Meirihluti fjárlaganefndar, sem samanstendur af þingmönnum Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, hefur gert eina breytingartillögu á framlögðu fjárlagafrumvarpi milli fyrstu og annarrar umræðu sem felur í sér aukinn stuðning við einkarekna fjölmiðla. Um er að ræða 100 milljón króna viðbótarframlag sem er sagt „vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð.“
Ekki er útskýrt af hverju ráðist er í þetta viðbótarframlag og í áliti meirihluta fjárlaganefndar er ekki gerð grein fyrir því hvort eða hvaða beiðni um þetta framlag hafi komið.
Alls fara rúmlega 5,9 milljarðar króna í fjölmiðla á næsta úr ríkissjóði. Meginþorri þeirrar upphæðar fer í rekstur RÚV en 377 milljónir króna eru ætlaðar í styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla. Styrkirnir eru endurgreiðsla á litlum hluta af ritstjórnarkostnaði þeirra fjölmiðla sem uppfylla ákveðin framsett skilyrði. Í ár fengu 25 fyrirtæki styrk. Alls 53 prósent upphæðarinnar fór til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtæki landsins, Árvakurs, Sýnar og Torgs.
Styrkjakerfið, sem hefur verið við lýði frá 2020 en þó í mismunandi útfærslu, átti að renna sitt skeið um komandi áramót. Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, lagði hins vegar fram frumvarp á föstudag sem framlengir gildistíma þess í tvö ár, verði það samþykkt.
Frá því að ríkisstjórnarfundi lauk á þriðjudag og þar til frumvarpið var lagt fram á föstudag voru þó gerðar breytingar á áformunum og ákveðið að halda sig við tveggja ára gildistímann.
Horfa til Norðurlanda
Í frumvarpinu kemur fram að stefna stjórnvalda sé að innan gildistíma frumvarpsins yrði „lagt fram nýtt frumvarp til fimm ára sem sé í takt við þá þróun sem er að verða á hinum Norðurlöndunum. Þannig verður Ísland ekki eftirbátur hinna landanna er kemur að stuðningi við einkarekna fjölmiðla.“
Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er unnið að umfangsmiklum breytingum á stuðningi við einkarekna fjölmiðla. Í greinargerð frumvarpsins segir að í þessum löndum virðist þróunin vera sú að auka fjármagn til úthlutunar en lækka þak einstakra styrkja. „Þegar þetta er ritað hafa drög að frumvörpum þess efnis ekki verið birt. Í ljósi þess að gífurlega miklar breytingar eru í vændum á stuðningskerfum Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar og þeirrar miklu reynslu sem framangreind lönd hafa af fjölmiðlastyrkjum verður gildistími lagaákvæða samkvæmt frumvarpi þessu aðeins tvö ár.“
Á málþingi sem Blaðamannafélag Íslands og Rannsóknarsetur um fjölmiðlun og boðskipti við Háskóla Íslands stóðu fyrir í febrúar síðastliðnum boðaði Lilja að hún vildi fara „dönsku leiðina“ í málefnum fjölmiðla. Í Danmörku er DR, danska ríkissjónvarpið, ekki á auglýsingamarkaði og stutt er við einkarekna fjölmiðla með nokkrum mismunandi leiðum með það að markmiði að tryggja fjölræði á fjölmiðlamarkaði.
Framlög til RÚV aukast um tvo styrkjapotta á tveimur árum
Á sama tíma og fjölmiðlar hafa fengið úthlutað úr styrkjakerfinu þrívegis hafa framlög til RÚV hækkað umtalsvert. Á næsta ári er gert ráð fyrir að þau aukist um 290 milljónir króna og verði 5.375 milljónir króna. Framlög til RÚV voru hækkuð um 430 milljónir króna milli áranna 2021 og 2022 og því munu framlögin hafa hækkað um 720 milljónir króna á tveimur árum, verði fjárlagafrumvarpið samþykkt óbreytt. Aukningin á tveggja ára tímabili nemur nánast tvöföldum árlegum styrkjapotti til einkarekinna fjölmiðla. Til viðbótar aflar RÚV auglýsingatekna. Þær voru rúmlega tveir milljarðar króna í fyrra.
Afleiðing þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi hefur átt sér ýmsar birtingarmyndir. Ein slík birtist í Menningarvísum Hagstofunnar sem birtir voru í fyrrasumar. Þar kom fram að árið 2013 hefðu 2.238 manns starfað í fjölmiðlun á Íslandi. Árið 2020 voru þeir orðnir tæplega 876 talsins. Fækkunin hafði ágerst hratt á síðustu árum. Frá árinu 2018 og út árið 2020 fækkaði starfandi fólki í fjölmiðlum 45 prósent, eða 731 manns. Staðan hefur því versnað hratt í tíð sitjandi ríkisstjórnar.
Samhliða fækkun starfsmanna fjölmiðla hefur launasumma, árleg summa staðgreiðsluskyldra launagreiðslna launafólks, einnig dregist saman meðal rekstraraðila í fjölmiðlun. Árið 2018 var launasumman 8,1 milljarður króna. Árið 2020 var hún hins vegar komin niður í 5,3 milljarða króna og hafði því dregist saman um 35 prósent á tveimur árum.
Ísland er sem stendur í 15. sæti á lista samtakanna Blaðamenn án landamæra um fjölmiðlafrelsi í heiminum. Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru í efstu sætum þess lista.
Kjarninn er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir skilyrði fyrir rekstrarstyrk úr ríkissjóði.