Alls var 104 manns sagt upp í hópuppsögnum í janúar. Fólkinu var sagt upp hjá fjármálafyrirtæki, stórmarkaði og fyrirtæki sem rak íþróttamannvirki. Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar.
Þetta eru mun fleiri en var sagt upp í hópuppsögnum í desember 2014. Þá var 50 starfsmönnum fiskvinnslu sagt upp störfum. Á öllu árinu 2014 var 231 sagt upp í hópuppsögnum hjá alls tíu fyrirtækjum. Flestir þeirra unnu í fiskvinnslu, eða 81, en 50 unnu í fjármála- og tryggingaþjónustu.
Því var sá fjöldi sem sagt var upp í hópuppsögnum í janúar 2015 45 prósent þess fjölda sem var sagt upp í slíkum allt árið 2014.
43 þeirra 104 sem sagt var upp í janúar voru starfsmenn Landsbankans.
37 misstu vinnuna hjá Kaupási vegna lokunar Nóatúns í JL-húsinu og breytinga á öðrum verslunum úr Nóatúns-verslunum í Krónuna. Jón Björnsson, forstjóri Kaupáss, staðfesti þetta við Kjarnann. Hann segir að af þessum 37 starfsmönnum hafi fjórir verið í fullu starfi.
Þá var 28 manns sagt upp vegna lokunar Keiluhallarinnar í Öskjuhlíð, en stöðugildi voru 12. Samkvæmt Rúnari Fjeldsted framkvæmdastjóra keiluhallarinnar stendur til að ráða sem flesta þessara starfsmanna hjá Keiluhöllinni í Egilshöll.
Samkvæmt þessum upplýsingum misstu því 108 einstaklingar vinnuna í þessum þremur hópuppsögnum, en stöðugildin eru talsvert færri.