Svipmyndir af erlendum vettvangi 2016
Árið 2016 hefur markast af frekari átökum á alþjóðavettvangi og uppgangi þjóðernispopúlisma. Brexit, Trump, Sýrland, ISIS og margt fleira er reifað hér að neðan í myndum ársins af erlendum vettvangi.
Viðburðaríku ári lýkur á laugardagskvöld. Árið 2016 verður hugsanlega skráð í sögubækurnar sem vendipunktur í stjórnmálum vestrænna ríkja. Alda flóttamanna hefur farið um Evrópu undanfarin ár og það hefur, meðal annars, stuðlað að breyttum stjórnmálaáherslum. Popúlískar hreyfingar hafa víða komist til valda eða hlotið aukna hlutdeild á þjóðþingum.
Þessar hreyfingar eiga það sameiginlegt að vilja hægja á eða vinda ofan af Evrópusamrunanum. Á árinu kusu Bretar að ganga úr Evrópusambandinu, í Bandaríkjunum hlaut Donald Trump kjör sem forseti og í Frakklandi og á Norðurlöndum hafa sambærileg stjórnmálaöfl vaxið ásmeginn.
Hér að neðan má líta nokkrar erlendar fréttamyndir frá erlendum atburðum sem Kjarninn fylgdist grannt með á árinu.

Trump og Pútín í sleik
Mynd: EPA
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Donald Trump, næsti forseti Bandaríkjanna, kyssast innilega á þessari veggmynd í Vilius í Litháen. Trump hefur lagt mikið kapp á að bæta samskiptin við Rússland og sagst geta náð til Pútíns. Á sama tíma hefur Trump talað um draga úr áherslu Bandaríkjanna á NATO-samstarfið. Slík áform óttast ráðamenn í Eystasaltsríkjunum enda hefur ógnin úr austri frá Rússlandi ekki verið eins mikil eftir fall Sovétríkjanna og nú.

Aleppo fallin
Mynd: EPA
Eftir að Aleppo-borg í norðanverðu Sýrlandi féll í hendur stjórnarhersins í desember voru íbúar sem höfðu orðið innlyksa fluttir á brott. Íbúarnir höfðu hafist við í Aleppo án nægilegs vatns og matar í marga mánuði og mátt þola loftárásir og sprengjur upp á hvern einasta dag.

Zíka-veiran komin til að vera
Mynd: EPA
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) ákvað í upphafi árs að skilgreina Zíka-veiruna sem bráða heilbrigðisvá. Í nóvember var þeirri ákvörðun snúið þannig að nú líta sérfræðingar WHO svo á að hættan af völdum veirunnar sé komin til að vera, líkt og aðrar pestir sem herja á mannkynið. Alvarlegir fæðingargallar hafa verið raktir til veirunnar í minnst 30 löndum.

Stjörnuhröp
Mynd: EPA
Breska tónlistarmannsins David Bowie var minnst um allan heim eftir að hann lést 10. janúar síðastliðinn. Bowie var litríkur og ofboðslega fjölhæfur listamaður sem skóp samtímamenningu okkar með ómældum hætti. Fleiri heimsþekktir létust á árinu. Má þar helst nefna breska leikarann Alan Rickman, kanadíska tónlistarmanninn Leonard Cohen, bandaríski tónlistarmaninn Prince og hnefaleikakappann og mannréttindafrömuðinn Muhammad Ali.

Flóttamannabúðunum í Calais lokað
Mynd: EPA
Flóttamannabúðunum í strandbænum Calais í Frakklandi var lokað í október. Í búðunum höfðust þeir aðallega við sem ætluðu að smygla sér yfir til Bretlands um Ermasundsgöngin. Frönsk yfirvöld lokuðu búðunum og fluttu um 6.400 flóttamenn með það að markmiði að koma þeim fyrir víða í Frakklandi. Myndin er tekin þegar flóttafólkinu var meinaður aðgangur aftur að svæðinu eftir að eldur hafði geisað þar 27. október.

Tóku höndum saman
Mynd: EPA
Xi Jinping, forseti Kína, og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, tóku höndum saman um að innleiða Parísarsamninginn fyrir fund 20 stærstu iðnríkja heims í september. Ríki þessara leiðtoga menga mest allra ríkja í heiminum. Kína hefur á síðustu misserum tekið framúr Bandaríkjunum þegar kemur að útblæstri gróðurhúsalofttegunda og situr nú í efsta sætinu. Parísarsamningurinn tók formlega gildi í haust þegar þau ríki sem bera ábyrgð á 55 prósent útblásturs í heiminum höfðu staðfest samninginn.

Byltur Biles
Mynd: EPA
Simone Biles, fimleikakona í fimleikaliði Bandaríkjanna, varð að enn skærari stjörnu í heimi íþróttanna á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst. Myndbönd af frammistöðu Biles, bæði á slá og á gólfi, fóru hratt um veraldarvefinn og þótti fólki ótrúlegt hversu hátt og hratt þessi kraftmikla íþróttakona gat stokkið. Biles vann til fimm verðlauna á Ólympíuleikunum með bandaríska liðinu og í einstaklingskeppni; fékk fjögur gullverðlaun og ein bronsverðlaun.

Bretar vilja ganga úr ESB
Mynd: EPA
Bretar greiddu atkvæði um það í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní að Bretland skildi ganga úr Evrópusambandinu. David Cameron, þá forsætisráðherra, hafði boðað til þessarar atkvæðagreiðslu til þess að friða hluta þingflokks síns. Hér sést Nigel Farage, formaður Sjálfstæðisflokks Bretlands (UKIP), í kosningaham í kjötverslun í Kent. Eins og í forsetakosningunum í Bandaríkjunum gekk kosningabarátta sigurliðsins að miklu leyti út á lygar og það sem reyndist svo ekki eiga við rök að styðjast.

Valdaránstilraun í Tyrklandi
Mynd: EPA
Stuðningsmenn tyrnkeska forsetans Recep Tayyip Erdogan fögnuðu og veifuðu fánum á Taksím-torgi í Istanbúl eftir að valdaránstilraun hafði verið hrundið af stjórnvöldum í Tyrklandi. Stjórnvöld þar segja að valdaránstilraunin hafi verið skipulögð af fylgismönnum Fetulah Gülen sem er í útlegð í Bandaríkjunum en sérfræðingar í alþjóðastjórnmálum hafa sagt að hugsanlega hafi fylgismenn Erdogans lagt á ráðin til þess að efla forsetann og auka vald hans. Þúsundir hafa verið hneppt í varðhald eða tekin af lífi í pólitískum hreinsunum eftir valdaránstilraunina.

86 létust í hryðjuverkaárás í Nice
Mynd: EPA
Þegar íbúar og gestir Nice-borgar í Frakklandi fylgdust með flugeldasýningu á Bastilludaginn, þjóðhátíðardag Frakka 14. júlí, ók hryðjuverkamaður stórum vörufutningabíl inn í mannhafið við Promenade des Anglais-breiðstrætið. 86 létust í árásinni og 434 særðust. Hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið lýsti sig ábyrgt fyrir árásinni.

Portúgal Evrópumeistarar í knattspyrnu
Mynd: EPA
Portúgal varð Evrópumeistari í knattspyrnu karla á EM í Frakklandi í sumar. Ísland tók þátt í fyrsta sinn og náði stórmerkilegum árangri; komst alla leið í átta liða úrslit þar sem landsliðsmannanna beið ósigur gegn heimamönnum í franska landsliðinu. Íslendingar léku Evrópumeistarana hins vegar grátt í fyrsta leik liðanna á mótinu, þar sem ofurstjarnan Christiano Ronaldo varð and-hetja íslenskra fótboltaunnenda eftir einn leik.

Á Kúbu í fyrsta sinn í 88 ár
Mynd: EPA
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, heimsótti Kúbu í mars, fyrstur forseta Bandaríkjanna í 88 ár. Síðastur til þess að fara í opinbera heimsókn þangað var Calvin Coolidge árið 1928. Viðskiptabanni Bandaríkjanna á Kúbu var aflétt í fyrra og þess vegna heimsótti Obama eyríkið. Hann hitti Raúl Castro, forseta landsins og bróður Fidel Castro, sem lést níræður að aldri í nóvember.