Kostnaður vegna embættisferða Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, hefur numið rúmum 16,8 milljónum króna frá upphafi þessa kjörtímabils, 1. ágúst 2012, og út árið 2014. 5.194.327 krónur hafa verið greiddar forsetanum í dagpeninga á þessu tímabili.
Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingkonu Vinstri grænna.
Inni í þessari upphæð er ekki kostnaður við ferðir annarra embættismanna eða maka Ólafs Ragnars.
Frá því að kjörtímabilið hófst 1. ágúst 2012 og út það ár var forsetinn erlendis í 23 heila daga í embættiserindum. 13 daga til viðbótar var hann í einkaerindum. Árið 2013 var hann 70 heila daga í útlöndum og 24 í einkaerindum og í fyrra var hann erlendis í 56 heila daga í embættiserindum og 43 í einkaerindum.
Kostnaður sem fallið hefur á forsetaembættið vegna ferða Dorrit Moussaieff er rúmlega 1,9 milljónir á sama tímabili. Dorrit hefur aldrei þegið dagpeninga en forsetaembættið hefur greitt fargjöld fyrir hana vegna þátttöku hennar í embættisferðum.
Þá kemur fram í svarinu að greiðslur til handhafa forsetavalds þegar forsetinn er í útlöndum hafa numið tæplega 22 milljónum króna á þessu kjörtímabili.