Þingkosningar fara fram í Danmörku í næstu viku, fimmtudaginn 18. júní. Samkvæmt könnunum er afar mjótt á munum milli rauðu blokkarinnar svonefndu (stjórnarinnar og stuðningsflokka hennar) og bláu blokkarinnar (stjórnarandstöðunnar).
Frambjóðendur leggja nótt við dag í kosningabaráttunni enda munar um hvert atkvæði, ekki síst þegar úrslitin virðast jafn tvísýn og nú er raunin. Þess vegna kom það mörgum á óvart þegar eitt dönsku blaðanna sagði frá því nýverið að 135 þúsund Danir fái ekki að kjósa til þings í næstu viku.
100 ára gömul lög
Þegar dönsku stjórnarskránni (Grundloven) var breytt fyrir réttum eitt hundrað árum, og konur fengu kosningarétt, var það jafnframt tekið fram að til að mega kjósa skuli viðkomandi vera búsettur í Danmörku, á Grænlandi eða í Færeyjum. Þetta ákvæði er enn í stjórnarskránni og Danmörk hefur að þessu leyti sérstöðu meðal Norðurlanda.
Svíar, Finnar og Norðmenn halda sínum kosningarétti út ævina (ef þeir halda ríkisborgararéttinum), Íslendingar halda kosningaréttinum í átta ár en þurfa síðan að óska eftir að fá að kjósa, en það fyrirkomulag er í reynd formsatriði. Það er þetta hundrað ára gamla lagaákvæði sem nú hefur vakið hefur umræður hér í Danmörku.
Borgar skatt en fær ekki að kjósa
Danska Sjónvarpið, DR, birti fyrir nokkrum dögum viðtal við danskan mann sem býr í Helsingjaborg, handan Eyrarsunds. Hann fer daglega til vinnu í Kaupmannahöfn, er danskur ríkisborgari, og borgar skatt til danska ríkisins. Hann hefur lögum samkvæmt engan rétt til að taka þátt í þingkosningum hér í landi.
Þessi maður er háttsettur innan danska hersins og þykir súrt í broti að mega ekki greiða atkvæði og leggja sitt af mörkum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann fær ekki að kjósa en sagði í viðtalinu að það bætti ekki úr skák.
Samkvæmt upplýsingum sem DR hefur aflað sér eru samtals 135 þúsund Danir í sömu stöðu og áðurnefndur foringi í hernum. Stærstur hluti þess hóps vinnur ekki í Danmörku og borgar ekki skatt til danska ríkisins en stjórnarskráin gerir engan greinarmun þar á.
Evrópusambandið hefur margoft gert athugasemdir
Á undanförnum árum hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins margoft gert athugasemdir við þetta danska lagaákvæði. Þetta er algjörlega á skjön við hugmyndir og lög um frjálst flæði vinnuafls og flutning fólks á milli landa innan sambandsins. Málið hefur líka margoft verið tekið upp í danska þinginu og árið 2004 voru samþykkt nokkur undantekningarákvæði, til dæmis varðandi starfsfólk Utanríkisráðuneytis, alþjóðastofnana og námsmenn.
Í kosningum 2011 kusu tæplega sex þúsund Danir sem eru búsettir utan Danmerkur og falla undir þetta ákvæði. Margir úr hópi núverandi þingmanna hafa lýst vilja til að breyta stjórnarskránni en það er ekki einfalt mál.
Stjórnarskránni hefur aðeins fjórum sinnum verið breytt
Danska stjórnarskráin er frá árinu 1849. Síðan þá hefur henni verið breytt fjórum sinnum, seinast árið 1953. Til að breyta þarf þingið að samþykkja breytinguna tvisvar, með þingkosningum í millitíðinni. Ef þingið samþykkir breytinguna þarf að bera hana undir þjóðaratkvæði.
Í slíkum kosningum þurfa 40 prósent þeirra sem atkvæðisrétt hafa að greiða breytingunni atkvæði sitt. Þetta ákvæði gerir það að verkum að mjög erfitt er að gera breytingar á stjórnarskránni, "erfiðara en að breyta fjalli" sagði danskur þingmaður þegar þetta var til umræðu í sjónvarpinu fyrir skömmu.