MYND:EPA

Maður sem drekkur hvítvín úr bjórglasi rænir voninni

Sam Allardyce hefur stýrt Everton í fimm langa mánuði. Á þeim tíma hefur honum tekist það sem engum öðrum vondum knattspyrnustjóra hefur tekist á rúmum 30 árum, að fjarlægja það eina sem var eftir fyrir sárþjáða stuðningsmenn, vonina.

Að horfa á fót­bolta er ekki alltaf góð skemmt­un. Oftar en ekki er það kvöð sem skilar manni fáu öðru en tveimur töp­uðum klukku­tímum og tíma­bundnu vondu skapi. Þ.e. ef maður horfir ein­ungis á fót­bolta sem spil­aður er annað hvort af Þrótti eða Everton.

Af ein­hverjum ástæð­um, sem ekk­ert rök­rænt útskýr­ir, virð­ist nær ómögu­legt að rjúfa þennan víta­hring. Og fyrst það er ekki hægt að rjúfa hann þá er alveg eins hægt að kryfja hann.

Ég hef áður skrifað um sér­kenni­legt hlut­skipti þeirra sem fylgja Everton að mál­um. Það er ein­mana­leg eyði­merk­ur­ganga og í ljósi þess að hefð­bund­inn árangur virð­ist ómögu­legur þá verður maður góður í að búa til sigra úr hvers­dags­legum hlutum og blekkja sig í að halda að þeir skipti ein­hverju máli.

Hitt sem stuðn­ings­maður lélegs knatt­spyrnu­liðs þarf að hafa er von. Hún þarf ekki einu sinni að vera rök­rétt en án hennar er fylgni við Everton ansi eymd­ar­legt hlut­skipti. Síð­ustu mán­uði hef ég, í fyrsta skipti í rúma þrjá ára­tugi, ekki haft þessa von. Ástæðan fyrir því heitir Sam All­ar­dyce.

Per­sónu­leiki fram yfir hæfi­leika

Fyrst þarf kannski að útskýra von­ina. Hún er er nefni­lega breyti­leg og byggir á mis­mun­andi for­sendum eftir tíma­bil­um. Á níunda ára­tugnum var þetta hefð­bundin von um að Everton ynni titla, enda var liðið þá eitt það besta í Englandi og Evr­ópu. Á tíunda ára­tugnum var enn svo stutt síðan að liðið var á toppnum að vonin snérist um að leiðin aftur þangað væri rétt handan við horn­ið.

Þegar komið var inn í hinn rúma ára­tug David Moyes, sem stóð frá 2002 til 2013, þá var vonin orðin önn­ur. Sjálfs­mynd liðs­ins var sú að það væri lít­il­magni. Að það væri á leið í byssu­bar­daga með vasa­hníf en að sá sem héldi á hnífnum væri svo stór per­sónu­leiki að það skipti ekki máli. Maður trúði, von­aði, alltaf að liðið gæti gert hið ómögu­lega. Og oftar en ekki gerð­ist það.

Á meðan að Moyes var knatt­spyrnu­stjóri Everton þá var nettó eyðsla félags­ins í leik­menn á ári 800 þús­und pund. Til að setja þá tölu í sam­hengi þá tekur það Alexis Sanchez, leik­mann Manchester United og launa­hæsta leik­mann deild­ar­inn­ar, um ell­efu daga að þéna þá upp­hæð.

Hann keypti leik­menn á borð við Seamus Coleman (60 þús­und pund), Phil Neville (3,5 millj­ónir punda), Tim Cahill (1,5 millj­ónir punda), Nigel Mar­tyn (37 ára þegar hann var keypt­ur), Leighton Baines (tæpar sex millj­ónir punda), Syl­vain Distin (fal­leg­asti maður á jarð­rík­i), Steven Pienaar (tvær millj­ónir punda), Kevin „Zinedi­ne“ Kil­bane (undir einni milljón pund) og besta litla Spán­verja sem við vitum um, Mikel Arteta (undir tveimur millj­ónum punda). Þessum mönnum klístr­aði hann saman með sköll­óttu vit­firr­ing­unum Gra­vesen og Cars­ley, haug af vafasömum senterum (nú er tíma­bært að rifja upp Kanada­mann­inn Tom­asz Radzin­ski, hinn þunga James Beattie, mennska trakt­or­inn Marcus Bent, hinn aldna fyrir aldur fram Yakubu og auð­vitað brasl­íska und­rið Jo) og gull­molum sem Moyes pikk­aði upp fyrir slikk eða ekk­ert en voru síðan seldir á háar upp­hæðir á borð við Joleon Lescott, John Sto­nes, Jack Rod­well og Wayne „Vol­vo“ Roo­n­ey.

Liðin hjá Moyes skorti oft hæfi­leika. Það ætla varla margir að halda því fram að t.d. Tim Cahill eða Phil Neville séu tækni­lega á tiki taka-­getu­stigi. Þeir spil­uðu meira eins og vonda liðið í fimmtu­dags­bolt­anum mínum í Sport­hús­inu en atvinnu­menn í knatt­spyrnu.

En þetta voru, og eru, nær allt risa­stórir per­sónu­leik­ar. Áhuga­verðir ein­stak­lingar sem svitn­uðu ástríðu, gáfu alltaf allt, öskr­uðu ósér­hlífni og voru óhræddir að láta skína í skoð­anir sín­ar. Vegna þeirra var alltaf von til stað­ar. Von um að í upp­hafi leiks þá trúði maður alltaf að liðið myndi vinna. Það gerð­ist auð­vitað  ekki nærri því alltaf, en áhorfið varð betra. Upp­lifunin jákvæð­ari. Og til­finn­ingin fyrir þess­ari sér­kenni­legu tíma­eyðslu sem knatt­spyrnu­á­horf er rétt­læt­an­legri.

Pen­ingum eytt til að verða verri

Síðan að Moyes fór hafa þrír fast­ráðnir stjórar stýrt Everton. Roberto Martinez kom fyrst­ur, og varð fljótt mjög óþol­andi vegna þess að hann reyndi alltaf að segja skoðun í að minnsta kosti níu þús­und orðum og not­aði efsta stig lýs­ing­ar­orða um nán­ast allt sem gerð­ist. Þrátt fyrir hörmu­leg töp þá var frammi­staðan iðu­lega sögð „phen­omena­l“, Gar­eth Barry var allt í einu orð­inn einn af bestu leik­mönnum Eng­lands í sög­unni að hans mati og Tom Cleverley stóð honum víst ekki langt að baki. Eftir stór­kost­lega byrjun þá fjar­aði hratt undan Phen­o­nemal-­Bobby sam­hliða því sem að varn­ar­skipu­lags­töfrar Moyes týnd­ust.

Þegar Martinez var loks rek­inn tók and­stæð­an, Ron­ald Koem­an, við. Hann var fáorður og lítið fyrir að syk­ur­húða skoð­anir sínar á frammi­stöðu leik­manna þegar við átti. Þessu fylgdi ákveð­inn fersk­leiki til að byrja með en fór að verða pirr­andi þegar leið á.

Koeman var ráð­inn af íranska millj­arða­mær­ingnum Fahad Mos­hiri, sem keypti tæp­lega helm­ings­hlut í Everton í jan­úar 2016 og hefur síðan þá dælt pen­ingum inn í félag­ið. Á yfir­stand­andi tíma­bili hefur Everton keypt leik­menn fyrir 202 millj­ónir punda, sem þýðir að ein­ungis fimm lið í Evr­ópu hafa eytt meiri pen­ing í síð­ustu tveimur félaga­skipta­glugg­um.

Kunnugleg sjón á yfirstandandi tímabili, Everton að fá á sig mark í tapleik.
Mynd: EPA

Fyrir þann pen­ing var keyptur haugur af „tíum“ og fullt af allt of dýrum ofborg­uðum leik­mönnum með hefð­bundna nútíma-knatt­spyrnu­manna-skort-á-­per­sónu­leika (sjá PR-­menn að sjá um froðu Twitt­er-­reikn­inga þeirra, línu­hár­greiðslur og við­töl sem eru minna áhuga­verð en end­ur­sýn­ing á Opin­berun Hann­esar á besta tíma á föstu­dags­kvöld­i). 

Eng­inn þess­ara leik­manna hefur náð því að gera það sem til var ætl­ast af þeim, að smá­vaxna mark­verð­in­um Jor­dan Pick­ford. Allir aðrir hafa verið hrein­ræktuð von­brigði.

Kaupin virt­ust illa und­ir­bú­in, illa fram­kvæmd og mörg hver ansi til­vilj­un­ar­kennd. Þau gerðu það að verkum að leik­manna­hóp­ur­inn er í mjög ein­kenni­legu jafn­vægi, sem hefur skilað því að Ashley Willi­ams (ekki fót­bolta­leik­mað­ur) og Cuco Mart­ina (ein­hvers­konar fót­bolta­leg gjörn­ingar inn­setn­ing) hafa sam­tals spilað yfir 50 leiki á tíma­bil­inu. Koeman var enda rek­inn í októ­ber, þegar Everton sat í fall­sæti, og mjög er farið að hitna undir Steve Walsh, yfir­manni knatt­spyrnu­mála sem sér um öll inn­kaup­in.

Vonin um að pen­ingar myndu gera hlut­ina bæri­legri reynd­ist byggð á sandi. Því fleiri dýrir leik­menn sem Everton kaup­ir, því verra verður lið­ið.

Að ná engum árangri en kom­ast samt til met­orða

Þá komum við að ástæðu þess að þetta lélega tíma­bil hefur verið verra en öll hin lélegu tíma­bil­in. Eftir að mis­tek­ist að ráða þá knatt­spyrnu­stjóra sem liðið vildi helst frá (sjá Silva og Fon­seca) var ákveðið að snúa sér að Sam All­ar­dyce.

Sá hefur verið knatt­spyrnu­stjóri nær sam­fleytt frá árinu 1991. Á því tíma­bili hefur honum tek­ist að vinna einn tit­il, fyrstu deild­ina í Írlandi með Limer­ick árið 1992 og er með vinn­ings­hlut­fall á ferli sínum upp á 39 pró­sent (Mauricio Pochettino er með 45 pró­sent, Jurgen Klopp er með um 50 pró­sent, Arsene Wen­ger með 54 pró­sent, Ant­onio Conte er með 58 pró­sent, Jose Mour­hino er með 65 pró­sent og Pep Guardi­ola er með 72,1 pró­sent).

Und­an­farin ár hefur All­ar­dyce getið sér gott orð fyrir að taka við félögum í fall­bar­áttu og bjarga þeim fyrir horn með ljótum leikstíl. Það skil­aði hon­um, af ein­hverjum ástæð­um, knatt­spyrnu­stjóra­starf­inu hjá enska lands­lið­inu. Og um leið varð hann best laun­að­asti lands­liðs­stjóri í heimi með árs­laun upp á þrjár millj­ónir punda.

Þar tókst honum að stýra lið­inu einu sinni áður en að hann var rek­inn eftir að blaða­menn með faldar mynda­vélar tóku hann upp á leyni­legum fundi þar sem hann var að aðstoða þykjustu­fjár­festa með því að upp­lýsa þá um leiðir til að kom­ast fram­hjá banni enska knatt­spyrnu­sam­bands­ins á eign­ar­haldi þriðja aðila á leik­mönn­um. Sam­hliða ætl­aði All­ar­dyce að gera samn­ing upp á 400 þús­und punda greiðslu við gervi­menn­ina. Á fund­inum drakk All­ar­dyce líka hvítvín úr troð­fullu pin­t-­bjór­glasi, sem eitt og sér ætti að vera ein­hvers konar brott­rekstr­ar­sök. Þar gerði hann líka grín af talsmáta Roy Hodg­son, fyrr­ver­andi lands­liðs­þjálf­ara Eng­lands, sem ber iðu­lega R fram sem W.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem All­ar­dyce hefur verið grun­aður um að selja sálu sína fyrir smá pen­ing. Ára­tug áður birti Panorama-frétta­skýr­ing­ar­þátt­ur­inn á BBC umfjöllun þar sem All­ar­dyce og sonur hans voru bendl­aðir við að þiggja greiðslur undir borðið frá umboðs­mönnum fyrir að kaupa ákveðna leik­menn til Bolton, sem All­ar­dyce stýrði þá.

Sem­sagt, huggu­legur náungi.

Nið­ur­læg­ingin

Með All­ar­dyce, Stóra Sam, fylgdi hans nán­asti sam­starfs­maður í gegnum árin, Sammy Lee, eða Litli Sam. Sá er hrein­rækt­aður Liver­pool-­mað­ur. Spil­aði með erki­fj­endum Everton í ára­tug, þjálf­aði þar í annan ára­tug og hefur alltaf stutt lið­ið. Það er nið­ur­lægj­andi að sjá slíkan í Everton-úlpu á hlið­ar­lín­unni. Lík­lega svipað og fyrir sós­í­alista að sjá Brynjar Níels­son leiða lista Vinstri grænna í Reykja­vík­-­suð­ur.

Sammy Lee ásamt Rafa Benitez á Liverpool-árunum.
Mynd: Úr safni

All­ar­dyce spilar mjög leið­in­legan fót­bolta, en hann hefur sagt að fót­bolt­inn verði að vera enn leið­in­legri ef liðið á að vinna fleiri leiki. Flatneskja ríkir og leik­menn virð­ast and­laus­ir. Mörgum virð­ist ein­fald­lega bara vera sama.

All­ar­dyce er þeirrar gerðar að honum finnst aldrei neitt vera sín sök. Þegar hann var grip­inn með hvítvínið í bjór­glas­inu að selja gervi­mönnum leið­bein­ingar um hvernig þeir gætu snið­gengið reglur atvinnu­rek­enda hans þá taldi hann sig hafa verið fórn­ar­lamb­ið. Rök hans fyrir því eru ekki ósvipuð þeim sem fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra Íslands beitti fyrir sig eftir að hann var gómaður við að ljúga í við­tali um eign­ar­hald sitt á aflands­fé­lagi. Ef Everton vinnur þá er það iðu­lega All­ar­dyce að þakka. Ef liðið tapar þá er það iðu­lega ein­hverjum öðrum að kenna.

Hann getur oft ekki borið fram nöfn leik­manna sinna eða man ekki hvað þeir heita. Mjög eft­ir­minni­legt var þegar að hann kall­aði Gylfa Sig­urðs­son, lang­dýrasta leik­mann í sögu Everton, tví­vegis Guðna i við­tali eftir leik í haust. All­ar­dyce þjálf­aði einu sinni Guðna Bergs­son og heldur því kannski að allir Íslend­ingar heiti bara Guðni.

Sam Allardyce á fundinum fræga með gervimönnunum, sem kostaði hann stjórastarfið hjá Englandi. Að drekka bjórglas fullt af hvítvíni.
Mynd: Skjáskot

Stuðn­ings­menn upp til hópa þola hann ekki og finnst vera hans í starfi vera merki um algjört stefnu- og metn­að­ar­leysi. Hann afneitar þó þeirri stað­reynd þrátt fyrir að sönnun fyrir henni megi heyra um nán­ast hverja helgi úr stúkunni, og í hverri könn­un­inni sem gerð er á fætur annarri. Á blaða­manna­fundi í gær, sem var hald­inn vegna nágrannaslags­ins gegn Liver­pool sem fram fer í dag, virð­ist All­ar­dyce vera í algjörri afneitun gagn­vart því að það er varla hægt að finna stuðn­ings­mann Everton sem styður hann. „Hvar eru efa­semd­ar­menn­irn­ir?,“ spurði hann blaða­menn og sagði þá láta sam­fé­lags­miðla á borð við Twitt­er, Face­book og Instagram stýra lífi sínu of mik­ið. Fyrir honum er bara um lít­inn minni­hluta stuðn­ings­manna að ræða.

All­ar­dyce klykkti síðan út með því að sú stað­reynd að Everton myndi enda fyrir ofan West Bromwich Albion í deild­inni sýni svart á hvítu að tími hans á stjóra­stóli hafi gengið vel. Það eru 19 lið fyrir ofan West Bromwich í ensku deild­inni. Það eru 20 lið í þeirri deild.

Það sem er óásætt­an­legt

Sam­an­dregið þá er hægt að sætta sig við ýmis­legt þegar maður heldur með Everton. Það er hægt að sætta sig við lélegan fót­bolta. Það er hægt að sætta sig við að liðið hafi varla getað eytt neinum pen­ing í leik­menn ára­tugum sam­an. Það er hægt að sætta sig við að vinna aldrei neitt. Það er meira að segja hægt að sætta sig við Ashley Willi­ams og Cuco Mart­ina í leik og leik.

En það er ekki hægt að sætta sig við and­styggi­legan mann við stjórn­völ­inn. Mann sem hefur nán­ast engan sið­ferð­is­þrösk­uld, enga ábyrgð­ar­til­finn­ingu, enga raun­veru­leika­teng­ingu og drekkur hvítvín úr pin­t-­bjór­glasi. Að halda með honum er eins og að ætla að halda með banka eða oliu­fé­lagi, ekki hægt.

Slíkur maður rænir manni von­inni. Og þar af leið­andi einu ástæð­unni fyrir því að horfa leiki liðs­ins.  

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFólk