Íslendingar seldu þjónustu til útlanda fyrir 498,4 milljarða króna í fyrra en keyptu þjónustu fyrir 363,6 milljarða króna. Því var afgangur af þjónustuviðskiptum Íslendinga árið 2014 alls 134,8 milljarðar króna. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands sem birtar voru í morgun.
Sala á þjónustu til ferðamanna er eðlilega fyrirferðarmest í þjónustuviðskiptum þjóðarinnar. Sala á samgöngu- og flutningsþjónustu var 189,2 milljarðar króna (38 prósent af heildarútflutningi) og sala á ferðaþjónustu nam 159 milljörðum króna (31,9 prósent af heildarútflutningi). Athygli vekur að tekjur Íslendinga vegna flutninga standa nánast í stað á milli ára á meðan að tekjur vegna seldrar ferðaþjónustu jukust um 28 milljarða króna milli ára. Ástæðan er að öllum líkindum sú að mun fleiri flugfélög fljúga nú til Íslands en áður. Sú aukna tíðni skilar fleiri ferðamönnum hingað til lands en ekki auknum tekjum fyrir íslensk flugfélög.
Íslendingar keyptu mest að ferðaþjónustu frá útlöndum í fyrra, alls fyrir 113,6 milljarða króna (31,2 prósent af heildarinnflutningi). Það er aukning upp á um tíu milljarða króna milli ára.
Afgangur tvöfaldaðist á milli ára
Langstærsti hluti þjónustuviðskipta okkar er við lönd innan Evrópusambandsins. Alls var 48 prósent af útfluttri þjónustu okkar til þeirra og 61,2 prósent af innfluttri þjónustu. Stærstu þjónustuviðskiptalönd okkar eru sem fyrr Bretland, Bandaríkin og Danmörk.
Hin góði afgangur af þjónustuviðskiptum hefur haldið áfram á þessu ári. Á öðrum ársfjórðungi ársins 2015 var hann jákvæður um 54,7 milljarða króna. Ferðaþjónusta var stærsti liðurinn í inn- og útflutningi á ársfjórðungnum. Útflutt ferðaþjónusta var 54,6 milljarðar króna á meðan innflutt ferðaþjónusta nam 34,1 milljarði króna. Afgangur hennar nam því 20,4 milljörðum króna. Afgangur á sama ársfjórðungi árið 2014 nam 11,2 milljörðum króna og því ljóst að hagnaður Íslendinga af ferðaþjónustu á öðrum ársfjórðungi nærri tvöfaldaðist milli ára.
Vöruskipti neikvæð
Hinn mikli afgangur af þjónustuviðskiptum gerir það að verkum að viðskiptajöfnuður Íslendinga verður jákvæður, en vöruskipti við útlönd hafa verið neikvæð það sem af er ári um 6,4 milljarða króna. Á fyrstu sjö mánuðum ársins fluttu Íslendingar inn vörur fyrir 391,5 milljarða króna en út fyrir um 385,2 milljarða króna. Á sama tíma árið 2014 voru vöruskiptin óhagstæð um 7,6 milljarða króna. Vert er að hafa í huga að stórar fjárfestingar íslenskra fyrirtækja hafa haft töluverð áhrif á aukningu í innflutningi. Alls er innflutningur á fyrstu sjö mánuðum ársins 17,2 prósent meiri en hann var á sama tímabili í fyrra vegna hrá- og rekstrarvöru og kaupa á flugvélum.
Iðnaðarvörur eru 54,2 prósent alls útflutnings það sem af er ári og er verðmæti þerira 24,8 prósent hærra en árið áður. Þar skiptir útflutningur á áli mestu. Sjávarafurðir hafa alls verið 41,6 prósent vöruútflutnings og verðmæti þeirra hefur verið 19,3 prósent hærra en í fyrra, aðallega vegna útflutnings á fiskimjöli.