Atvinnuleysið mældist 10,4 prósent í apríl og hefur minnkað um rúmt prósentustig frá ársbyrjun. Af þeim voru tæplega 6.500 manns búin að vera atvinnulaus í 12 mánuði, sem er tæplega þrefalt meira en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í nýútgefinni mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar.
Mesta fækkunin í ferðaþjónustu
Samkvæmt skýrslunni hefur atvinnulausum fækkað í öllum atvinnugreinum, miðað við mánuðinn á undan. Mest var þó fækkunin í ferðatengdri starfsemi eins og gisti- og veitingaþjónustu og farþegaflutningum. Einnig hafði atvinnulausum fækkað í sjávarútvegi og upplýsingatækni.
Alls komu tæplega tvö þúsund ný störf sem auglýst voru í vinnumiðlun hjá stofnuninni í apríl. Einnig gaf hún út 176 atvinnuleyfi til útlendinga til starfa hér á landi, en þar af voru 115 einstaklingar sem voru nýir á íslenskum vinnumarkaði.
Líkt og áður mælist atvinnuleysið mest á Suðurnesjum, en þar nemur það 21,6 prósentum. Þó hefur það einnig minnkað þar mest milli mánaða, en skráð atvinnuleysi mældist í 24,5 prósentum í landshlutanum í janúar. Á höfuðborgarsvæðinu mældist atvinnuleysið það sama og á landinu öllu, 10,4 prósent.
Heildaratvinnuleysi karla er nú 11,4 prósent, en 11,6 prósent meðal kvenna. Á Suðurnesjum er atvinnuleysið mun meira meðal kvenna en karla, eða 26,4 prósent hjá konum og 20,7 prósent hjá körlum.