MYND:EPA

Maður sem drekkur hvítvín úr bjórglasi rænir voninni

Sam Allardyce hefur stýrt Everton í fimm langa mánuði. Á þeim tíma hefur honum tekist það sem engum öðrum vondum knattspyrnustjóra hefur tekist á rúmum 30 árum, að fjarlægja það eina sem var eftir fyrir sárþjáða stuðningsmenn, vonina.

Að horfa á fótbolta er ekki alltaf góð skemmtun. Oftar en ekki er það kvöð sem skilar manni fáu öðru en tveimur töpuðum klukkutímum og tímabundnu vondu skapi. Þ.e. ef maður horfir einungis á fótbolta sem spilaður er annað hvort af Þrótti eða Everton.

Af einhverjum ástæðum, sem ekkert rökrænt útskýrir, virðist nær ómögulegt að rjúfa þennan vítahring. Og fyrst það er ekki hægt að rjúfa hann þá er alveg eins hægt að kryfja hann.

Ég hef áður skrifað um sérkennilegt hlutskipti þeirra sem fylgja Everton að málum. Það er einmanaleg eyðimerkurganga og í ljósi þess að hefðbundinn árangur virðist ómögulegur þá verður maður góður í að búa til sigra úr hversdagslegum hlutum og blekkja sig í að halda að þeir skipti einhverju máli.

Hitt sem stuðningsmaður lélegs knattspyrnuliðs þarf að hafa er von. Hún þarf ekki einu sinni að vera rökrétt en án hennar er fylgni við Everton ansi eymdarlegt hlutskipti. Síðustu mánuði hef ég, í fyrsta skipti í rúma þrjá áratugi, ekki haft þessa von. Ástæðan fyrir því heitir Sam Allardyce.

Persónuleiki fram yfir hæfileika

Fyrst þarf kannski að útskýra vonina. Hún er er nefnilega breytileg og byggir á mismunandi forsendum eftir tímabilum. Á níunda áratugnum var þetta hefðbundin von um að Everton ynni titla, enda var liðið þá eitt það besta í Englandi og Evrópu. Á tíunda áratugnum var enn svo stutt síðan að liðið var á toppnum að vonin snérist um að leiðin aftur þangað væri rétt handan við hornið.

Þegar komið var inn í hinn rúma áratug David Moyes, sem stóð frá 2002 til 2013, þá var vonin orðin önnur. Sjálfsmynd liðsins var sú að það væri lítilmagni. Að það væri á leið í byssubardaga með vasahníf en að sá sem héldi á hnífnum væri svo stór persónuleiki að það skipti ekki máli. Maður trúði, vonaði, alltaf að liðið gæti gert hið ómögulega. Og oftar en ekki gerðist það.

Á meðan að Moyes var knattspyrnustjóri Everton þá var nettó eyðsla félagsins í leikmenn á ári 800 þúsund pund. Til að setja þá tölu í samhengi þá tekur það Alexis Sanchez, leikmann Manchester United og launahæsta leikmann deildarinnar, um ellefu daga að þéna þá upphæð.

Hann keypti leikmenn á borð við Seamus Coleman (60 þúsund pund), Phil Neville (3,5 milljónir punda), Tim Cahill (1,5 milljónir punda), Nigel Martyn (37 ára þegar hann var keyptur), Leighton Baines (tæpar sex milljónir punda), Sylvain Distin (fallegasti maður á jarðríki), Steven Pienaar (tvær milljónir punda), Kevin „Zinedine“ Kilbane (undir einni milljón pund) og besta litla Spánverja sem við vitum um, Mikel Arteta (undir tveimur milljónum punda). Þessum mönnum klístraði hann saman með sköllóttu vitfirringunum Gravesen og Carsley, haug af vafasömum senterum (nú er tímabært að rifja upp Kanadamanninn Tomasz Radzinski, hinn þunga James Beattie, mennska traktorinn Marcus Bent, hinn aldna fyrir aldur fram Yakubu og auðvitað braslíska undrið Jo) og gullmolum sem Moyes pikkaði upp fyrir slikk eða ekkert en voru síðan seldir á háar upphæðir á borð við Joleon Lescott, John Stones, Jack Rodwell og Wayne „Volvo“ Rooney.

Liðin hjá Moyes skorti oft hæfileika. Það ætla varla margir að halda því fram að t.d. Tim Cahill eða Phil Neville séu tæknilega á tiki taka-getustigi. Þeir spiluðu meira eins og vonda liðið í fimmtudagsboltanum mínum í Sporthúsinu en atvinnumenn í knattspyrnu.

En þetta voru, og eru, nær allt risastórir persónuleikar. Áhugaverðir einstaklingar sem svitnuðu ástríðu, gáfu alltaf allt, öskruðu ósérhlífni og voru óhræddir að láta skína í skoðanir sínar. Vegna þeirra var alltaf von til staðar. Von um að í upphafi leiks þá trúði maður alltaf að liðið myndi vinna. Það gerðist auðvitað  ekki nærri því alltaf, en áhorfið varð betra. Upplifunin jákvæðari. Og tilfinningin fyrir þessari sérkennilegu tímaeyðslu sem knattspyrnuáhorf er réttlætanlegri.

Peningum eytt til að verða verri

Síðan að Moyes fór hafa þrír fastráðnir stjórar stýrt Everton. Roberto Martinez kom fyrstur, og varð fljótt mjög óþolandi vegna þess að hann reyndi alltaf að segja skoðun í að minnsta kosti níu þúsund orðum og notaði efsta stig lýsingarorða um nánast allt sem gerðist. Þrátt fyrir hörmuleg töp þá var frammistaðan iðulega sögð „phenomenal“, Gareth Barry var allt í einu orðinn einn af bestu leikmönnum Englands í sögunni að hans mati og Tom Cleverley stóð honum víst ekki langt að baki. Eftir stórkostlega byrjun þá fjaraði hratt undan Phenonemal-Bobby samhliða því sem að varnarskipulagstöfrar Moyes týndust.

Þegar Martinez var loks rekinn tók andstæðan, Ronald Koeman, við. Hann var fáorður og lítið fyrir að sykurhúða skoðanir sínar á frammistöðu leikmanna þegar við átti. Þessu fylgdi ákveðinn ferskleiki til að byrja með en fór að verða pirrandi þegar leið á.

Koeman var ráðinn af íranska milljarðamæringnum Fahad Moshiri, sem keypti tæplega helmingshlut í Everton í janúar 2016 og hefur síðan þá dælt peningum inn í félagið. Á yfirstandandi tímabili hefur Everton keypt leikmenn fyrir 202 milljónir punda, sem þýðir að einungis fimm lið í Evrópu hafa eytt meiri pening í síðustu tveimur félagaskiptagluggum.

Kunnugleg sjón á yfirstandandi tímabili, Everton að fá á sig mark í tapleik.
Mynd: EPA

Fyrir þann pening var keyptur haugur af „tíum“ og fullt af allt of dýrum ofborguðum leikmönnum með hefðbundna nútíma-knattspyrnumanna-skort-á-persónuleika (sjá PR-menn að sjá um froðu Twitter-reikninga þeirra, línuhárgreiðslur og viðtöl sem eru minna áhugaverð en endursýning á Opinberun Hannesar á besta tíma á föstudagskvöldi). 

Enginn þessara leikmanna hefur náð því að gera það sem til var ætlast af þeim, að smávaxna markverðinum Jordan Pickford. Allir aðrir hafa verið hreinræktuð vonbrigði.

Kaupin virtust illa undirbúin, illa framkvæmd og mörg hver ansi tilviljunarkennd. Þau gerðu það að verkum að leikmannahópurinn er í mjög einkennilegu jafnvægi, sem hefur skilað því að Ashley Williams (ekki fótboltaleikmaður) og Cuco Martina (einhverskonar fótboltaleg gjörningar innsetning) hafa samtals spilað yfir 50 leiki á tímabilinu. Koeman var enda rekinn í október, þegar Everton sat í fallsæti, og mjög er farið að hitna undir Steve Walsh, yfirmanni knattspyrnumála sem sér um öll innkaupin.

Vonin um að peningar myndu gera hlutina bærilegri reyndist byggð á sandi. Því fleiri dýrir leikmenn sem Everton kaupir, því verra verður liðið.

Að ná engum árangri en komast samt til metorða

Þá komum við að ástæðu þess að þetta lélega tímabil hefur verið verra en öll hin lélegu tímabilin. Eftir að mistekist að ráða þá knattspyrnustjóra sem liðið vildi helst frá (sjá Silva og Fonseca) var ákveðið að snúa sér að Sam Allardyce.

Sá hefur verið knattspyrnustjóri nær samfleytt frá árinu 1991. Á því tímabili hefur honum tekist að vinna einn titil, fyrstu deildina í Írlandi með Limerick árið 1992 og er með vinningshlutfall á ferli sínum upp á 39 prósent (Mauricio Pochettino er með 45 prósent, Jurgen Klopp er með um 50 prósent, Arsene Wenger með 54 prósent, Antonio Conte er með 58 prósent, Jose Mourhino er með 65 prósent og Pep Guardiola er með 72,1 prósent).

Undanfarin ár hefur Allardyce getið sér gott orð fyrir að taka við félögum í fallbaráttu og bjarga þeim fyrir horn með ljótum leikstíl. Það skilaði honum, af einhverjum ástæðum, knattspyrnustjórastarfinu hjá enska landsliðinu. Og um leið varð hann best launaðasti landsliðsstjóri í heimi með árslaun upp á þrjár milljónir punda.

Þar tókst honum að stýra liðinu einu sinni áður en að hann var rekinn eftir að blaðamenn með faldar myndavélar tóku hann upp á leynilegum fundi þar sem hann var að aðstoða þykjustufjárfesta með því að upplýsa þá um leiðir til að komast framhjá banni enska knattspyrnusambandsins á eignarhaldi þriðja aðila á leikmönnum. Samhliða ætlaði Allardyce að gera samning upp á 400 þúsund punda greiðslu við gervimennina. Á fundinum drakk Allardyce líka hvítvín úr troðfullu pint-bjórglasi, sem eitt og sér ætti að vera einhvers konar brottrekstrarsök. Þar gerði hann líka grín af talsmáta Roy Hodgson, fyrrverandi landsliðsþjálfara Englands, sem ber iðulega R fram sem W.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Allardyce hefur verið grunaður um að selja sálu sína fyrir smá pening. Áratug áður birti Panorama-fréttaskýringarþátturinn á BBC umfjöllun þar sem Allardyce og sonur hans voru bendlaðir við að þiggja greiðslur undir borðið frá umboðsmönnum fyrir að kaupa ákveðna leikmenn til Bolton, sem Allardyce stýrði þá.

Semsagt, huggulegur náungi.

Niðurlægingin

Með Allardyce, Stóra Sam, fylgdi hans nánasti samstarfsmaður í gegnum árin, Sammy Lee, eða Litli Sam. Sá er hreinræktaður Liverpool-maður. Spilaði með erkifjendum Everton í áratug, þjálfaði þar í annan áratug og hefur alltaf stutt liðið. Það er niðurlægjandi að sjá slíkan í Everton-úlpu á hliðarlínunni. Líklega svipað og fyrir sósíalista að sjá Brynjar Níelsson leiða lista Vinstri grænna í Reykjavík-suður.

Sammy Lee ásamt Rafa Benitez á Liverpool-árunum.
Mynd: Úr safni

Allardyce spilar mjög leiðinlegan fótbolta, en hann hefur sagt að fótboltinn verði að vera enn leiðinlegri ef liðið á að vinna fleiri leiki. Flatneskja ríkir og leikmenn virðast andlausir. Mörgum virðist einfaldlega bara vera sama.

Allardyce er þeirrar gerðar að honum finnst aldrei neitt vera sín sök. Þegar hann var gripinn með hvítvínið í bjórglasinu að selja gervimönnum leiðbeiningar um hvernig þeir gætu sniðgengið reglur atvinnurekenda hans þá taldi hann sig hafa verið fórnarlambið. Rök hans fyrir því eru ekki ósvipuð þeim sem fyrrverandi forsætisráðherra Íslands beitti fyrir sig eftir að hann var gómaður við að ljúga í viðtali um eignarhald sitt á aflandsfélagi. Ef Everton vinnur þá er það iðulega Allardyce að þakka. Ef liðið tapar þá er það iðulega einhverjum öðrum að kenna.

Hann getur oft ekki borið fram nöfn leikmanna sinna eða man ekki hvað þeir heita. Mjög eftirminnilegt var þegar að hann kallaði Gylfa Sigurðsson, langdýrasta leikmann í sögu Everton, tvívegis Guðna i viðtali eftir leik í haust. Allardyce þjálfaði einu sinni Guðna Bergsson og heldur því kannski að allir Íslendingar heiti bara Guðni.

Sam Allardyce á fundinum fræga með gervimönnunum, sem kostaði hann stjórastarfið hjá Englandi. Að drekka bjórglas fullt af hvítvíni.
Mynd: Skjáskot

Stuðningsmenn upp til hópa þola hann ekki og finnst vera hans í starfi vera merki um algjört stefnu- og metnaðarleysi. Hann afneitar þó þeirri staðreynd þrátt fyrir að sönnun fyrir henni megi heyra um nánast hverja helgi úr stúkunni, og í hverri könnuninni sem gerð er á fætur annarri. Á blaðamannafundi í gær, sem var haldinn vegna nágrannaslagsins gegn Liverpool sem fram fer í dag, virðist Allardyce vera í algjörri afneitun gagnvart því að það er varla hægt að finna stuðningsmann Everton sem styður hann. „Hvar eru efasemdarmennirnir?,“ spurði hann blaðamenn og sagði þá láta samfélagsmiðla á borð við Twitter, Facebook og Instagram stýra lífi sínu of mikið. Fyrir honum er bara um lítinn minnihluta stuðningsmanna að ræða.

Allardyce klykkti síðan út með því að sú staðreynd að Everton myndi enda fyrir ofan West Bromwich Albion í deildinni sýni svart á hvítu að tími hans á stjórastóli hafi gengið vel. Það eru 19 lið fyrir ofan West Bromwich í ensku deildinni. Það eru 20 lið í þeirri deild.

Það sem er óásættanlegt

Samandregið þá er hægt að sætta sig við ýmislegt þegar maður heldur með Everton. Það er hægt að sætta sig við lélegan fótbolta. Það er hægt að sætta sig við að liðið hafi varla getað eytt neinum pening í leikmenn áratugum saman. Það er hægt að sætta sig við að vinna aldrei neitt. Það er meira að segja hægt að sætta sig við Ashley Williams og Cuco Martina í leik og leik.

En það er ekki hægt að sætta sig við andstyggilegan mann við stjórnvölinn. Mann sem hefur nánast engan siðferðisþröskuld, enga ábyrgðartilfinningu, enga raunveruleikatengingu og drekkur hvítvín úr pint-bjórglasi. Að halda með honum er eins og að ætla að halda með banka eða oliufélagi, ekki hægt.

Slíkur maður rænir manni voninni. Og þar af leiðandi einu ástæðunni fyrir því að horfa leiki liðsins.  

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFólk