Nú hafa verið gefnir út 165.020 íslyklar til einstaklinga og 3.805 til fyrirtækja.
Innskráningarþjónusta Ísland.is býður upp á innskráningu inn á vefi um 150 þjónustuveitenda og um fimm til fimmtán þúsund manns nýta sér þjónustuna daglega. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár Íslands.
Íslykill er hluti af innskráningarþjónustu Ísland.is en þar er líka hægt að nota rafræn skilríki í síma og á kortum. Hlutfallsleg notkun innskráningarleiða síðastliðna sextíu daga er íslykill 86,71%, rafræn skilríki á korti 1,42%, rafræn skilríki í farsíma 11,37%, styrktur Íslykill 0,29% og OPT auðkenning 0,20%.
Mynd: Þjóðskrá Íslands.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, skrifaði harðorða grein í Morgunblaðið í morgun, þar sem rafræn skilríki eru til umfjöllunar. Í greininni segir Ólafur að skuldaleiðréttingin svokallaða hafi verið notuð til að smala neytendum í viðskipti við einkafyrirtækið Auðkenni sem hefur einokunarstöðu í útgáfu rafrænna skilríkja. Auk þess var fyrirtækjum þröngvað í viðskipti við fyrirtækið, innleiðingarferli rafrænna skilríkja illa undirbúið og það hafði neikvæð áhrif á frjálsa samkeppni. Í ljósi þeirrar yfirburðarstöðu sem hin öfluga smölun viðskiptavina, með dyggri aðstoð ríkisvaldsins, hefur skilað Auðkenni getur fyrirtækið rukkað mun hærra verð fyrir þjónustu sína en aðrir sem bjóða upp á rafræn skilríki.
Auðkenni er fyrirtæki sem er í eigu Símans, Teris, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka. Þeir neytendur sem nýttu sér skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar þurftu að verða sér úti um rafræn skilríki til að geta samþykkt hana. Til að byrja með voru skilríkin, sem fólk getur notað í farsímum sínum, ókeypis en Auðkenni hefur síðan gefið út að fyrirtækið ætli að rukka fyrir þau. Neytendur verða ekki rukkaðir beint heldur verður lagt gjald á þau fyrirtæki sem þurfa að bjóða viðskiptavinum sínum, meðal annars fjarskiptafyrirtæki sem eru í samkeppni við einn eiganda Auðkennis, Símann.
Ólafur segir enn fremur að neytendur sjálfir muni sitja uppi með kostnaðinn af þessari einokunarstöðu sem uppi er, vegna lélegs undirbúningar og slæmrar framkvæmdar þessa annars mikilvæga máls.