Innlendir einkafjárfestar fengu að kaupa í Íslandsbanka fyrir 16,1 milljarða króna í síðustu viku. Það er 30,6 prósent af öllum þeim hlut sem seldur var í bankanum. Um að ræða 140 aðila. Eina upplýsingarnar sem liggja fyrir um hverjir þeir eru koma úr þremur innherjatilkynningum sem birtar voru í Kauphöll Íslands.
Alls 24 þeirra sem tóku þátt fengu að kaupa hlut fyrir tíu milljónir króna eða minna, 35 keyptu fyrir tíu til 30 milljónir króna og 20 keyptu fyrir 30 til 50 milljónir króna. Því liggur fyrir 79 aðilar, rúmlega helmingur allra þátttakenda, keypti fyrir 50 milljónir króna eða minna.
Þetta kemur fram í kynningu sem Bankasýsla ríkisins hélt fyrir ráðherranefnd um efnahagsmál í morgun um sölumeðferð eignarhluta í Íslandsbanka sem fór fram í síðustu viku. Þá var alls 22,5 prósent hlutur í Íslandsbanka var seldur fyrir 52,65 milljarða króna, með 2,25 milljarða króna afslætti frá markavirði bankans. Hluturinn var seldur með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi sem þýðir að hann salan fór fram í lokuðu útboði til valinna fjárfesta. Í ráðherranefndinni sitja Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála- viðskipta- og menningarmálaráðherra.
Ef einkafjárfestarnir 140 hefðu keypt hlut sinn á markaðsvirði hefðu þeir þurft að greiða samtals 688 milljónum króna meira fyrir hann en þeir gerðu í útboðinu.
85 prósent kaupenda íslenskir
Í kynningu Bankasýslunnar er framkvæmd sölumeðferðarinnar lýst. Þar segir að að morgni mánudagsins 21. mars hafi verið ákveðið að hefjast handa við markaðsþreifingar á meðal „hæfra innlendra fjárfesta á mánudeginum á grundvelli tillagna innlenda ráðandi söluráðgjafans“, en sá ráðgjafi var fjármálafyrirtækið Fossar markaðir.
Greint hefur verið frá því að tilboð hafi borist frá 430 fagfjárfestum. Í kynningu Bankasýslunnar kemur fram að fjöldi tilboða sem var tekið hafi verið 209. Þar af keyptu innlendir fjárfestar 85 prósent af hlutnum fyrir samtals 44,8 milljarða króna, en erlendir aðilar 15 prósent fyrir 7,9 milljarða króna.
Fjöldi innlendra fjárfesta sem fékk að kaupa voru 190 talsins. Þar af fengu 23 lífeyrissjóðir að kaupa 37,1 prósent þess sem selt var á 19,5 milljarðar króna. Alls 140 íslenskir einkafjárfestar fengu að kaupa næst mest, alls 30,6 prósent af því sem var selt á 16,1 milljarð króna. Alls 13 verðbréfasjóðir fengu að kaupa fyrir 5,6 milljarða króna og „aðrir fjárfestar“ frá Íslandi fyrir 3,5 milljarða króna.
Alls 15 fjárfestar keyptu fyrir meira en einn milljarð króna og sex keyptu fyrir á bilinu 500 til 1.000 milljónir króna.
Í kynningu Bankasýslunnar í morgun var há hlutdeild einkafjárfesta rökstudd með því að áskriftir þeirra hefðu skertar á kostnað almennra fjárfesta í frumútboðinu á hlutum í Íslandsbanka, sem fór fram í fyrrasumar en þá seldi ríkið 35 prósent hlut í bankanum.
„Hver er tilgangurinn með því að hleypa svona aðilum að í afslátt?“
Enn hefur ekki verið birtur listi yfir þá einkafjárfesta sem voru valdir til að taka þátt í kaupum á hlut í ríkisbanka með afslætti né hefur verið útskýrt sérstaklega hvernig þeir voru valdir. Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra út í þennan hóp á Alþingi á miðvikudag. Hún benti á í ræðu sinni að hugmyndin á bakvið tilboðsferli, sem er sú sölutegund sem ráðist var í, væri að það væri réttlætanlegt að veita afslátt frá markaðsvirði vegna þess að inn væru að koma stórir aðilar, sem væru að kaupa stóran bita og taka með því mikla markaðsáhættu.
Í ræðu sinni sagði Kristrún að þessir aðilar hefðu hæglega getað keypt á eftirmarkaði. „Þetta eru ekki stórir, umfangsmiklir langtímafjárfestar sem voru að taka á sig mikla markaðsáhættu. Hver er tilgangurinn með því að hleypa svona aðilum að í afslátt? Verða þessir aðilar, þessir litlu aðilar sem fljóta svona með til hliðar, á þessum lista sem verður birtur eða er þetta bara þessi klassíski listi sem kemur fram yfir þá sem eru með langstærstu hlutina?“
Slúður um símtöl til sumra
Bjarni útskýrði tilganginn í svari sínu en svaraði ekki hvort listinn yfir litlu aðilanna yrði birtur. Kristrún ítrekaði því seinni spurninguna og sagði það ekki „gott í ferli sem á að vera gagnsætt og yfir alla gagnrýni hafin að það berist slúður, gróusögur, upplýsingar um að sumir hafi fengið símtal frá sínum verðbréfamiðlara og aðrir ekki.
Hugmyndin á bak við tilboðsverð af þessu tagi þar sem verið er að grípa inn í markaðsverð – í almenna útboðinu á sínum tíma var bankinn ekki kominn á markað – er að það séu góð og gild rök fyrir slíku. Ég get ekki séð, þegar var svona mikil umframeftirspurn hjá stórum aðilum sem vildu fá inn, að það hefði átt að hleypa svona litlum fjárfestum að. Fáum við að sjá þessi nöfn? Munu þau vera á þessum lista og hvenær kemur hann?“
Bjarni svaraði því til að Íslandsbanki myndi gera aðgengilegan allan hluthafalistann eins og hann var fyrir útboðið og eins og hann líti út eftir útboðið. „Ég hef sömuleiðis kallað eftir en ekki enn fengið niðurstöðu úthlutunarinnar og vil gera hana aðgengilega og mun gera það, nema mér séu einhverjar hömlur settar með lögum til þess að gera það, sem ég vona og trúi ekki að sé.“