Í lok árs 2020 áttu einstaklingar á Ísland hlutabréf í íslenskum félögum sem metin voru á 73,6 milljarða króna að nafnverði. Hlutabréfaeign var 6,6 milljörðum krónum meiri, eða 9,9 prósent, en í lok árs 2019.
Alls töldu 59.920 fjölskyldur fram hlutabréf, 3.906 fleiri en árið áður. Þá töldu 4.921 fjölskyldur fram 20 milljarða króna í erlendum hlutabréfum, sem var 4,4 milljörðum króna eða 28,4 prósent meira en vegna ársins 2019. Fjölskyldurnar voru 424 fleiri en þá.
Þetta kemur fram í umfjöllun um álagningu einstaklinga á árinu 2021 í Tíund, fréttablaði Skattsins, sem Páll Kolbeins rekstrarhagfræðingur skrifar.
Vert er að taka fram að í tölum Tíundar er hlutafé talið fram á nafnverði, sem gefur mjög takmarkaða mynd af raunverulegu verðmæti hlutabréfanna. Upplausnarvirði bréfanna, það sem hægt væri að fá fyrir þau ef þau yrðu seld á markaðsvirði nú, er miklu hærra en nafnvirðið. Markaðsvirði skráðra félaga í Kauphöll Íslands jókst til að mynda um 312 milljarða króna á árinu 2020.
Söluhagnaður dróst saman
Af hlutabréfum er oft greiddur arður. Á árinu 2020 fengu alls 8.660 fjölskyldur einhvern arð af slíkum, alls 44,4 milljarða króna. Arðurinn var 4,5 milljörðum krónum lægri en hann var árið áður og þeim sem fengu greiddan arð fækkað um næstum fimm þúsund. Þar spilaði kórónuveirufaraldurinn mikla rullu en þeim tilmælum var til að mynda beint til fjármálafyrirtækja að greiða ekki út arð um tíma eftir að hann skall á og önnur skráð félög, til dæmis í þjónustustarfsemi, fóru varlega í slíkar útgreiðslur á meðan að full áhrif faraldursins voru að koma fram. Þá hafði faraldurinn vitanlega mikil áhrif á rekstur þeirra skráðu félaga sem áttu hagsmuni í ferðaþjónustu, sem skrapp gríðarlega saman þegar farþegaflutningar nánast lögðust af um tíma, og eru enn langt frá því sem þeir voru árið 2019.
Arður af erlendum hlutabréfum jókst hins vegar mikið, eða um 8,4 milljarða króna milli ára, og 186 fleiri fjölskyldur fengu greiddan arð. Í Tíund segir að „um mjög mikla aukningu á arði af erlendum hlutabréfum að ræða.“
Þeir sem eiga hlutabréf geta hagnast á þeim á annan hátt en að fá greiddan út arð vegna starfsemi fyrirtækja. Þeir geta líka selt bréfin og leyst þannig út söluhagnað vegna hækkandi gengis þeirra.
Það virðist ekki hafa verið lenska á árinu 2020 að gera það í miklum mæli. Ein ástæða þess getur verið sú að aðrir fjárfestingamöguleikar, eins og vextir á innlánun, gáfu ekki mikla arðsemi á umræddu ári þar sem stýrivextir voru lækkaðir niður í 0,75 prósent.
Söluhagnaður var 26,1 milljarður króna árið 2020, eða 5,9 milljörðum krónum minni en árið áður. Í Tíund segir að árið 2020 hafi 3.839 fjölskyldur talið fram söluhagnað, en þar af töldu 3.155 fjölskyldur fram 23,1 milljarð króna í söluhagnað af hlutabréfum og 757 fjölskyldur þrjá milljarða króna í annan söluhagnað.