HSBC bankinn aðstoðaði sex aðila tengda Íslandi við að koma um 9,5 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 1,3 milljarða íslenskra króna, undan skatti. Þetta kemur fram í gögnum ICIJ um málið.
Samkvæmt nákvæmari gögnum sem voru birt um málið í morgun voru þrettán einstaklingsreikningar opnaðir hjá bankanum milli áranna 1995 og 2005 og tengdust þeir átján bankareikningum. Sex aðilar tengdir Íslandi áttu reikningana, og hæsta upphæð tengd einum þeirra nemur 8 milljónum dala.
Svissneski bankinn HSBC aðstoðaði þúsundir manna um allan heim, en þó einkum í gegnum útibú í Bretlandi, við að skjóta fé undan skatti með því að fela peningalegar eignir fyrir skattayfirvöldum.
Á meðal fjölmiðla sem hafa birt ítarlegar umfjallanir úr gögnunum eru The Guardian, Bild, Le Monde og rannsóknarblaðamennskuþátturinn BBC Panorama. Meðal þess sem fram kemur í gögnunum er að sterkefnað þekkt fólk, ekki síst sem tengist afþreyingar- og tískuiðnaði, Formúlu 1 kappakstri og stjórnmálum, hafi kerfisbundið svikið undan skatti með leynilegum reikningum sem HSBC aðstoðaði við að koma upp og reka. Meðal þeirra sem þetta gerðu voru spænski Formúlu 1 ökuþórinn Fernando Alonso, fyrirsætan Elle McPherson, tónlistarmaðurinn Phil Collins, leikarinn Christan Slater og Hosnai Mubarak, fyrrverandi einræðisherra Egyptalands, að því er fram kemur í Bild. Tugþúsundir annarra viðskiptavina HSBC í London gerðu slíkt hið sama.
Þessi frétt er í vinnslu.