Mynd: Úr safni.

Af hverju getur Bjørn Tore Kvarme ekki enn verið að spila?

Síðar í dag fer fram sögufrægasti nágrannaslagur enskrar knattspyrnu. Þar verður enginn Sam Allardyce, Danny Cadamarteri, Sander Westerweld né Neil Ruddock. En voninni um samkeppnishæfan leik, sem hefur verið fjarverandi árum saman, hefur verið skilað. Og það eina sem liggur fyrir um niðurstöðuna er að Andre Gomes verður fallegasti leikmaðurinn á vellinum.

30. nóvember 2017 var sérstakur dagur fyrir fylgismenn Everton. Tímabilið fram að þeim degi hafði verið afleitt. Liðið hafði keypt leikmenn fyrir hærri fjárhæð en nokkru sinni áður um sumarið en þeir pössuðu jafn vel saman og bjúga í heilsushake. Liðið var allt í einu drekkhlaðið af lötum og hægum „tíum“, miðvarðarparið leit út fyrir að hafa aldrei spilað fótbolta og enginn alvöru sóknarmaður var í hópnum. Þá var Everton án vinstri bakvarðar sem gerði það að verkum að greyið Cuco Martina, sem er ekki nógu góður til að spila með Skallagrími, var látinn spila úr stöðu í 21 leik alls yfir tímabilið í deild sem er ein þeirra bestu í heimi. Niðurstaðan var vandræðaleg.

Ekki bætti úr skák að heimkoma dreng-undursins Wayne Rooney hafði súrnað mjög fljótt. Hann hafði elst mun hraðar sem fótboltamaður en vegabréfið sagði til um og átti augljóslega lítið erindi í alvöru fótboltalið sem vildi keppa í alvöru deild. Þótt Volvo-Wayne hefði verið með skástu mönnum liðsins fyrstu mánuðina þá þýddi það ekki að hann hafi verið góður. Það var enginn góður. Og Wayne hafði einstakt lag á að hægja á leiknum svo hann hentaði hans hraða. Sem minnti á hæga endursýningu.

Martröð hefst

Everton var búið að reka Hollendinginn Ronald Koeman og þennan síðasta dag nóvembermánaðar fyrir næstum nákvæmlega einu ári síðan, stýrði David Unsworth, elskulega, brosmilda og hundtrygga manntröllið sem myndi taka kúlu fyrir klúbbinn, sínum síðasta leik sem tímabundinn knattspyrnustjóri. Það hafði spurst út fyrir leikinn að moldríki íranski eigandinn Farhad Moshiri hefði ákveðið að láta verstu matröð stuðningsmanna verða að veruleika, og ráða Sam Allardyce sem næsta stjóra. Martröðin holdi klædd hafði tilkynnt að hann yrði í stúkunni þennan dag þegar Everton spilaði við West Ham, og átti síðar eftir að eigna hræðilegri nærveru sinni það að liðið hefði spilað sómasamlega og unnið.

Í Sam Allardyce er óþarfi að eyða miklu fleiri orðum. Nokkurra mánaða vera hans sem knattspyrnustjóri Everton orsakaði mesta niðurlægingartímabil í sögu liðsins. Ekki bara vegna þess að liðið var lélegt og spilaði nánast sársaukafullan leiðinlegan fótbolta heldur vegna þess að hann er um margt andstyggilegur maður sem segir fyrirlitlega hluti, er án siðferðisþröskulds, er ófær um að líta í eigin barm og heldur að allir Íslendingar heiti „Gudnee“. Fyrir áhugasama má lesa um það hér að neðan.

Everton voru frábærir í þessum leik og unnu fjögur núll. Wayne Rooney skoraði fyrstu og einu þrennu sína fyrir klúbbinn, þar á meðal gjörsamlega sturlað mark frá rúmlega miðju. Það sakaði ekki að David Moyes stýrði Hömrunum á þessum tíma. Maðurinn sem yfirgaf Everton til að sigra heiminn en hefur síðan ekki sigrað neitt.

Von kviknaði í brjósti allra þjáningarbræðra- og systra sem þjást af Everton hlaðinni sjálfseyðingarhvöt að þetta myndi duga til að láta Moshiri skipta um skoðun. Að hann myndi sleppa því að ráða Stóra Sam og leyfa Stóra Dave bara að klára tímabilið. Sigurinn hafði nefnilega fært Everton í þægilega fjarlægð frá botninum og þótt liðið væri lélegt, þá voru bersýnilega nægilega mörg verri lið í deildinni til að fyrirliggjandi var að fall myndi ekki verða niðurstaðan í lok tímabils. Og þá væri hægt að ýta á ctrl-alt-reboot. Leiðrétta mistök fyrra sumars og byrja upp á nýtt.

En af því varð ekki. Þess í stað var ýtt á play á martröðinni. Og voninni tímabundið rænt.

Af hverju getur Steve Staunton ekki alltaf verið í marki?

Ellefu dögum síðar var fyrri Merseyside-derby leikur tímabilsins á Anfield, þar sem Norðmenn fara til að horfa á fótbolta. Það skal viðurkennt aftur sem áður, með töluverðri skömm, að þegar maður heldur með liði sem vinnur aldrei neitt, og rænir mann oftast geðheilsunni við áhorf, þá þarf maður að leita að gleðinni á skrýtnum stöðum. Efst á þeim lista að vinna Liverpool. Það er það eina sem beðið er um. En það gerðist síðast 17. október 2010, þegar besti litli Spánverji sem við þekkjum skoraði síðara markið eftir að Tim Cahill boxaði hornfánann í kjölfar þess að hafa skorað það fyrra.

Á Anfield gerðist það síðast 27. september 1999, í leik þar sem Kevin Campell skoraði og Sander Westerweld og Franny Jeffers voru reknir út af fyrir hin frægu „handtöskuslagsmál“, sem létu hvorugan líta neitt sérstaklega vel út og skiluðu því að einhvers konar vinstribakvörðurinn Steve Staunton endaði í markinu hjá Liverpool. Það hjálpaði líka Everton mjög að á þessum tíma þótti bara eðlilegt að menn eins og Titi Camara og Erik Meijer spiluðu leiki fyrir Liverpool.

Þótt Liverpool hafi tekist að gefa Everton víti 13 mínútum fyrir leikslok þennan desemberdag í fyrra, og þar með jafntefli, var leikurinn afleitur. Everton var með boltann í 21 prósent hans, en Liverpool í 79 prósent leiktímans. Everton átti þrjár marktilraunir. Liverpool 23. Everton byrjaði með bæði Ashley Williams og Cuco Martina inn á. Liverpool byrjaði með Mo Salah og Philippe Coutinho spilaði nær allan leikinn.

Sú fegurð

Nú er allt breytt. Stóri Sam var blessunarlega rekinn strax eftir að síðasta tímabili lauk. Sama var gert við Steve Walsh, vanhæfan yfirmann knattspyrnumála, sem bar ábyrgð á tilviljunarkenndu kaupum á heilu kippunum af lélegum fótboltamönnum í innkaupagluggum síðustu ára. Það gerðist í kjölfar stanslausra mótmæla stuðningsmanna, kannana sem sýndu að þeir þoldu ekki Allardyce og ótrúlegrar orðasúpu af rugli og ranghugmyndum sem hann bar á borð eftir hvern einasta leik. Eini stöðugleikinn sem var til staðar var sá að Sam Allardyce virtist aldrei vera að horfa á sama leik og aðrir.

Í stað Allardyce og Walsh komu Marco Silva og Marcel Brands. Í stað ójafnvægis í hópnum komu leikmenn sem hentuðu í þær stöður sem þurfti að fylla í. Í stað niðurlægingar og lélegasta fótboltans kom von og skýr hugmynd um hvernig ætti að spila: hratt og hátt.

Neville Southall er ekki bara fallegur. Hann er líka sá leikmaður sem hefur spilað flesta Merseyside-derby leiki frá upphafi, eða 41 alls.
Mynd: Úr safni.

Nú er gaman að horfa á Everton. Bestu leikmennirnir sem voru keyptir í sumar komu flest allir frá Barcelona eða hafa spilað landsleiki fyrir Brasilíu. Brasilíumenn sem heita ekki Jo eða Anderson Silva heldur Richarlison og Bernard. Brasilíumenn sem halda bolta, sækja hratt og geta skotið í skeytin. Þess utan hefur Silva gert það sem góðir stjórar gera, hann hefur gert leikmenn sem voru oftast hræðilegir á síðasta tímabili frábæra. Skýrustu dæmin um það eru Michael Keane og Gylfi Sigurðsson, sem voru athlægi fyrir ári síðan en hafa verið á meðal bestu leikmanna deildarinnar í ár.

Umsnúningurinn holdgerist síðan í Andre Gomes, fallegasta leikmanni sem leikið hefur með Everton frá því að Neville Southall lagði hanskana á hilluna. En Andre er ekki bara fallegur, hann er líklega besti leikmaður sem hefur leikið með Everton í áratugi. Tæknin, leikskilningurinn, sendingagetan og öll hin gæðin eru svo bersýnileg. Það er ótrúlegt að horfa á knattspyrnumann ná slíkum tökum á leik að leikurinn fer fram í þeim takti sem hann ákveður. Hverfist um þennan eina leikmann. Andre Gomes er þannig leikmaður.

Hver man ekki eftir Cadamarteri

Síðar í dag, þegar ár og tveir dagar eru liðnir frá því að fótboltalega myrkrið skall á, spilar Everton við Liverpool á Anfield.

Það er, í alvöru, sú von til staðar á meðal stuðningsmanna Everton að þeir geti raunverulega unnið þar í fyrsta sinn í 19 ár. Eins og fyrirliðinn Seamus Coleman sagði í vikunni þá er auðvelt fyrir liðið að segja alla réttu hlutina í viðtölum fyrir þessa leiki, líkt og leikmenn hafa gert síðustu áratugi, en vera svo ekki mættir til að setja peninganna þar sem munnurinn er þegar á hólminn er komið. „Við þurfum að mæta á sunnudag og láta verkin tala á vellinum. Þetta er risaleikur fyrir borgina okkar og við erum búnir að vera í tapliðinu of oft.“

Vonin flytur fjöll. En hún er líka hættuleg. Og stundum er betra að stilla væntingum í hóf. Það er betra að koma á óvart en að valda vonbrigðum. Það þekkjum við fylgismenn lélegra fótboltaliða mjög vel af biturri reynslu. Þótt liðið sé loksins, í fyrsta sinn síðan að það varð fjárhagslega samkeppnishæft, með rétta knattspyrnustjórann og réttu blönduna af gæðaleikmönnum, þá er auðvitað mjög skammt liðið á það jafnvægi.

Þar af leiðandi er, því miður, líklegasta leiðin að sigri sú að einhver leikmaður Liverpool endurleiki greiðastarfsemi Norðmannsins Bjørn Tore Kvarme frá því fyrir 21 ári síðan, þegar hann gaf Danny Cadamarteri annað markið í epískum 2-0 sigri. Eða að Neil Ruddock taki fram skóna og skori aftur epískt og þakklátt sjálfsmark.

Líkurnar á því að það gerist eru þó svipaðar og ferill Cadamarteri eftir það mark, eða nýlegar yfirlýsingar Ruddock í fjölmiðlum, frekar daprar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFólk