlamenn við. Það þótti nokkuð skondið þegar Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, birtist óvænt án þess að vita að fundir stæðu enn þá yfir.

Bjarni og Sigurður Ingi brúa bilið
6. apríl 2016 Mynd: Birgir Þór
Á göngum Alþingishússins var pískrað um að þingflokksfundur Framsóknarflokksins væri mikill hitafundur og að mikilla tíðinda væri að vænta. Sigmundur Davíð hafði þá þegar gert almenningi ljóst að hann myndi stíga til hliðar en óljóst var með framhaldið. Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson gengu loks niður tröppurnar og kynntu áframhaldandi stjórnarsamstarf án Sigmundar Davíðs undir forsæti Sigurðar Inga og alþingiskosningar um haustið.

Bardagi aldarinnar... sem aldrei varð
26. maí 2016 Mynd: Birgir Þór
Þegar Ólafi Ragnari Grímssyni, sitjandi forseta, leist ekki nógu vel á það fólk sem höfðu boðið sig fram til að taka við af honum ákvað forsetinn að sækjast eftir embættinu á ný, þvert á það sem hann tilkynnti í nýársávarpi sínu. Þá var miður apríl, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði nýstigið frá borði í Stjórnarráðinu og óvissa með framhaldið. Það þyrfti „sterkan“ og „reynslumikinn“ leiðtoga á Bessastaði. Í byrjun maí ákvað Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, fyrrverandi forsætisráðherra og einn fornra fjenda Ólafs Ragnars að bjóða sig fram í embættið. Íslendingar sáu fram á pólitískan bardaga aldarinnar þar sem fortíðin yrði gerð upp í einvígi þessara stjórnmálaleiðtoga frá síðustu öld. Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, hafði þá einnig stigið fram og mældist mun vinsælli en sitjandi forseti sem dró sig í kjölfarið endanlega í hlé.

Húh!
27. júní 2016 Mynd: Birgir Þór
Í hugum margra Íslendinga náði íþróttaárið 2016 hámarki þegar Ísland lagði Englendinga á stórmóti í fótbolta. Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu keppti í fyrsta sinn á stórmóti og komst í átta liða úrslitin eftir sigur á Englandi í 16 liða úrslitum mótsins. Íslendingar flykktust til Frakklands til að bera landsliðið okkar augum og allir tóku þátt í víkingaklappinu. Hér hyllir landsliðið okkar íslenska stuðningsmenn í lok leiksins í Nice 27. júní 2016.

Guðni Th. Jóhannesson varð forseti
1. ágúst 2016 Mynd: Birgir Þór
Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, hætti við að hætta við að hætta við að bjóða sig fram til áframhaldandi forsætis hófst kosningabarátta níu frambjóðenda. Aldrei hafa jafn margir boðið sig fram í embættið í sömu kosningunum. Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur bar sigur úr bítum og var svarinn í embætti við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu 1. ágúst í sumar.

Alþingiskosningar að hausti
29. október 2016 Mynd: Birgir Þór
Boðað var til kosninga haustið 2016 úr tröppunum í Alþingishúsinu þegar Sigurður Ingi tók við af Sigmundi Davíð sem forsætisráðherra 6. apríl. Það var mikil spenna í herbúðum Pírata sem höfðu mælst með mikið fylgi allt þetta ár og náð hæstu hæðum í rúmum 40 prósent í skoðanakönnunum. Niðurstöðurnar voru hins vegar þær að er hægt að tveggja flokka ríkisstjórn. Píratar bættu miklu við sig síðan í kosningunum árið 2013, en fengu þó minna en skoðanakannanir höfðu mælt í aðdraganda kosninganna.

Enginn augljós niðurstaða
2. nóvember 2016 Mynd: Birgir Þór
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk fyrstur stjórnmálaleiðtoga umboð til stjórnarmyndunar frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta eftir Alþingiskosningarnar. Eftir að Bjarni hafði leikið alla sína leiki fengu Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, umboð frá Guðna og svo Birgitta Jónsdóttir, forsvarsmaður Pírata. Enn hefur engum tekist að mynda ríkisstjórn og engin niðurstaða í sjónmáli.