MYND:EPA

Maður sem drekkur hvítvín úr bjórglasi rænir voninni

Sam Allardyce hefur stýrt Everton í fimm langa mánuði. Á þeim tíma hefur honum tekist það sem engum öðrum vondum knattspyrnustjóra hefur tekist á rúmum 30 árum, að fjarlægja það eina sem var eftir fyrir sárþjáða stuðningsmenn, vonina.

Að horfa á fót­bolta er ekki alltaf góð skemmt­un. Oftar en ekki er það kvöð sem skilar manni fáu öðru en tveimur töp­uðum klukku­tímum og tíma­bundnu vondu skapi. Þ.e. ef maður horfir ein­ungis á fót­bolta sem spil­aður er annað hvort af Þrótti eða Everton.

Af ein­hverjum ástæð­um, sem ekk­ert rök­rænt útskýr­ir, virð­ist nær ómögu­legt að rjúfa þennan víta­hring. Og fyrst það er ekki hægt að rjúfa hann þá er alveg eins hægt að kryfja hann.

Ég hef áður skrifað um sér­kenni­legt hlut­skipti þeirra sem fylgja Everton að mál­um. Það er ein­mana­leg eyði­merk­ur­ganga og í ljósi þess að hefð­bund­inn árangur virð­ist ómögu­legur þá verður maður góður í að búa til sigra úr hvers­dags­legum hlutum og blekkja sig í að halda að þeir skipti ein­hverju máli.

Hitt sem stuðn­ings­maður lélegs knatt­spyrnu­liðs þarf að hafa er von. Hún þarf ekki einu sinni að vera rök­rétt en án hennar er fylgni við Everton ansi eymd­ar­legt hlut­skipti. Síð­ustu mán­uði hef ég, í fyrsta skipti í rúma þrjá ára­tugi, ekki haft þessa von. Ástæðan fyrir því heitir Sam All­ar­dyce.

Per­sónu­leiki fram yfir hæfi­leika

Fyrst þarf kannski að útskýra von­ina. Hún er er nefni­lega breyti­leg og byggir á mis­mun­andi for­sendum eftir tíma­bil­um. Á níunda ára­tugnum var þetta hefð­bundin von um að Everton ynni titla, enda var liðið þá eitt það besta í Englandi og Evr­ópu. Á tíunda ára­tugnum var enn svo stutt síðan að liðið var á toppnum að vonin snérist um að leiðin aftur þangað væri rétt handan við horn­ið.

Þegar komið var inn í hinn rúma ára­tug David Moyes, sem stóð frá 2002 til 2013, þá var vonin orðin önn­ur. Sjálfs­mynd liðs­ins var sú að það væri lít­il­magni. Að það væri á leið í byssu­bar­daga með vasa­hníf en að sá sem héldi á hnífnum væri svo stór per­sónu­leiki að það skipti ekki máli. Maður trúði, von­aði, alltaf að liðið gæti gert hið ómögu­lega. Og oftar en ekki gerð­ist það.

Á meðan að Moyes var knatt­spyrnu­stjóri Everton þá var nettó eyðsla félags­ins í leik­menn á ári 800 þús­und pund. Til að setja þá tölu í sam­hengi þá tekur það Alexis Sanchez, leik­mann Manchester United og launa­hæsta leik­mann deild­ar­inn­ar, um ell­efu daga að þéna þá upp­hæð.

Hann keypti leik­menn á borð við Seamus Coleman (60 þús­und pund), Phil Neville (3,5 millj­ónir punda), Tim Cahill (1,5 millj­ónir punda), Nigel Mar­tyn (37 ára þegar hann var keypt­ur), Leighton Baines (tæpar sex millj­ónir punda), Syl­vain Distin (fal­leg­asti maður á jarð­rík­i), Steven Pienaar (tvær millj­ónir punda), Kevin „Zinedi­ne“ Kil­bane (undir einni milljón pund) og besta litla Spán­verja sem við vitum um, Mikel Arteta (undir tveimur millj­ónum punda). Þessum mönnum klístr­aði hann saman með sköll­óttu vit­firr­ing­unum Gra­vesen og Cars­ley, haug af vafasömum senterum (nú er tíma­bært að rifja upp Kanada­mann­inn Tom­asz Radzin­ski, hinn þunga James Beattie, mennska trakt­or­inn Marcus Bent, hinn aldna fyrir aldur fram Yakubu og auð­vitað brasl­íska und­rið Jo) og gull­molum sem Moyes pikk­aði upp fyrir slikk eða ekk­ert en voru síðan seldir á háar upp­hæðir á borð við Joleon Lescott, John Sto­nes, Jack Rod­well og Wayne „Vol­vo“ Roo­n­ey.

Liðin hjá Moyes skorti oft hæfi­leika. Það ætla varla margir að halda því fram að t.d. Tim Cahill eða Phil Neville séu tækni­lega á tiki taka-­getu­stigi. Þeir spil­uðu meira eins og vonda liðið í fimmtu­dags­bolt­anum mínum í Sport­hús­inu en atvinnu­menn í knatt­spyrnu.

En þetta voru, og eru, nær allt risa­stórir per­sónu­leik­ar. Áhuga­verðir ein­stak­lingar sem svitn­uðu ástríðu, gáfu alltaf allt, öskr­uðu ósér­hlífni og voru óhræddir að láta skína í skoð­anir sín­ar. Vegna þeirra var alltaf von til stað­ar. Von um að í upp­hafi leiks þá trúði maður alltaf að liðið myndi vinna. Það gerð­ist auð­vitað  ekki nærri því alltaf, en áhorfið varð betra. Upp­lifunin jákvæð­ari. Og til­finn­ingin fyrir þess­ari sér­kenni­legu tíma­eyðslu sem knatt­spyrnu­á­horf er rétt­læt­an­legri.

Pen­ingum eytt til að verða verri

Síðan að Moyes fór hafa þrír fast­ráðnir stjórar stýrt Everton. Roberto Martinez kom fyrst­ur, og varð fljótt mjög óþol­andi vegna þess að hann reyndi alltaf að segja skoðun í að minnsta kosti níu þús­und orðum og not­aði efsta stig lýs­ing­ar­orða um nán­ast allt sem gerð­ist. Þrátt fyrir hörmu­leg töp þá var frammi­staðan iðu­lega sögð „phen­omena­l“, Gar­eth Barry var allt í einu orð­inn einn af bestu leik­mönnum Eng­lands í sög­unni að hans mati og Tom Cleverley stóð honum víst ekki langt að baki. Eftir stór­kost­lega byrjun þá fjar­aði hratt undan Phen­o­nemal-­Bobby sam­hliða því sem að varn­ar­skipu­lags­töfrar Moyes týnd­ust.

Þegar Martinez var loks rek­inn tók and­stæð­an, Ron­ald Koem­an, við. Hann var fáorður og lítið fyrir að syk­ur­húða skoð­anir sínar á frammi­stöðu leik­manna þegar við átti. Þessu fylgdi ákveð­inn fersk­leiki til að byrja með en fór að verða pirr­andi þegar leið á.

Koeman var ráð­inn af íranska millj­arða­mær­ingnum Fahad Mos­hiri, sem keypti tæp­lega helm­ings­hlut í Everton í jan­úar 2016 og hefur síðan þá dælt pen­ingum inn í félag­ið. Á yfir­stand­andi tíma­bili hefur Everton keypt leik­menn fyrir 202 millj­ónir punda, sem þýðir að ein­ungis fimm lið í Evr­ópu hafa eytt meiri pen­ing í síð­ustu tveimur félaga­skipta­glugg­um.

Kunnugleg sjón á yfirstandandi tímabili, Everton að fá á sig mark í tapleik.
Mynd: EPA

Fyrir þann pen­ing var keyptur haugur af „tíum“ og fullt af allt of dýrum ofborg­uðum leik­mönnum með hefð­bundna nútíma-knatt­spyrnu­manna-skort-á-­per­sónu­leika (sjá PR-­menn að sjá um froðu Twitt­er-­reikn­inga þeirra, línu­hár­greiðslur og við­töl sem eru minna áhuga­verð en end­ur­sýn­ing á Opin­berun Hann­esar á besta tíma á föstu­dags­kvöld­i). 

Eng­inn þess­ara leik­manna hefur náð því að gera það sem til var ætl­ast af þeim, að smá­vaxna mark­verð­in­um Jor­dan Pick­ford. Allir aðrir hafa verið hrein­ræktuð von­brigði.

Kaupin virt­ust illa und­ir­bú­in, illa fram­kvæmd og mörg hver ansi til­vilj­un­ar­kennd. Þau gerðu það að verkum að leik­manna­hóp­ur­inn er í mjög ein­kenni­legu jafn­vægi, sem hefur skilað því að Ashley Willi­ams (ekki fót­bolta­leik­mað­ur) og Cuco Mart­ina (ein­hvers­konar fót­bolta­leg gjörn­ingar inn­setn­ing) hafa sam­tals spilað yfir 50 leiki á tíma­bil­inu. Koeman var enda rek­inn í októ­ber, þegar Everton sat í fall­sæti, og mjög er farið að hitna undir Steve Walsh, yfir­manni knatt­spyrnu­mála sem sér um öll inn­kaup­in.

Vonin um að pen­ingar myndu gera hlut­ina bæri­legri reynd­ist byggð á sandi. Því fleiri dýrir leik­menn sem Everton kaup­ir, því verra verður lið­ið.

Að ná engum árangri en kom­ast samt til met­orða

Þá komum við að ástæðu þess að þetta lélega tíma­bil hefur verið verra en öll hin lélegu tíma­bil­in. Eftir að mis­tek­ist að ráða þá knatt­spyrnu­stjóra sem liðið vildi helst frá (sjá Silva og Fon­seca) var ákveðið að snúa sér að Sam All­ar­dyce.

Sá hefur verið knatt­spyrnu­stjóri nær sam­fleytt frá árinu 1991. Á því tíma­bili hefur honum tek­ist að vinna einn tit­il, fyrstu deild­ina í Írlandi með Limer­ick árið 1992 og er með vinn­ings­hlut­fall á ferli sínum upp á 39 pró­sent (Mauricio Pochettino er með 45 pró­sent, Jurgen Klopp er með um 50 pró­sent, Arsene Wen­ger með 54 pró­sent, Ant­onio Conte er með 58 pró­sent, Jose Mour­hino er með 65 pró­sent og Pep Guardi­ola er með 72,1 pró­sent).

Und­an­farin ár hefur All­ar­dyce getið sér gott orð fyrir að taka við félögum í fall­bar­áttu og bjarga þeim fyrir horn með ljótum leikstíl. Það skil­aði hon­um, af ein­hverjum ástæð­um, knatt­spyrnu­stjóra­starf­inu hjá enska lands­lið­inu. Og um leið varð hann best laun­að­asti lands­liðs­stjóri í heimi með árs­laun upp á þrjár millj­ónir punda.

Þar tókst honum að stýra lið­inu einu sinni áður en að hann var rek­inn eftir að blaða­menn með faldar mynda­vélar tóku hann upp á leyni­legum fundi þar sem hann var að aðstoða þykjustu­fjár­festa með því að upp­lýsa þá um leiðir til að kom­ast fram­hjá banni enska knatt­spyrnu­sam­bands­ins á eign­ar­haldi þriðja aðila á leik­mönn­um. Sam­hliða ætl­aði All­ar­dyce að gera samn­ing upp á 400 þús­und punda greiðslu við gervi­menn­ina. Á fund­inum drakk All­ar­dyce líka hvítvín úr troð­fullu pin­t-­bjór­glasi, sem eitt og sér ætti að vera ein­hvers konar brott­rekstr­ar­sök. Þar gerði hann líka grín af talsmáta Roy Hodg­son, fyrr­ver­andi lands­liðs­þjálf­ara Eng­lands, sem ber iðu­lega R fram sem W.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem All­ar­dyce hefur verið grun­aður um að selja sálu sína fyrir smá pen­ing. Ára­tug áður birti Panorama-frétta­skýr­ing­ar­þátt­ur­inn á BBC umfjöllun þar sem All­ar­dyce og sonur hans voru bendl­aðir við að þiggja greiðslur undir borðið frá umboðs­mönnum fyrir að kaupa ákveðna leik­menn til Bolton, sem All­ar­dyce stýrði þá.

Sem­sagt, huggu­legur náungi.

Nið­ur­læg­ingin

Með All­ar­dyce, Stóra Sam, fylgdi hans nán­asti sam­starfs­maður í gegnum árin, Sammy Lee, eða Litli Sam. Sá er hrein­rækt­aður Liver­pool-­mað­ur. Spil­aði með erki­fj­endum Everton í ára­tug, þjálf­aði þar í annan ára­tug og hefur alltaf stutt lið­ið. Það er nið­ur­lægj­andi að sjá slíkan í Everton-úlpu á hlið­ar­lín­unni. Lík­lega svipað og fyrir sós­í­alista að sjá Brynjar Níels­son leiða lista Vinstri grænna í Reykja­vík­-­suð­ur.

Sammy Lee ásamt Rafa Benitez á Liverpool-árunum.
Mynd: Úr safni

All­ar­dyce spilar mjög leið­in­legan fót­bolta, en hann hefur sagt að fót­bolt­inn verði að vera enn leið­in­legri ef liðið á að vinna fleiri leiki. Flatneskja ríkir og leik­menn virð­ast and­laus­ir. Mörgum virð­ist ein­fald­lega bara vera sama.

All­ar­dyce er þeirrar gerðar að honum finnst aldrei neitt vera sín sök. Þegar hann var grip­inn með hvítvínið í bjór­glas­inu að selja gervi­mönnum leið­bein­ingar um hvernig þeir gætu snið­gengið reglur atvinnu­rek­enda hans þá taldi hann sig hafa verið fórn­ar­lamb­ið. Rök hans fyrir því eru ekki ósvipuð þeim sem fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra Íslands beitti fyrir sig eftir að hann var gómaður við að ljúga í við­tali um eign­ar­hald sitt á aflands­fé­lagi. Ef Everton vinnur þá er það iðu­lega All­ar­dyce að þakka. Ef liðið tapar þá er það iðu­lega ein­hverjum öðrum að kenna.

Hann getur oft ekki borið fram nöfn leik­manna sinna eða man ekki hvað þeir heita. Mjög eft­ir­minni­legt var þegar að hann kall­aði Gylfa Sig­urðs­son, lang­dýrasta leik­mann í sögu Everton, tví­vegis Guðna i við­tali eftir leik í haust. All­ar­dyce þjálf­aði einu sinni Guðna Bergs­son og heldur því kannski að allir Íslend­ingar heiti bara Guðni.

Sam Allardyce á fundinum fræga með gervimönnunum, sem kostaði hann stjórastarfið hjá Englandi. Að drekka bjórglas fullt af hvítvíni.
Mynd: Skjáskot

Stuðn­ings­menn upp til hópa þola hann ekki og finnst vera hans í starfi vera merki um algjört stefnu- og metn­að­ar­leysi. Hann afneitar þó þeirri stað­reynd þrátt fyrir að sönnun fyrir henni megi heyra um nán­ast hverja helgi úr stúkunni, og í hverri könn­un­inni sem gerð er á fætur annarri. Á blaða­manna­fundi í gær, sem var hald­inn vegna nágrannaslags­ins gegn Liver­pool sem fram fer í dag, virð­ist All­ar­dyce vera í algjörri afneitun gagn­vart því að það er varla hægt að finna stuðn­ings­mann Everton sem styður hann. „Hvar eru efa­semd­ar­menn­irn­ir?,“ spurði hann blaða­menn og sagði þá láta sam­fé­lags­miðla á borð við Twitt­er, Face­book og Instagram stýra lífi sínu of mik­ið. Fyrir honum er bara um lít­inn minni­hluta stuðn­ings­manna að ræða.

All­ar­dyce klykkti síðan út með því að sú stað­reynd að Everton myndi enda fyrir ofan West Bromwich Albion í deild­inni sýni svart á hvítu að tími hans á stjóra­stóli hafi gengið vel. Það eru 19 lið fyrir ofan West Bromwich í ensku deild­inni. Það eru 20 lið í þeirri deild.

Það sem er óásætt­an­legt

Sam­an­dregið þá er hægt að sætta sig við ýmis­legt þegar maður heldur með Everton. Það er hægt að sætta sig við lélegan fót­bolta. Það er hægt að sætta sig við að liðið hafi varla getað eytt neinum pen­ing í leik­menn ára­tugum sam­an. Það er hægt að sætta sig við að vinna aldrei neitt. Það er meira að segja hægt að sætta sig við Ashley Willi­ams og Cuco Mart­ina í leik og leik.

En það er ekki hægt að sætta sig við and­styggi­legan mann við stjórn­völ­inn. Mann sem hefur nán­ast engan sið­ferð­is­þrösk­uld, enga ábyrgð­ar­til­finn­ingu, enga raun­veru­leika­teng­ingu og drekkur hvítvín úr pin­t-­bjór­glasi. Að halda með honum er eins og að ætla að halda með banka eða oliu­fé­lagi, ekki hægt.

Slíkur maður rænir manni von­inni. Og þar af leið­andi einu ástæð­unni fyrir því að horfa leiki liðs­ins.  

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFólk